Undanfarin misseri hafa merkin um að kínverska hagkerfið sé í hægagangi orðið augljósari og óttinn við að mesta og hraðasta hagvaxtarskeið sögunnar sé lokið, orðið næstum áþreifanlegur. Einn þeirra sem hefur lagt sig einna mest fram um að vara við afleiðingunum af því „þegar“ kínverska hagkerfið fer að gefa eftir er Robert Z. Aliber, hagfræðiprófessor og rithöfundur. Hann er Íslendingum af góðu kunnur. Hann kom til Íslands í tvígang fyrir hrun fjármálakerfisins, og hélt meðal annars erindi í maí 2008 þar sem hann sagði að laumuáhlaup á íslenska bankakerfið væri hafið og að stjórnvöld gætu lítið annað gert en stíga inn í atburðarásina. Bankakerfið væri að hruni komið. Fullur salur af fólki, aðallega stjórnmálamönnum, háskólafólki og stjórnendum í bankakerfinu, hlustaði á orð hans. Eftir fundinn var orðum hans kröftuglega mótmælt, ekki síst gekk Halldór J. Kristjánsson, þáverandi annar tveggja bankastjóra Landsbankans, langt í gagnrýni sinni og lagði áherslu á að Aliber væri „fyrrverandi“ prófessor. Gagnrýni hans ætti ekki við rök að styðjast.
Sagan staðfestir að Aliber var að greina stöðuna rétt, og hallærislegar árásir stjórnenda á Íslandi, sem litla sem enga reynslu af alþjóðamörkuðum höfðu, sitja nú eftir sem minnisvarði um múgheimskuna sem greip íslenskt athafnalíf fram að falli bankanna dagana 7. til 9. október 2008.
You can't always get what yuan... Currency wars & the latest Chinese devaluation ROBERT Z. ALIBER http://t.co/LNR9xjndbp via @POLITICOEurope
Auglýsing
— Tunku Varadarajan (@tunkuv) August 13, 2015
Móðir allra fasteignabóla
Aliber þykir meðal virtustu hagfræðinga heimsins þegar kemur að greiningu á fjármálakreppum og fasteignabólum sérstaklega. Hann hefur undanfarin þrjú ár varað sérstaklega við merkjum um að kínverska hagkerfið sé á barmi falls, og fasteignamarkaðurinn sé í reynd hruninn. Það sé bara ekki komið fram ennþá, vegna þess að stjórnvöld í Kína hafi alla þræði í hendi sér. Offjárfestingin á honum eigi sér engan sögulegan samanburð og að kínverskir bankar séu að halda uppi falskri stöðu á honum. Í fréttabréfi sem Aliber sendir vinum og viðskiptavinum sínum frá heimili sínu í New Hampshire, sagði hann árið 2012, að fasteignabólan í Kína var „yfirþyrmandi“, „ósjálfbær“ og dæmd fyrir brotlendingu. Þá sáust fyrst og síðast góðar tölur um vöxt og hækkun verðs, en önnur og neikvæðari merki eru nú farin að sjást.
