Fólk með veiklað ónæmiskerfi er í meiri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19 en aðrir. Meiri hættu á að deyja. Vísbendingar eru einnig um að sýking hjá þessum sjúklingum auki hættu á stökkbreyttum afbrigðum veirunnar. Í líkömum þeirra gæti veiran mallað lengi, um það er dæmi, og þannig orðið að nokkurs konar útungunarvél fyrir ný afbrigði.
Hvergi í heiminum eru fleiri smitaðir af HIV en í löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku, m.a. í Suður-Afríku þar sem hið nýja afbrigði ómíkron uppgötvaðist í lok nóvember. Þessi risavaxni sjúklingahópur, sem telur tæplega 20 milljónir manna, hefur ekki fengið þá læknismeðferð sem þarf til að kljást við HIV-veiruna í kórónuveirufaraldrinum. Og það hefur aftur aukið hættuna á alvarlegum veikindum og dauðsföllum af COVID-19.
Tveir af hverjum þremur sem smitaðir eru af HIV-veirunni á heimsvísu búa í löndum sunnan Sahara. Í fyrra voru 19,5 milljónir íbúa ríkjanna á veirulyfjum til að halda veirunni og sjúkdómseinkennum HIV í skefjum. Lyfin eru árangursrík. Þau koma í veg fyrir að veiran nái að fjölga sér í líkamanum og dregur úr neikvæðum áhrifum hennar á ónæmiskerfið.
Fyrir fimm árum fengu 12 milljónir manna á sama svæði slíka meðferð. Aukninguna má að miklu leyti rekja til átaks stjórnvalda í að takast á við HIV-faraldurinn. Þá náðust líka samningar við framleiðendur lyfjanna, framboðið jókst og verðið lækkaði. Einnig skiptu auknar fjárveitingar alþjóðastofnana og sjóða sköpum í þessu sambandi.
Minni þjónusta við HIV smitaða
Þrátt fyrir framfarir í baráttunni við HIV-faraldurinn er talið að um átta milljónir manna í löndum sunnan Sahara (um 21 prósent allra sem sýktir eru af HIV á heimsvísu) séu ekki að fá viðeigandi meðferð. Það aftur á sér ýmsar skýringar, m.a. þær að margir sjúklinganna hafa einfaldlega ekki aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu. Hluti þeirra hefur ekki einu sinni fengið greiningu.
Þetta vandamál, sem fjórir helstu sérfræðingar smitsjúkdóma í Suður-Afríku fara yfir í grein í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature, var til staðar fyrir faraldur COVID-19. En sá faraldur jók enn á vandann og hefur sett strik í reikninginn hjá mörgum hvað meðferð við HIV varðar. Sumir hafa enga meðferð fengið. Álagið á heilbrigðiskerfi í þessum heimshluta, þar sem fátækt er útbreidd og heilbrigðisþjónusta víðast ónóg, varð gríðarlegt í fyrstu bylgjum kórónuveirufaraldursins. Yfir 1.300 heilbrigðisstarfsmenn hafa dáið úr COVID-19 í Suður-Afríku einni saman. Fjölmargir til viðbótar hafa hætt störfum, m.a. vegna álags og veikinda. Á sama tíma hefur fjármagn erlendra ríkja og stofnanna til baráttunnar gegn HIV dregist verulega saman, hjá sumum um allt að 80 prósent.
Sýnatökur vegna HIV voru 22 prósent færri í Afríku í fyrra en árið 2019. Að sama skapi fengu umtalsvert færri barnshafandi konur með HIV lyf sem koma í veg fyrir að barn þeirra smitist.
Tveir faraldrar
Á alþjóðavísu hefur megináherslan verið á að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Ríkin sunnan Sahara hafa hins vegar þurft að berjast við tvo stóra faraldra á sama tíma: COVID og HIV. Hvorug baráttan hefur verið sérlega árangursrík enda hafa bólusetningar gengið hægt, aðallega vegna þess af bóluefnum hefur einfaldlega ekki verið til að dreifa. Meirihluta þeirra hefur verið sprautað í hvíta handleggi Vesturlandabúa.
Í öðru lagi vantar heilbrigðisstarfsfólk til að gefa bóluefnin og í þriðja lagi hefur mörgum ríkjunum í Afríku reynst erfitt að skipuleggja sínar bólusetningarherferðir þar sem gjafaskammtar frá efnameiri ríkjum hafa borist seint og með stuttum fyrirvara og stundum eru bóluefnin við það að renna út. Þá þarf að hafa hraðar hendur – hendur sem eru of fáar.
Þetta hefur orðið til þess að á sama tíma og yfir 40 prósent jarðarbúa hafa fengið bólusetningu gegn COVID-19 er hlutfallið aðeins um 7 prósent í Afríku.
30 prósent líklegri til að deyja
Með því að greina gögn sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur safnað frá því í fyrra um þá sem sýkst hafa af COVID-19 kemur í ljós að af þeim sjúklingum sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús í 37 löndum er fólk með HIV 30 prósent líklegra til að deyja. Á þessu hafa einnig verið gerðar rannsóknir í Suður-Afríku og samkvæmt þeim er það fyrst og fremst fólk langt gengið með HIV sem er líklegra til að deyja en aðrir sjúklingar sem lagðir eru inn á sjúkrahús þar í landi. Það er vegna þess að HIV-veiran hefur náð að veikja ónæmiskerfi þeirra verulega. Fleiri rannsóknir á þessu sama hafa verið gerðar og eru þær allar samhljóma: Hafi HIV-veiran ekki verið meðhöndluð er viðkomandi margfalt líklegri til að veikjast alvarlega og deyja smitist hann af kórónuveirunni.
Veiran breytti sér ítrekað með tímanum
Heilbrigt fólk sem sýkist af COVID-19 er að meðaltali með veiruna í líkamanum í um tvær vikur. Fyrr á þessu ári var greint frá tilfelli þar sem SARS-CoV-2 veiran, sem veldur COVID-19, greindist í líkama sjúklings í yfir sex mánuði. Sjúklingurinn var einnig með HIV sem ekki hafði verið meðhöndlað.
Raðgreiningar voru ítrekað gerðar á sýnum sem tekin voru úr sjúklingnum og leiddu þær í ljós miklar stökkbreytingar í kórónuveirunni í líkama hans. Sumar þeirra voru sambærilegar þeim sem fundist hafa í þeim afbrigðum veirunnar sem WHO hefur undir sérstakri smásjá vegna smithæfni og annarra hættulegra eiginleika. Þetta þykir gefa vísbendingar um að ný afbrigði veirunnar geti orðið til í fólki með bælt ónæmiskerfi, m.a. vegna HIV.
Þverbrotin loforð
Áður en bóluefni gegn COVID-19 komu á markað var hinu alþjóðlega COVAX-samstarfi hrint úr vör. Flest ríki heims komu að því en markmið þess er að dreifa bóluefnum jafnt til allra jarðarbúa. Um leið og lyfjafyrirtækin hófu að gera samninga við einstök ríki eða bandalög ríkja var ljóst að peningar og völd réðu för og að þjóðríki væru fyrst og fremst að tryggja hag sinna eigin borgara. Afríka varð útundan – enn eina ferðina. Örvunarbólusetningar eru komnar vel á veg í mörgum ríkjum í hinum vestræna heimi á meðan enn á eftir að bólusetja stærstan hluta heilbrigðisstarfsmanna og eldra fólks í Afríku.
Markmið WHO var að 40 prósent íbúa í hverju landi yrðu bólusett nú í desember. Það er langt frá raunveruleikanum. Í Suður-Afríku er bólusetningarhlutfallið í kringum 27 prósentin og enn lægra, stundum mun lægra, í flestum löndunum í kring. COVAX-samstarfið átti að tryggja tvo milljarða bóluefnaskammta til efnaminni ríkja heims fyrir árslok. Aðeins um fjórðungur er kominn á leiðarenda. Í september voru loforðin ítrekuð. Sú þjóð sem hefur staðið sig hvað best við að efna þau, Bandaríkin, hafa þó aðeins afhent um fjórðung skammtanna. Hlutfallið er enn lægra í Bretlandi, um 11 prósent af skömmtunum sem lofað var og Kanadamenn hafa þverbrotið sín loforð og aðeins afhent 5 prósent þeirra.
Kyrkingartak ríkra þjóða
„Það sem svíður mest er að þetta er ekki vegna skorts á bóluefnum eða samninga við framleiðendur,“ skrifaði Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og sérstakur sendiherra WHO í fjármögnun heilbrigðismála, í grein í The Guardian nýverið. „Vandinn felst ekki lengur í framleiðslunni heldur í óréttlátri dreifingu.“ Hann skrifar að „kyrkingartakið“ sem G20-ríkin beita, ríkustu lönd heims, hafi orðið til þess að þau hafa tekið til sín 89 prósent af bóluefnunum hingað til og „jafnvel núna þá eiga þau að fá 71 prósent af þeim bóluefnum sem samið hefur verið um í nánustu framtíð“.
Á það hafa helstu sérfræðingar heims bent frá upphafi faraldursins að honum ljúki ekki fyrr en honum ljúki alls staðar. Bóluefnin eru, þótt vernd þeirra sé alls ekki fullkomin, okkar öflugasta vopn. Nýrrar nálgunar er þörf þegar kemur að dreifingu bóluefna og forgangsröðun á heimsvísu, skrifa suðurafrísku sérfræðingarnir fjórir í grein sinni í Nature. „Fyrir utan siðferðilegu álitamálin sem fylgja þjóðernisstefnu í bólusetningum og að draga úr fjölda dauðsfalla á heimsvísu, þá benda tiltæk gögn sterklega til þess að það að bólusetja fólk í Afríku muni hjálpa til við að draga úr útbreiðslu um allan heim, draga úr hættu á nýjum afbrigðum og þannig hraða því að stjórn náist á faraldrinum alls staðar.“