Danski leikfangaframleiðandinn Lego, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnur í gegnum klassíska lego-kubba sem víða er að finna á heimilum, hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu, og sýna nýjustu rekstrartölur fyrirtækisins að það er nú orðið að stærsta leikfangaframleiðanda í heimi. Mattel, sem meðal annars framleiðir vörur undir merkjum Barbie og Fisher-Price, hefur lengi verið stærsta fyrirtækið, en nú hefur Lego tekið fram úr bandaríska risanum, sé mið tekið af stöðu mála á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Breska fagtímaritið Financial Times (FT) greinir frá því í dag, að hagnaður fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins hafi verið 2,1 milljarður Bandaríkjadala, eða sem nemur 270 milljörðum króna. Það er 23 prósent aukning frá því á sama tímabili í fyrra.
https://www.youtube.com/watch?v=uY4RbICf0wM
Mögnuð saga endurfæðingar
Stjórnarformaður Lego er reynsluboltinn Niels Jacobsen, forstjóri danska fjárfestingafélagsins William Demant Holding A/S, og hefur hann verið stjórnarformaður frá árinu 2008. Hann hefur komið víða við á sínum ferli og er meðal annars stjórnarformaður íslenska fyrirtækisins Össurar, sem nú er í meirihlutaeigu erlendra fyrirtækja, einkum danskra.
Lego hefur danskar rætur sem rekja má aftur til 1932, eins og Kjarninn hefur fjallað um áður, en starfsemin hefur vaxið hratt á alþjóðamörkuðum, ekki síst á síðustu árum, og er að mörgu leyti mögnuð saga endurfæðingar lego-kubbsins, og um leið saga klókinda og nútímalegrar markaðssetningar. Þar hafa samfélagsmiðlar, myndbönd og vel heppnað samstarf með alþjóðlegum útgáfurisum í afþreyingariðnaði, skipta miklu máli, á sa.
Tölurnar segja sína sögu
Á árinu 2008 voru heildartekjur Lego 9,5 milljarðar danskra króna, eða sem nemur um 180 milljörðum króna. Í fyrra, sex árum síðar, voru tekjurnar tæplega þrefalt hærri, eða sem nemur 28,6 milljörðum danskra króna, eða um 530 milljörðum króna. Allt bendir til þess að vöxturinn á þessu ári verði meiri en oft áður, þar sem stór samstarfssamningur Lego vegna nýjustu Star Wars myndarinnar, sem frumsýnd verður 18. desember, mun að líkindum skila fyrirtækinu miklum tekjum, sem vaxa síðan inn á næsta ár, samkvæmt umfjöllun FT. Lego hefur átt í farsælu samstarfi við Lucasfilm, framleiðenda Star Wars myndanna og eiganda vörumerkisins, um gerð leikfanga undir merkjum Lego-Star Wars, og var samningur fyrirtækisins við Lucasfilm framlengdur í 12. febrúar 2012, eftir vel heppnað samstarf til tólf ára.
Mikilvæg stefnumörkun um að vaxa með öðrum
Ekki nóg með að tekjur Lego hafi vaxið mikið, heldur hefur reksturinn styrkst mikið á sama tíma. Fyrirtækið býr til mikla peninga og byggir vaxtaáætlanir sínar meðal annars á samstarfssamningum við vinsæl vörumerki. Þá hafa myndbönd, þættir, tölvuleikir og kvikmynd í fullri lengd enn fremur styrkt vörumerkið í sessi, og gert það enn stærra, ef svo má segja. Þessi stefna, að tengja lego-kubbana sígildu við vinsæl vörumerki og framúrstefnulega markaðssetningu, hefur reynst afar mikilvæg á stærsta einstaka markaðssvæðinu, Bandaríkjunum. Í skýrslu framkvæmdastjórnar fyrirtækisins, í ársskýrslunni fyrir síðasta ár, kemur fram að gert sé ráð fyrir vexti á öllum markaðssvæðum á þessu ári, og sé mið tekið af hálfsársuppgjörinu, þá hefur það gengið eftir.
En ekkert gerist af sjálfu sér hjá þessum risa í skapandi iðnaði Norðurlandanna. Um 60 prósent af tekjum fyrirtækisins má rekja til nýrrar uppfærslu á vörum (new launches) og er mikið lagt upp úr því að fá til liðs við fyrirtækið framúrskarandi hönnuði. Hjá fyrirtækinu eru rúmlega 200 hönnuðir frá 26 löndum sem sinna kjarnavöruþróun fyrirtækisins en hún fer fram í höfuðstöðvunum í Billund í Danmörku. Á heimsvísu eru starfsmennirnir rúmlega 12.500 talsins, og fjölgaði þeim um rúmlega 800 milli áranna 2013 og 2014. Þetta einstaka og gamalgróna fyrirtæki, sem fagnar 83 ára afmæli á þessu ári, hefur líklega aldrei verið með stöðugri vind í seglum en um þessar mundir.
https://www.youtube.com/watch?v=rUrG63UQK00