Tölurnar farnar að sýna merki um mikla kólnun
Þrátt fyrir að hagtölur frá því í gær sýni að fasteignaverð hafi hækkað um 0,4 prósent í júlí miðað við mánuðinn á undan, þá hefur fasteignaverð heilt yfir Kína lækkað um 3,7 prósent á síðustu tólf mánuðum. Sum staðar í þessu risavaxna landi, sem er fjölmennast allra ríkja með íbúafjölda upp á 1,4 milljarð, þá hefur markaðurinn hrunið og eftir standa þúsundir íbúða tómar í nýjum byggingum. Annars staðar, þar sem markaðir eru þróaðari, meðal annars í höfuðborginni Peking, eru merkin um hægagang ekki komin fram nema að litlu leyti. Ótrúlegar og fordæmalausar sveiflur á hlutabréfamarkaði í Kína að undanförnu benda til þess að nú hrikti í stoðunum. Á sama tíma og kastljós fjölmiðla víðast hvar var á samningaviðræðum Grikkja við kröfuhafa sína, Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar á meðal, gufuðu upp verðmæti sem námu fimmtánfaldri árlegri landframleiðslu Grikkja á einum degi. Svo fór að lokum að kínversk stjórnvöld gripu inn í markaðinn og hafa síðan reynt að stýra verðmyndun á markaðnum og koma í veg fyrir að glundroði skapist. Inngrip kínverskra stjórnvalda voru um margt merkileg. Þau voru ekki aðeins fólgin í almennum boðum og bönnum, eins og hefur alla tíð verið hálfgerð þjóðaríþrótt í Kína þegar kemur að viðsiptum, heldur bárust beinar skipanir til fyrirtækja um að kaupa eigin hlutabréf og búa til kaupþrýsting. Yfirmaður í skráðu kínversku fyrirtæki lét hafa eftir sér að fyrirtæki hans hafi fengið „beina skipun“ frá Verðbréfaeftirliti Kína um að framfylgja fimm skrefum. Þau voru að láta stóra hluthafa fyrirtækisins kaupa fleiri bréf, kaupa eigin bréf, láta yfirmenn og millistjórnendur kaupa hlutabréf, innleiða kauphvata fyrir starfsmenn og kynna leiðir fyrir starfsmenn til að eignast hlutabréf. Nýlegar ákvarðanir stjórnvalda um að lækka gengi júansins, sú mesta síðan 1994, sýna að kínversk stjórnvöld eru tilbúin að gera ýmislegt til þess að bæta versnandi stöðu. En það er óljóst til lengdar hvaða áhrif hún hefur. Fall hlutabréfamarkaðarins í dag, upp á 6,2 prósent, sýnir að traust fjárfesta til skráðra félaga er takmarkað í augnablikinu, að mati sérfræðings JP Morgan.
Shanghai Composite Index tumbles 6.2% amid fresh anxieties about China's commitment to steadying its stock market http://t.co/WJDCY3uLGz
— Wall Street Journal (@WSJ) August 18, 2015
Dregur vagninn
Uppgangurinn í Kína undanfarna tvo áratugi hefur ekki aðeins umbylt þessu fjölmennasta ríki heims innan frá heldur hefur einnig byggt nýjar viðskiptapólitískar brýr. Margar stórþjóðir hafa á skömmum tíma veðjað öðru fremur á mikinn útflutning til Kína, og er nærtækast að nefna stór hrávöruhagkerfi eins og Brasilíu, Rússland, Suður-Afríku og Noreg sömuleiðis. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einnig nefnt það sem áhyggjuefni fyrir efnahag heimsins að Kína og Indland, með 2,7 milljarða íbúa af ríflega sjö milljarða heildarfjölda í heiminum, hafi á skömmum tíma orðið að efnahagsstórveldum með tilheyrandi nýjum tengingum við hagkerfi ýmissa landa. Stutt saga þýðir í hugum sérfræðinga óvissa um hvað geti gerst ef það tekur að halla undan fæti hjá þessum risum. Hin rökrétta ályktun er sú að hratt minnkandi eftirspurn í þessum löndum geti leitt til mikilla erfiðleika hjá mörgum ríkjum sem reiða sig á eftirspurn eftir hrávörum.
Endurskoðuð spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir að hagvöxtur í Kína verði 6,8 prósent á þessu ári. Sérfræði blogg sjóðsins, þar sem spáð er í framgangi efnahagsmála í heiminum, sýna að mikil óvissa er nú í spilunum um hvert stefnir. Lækkun olíuverðisins á undanförnu ári, frá 110 Bandaríkjadölum niður í um 50 dali á fatið, hefur auk þess leitt til erfiðleika á hrávörumörkuðum og fengið fjárfesta og fyrirtæki til þess að halda að sér höndum. Fyrir vikið minnkar eftirspurn eftir hinum ýmsum hrávörum, með þeim afleiðingum að verð lækkar.
Í ljósi þess hversu mikil vítamínsprauta uppgangurinn í Kína hefur verið fyrir efnahagslíf heimsins undanfarin 20 ár er ekki óeðlilegt að margir horfi til þess með áhyggjusvip að óveðurskýin séu að hrannast upp.