Hagnaður Landsbankans, eina stóra viðskiptabankans sem er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og sá eini sem er ekki skráður á hlutabréfamarkað, dróst umtalsvert saman á fyrri hluta ársins 2022 í samanburði við sama tímabil í fyrra.
Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hagnaðist bankinn um 5,6 milljarða króna en á sama tímabili á árinu 2021 nam hagnaður bankans 14,1 milljarði króna. Hann dróst því saman um 8,5 milljarða króna milli ára.
Á sama tíma jókst hagnaður Íslandsbanka um rúmlega tvo milljarða króna og hagnaður Arion banka um 1,6 milljarð króna, þótt taka verði fram að salan á Valitor vigtaði umtalsvert í uppgjöri þess banka.
Allir bankarnir setja sé arðsemismarkmið. Helsti mælikvarðinn á árangur þeirra er hversu vel þeim tekst að ávaxta eigið fé sitt. Þannig náði Arion banki 16,9 prósent arðsemi á sitt eigið fé á fyrstu sex mánuðum ársins og Íslandsbanki náði 10,9 prósent arðsemi. Báðir bankarnir græddu umfram markmið sín. Það gerði Landsbankinn hins vegar ekki. Bankinn hefur sett sér það markmið að ná tíu prósent arðsemi á eigin fé sitt á ári. Á fyrri hluta yfirstandandi árs var sú arðsemi 4,1 prósent, og því langt frá settu markmiði.
Viðsnúningur upp á 7,9 milljarða króna
Af hverju er ríkisbankinn að hagnast svona miklu minna en hinir stóru bankarnir? Þjónustutekjur hans jukust gríðarlega milli ára, alls um 24 prósent. Og vaxtatekjur hans sömuleiðis, alls um 13 prósent, samhliða mikilli stækkun á útlánasafni bankans og hærra vaxtastigs í ljósi þess að stýrivextir hafa hækkað úr 0,75 í 4,75 prósentustig frá því í maí í fyrra.
Ástæða þess að hagnaður Landsbankans var mun minni en hinna er vegna þess „gangvirði hlutabréfaeignar bankans“. Á mannamáli þýðir það að Landsbankinn á mjög mikið af hlutabréfum, miklu meira en hinir bankarnir tveir. Þegar þau hlutabréf hækka í virði þá hefur það mikil áhrif á gengi Landsbankans en þegar þau lækka þá verða áhrifin hratt neikvæð.
Á fyrri hluta ársins 2022 lækkaði virði hlutabréfa í eigu bankans um 5,3 milljarða króna, en þau hækkuðu um 2,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þarna er því um viðsnúning upp á 7,9 milljarða króna að ræða.
Hluturinn í Marel lækkað mikið
Langstærsta hlutabréfaeign bankans er 3,5 prósent óbeinn hlutur í Marel, langverðmætasta skráða félagið á íslenska hlutabréfamarkaðinum, í gegnum 14,1 prósent eignarhlut í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Sá hlutur var um 23,6 milljarða króna virði í lok jún í fyrra, eftir mikla hækkunarhrinu sem átti sér stað samhliða því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Alls hækkuðu hlutabréf í Marel um 93,2 prósent frá því í mars 2020 og til ágústloka 2021. Þau næstum tvöfölduðust. Og virði þeirra bréfa sem Landsbankinn heldur á í félaginu jókst um sama hlutfall.
Hlutur Landsbankans í Marel í lok júní síðastliðins var metinn á 16,3 milljarða króna. Hann hafði lækkað um 7,3 milljarða króna á einu ári. Þar er því komin stærsta ástæðan fyrir því að hagnaður Landsbankans var jafn mikið úr takti við hagnað hinna stóru bankanna tveggja á fyrri hluta ársins.
Seldu hlut í Eyri Invest til Eyris Invest
Eign Landsbankans í Eyri Invest á sér langa sögu. Bankinn eignaðist hlutinn eftir að hann var endurreistur á grunni hins fallna Landsbanka Íslands eftir bankahrunið. Eignarhald Landsbankans í Eyri Invest taldist lengi fela í sér tímabundna starfsemi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, enda Marel í alls óskyldum rekstri. Fjármálaeftirlitið þrýsti lengi á bankann að minnka hlut sinn í fjárfestingafélaginu og vorið 2016 bauð Landsbankinn eignarhlutinn allan til sölu. Fimm tilboð bárust en þeim var öllum hafnað þar sem þau þóttu ekki nógu há.
Í september 2018 hóf Fjármálaeftirlitið að leggja dagsektir á Landsbankann vegna þess að hann hafði ekki brugðist við þeim þrýstingi.
Í nóvember 2018 seldi bankinn hluta þeirra bréfa sem hann átti í Eyri Invest, nánast að öllu leyti til Eyris Invest. Eftir það á bankinn 14,1 prósent hlut í fjárfestingafélaginu. Virði óbeins eignarhluta hans í Marel í gegnum þann eignarhlut var 9,9 milljarðar króna í lok árs 2018 og því var hann enn 6,4 milljörðum krónum verðmeiri um mitt þetta ár en þá þrátt fyrir mikla lækkun árið á undan.
Áttu 130 milljarða króna í eigin fé
Eyrir Invest er eitt stærsta fjárfestingafélag landsins. Stærstu eigendur þess eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, með samanlagðan 38,5 prósent eignarhlut. Stærsta eign þess er, líkt og áður sagði, tæplega fjórðungshlutur í Marel. Eigið fé Eyris Invest var um 130 milljarðar króna um síðustu áramót og hagnaður þess á síðasta ári einu saman nam um 23 milljörðum króna. Sá hagnaður var að langmestu leyti tilkominn vegna matsbreytinga á bréfum félagsins í Marel.
Marel birti árshlutauppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í síðustu viku. Í aðdraganda þess sendi félagið frá sér afkomuviðvörun þar sem rekstrarniðurstaða annars ársfjórðungs var undir væntingum, að uppistöðu vegna „áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænt var.“ Daginn eftir að afkomuviðvörunin var send út lækkaði hlutabréf í Marel um tæp ellefu prósent.
Í tilkynningu til Kauphallar kom fram að Marel myndi grípa til aðgerða til að bæta rekstrarafkomu sína þegar í stað. „Til að lækka kostnað hefur sú erfiða ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um fimm prósent á heimsvísu.“
Þegar Marel birti loks uppgjör sitt 27. júlí síðastliðinn var haft eftir Árna Oddi, forstjóra félagsins, í tilkynningu að framlegðin á ársfjórðungnum hefði verið óviðunandi þrátt fyrir að nýtt met hefði verið sett í pöntunum. Gert væri ráð fyrir bættri rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins.
Marel er áfram sem áður langstærsta félagið í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði þess við lokun markaða á föstudag var 465,7 milljarðar króna.
Lestu meira:
-
30. maí 2018Jakob segir sig úr stjórn Arion banka
-
20. apríl 2018Þurfa að gera yfirtökutilboð upp á 65 milljarða króna
-
9. mars 2018Ákvörðun ríkissaksóknara felld úr gildi
-
6. ágúst 2017Frumkvöðlastarfsemi eða rentusókn?
-
11. júlí 2017Fá merki um kólnun en framboð að aukast
-
10. mars 2017Hannes Smárason snúinn aftur
-
6. mars 2017Hagsmunakórarnir farnir að syngja
-
16. febrúar 2017Eigendur Borgunar fái 4,7 milljarða arðgreiðslu
-
13. febrúar 2017Félag Helga selur í Marel fyrir 309 milljónir
-
13. febrúar 2017Hagnaður Arion banka 21,7 milljarður króna