Þegar rölt er um stræti, torg og almenningsgarða borga og bæja í Danmörku má víða sjá myndastyttur. Kóngar, ráðherrar og stjórnmálamenn, borgar- og bæjarstjórar, rithöfundar, tónskáld, listmálarar, leikarar, framámenn í atvinnulífinu o.s.frv. Sem sé úr öllum áttum, en eitt er þó sameiginlegt með þessum hópi: þetta eru karlar. Með örfáum undantekningum. Einungis um eitt prósent styttna eru af konum og örfáar þeirra af tilteknum einstaklingi.
Styttur af dönskum kóngum eru víða í Danmörku og margar áberandi. Kóngarnir oftar en ekki sitjandi á helsta samgöngutæki þeirra tíma, hestinum. Danir kalla slíkar styttur riddarastyttur, sú fyrsta af því tagi er jafnframt sögð elsta riddarastytta á Norðurlöndum. Hún var sett upp á Kóngsins Nýjatorgi árið 1688. Höfundurinn var franskur, Abraham Lamoureux. Styttan var gerð úr blýi og með árunum gerðist hestur konungs, Kristjáns V afar kviðsíður. Árið 1947 var Utson-Frank myndhöggvari fenginn til að endurgera styttuna í bronsi. Utson-Frank var prófessor á Konunglega Listaakademíinu og við endurgerðina fékk hann til liðs við sig einn nemanda, Íslendinginn Sigurjón Ólafsson.
Kristján IV við Børsen
Fyrir tveimur árum var sett upp ný stytta af Kristjáni IV við Børsen, kippkorn frá Kristjánsborgarhöll. Framkvæmdakóngurinn, 6 metra hár og steyptur í brons, stendur þar á háum stöpli, sem er eins konar dvergútgáfa af Sívalaturni. Færeyski listamaðurinn Hans Pauli Olsen gerði styttuna, sem hefur hlotið mjög misjafna dóma, flesta neikvæða. Listgagnrýnendur dönsku blaðanna sögðu styttuna gamaldags og bentu á að ekki sé beinlínis skortur á styttum af hinum athafnasama kóngi, þær séu fjölmargar um allt land. Menningarritstjóri Berlingske sagði styttuna tímaskekkju og nær hefði verið að beina sjónum að konum og nefndi margar konur sem mótað hefðu danska sögu með margvíslegum hætti. Til dæmis Ninu Bang, fyrsta kvenráðherra í sögu Danmerkur, rithöfundana Karen Blixen, Inger Christiansen og Tove Ditlevsen. Margréti I, stofnanda Kalmarsambandsins og valdamestu konu Evrópu á sinni tíð. Stytta af henni er í Hróarskeldu en engin í höfuðstaðnum. Nielsine Nielsen sem var fyrsta konan í sögu Danmerkur til að stunda háskólanám (læknisfræði) ætti líka skilið styttu, sagði menningarritstjóri Berlingske. Loks nefndi ritstjórinn Louise Christine Rasmussen, sú kona er betur þekkt undir öðru nafni.
Ballerína og móðir
Louise Christine Rasmussen fæddist í Kaupmannahöfn 21. apríl 1815. Hún var eina barn móður sinnar, Juliane Rasmussen, sem var fátæk ógift þjónustustúlka og eignaðist dótturina með vinnuveitanda sínum, sem sagði henni upp starfinu þegar hún tilkynnti honum um þungunina. Juliane sá, um nokkurra ára skeið, fyrir sér og dótturinni með saumaskap og þvottum en giftist svo dyraverði við Konunglega leikhúsið. Árið 1826, þá ellefu ára gömul, hóf Louise Christine nám við Ballettskóla Konunglega leikhússins, fékk nemalaun frá árinu 1830 og ráðin sem dansari 1835. Árið 1841 hætti hún að eigin ósk í ballettflokknum, ástæðan var sú að hún hafði eignast son. Honum var kornungum komið í fóstur. Faðir drengsins var Carl Berling, erfingi og síðar forstjóri Berlingske Tidende (í dag Berlingske). Foreldrar Carls aftóku með öllu að sonurinn kvæntist þessari ballerínu og þar við sat.
Gína sem snerist
Louise Christine sneri algjörlega baki við ballettinum en stofnaði árið 1844 tískuvöruverslun við Vimmelskaftet (nú hluti Striksins). Nýlunda þótti að í glugga verslunarinnar mátti sjá vaxgínu klædda eftir nýjustu tísku. Og ekki nóg með það, gínan snerist í hringi í glugganum. Slík undur og stórmerki höfðu Kaupmannahafnarbúar aldrei séð og hópuðust að glugganum á hverjum degi. Brátt tóku aðrir kaupmenn upp þetta „trikk“. Þótt í dag teljist það ekki til tíðinda að kona opni verslun var það öðruvísi um miðja nítjándu öld.
Krónprinsinn
Á árunum sem Louise Christine starfaði sem ballettdansari kynntist hún Friðriki krónprins, sem síðar varð Friðrik VII. Krónprinsinn og Carl Berling, barnsfaðir Louise Christine voru miklir mátar og hélst sú vinátta alla tíð. Friðrik var fæddur 1808 og sem ungur maður hafði hann meiri áhuga á að skemmta sér en að undirbúa sig undir ævistarfið sem kóngur. Árið 1828 giftist hann Vilhelmínu Maríu prinsessu en þau skildu, barnlaus, níu árum síðar. Faðir Friðriks, Kristján, síðar Kristján VIII, hafði miklar áhyggjur af syninum og lagði áherslu á að hann festi ráð sitt. Friðrik giftist Marianne af Mecklenburg- Strelitz árið 1841, en það hjónaband var ekki gæfuríkt og hjónin skildu, barnlaus, árið 1846. Friðrik varð kóngur árið 1848, Friðrik VII. Hann hafði litla reynslu af stjórnmálum og ýmsir höfðu efasemdir um hann sem konung. Hann varð hinsvegar vinsæll meðal þegna sinna og hefur einkum verið minnst fyrir að að afsala sér einveldinu og gefa Dönum stjórnarskrána, Grundloven.
Grevinde Danner
Eins og áður var nefnt kynntust Louise Christine og Friðrik gegnum Carl Berling, barnsföður Louise. Þótt Friðrik væri tvígiftur og orðinn kóngur hafði hann ekki gleymt Louise. Þau voru pússuð saman í hallarkirkjunni á Frederiksborg 7. ágúst 1850. Þetta var gifting upp á vinstri hönd, sem þýddi að myndu hjónin eignast barn ætti það ekki tilkall til krúnunnar. Ástæðan var að Louise var ekki af aðalsættum. Margir af embættismönnum konungs fundu því allt til foráttu að kóngurinn ætlaði að kvænast konu af lágum ættum, eins og það var kallað. En kóngur sat við sinn keip.
Sama dag og hjónavígslan fór fram fékk Louise Christine með sérstakri tilskipun konungs titilinn Lensgrevinde af Danner, ætíð kölluð Grevinde Danner. Andúð embættismanna fór ekki framhjá kónginum og hjónin brugðu á það ráð að flytja til Jægerspris á Norður-Sjálandi, þar var höll sem kóngurinn keypti af danska ríkinu. Þar bjuggu þau að mestu leyti til ársins 1863, en þá lést Friðrik.
Grevinde Danner gaf höllina og landið sem fylgdi með því skilyrði að höllin og svæðið yrðu notuð í þágu fátækra stúlkna. Hún flutti skömmu síðar til Lálands og síðar til Kaupmannahafnar. Hún lést 6. mars 1874.
Gleymdi ekki upprunanum
Grevinde Danner erfði mikið fé eftir mann sinn. Hún gleymdi hins vegar ekki uppruna sínum og ákvað að verja auðævum sínum í þágu fátækra stúlkna og kvenna. Í því skyni setti hún á fót sérstaka stofnun, kennda við mann sinn, Friðrik VII. Grevinde Danner lét teikna og byggja stórt og veglegt hús skammt frá miðborg Kaupmannahafnar. Húsið yrði athvarf fátækra kvenna, gert var ráð fyrir 52 litlum íbúðum. Grevinde Danner auðnaðist ekki að sjá húsið fullgert, húsið var tekið í notkun 1875, ári eftir að hún lést.
Saga þessa merka húss sem enn stendur, ætíð nefnt Dannerhúsið, verður ekki rakin hér en á tímabili stóð húsið autt og til stóð að það yrði rifið. Með samstilltu átaki hundraða kvenna tókst að koma í veg fyrir það. Í dag er þar neyðarathvarf kvenna, ásamt ýmiskonar starfsemi.
Vilja heiðra minningu Grevinde Danner með styttu
Fyrir nokkru kviknaði sú hugmynd í hópi kvenna að reisa styttu til heiðurs Grevinde Danner í Kaupmannahöfn. Meðal þeirra sem voru í þessum hópi var listakonan Kirsten Justesen. Hún hefur þegar lagt drög að gerð styttunnar sem gert er ráð fyrir að standi við vötnin (Sankt Jørgens Sø) skammt frá Dannerhúsinu. Styttan sjálf á að vera sex metra há, úr bronsi. Stöpullinn, sömuleiðis úr bronsi, verði bekkur þar sem hægt verði að tylla sér. Í hægri hendi heldur Grevinde Danner á skjali, það á að tákna stjórnarskrána, Grundloven, og þátt hennar í að afnema einveldið.
Endanlegt leyfi borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn fyrir uppsetningu styttunnar liggur ekki fyrir en borgarfulltrúar hafa lýst ánægju með hugmyndina. Gert er ráð fyrir að „styttumálið“ verði afgreitt í Borgarstjórn Kaupmannahafnar 22. apríl. Verði málið samþykkt þar verður hafist handa við að afla fjár til verksins.