Leik- og grunnskóli í Kópavogi kærir tvöföldun Suðurlandsvegar
Waldorfskólinn í Lækjarbotnum hefur kært tvöföldun Suðurlandsvegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fer fram á að framkvæmdirnar, sem eru nýhafnar, verði stöðvaðar. Forsvarsmenn skólans telja sig ekki hafa neina tryggingu fyrir því að tengingar skólans við tvöfaldan veginn verði viðunandi og óttast að skólabarnanna bíði að þurfa að leggja sjö kílómetra lykkju á leið sína til að komast til höfuðborgarsvæðisins að skóladegi loknum.
Waldorfskólinn í Lækjarbotnum lagði undir lok nóvembermánaðar fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem farið er fram á að útgefið framkvæmdaleyfi Kópavogsbæjar fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Fossavalla og Lögbergsbrekku verði fellt úr gildi og að framkvæmdir við verkið, sem eru á fyrstu metrunum, verði stöðvaðar.
Ástæðan fyrir kærunni er helst sú að ekki er enn búið að fullmóta hvernig tengja skuli skólann við tvöfaldaðan Suðurlandsveginn fyrir neðan Lögbergsbrekku, en Vegagerðin hefur þó sett fram tillögu um gerð nýs hliðarvegar sem tengja á skólann niður að Lækjarbotnavegi, sem yrði þá tenging skólans inn á Suðurlandsveg um gatnamót við Geirland.
Forsvarsmenn skólans telja sig þrátt fyrir það ekki hafa neitt fast í hendi um að ráðist verði í þá framkvæmd, né þá hvenær ráðist verði í hana, enda ekki búið að gefa út framkvæmdaleyfi.
Þeir sjá því fram á að akstursleiðir til og frá skólanum lengist töluvert, að minnsta kosti um einhvern tíma, þar sem einungis hægri beygjur verði mögulegar til og frá skólanum eftir að búið verður að aðskilja aksturstefnur á Suðurlandsveginum. Þá þyrftu þeir sem eru að fara frá Waldorfskólanum í átt til höfuðborgarinnar að keyra upp að Bláfjallaafleggjara og snúa þar við.
Samkvæmt svörum frá Vegagerðinni við fyrirspurn Kjarnans hefur kæran ekki haft áhrif á framkvæmdina að svo komnu máli, en hún er til athugunar hjá kærunefndinni og niðurstöðunnar beðið.
Í svari Vegagerðarinnar er þess einnig getið að framkvæmdaleyfið sem kært hefur verið takmarkist við tvöföldun vegarins, en að vegurinn sjálfur verð ekki tekinn í notkun fyrr en búið er að ljúka við seinni hluta framkvæmdarinnar ásamt gatnamótalausnum sem honum fylgja.
Aðgengi Waldorfskólans og sumarhúsabyggðar í Lækjarbotnum, sem Vegagerðin segir að sé í dag „algjörlega óásættanlegt út frá öryggissjónarmiðum,“ verði því ótruflað á framkvæmdatíma þeirrar framkvæmdar sem hafin er, og kærð hefur verið.
Hliðarvegur „óþægilega nærri“ friðlýstu svæði
Samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum Vegagerðarinnar er ráðgert að nýr hliðarvegur, sem myndi leysa aðgangsmál skólans, fari um viðkvæm svæði sem ekki voru tekin fyrir í umhverfismati vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar í heild er það fór fram árið 2009.
Skipulagsstofnun hefur nýlega gefið út álit þess efnis að hliðarvegurinn þurfi ekki að fara í gegnum umhverfismat, en skólinn segist þrátt fyrir það, í kæru sinni til úrskurðarnefndar, efast um að það reynist auðvelt fyrir Vegagerðina að fá leyfi til þess að byggja hliðarveginn, sem áætlað er að liggi við hlið friðlýsta náttúruvættisins Tröllabarna í Lækjarbotnum.
Hið minnsta liggi engin trygging fyrir því að hann verði byggður á þessum tímapunkti.
Tröllabörn voru friðlýst árið 1983. Svæðið liggur upp við Suðurlandsveg og einkennist af sérkennilegum hraundrýlum, sem eitt sinn voru notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús, að því er segir á vef Umhverfisstofnunar.
