Mynd: Bára Huld Beck

Lýðskrum, þjóðarvilji eða eru þetta allt saman bara „fyllibyttuloforð“?

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna fengu tækifæri til að spyrja hver annan spurninga í sjónvarpsumræðum í kvöld. Spurningarnar fóru um víðan völl og svörin voru ekki alltaf í takti við það sem spurt var um.

Evrópusambandið, innviðir, nýja stjórnarskráin og skoðanakannanir um þjóðarvilja, lýðskrum, innviðir og „fyllibyttuloforð“ voru á meðal þeirra spurninga sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna spurðu hvorn annan í kappræðum í sjónvarpssal í kvöld.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar um hvort Viðreisn væri þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eins og það er og hvort Viðreisn væri þeirrar skoðunar að embættismenn í útlöndum væru betur til þess fallnir að taka ákvarðanir um samfélagsleg mál hérlendis. „Ég er fegin að fá þessa spurningu frá þér og kannski Morgunblaðinu í leiðinni,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði Viðreisn vera að bjóða upp á lýðræðisveislu fyrir þjóðina alla, ekki innvígða og innmúraða flokksmenn. Þorgerður sagði að Viðreisn vildi ganga í Evrópusambandið en það þýddi ekki að flokkurinn væri tilbúin að ganga að hvaða samningi sem er. Íslenska þjóðin muni fá að kjósa um að hefja viðræður að nýju og svo aftur um þann samning sem muni liggja fyrir eftir viðræður. 

Nýliðinn Glúmur Baldvinsson sagðist ætla að „rífa kjaft“ ef hann kæmist á þing.
Mynd: Bára Huld Beck

Glúmur Baldvinsson frá Frjálslynda lýðræðisflokknum spurði Katrínu Jakobsdóttur um hvernig henni fyndist til hafa tekist að byggja upp innviði í landinu. Forsætisráðherrann var ekki í vandræðum með upptalningu á málum sem hún taldi sýna að innviðir hefðu verið aðalmál ríkisstjórnarinnar. Það hefði verið aukið við rekstur, fjárfestingar og viðhald og ráðist í uppsafnaðar framkvæmdir. Það hafi verið aukið við fjármagn til heilbrigðiskerfisins, háskóla, framhaldsskóla og stórauka framlög til rannsókna og þróunar, sem muni búa til störf framtíðar. 

„Laga á mér öxlina, laga á mér hnéð, gera við tönn“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata í umræðunum, spurði Katrínu út í stjórnarskrármál. Hún rifjaði upp að Katrín hefði setið í ríkisstjórn á árunum 2009 til 2013 sem hafði frumkvæði að því að boða til þjóðfundar og semja sína eigin stjórnarskrá. ÚR varð að ⅔ hlutar þjóðarinnar samþykktu að þau drög sem stjórnlagaráð skiluðu af sér yrðu höfð til hliðsjónar við skrif nýrrar stjórnarskrár. Þórhildur Sunna spurði hvernig það væri lýðræðislegt að vinna gegn nýrri stjórnarskrá? Katrín sagði að drög stjórnlagaráðs hefðu verið mikilvægur grunnur undir þá vinnu sem unnin hefði verið að stjórnarskrárbreytingum á kjörtímabilinu, sem náðu reyndar ekki í gegn fyrir þinglok. Katrín sagðist hins vegar aldrei hafa talið að það ætti að taka þau drög upp orðrétt sem stjórnarskrá.

Auglýsing

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, út í nýlegar skoðanakannanir sem sýndu að mikill meirihluti þjóðarinnar væri fylgjandi því að setja meira fé í heilbrigðiskerfið, vildi róttæka uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og að stór hluti þjóðarinnar vildi auka skattheimtu á ríkustu prósentin í samfélaginu. Logi spurði af hverju Sjálfstæðisflokkurinn væri að hundsa þennan þjóðarvilja og hvort flokkurinn ætlaði að gera það áfram komist hann í ríkisstjórn? Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokknum hefði gengið vel að afla fylgis hjá þjóðinni og flokkurinn hefði áætlanir um að auka það í haust. Hann sagði að sitjandi ríkisstjórn hafi verið að auka framlög til heilbrigðiskerfisins og að sinn flokkur vildi þjónustutryggingu sem geri fólki kleift að sækja þjónustu í einkageirann í stað þess að leggja alla áherslu á að opinberir starfsmenn veiti heilbrigðisþjónustuna. „Þrjár síðustu aðgerðir sem ég hef farið í voru einmitt á slíkum stofum; laga á mér öxlina, laga á mér hnéð, gera við tönn.“

Þar sem tíu leiðtogar voru mættir í umræðurnar þá þurftu þeir oft að bíða nokkuð lengi eftir að það kæmi að þeim.
Mynd: Bára Huld Beck

Bjarni svaraði ekki spurningum um sjávarútveg né aukna skattheimtu á ríkustu prósent landsins.

25 prósent flokkur með neitunarvald

Katrín valdi að spyrja Þorgerði Katrínu eftirfylgnisspurningu um Evrópusambandsaðild og hvort flokkurinn myndi setja aðild sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku. Þorgerður Katrín svaraði spurningunni ekki beint heldur sagði að það myndi koma henni á óvart ef lýðræðisflokkur eins og Vinstri græn myndu hafna því að spyrja þjóðina hvort hún vildi fara í aðildarviðræður. 

Auglýsing

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, notaði sína spurningu til að spyrja Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, hvort henni, sem sérfræðingi í málefnum öryrkja, lífeyrisþegar og lágtekjufólks, litist vel á stefnumál Framsóknarflokksins fyrir komandi kosningar. Þar átti hann meðal annars við frekari áherslu á almennar íbúðir og hlutdeildarlán fyrir eldra fólk. Inga svaraði því til að nánast enginn öryrki á lægstu laununum hefði efni á að búa í eigin íbúð.  

Brýnustu verkefnin í einni setningu:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins: Að standa við loforðin

Glúmur Baldvinsson, fulltrúi Frjálslynda lýðræðisflokksins: Að rífa kjaft og láta engan í friði

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata: Að leggja hornstein að sjálfbærara samfélagi til framtíðar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar: Fjölskyldurnar í forgang

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna: Að jafnréttismálin rati alltaf á dagskrá

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins: Fjárfestum í fólki

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar: Að kjósa okkur frá kyrrstöðunni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins: Að halda áfram að byggja á stöðugleikanum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins: Að berjast gegn fátækt

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins: Að almenningur nái völdum í samfélaginu

Þorgerður Katrín sagði það vera stærsta óopinbera leyndarmálið vera að sitjandi stjórnarflokkar hefðu myndað með sér kosningabandalag. Ef þeir myndu fá meirihluta áfram myndi ríkisstjórnin verða endurmynduð. Hún spurði Bjarna hvort atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum væri þá atkvæði greitt stefnu Vinstri grænna í heilbrigðismálum. Bjarni svaraði spurningunni ekki beint en sagði að sér fyndist það „óverjandi og sóun að senda íslenska sjúklinga til Svíþjóðar þar sem íslenskir læknar taka á móti þeim.“

Ásakanir um að óopinbert samkomulag um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf væri við lýði var sett fram í sjónvarpssal. Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna neituðu því.
Mynd: Bára Huld Beck

Bjarni spurði Loga hvort þjóðin væri að fara að horfa aftur á það sem hann kallaði skrípaleik, þegar ríkisstjórn lagðist í aðildarumsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir að minnihluti Alþingis væri fylgjandi aðild. Logi sagði að flokkur sinn boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skyldi aðildarviðræður og fékk fyrir vikið ræðu Bjarna um pólitískan ómöguleika þess að meirihluti þjóðar gæti falið stjórnvöldum sem væru afhuga aðild að semja um hana. Logi sagði þá: „Þjóðin hefur sagt skoðun sína í risastórum málum. 70-80 prósent þjóðarinnar í máli eftir máli, en flokkur sem er með 25 prósent atkvæða á bakvið sig hefur beitt neitunarvaldi í ríkisstjórn eftir ríkisstjórn.“

„Þetta er algjört lýðskum,“ sagði Bjarni.

„En það er kannski grín“

Inga Sæland spurði Bjarna hvað hefði gerst í afstöðu hans gegn uppstokkun á framfærslukerfum lífeyrisþegar. Hann hefði lagst gegn frumvörpum Flokks fólksins um að draga úr skerðingum en nú, rétt fyrir kosningar, væru allt í einu „öll ljós kveikt“. Hún spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir sem orsakaði þessa stefnubreytingu og hvort kjósendur ættu að eiga von á því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi standa við þessi loforð? 

Auglýsing

Bjarni sagði að hann væri á móti því að fella skerðingar alfarið niður því þá væri verið að tryggja framlög til þeirra sem hafa háar tekjur án þess að það kæmi til króna á móti í tekur. „Okkar stefna er að stokka upp kerfið og skilja það þannig að fólki sé hjálpað til sjálfshjálpar.“

„Þú ert að vaða hér í villu og svima,“ sagði Inga.

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, sagði að tal eins og það sem Bjarni viðhafði við spurningu Ingu væri kallað „fyllibyttuloforð“ í frönskum stjórnmálum. Flaumur sem heyrðist í aðdraganda kosninga sem aldrei væri meining að standa við. Hann beindi spurningu sinni til Sigurðar Inga, sem hann kallaði þriðja manninn í ríkisstjórninni, og spurði hvort hann vildi taka þátt í endurreisn samvinnuhreyfingarinnar og um leið að „finna hjartað“ í Framsóknarflokknum. Sigurður Ingi svaraði með glensi: „Ég ætla að setja út á að ég sé kallaður þriðji maðurinn í ríkisstjórninni. En það er kannski grín.“

Svo sagðist hann vera til í að fá liðsinni allra til að efla samvinnuhreyfinguna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar