Kosningum lokið: Sigurður Ingi í lykilstöðu til að mynda ríkisstjórn og á nokkra möguleika
Ríkisstjórnin ríghélt í kosningunum í gær og fjölgaði þingmönnum sínum, þrátt fyrir að samanlagt heildarfylgi hennar hafi ekki vaxið mikið. Framsókn og Flokkur fólksins unnu stórsigra en frjálslynda miðjan beið skipbrot. Flokkarnir á þingi verða áfram átta og fjölmörg ríkisstjórnarmynstur eru í kortunum.
Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum sem fram fóru í gær og bætti við sig tveimur þingmönnum frá kosningunum 2017. Flokkarnir þrír sem hana mynda, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru þó með fjórum þingmönnum fleiri en þeir höfðu þegar kosið var síðast 2017 þar sem tveir þingmenn Vinstri grænna yfirgáfu flokkinn á liðnu kjörtímabili vegna óánægju með stjórnarsamstarfið.
Framsóknarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari kosninganna. Hann bætir við sig 6,6 prósent fylgi og fimm þingmönnum, en alls 13 verða á hans vegum á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða hans í kosningum frá árinu 2013, en vert er þó að taka fram að árin 2016 og 2017 fékk Framsókn sína verstu útreið í sögu flokksins sem spannar nú meira en eitt hundrað ár.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar næstum prósentustigi af fylgi sínu frá árinu 2016 og er með rúmlega 24 prósent fylgi. Hann heldur sínum 16 þingmönnum en fær sína næst verstu niðurstöðu í kosningum í sögu flokksins, rétt yfir þeirri sem hann fékk árið 2009. Eftir kosningarnar 2017 var Sjálfstæðisflokkurinn með fyrsta þingmann allra kjördæma en tapar honum yfir til Framsóknarflokks í bæði Norðvestur- og Norðausturkjördæmi nú.
Vinstri græn tapa rúmlega fjórum prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum. Hann er sá flokkur sem refsað er mest fyrir ríkisstjórnarsamtarfið. Fylgi flokksins er sem stendur tæplega 13 prósent og þingmennirnir verða þremur færri en í kosningunum 2017 eða átta talsins.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 54,3 prósent. Verði þetta niðurstaðan munu ríkisstjórnarflokkarnir þrír bæta við sig samtals um 1,4 prósentustigi en samt ná 37 þingmönnum og vera því afar sterkan meirihluta verði samstarfið endurnýjað, líkt og formenn stjórnarflokkanna hafa sagt að verði skoðað í fyrstu kasti.
Inga Sæland gerði það aftur
Hinn sigurvegari kosninganna, ásamt Framsóknarflokknum, er Flokkur fólksins. Flokkur Ingu Sæland bætti við sig tveimur prósentustigum milli kosninga – endar með næstum níu prósent – og fær sex þingmenn kjörna. Það þýðir að Flokkur fólksins er fimmti stærsti flokkurinn á þingi, stærri en Píratar (sem fengu 442 færri atkvæði en Flokkur fólksins á landsvísu), Viðreisn og Miðflokkur, en flokkurinn var áður sá minnsti sem þar sat. Fylgi Flokks fólksins reyndist umtalsvert meira en kannanir höfðu gefið til kynna þótt þær hefðu mælt upptakt flokksins á lokametrunum.
Viðreisn bætir líka lítillega við sig fylgi og fær 8,3 prósent, sem skilar flokknum aukaþingmanni og þingflokkur hans mun því telja fimm á komandi kjörtímabili. Ljóst má þó vera að niðurstaðan er vonbrigði fyrir Viðreisn sem hafði mælst með meira fylgi og ætlaði sér miklu meira í kosningunum en þær skiluðu.
Frjálslynda miðjan náði engum árangri
Ásamt Viðreisn þá eru taparar kosninganna meðal annars restin af hinni svokölluðu frjálslyndu miðju: Samfylking og Píratar.
Fyrri flokkurinn nær inn sex þingmönnum, sem er einum færri en hann hafði eftir kosningarnar 2017, en fylgið dregst saman um 2,2 prósentustig milli kosningaára. Í ljósi þess að Samfylkingin keyrði það hart í kosningabaráttunni að ætla sér að verða alvöru valkostur í ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks, og stefndi að því að verða helsta mótvægisaflið við þann flokk í íslenskum stjórnmálum, þá má líta á niðurstöðuna sem mikil vonbrigði fyrir forvígismenn Samfylkingarinnar sem endar með undir tíu prósent fylgi. Formaður flokksins, Logi Einarsson, talaði enda um það í sjónvarpssal í nótt að félagshyggjuöflin í landinu þyrftu að fara að endurskoða hvernig þau nálguðust kosningar, án þess að leggja til sértækar leiðir í þeim efnum.
Píratar standa nánast í stað frá kosningunum 2017 og fá sama þingmannafjölda, eða sex talsins.
Samanlagt fylgi hinnar frjálslyndu miðjuflokka var 28 prósent árið 2017. Það dregst saman um 1,2 prósentustig milli kosninga.
Dauð atkvæði ýkja þingmannatölur
Ástæða þess að þingmannafjöldi stjórnarflokkanna þriggja vex svona miklu meira en samanlagt fylgi þeirra er sú að einn þeirra flokka sem mældist inni á þingi í nær öllum könnunum í aðdraganda kosninga, Sósíalistaflokkur Íslands, náði á endanum ekki inn manni og fékk rétt um fjögurra prósenta fylgi. Alls féllu nálægt fimm prósent atkvæða niður dauð og skiluðu framboðum ekki inn á þing. Flokkarnir verða áfram átta líkt og þeir voru á liðnu kjörtímabili.
Sá flokkur sem tapar mestu milli kosninga er Miðflokkur Sigmundar Daviðs Gunnlaugssonar sem fékk 5,5 prósent atkvæða og þrjá þingmenn. Það er rúmlega helmingi minna en flokkurinn fékk 2017 en framan af kosningakvöldinu í gær mældist flokkurinn alls ekki inni á þingi. Þingmenn Miðflokksins verða þrír en sjö voru kjörnir fyrir flokkinn 2017 og tveir til viðbótar bættust við þingflokk hans frá Flokki fólksins.
Þessir þingmenn eru að skila sér aftur heim til Framsóknarflokksins að mestu, en Miðflokkurinn er klofningsflokkur úr honum sem stofnaður var fyrir síðustu kosningar eftir að fyrrverandi formaður Framsóknar, áðurnefndur Sigmundur Davíð, gekk úr flokknum.
Hvað þýða kosningarnar?
Stjórnarflokkarnir bæta við sig þingmönnum og styrkja því meirihluta sinn umtalsvert. Framsókn og Vinstri græn hafa sætaskipti, sá fyrrnefndi er nú næst sterkasti flokkurinn í mynstrinu en Vinstri græn sá veikasti. Sjálfstæðisflokkurinn er nokkurn veginn á sama stað og hann var.
Náist málefnagrundvöllur er leikur einn fyrir þá að mynda nýja þriggja flokka ríkisstjórn. Hvort það takist veltur á ýmsu. Sú staða er til að mynda uppi að kannanir í aðdraganda kosninga sýna að yfir 40 prósent kjósenda vildu Katrínu Jakobsdóttur áfram sem forsætisráðherra og að formenn hinna stjórnarflokkanna tveggja, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, stæðu henni langt að baki þegar þar að kæmi. Í ljósi þess að Vinstri græn eru nú minnsti stjórnarflokkurinn, og leggur einungis til átta af 37 þingmönnum þeirra, þá verður að koma í ljós hvort forsætisráðherrastóllinn standi Katrínu enn til boða og hvort Vinstri græn séu tilbúin að taka þátt í samstarfinu áfram ef hann gerir það ekki.
Engin tveggja flokka stjórn er möguleg en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gætu tekið Flokk fólksins með sér í stjórn í stað Vinstri grænna og verið með 35 þingmanna meirihluta. Sömu sögu er að segja um Viðreisn en þá yrði stjórnarmeirihlutinn 34 þingmenn á móti 29 þingmönnum andstöðunnar. Loks gætu Bjarni og Sigurður Ingi náð sáttum við Sigmund Davíð, sem leiddi ríkisstjórn sem þeir báðir sátu í á árunum 2013 til 2016, og myndað næfurþunnan meirihluta með Miðflokki, 32 þingmenn á móti 31.
Bæði Samfylking og Píratar höfðu útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og koma því ekki til greina sem þriðja hjólið undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Er hægt að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks?
Þeir fjórir flokkar sem ræddu fyrst saman eftir kosningarnar 2017: Framsókn, Vinstri græn, Samfylking og Píratar, gætu myndað ríkisstjórn sem hefði 33 þingmenn á bakvið við sig á móti 30 þingmanna stjórnarandstöðu. Það er einum fleiri þingmaður en slíkt mynstur hafði á bakvið sig 2017 en þá sleit Sigurður Ingi viðræðunum eftir að Framsóknarflokkurinn taldi meirihlutann of tæpan.
Mögulegt væri að taka Flokk fólksins inn í slíkt samstarf í stað Pírata og ná saman meirihluta í þingmannafjölda, 33 alls. Yrði horft til fimm flokka ríkisstjórnar með bæði Pírötum og Flokki fólksins myndi slík hafa 39 þingmenn á bakvið sig og skilja Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Miðflokk eftir í stjórnarandstöðu með 24 þingmenn.
Viðreisn gæti líka komið inn í miðju-vinstristjórn með Framsókn, Vinstri grænum og Samfylkingu sem hefði 32 þingmenn á bakvið sig. Við þá stjórn væri hægt að bæta Flokki fólksins eða Pírötum, sem setti þingmannafjöldann upp í 38.
Framsóknarflokkurinn í algjörri lykilstöðu
Framsóknarflokkurinn heldur því á öllum spilunum eins og stendur. Hann getur ráðið því í hvaða átt hann vill vinna. Flokkur Sigurðar Inga á skýran möguleika á þremur þriggja flokka ríkisstjórnum með Sjálfstæðisflokki og fjölmörgum fjögurra og fimm flokka ríkisstjórnum til vinstri með öðrum flokkum en honum. Ómögulegt er að mynda þriggja flokka stjórn án hans og Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki eiga neina sýnilega leið mögulega að stjórnarheimilinu án þess að Framsóknarflokkurinn leiði hann þangað, þrátt fyrir að vera áfram stærsti flokkur landsins og eiga fyrsta þingmenn fjögurra af sex kjördæmum landsins.
Sigurður Ingi getur gert kröfu um að verða næsti forsætisráðherra við stjórnarmyndun og er í sterkri stöðu um að koma stefnumálum flokks síns inn í næsta stjórnarsáttmála þar sem hann getur snúið sér í hina áttina og myndað annars konar ríkisstjórn sé hann ekki sáttur við það sem býðst.
Þá eru mynstrin sem í boði eru: áframhaldandi stjórn, miðju-hægri stjórn þriggja flokka eða miðju-vinstri stjórn fjögurra eða fimm flokka, öll gerlegri og sterkari nú en þau voru fyrir fjórum árum þegar mikill styrkur Miðflokksins, sem enginn annar flokkur vildi vinna með, flækti stöðuna verulega.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð