Í byrjun sumars 2016 voru grunnlaun þingmanna á Íslandi 712.030 krónur á mánuði. Nú, fimm árum síðar, eru þau 1.285.411 krónur á mánuði. Þau hafa því hækkað um 573.381 krónur á tímabilinu, eða um rúmlega 80 prósent.
Grunnlaun ráðherra hækkað enn meira í krónum talið. Þeir voru með 1.257.425 krónur í laun snemmsumars 2016 en fá nú 2.131.788 krónur á mánuði. Laun þeirra hafa því hækkað um 874.363 krónur á tímabilinu, eða um 70 prósent. Þetta má sjá með því að skoða birtar upplýsingar um launakjör þingmanna og ráðherra aftur í tímann og bera saman við launatölur í dag eftir að síðasta launahækkun þingmanna og ráðherra tók gildi í sumar.
Meðaltal heildartekna á Íslands, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, var 450 þúsund krónur í árslok 2015. Í lok síðasta árs voru þau 591 þúsund krónur og höfðu því hækkað um 141 þúsund krónur, eða 31 prósent á tímabilinu. Miðgildi heildartekna landsmanna var 358 þúsund krónur í lok árs 2015 og 488 þúsund um síðustu áramót. Það hafði því hækkað um 130 þúsund, eða 36 prósent á tímabilinu.
Laun þingmanna hafa því hækkað um 432 þúsund krónur umfram þær krónur sem meðaltal heildartekna landsmanna hefur hækkað á tímabilinu og um 443 þúsund krónur umfram miðgildi heildartekna.
Laun ráðherra hafa hækkað um 733.363 krónur umfram meðaltalstekjur landsmanna og um 744.363 umfram miðgildi þeirra tekna. Hækkun ráðherralaunanna nemur rúmlega 150 prósent af miðgildi heildartekna á Íslandi.
Til viðbótar við ofangreint geta þingmenn fengið ýmiskonar viðbótargreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til vegna starfsins, eða aukastarfa á borð við nefndarformennsku.
Ákvörðun Kjararáðs afdrifarík
Laun þingmanna voru 712.030 krónur á árinu 2015, og raunar fram á mitt ár 2016. Laun forseta Alþingis voru á sama tíma 1.257.425 krónur, en hann nýtur sömu launa- og starfskjara og ráðherrar. Þingmannalaunin hækkuðu svo í 762.940 krónur 1. júní 2016 og laun forseta Alþingis og ráðherra urðu á sama tíma 1.347.330 krónur.
Samþykkt var á Alþingi í sumarið 2018 að leggja kjararáð niður. Þess í stað átti að hækka laun í æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa í takti við þróun launavísitölu.
Frestuðu hækkunum en hættu ekki við þær
Fyrsta hækkunin átti að taka gildi sumarið 2019 og taka við af hækkun vísitölunnar árið 2018. Í tengslum við gerð Lífskjarasamninganna, sem skrifað var undir í apríl 2019 var ákveðið að fresta þeirri hækkun til 1. janúar 2020. Í þeim samningum var ákveðið að semja um krónutöluhækkanir þannig að lægstu laun myndu hækka umfram almenna launahækkun. Þingmenn voru þó á meðal þeirra hópa sem eru undanskildir þessu.
Laun þeirra hækkuðu um 6,3 prósent í byrjun árs 2020. Þingmenn fengu 70 þúsund krónur meira í vasann, forsætisráðherra 127 þúsund og aðrir ráðherra 115.055 krónur. Um síðustu áramót hækkuðu launin aftur, nú um 3,4 prósent, en þeirri hækkun hafði verið frestað um hálft ár vegna kórónuveirufaraldursins. Það skilaði hverjum þingmanni 40 þúsund krónum í viðbótarlaun á mánuði, forsætisráðherra um 73 þúsund krónum og öðrum ráðherrum um 66 þúsund krónum.
Enn hækka launin
Í sumar hækkuðu laun þingmanna svo aftur, nú um 6,2 prósent, og eru orðin 1.285.411 krónur á mánuði. Grunnlaun forsætisráðherra eru 2.282.450 krónur og annarra ráðherra 2.131.788 krónur á mánuði.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata, greindi frá þessu á heimasíðu sinni í síðasta mánuði. Ekki er búið að uppfæra heimasíðu Alþingis í samræmi við þetta til að gera þessar upplýsingar aðgengilegar almenningi. Þar er enn tiltekin gamla launatalan.
Launahækkunin nemur rúmum 75 þúsund króna. Laun forsætisráðherra hækkuðu um 133 þúsund krónur á mánuði og ráðherra hækkuðu um 124 þúsund krónur.