Rannsókn á Skeljungsmálinu og Procar-málinu lokið og þau komin til saksóknara
Umfangsmikil rannsókn á meintum stórfelldum efnahagsbrotum sem talið er að hafi verið framin þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013, er lokið. Sömu sögu er að segja af máli bílaleigu sem skrúfaði niður í kílómetramælum bíla og seldi þá síðan. Saksóknari fer nú yfir málsgögn og tekur ákvörðun um hvort ákært verði.
Rannsókn á tveimur efnahagsbrotamálum sem hafa verið í rannsókn hjá embætti héraðssaksóknara í lengri tíma er lokið, samkvæmt heimildum Kjarnans. Annað málið er kennt við Skeljung og hitt við bílaleiguna Procar.
Öllum rannsóknargögnum hefur nú verið skilað inn til saksóknara sem mun fara yfir þau og taka ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málunum eða þau felld niður. Ekki er búist við að niðurstaða liggi fyrir um hvor leiðin verði farinn fyrr en snemma á næsta ári.
Fimm fengu réttarstöðu sakbornings
Fimmtudaginn 31. maí 2018 réðst embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls sem hafði verið til skoðunar þar frá miðju árið 2016. Málið snerist um meint umboðssvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.
Fimm einstaklingar fengu stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Tvö þeirra, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, voru handtekin í kringum aðgerðirnar.
Hin þrjú; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Guðjónsson, sem unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis fyrir um áratug, voru boðuð til skýrslutöku á sama tíma. Fólkið er grunað um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði, að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag þar sem Svanhildur Nanna og Guðmundur afhentu hinum þremur sem seldu þeim Skeljung yfir 800 milljónir króna hverju fyrir sig fyrir þeirra aðkomu að málinu.
Á sama tíma og handtökurnar áttu sér stað fóru fram húsleitir víða um höfuðborgarsvæðið í tengslum við rannsókn málsins. Engar eignir voru þó kyrrsettar á því stigi málsins, en fólkið hefur allt efnast mjög hratt á síðustu árum og eru flest afar fyrirferðamikil í íslensku viðskiptalífi í dag. Einar Örn er til að mynda stjórnarformaður og einn stærsti hluthafi flugfélagsins Play og stór hluthafi í fjárfestingafélaginu Stoðum, sem á meðal annars stóra hluti í Símanum, Play, Arion banka og Kviku banka. Svanhildur Nanna er meðal annars stór hluthafi í Kviku banka og situr í stjórn velgjörðarfélagsins 1881, bakhjarli nýrra viðskiptaverðlauna Innherja á Vísi sem veitt voru í gær. Guðmundur Örn, sem er fyrrverandi eiginmaður Svanhildar Nönnu, situr í stjórn Kviku banka.
Hægt er að lesa allt um Skeljungsmálið hér að neðan:
Skrúfuðu til baka kílómetramæla í bílum
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur opinberaði Procar-málið í febrúar 2019. Í þættinum var sagt frá því að starfsmenn Procar hefðu tekið sig til og skrúfað til baka kílómetramæla í bílum og selt þá svo almenningi á bílasölum landsins. Þetta hafði átt sér stað um áralangt skeið og fórnarlömbin voru fjölmörg.
Í yfirlýsingu sem send var út fyrir hönd stjórnar Procar eftir þáttinn kom fram að fyrirtækið hefði á árunum 2013 til 2015 selt um 650 notaðar bifreiðar. „Fram hefur komið að átt hafði verið við kílómetramæla í hluta þessara bíla, eða í um 100-120 af þeim bílum sem fyrirtækið seldi á tímabilinu, en endanlegur listi um fjöldann liggur ekki enn fyrir. Þetta var gert með því að akstursmælar bílanna voru „færðir niður“ og þannig gefið til kynna að þeir væru minna eknir en raun var á. Í flestum tilfellum nam niðurfærslan 15-30 þúsund kílómetrum. Tilgangurinn var að gera bíla fyrirtækisins auðseljanlegri en á þessum árum kom mikill fjöldi bíla á markaðinn frá bílaleigum og hörð samkeppni var um sölu á notuðum bílum til almennings. Þessum inngripum í akstursskráningu bílanna var hætt árið 2015. Sá sem bar ábyrgð á þessari framkvæmd hefur hætt störfum og kemur ekki lengur nálægt rekstri fyrirtækisins.“
Málið hefur verið í rannsókn frá þeim tíma og samkvæmt heimildum Kjarnans er henni nú lokið. Gögn málsins eru nú til yfirferðar hjá saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verður gefin á hendur fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins eða málið fellt niður.
Lestu meira:
-
17. ágúst 2022Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
-
17. ágúst 2022Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar
-
15. ágúst 2022Bensínlítrinn lækkaði í fyrsta sinn á þessu ári en hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra eykst
-
15. ágúst 2022Kaupfélag Skagfirðinga hefur hagnast um 18 milljarða króna á fjórum árum
-
14. ágúst 2022Bylting á HBO Max veldur því að veitan kemur seinna til Íslands og efnisframboð minnkar
-
13. ágúst 2022Fékk 2,7 milljóna króna sekt fyrir margháttuð og alvarleg brot á peningaþvættislögum
-
13. ágúst 2022Eggert kominn með nýtt forstjórastarf tæpum tveimur vikum eftir að hann hætti hjá Festi
-
12. ágúst 2022Útgáfufélag Stundarinnar tapaði rúmlega milljón krónum á síðasta ári
-
11. ágúst 2022Ekki allur munurinn á að kaupa af bankanum eða byggja jafn dýrt hinu megin við götuna