Náttúrufræðistofnun Íslands, sem skilaði umsögn til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar vegagerðar, segir að áætluð lega hliðarvegarins sé „óþægilega nærri“ friðlýsta svæðinu. Í umsögn stofnunarinnar segir ennfremur að nú þegar liggi akvegir alveg að Tröllabornum að bæði norðan- og austanverðu og að með fyrirhugðum hliðarvegi yrðu „bílvegir allt umhverfis friðaða svæðið, mjög nálægt mörkum þess og í raun innan marks þess sem æskilegt hefði verið að skilgreina sem öryggissvæði fyrir verndun jarðminjanna.“
Mat stofnunarinnar er að vert væri að kanna hvort önnur útfærsla vegna aðgengismála Waldorfskólans væri ekki hentugri, til að „þrengja ekki meir að Tröllabörnum.“ Samkvæmt svari Vegagerðarinnar við athugasemdum sem bárust Skipulagsstofnun er þetta þó enn talin fýsilegasta tenging Waldorfskólans við Suðurlandsveg, ef farið verði í nýja vegagerð.
Skipulagsstofnun lét þess getið í áliti sínu að hún teldi annan kost betri en þann sem álitið var unnið um. Samkvæmt svari frá Vegagerðinni til Kjarnans felur sá kostur í sér að stuttur vegarbútur verði lagður frá afleggjaranum að Waldorfskólanum inn á „malarslóða“ sem fyrir er á svæðinu og liggur niður í Lækjarbotna „Þessi leið er í raun varla raunhæf fyrir skólann þar sem hún er illa greiðfær og stenst ekki öryggiskröfur,“ segir í svari Vegagerðarinnar.
Í kæru Waldorfskólans til úrskurðarnefndarinnar er þess getið að það sé óútfært hver skuli sinna vetrarþjónustu á fyrirhuguðum hliðarvegi, en skólinn sinnir sjálfur snjómokstri á afleggjaranum sem í dag liggur að skólanum. Með lengri vegi myndi kostnaður skólans við vetrarþjónustuna að líkindum aukast, nema vegurinn yrði skilgreindur sem héraðsvegur.
Hildur Margrétardóttir skólastjóri Waldorfskólans segir við Kjarnann að ekkert sé í hendi um að svo verði, né eins og áður segir, að hliðarvegurinn verði byggður. Hún segist helst hrædd um að það sem bíði þeirra sem starfa og stunda nám í skólanum verði að þurfa taka á sig aukakrók til að komast frá vinnu og til höfuðborgarsvæðisins.
Að minnsta kosti sjö kílómetra krókur á leið heim
Ef enginn nýr hliðarvegur verður kominn til sögunnar þegar Suðurlandsvegurinn verður orðinn að 2+1 vegi á þessum kafla munu þeir sem eru á leið frá Waldorfskóla og í höfuðborgina þurfa að leggja á sig krók upp að Bláfjallaafleggjara, alls um sjö kílómetra, til þess að snúa við. Ekki verður lengur hægt að beygja til vinstri inn á Suðurlandsveg frá afleggjara skólans.
Að sama skapi þyrftu þeir sem koma að skólanum úr hinni áttinni, eða frá Hveragerði og nágrenni, að aka langleiðina að Geirlandi og snúa þar við áður en þeir keyra til baka til þess að taka beygju til hægri að skólanum.
Starfsfólk og nemendur við leik- og grunnskóla Waldorfskólans í Lækjarbotnum eru yfir 100 talsins og í kæru skólans til úrskurðarnefndar segir að auk þeirra séu birgjar á ferðinni með vörur til skólans flesta daga. Í kæru skólans segir að Vegagerðin hafi komið fram af „miklu skeytingarleysi“ með því að hafa „lítt sinnt samráði“ við skólann er verið var að vinna að hönnun þessa kafla Suðurlandsvegar og lausna sem varða tengingu skólans.
Bréf frá börnum til bæjaryfirvalda og ráðherra
Hildur skólastjóri segir við Kjarnann að það sé „vægast sagt glatað“ að þurfa að kæra útgefið framkvæmdaleyfi Kópavogsbæjar, sveitarfélagsins sem í reynd eigi að gæta hagsmuna skólans, en Waldorfskólinn í Lækjarbotnum er einkarekinn skóli sem hefur starfað á grundvelli samnings við Kópavogsbæ í um 30 ár.
Hún fór fyrr í vikunni með bréf frá börnum í Waldorfskólanum á bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar, en í því bréfi kemur fram að börnin séu „mjög reið og svekkt“ með að hafa ekki fengið að eiga rödd í þessu máli. Í bréfi skólabarnanna er m.a. bent á að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skuli hafa samráð við börn áður en ákvarðanir sem hafa áhrif á hag þeirra eru teknar.
Hildur segist einnig hafa vakið athygli Umboðsmanns barna, mennta- og barnamálaráðherra og innviðaráðherra á málinu með tölvupósti í vikunni. Þau fengu einnig afrit af bréfi og undirskriftalista barnanna í skólanum.
Töldu að mislæg gatnamót væru á dagskrá
Í kæru skólans til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að skólinn hafi staðið í þeirri meiningu, allt þar til í sumar, að stefnt væri að því að gera mislæg gatnamót eða gatnamót sem gætu nýst skólanum við núverandi afleggjara, samfara breikkun Suðurlandsvegar.
Gert hafi verið ráð fyrir slíkri tengingu í gildandi aðalskipulagi Kópavogsbæjar, en vert er að taka fram að Kópavogsbær hefur verið að vinna að endurskoðun aðalskipulags bæjarins um nokkurra missera skeið. Í tillögu að nýju aðalskipulagi sem enn er í staðfestingarferli kemur fram að horft sé til þess að afleggja vinstri beygjur við afleggjarann að Waldorfskólanum, en ekki er fjallað sérstaklega um hliðarveginn sem myndi tengja skólann við Lækjarbotnaveg. Ekki er búið að deiliskipuleggja svæðið.
Í svari sem skólastjórnendur fengu frá Vegagerðinni í júlímánuði, er þeim var orðið ljóst að ekki yrðu gerð mislæg gatnamót eða önnur framtíðarlausn við núverandi afleggjara, var því lýst fyrir þeim að Vegagerðin áformaði að tengja afleggjarann að skólanum inn á Lækjarbotnaveg um nýjan hliðarveg.
Af Lækjarbotnavegi yrðu síðan útbúin öruggari gatnamót fyrir bæði hægri og vinstri beygjur, sem líklega yrðu mislæg. Þetta er í takt við það sem fram kemur í tillögum að endurskoðuðu aðalskipulagi Kópavogsbæjar.
Í tölvupóstinum frá Vegagerðinni sagði einnig að þegar framkvæmdirnar hefðu verið kynntar í skipulagsráði Kópavogsbæjar hefðu einu athugasemdirnar sem bárust snúið að hliðarveginum. Fyrir vikið hefði framkvæmdum við hliðarveginn verið frestað þar til málin skýrðust.
Í kjölfarið á þessum samskiptum áttu forsvarsmenn Waldorfskólans svo fund með Vegagerðinni og fulltrúum Kópavogsbæjar þar sem var af hálfu skólans lögð áhersla á að hönnun hliðarvegarins tæki mið af því að þar færi daglega um rúta af stærstu gerð, full af skólabörnum. Einnig viðruðu forsvarsmenn skólans þann möguleika að færa gatnamót afleggjarans að skólanum 50-100 metra í austur og útbúa þar samskonar vegamót og eru við Bláfjallaveg í dag, en því mun hafa verið tekið fálega.
Sá kostur er ekki á borðinu hjá Vegagerðinni, enda er markmiðið með tvöföldun Suðurlandsvegarins að fækka hættulegum vinstri beygjum á svæðinu. Vegagerðin telur þó, samkvæmt samantekt valkosta um tengingu Waldorfskólans, að ástæða sé til að bæta aðgengi að skólanum með einum eða öðrum hætti og leggur því til hliðarveginn, sem áður hefur verið sagt frá.
Hvort hann verður að veruleika eða ekki er þó enn óvíst á þessu stigi og Waldorfskólinn fellir sig ekki við þessa óvissu – og því hefur kæran og krafa um stöðvun framkvæmda verið lögð fram.
Kópavogsbær, sem fer með skipulagsvald á svæðinu, hefur í samskiptum við Vegagerðina og skólann komið því á framfæri að finna þurfi gatnamótalausn sem allir geti verið sáttir við.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu