Mesta lækkun innan mánaðar í Kauphöllinni í tólf ár – 243 milljarðar hurfu til peningahimna
Úrvalsvísitalan lækkaði um 10,9 prósent í síðasta mánuði. Það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í maí 2010. Fall á virði bréfa í Marel, sem hafa lækkað um meira en 200 milljarða króna frá áramótum, eru ráðandi breyta í samdrættinum.
Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands var 2.198 milljarðar króna í lok maí. Í nýliðnum mánuði lækkaði markaðsvirði þeirra um alls 243 milljarða króna, eða um tíu prósent. Úrvalsvísitalan, sem mælir gengi þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mestan seljanleika, lækkaði um 10,9 prósent. Þetta er mesta lækkun sem orðið hefur innan mánaðar á úrvalsvísitölunni síðan í maí 2010, þegar hún lækkaði um 11,5 prósent.
Frá áramótum hefur heildarvirði þeirra 25 félaga sem skráð eru á aðalmarkað og First North lækkað um 358 milljarða króna.
Þetta má lesa út úr viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina, sem birt var í gær.
Stóraukinn söluhagnaður hlutabréfa í fyrra
Sú mikla dýfa sem íslenskur hlutabréfamarkaður er að ganga í gegnum kemur í kjölfar mikils uppgangs á þeim tveimur árum sem komu á undan.
Á árinu 2020 hækkaði úrvalsvísitalan um 20,5 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 24,3 prósent. Markaðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á markaðina tvo á því ári hækkaði um 312 milljarða króna á því ári, eða um 24 prósent. Í fyrra gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðalmarkaði, og öllu nema einu á First North, hækkuðu. Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 33 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 40,2 prósent. Þau tvö félög sem hækkuðu mest í virði, Arion banki og Eimskip, tvöfölduðu markaðsvirði sitt.
Á árinu 2021 voru hlutabréf fjögurra félaga tekin til viðskipta í Kauphöll. Síldarvinnslan og Íslandsbanki voru skráð á aðalmarkað og PLAY og Solid Clouds á First North. Skráning þeirra spilaði rullu, ásamt miklum hækkunum á virði annarra félaga, í því að markaðsvirði skráðra bréfa hækkaði um næstum þúsund milljarða króna í fyrra og var 2.556 milljarðar króna um síðustu áramót.
Í tölum um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga sem birtar voru í vikunni sjást afleiðingar þessa. Þar kom fram að fjármagnstekjur einstaklinga hafi verið 181 milljarður króna í fyrra. Þær jukust um 65 milljarða króna í fyrra, eða um 57 prósent. Þessi aukning var fyrst og síðast drifin áfram af söluhagnaði hlutabréfa, sem var 69,5 milljarðar króna.
Árið 2020 var hann hann 25,2 milljarðar króna og því jókst hagnaður af einstaklinga sölu hlutabréfa um 44,3 milljarða króna milli ára, eða um 176 prósent.
Marel langstærsta breytan í lækkunarhrinunni
Langflest skráð félög hafa lækkað í virði það sem af er ári. Mest hefur Marel, stærsta félagið í Kauphöllinni sem er um fjórðungur af heildarvirði hennar, lækkað en markaðsvirði þess var 663,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Í lok maí var það komið niður í 455,5 milljarða króna, sem þýðir að 208 milljarðar króna hafa horfið af markaðsvirði Marel á fimm mánuðum, eða 31 prósent af heildarvirði hlutabréfa þess. Alls er 58 prósent af lækkun á heildarvirði allra skráðra félaga það sem af er ári vegna lækkunar á bréfum í Marel.
Þessi lækkun hafði meðal annars umtalsverð áhrif á uppgjör Landsbankans fyrir fyrsta ársfjórðung ársins, en bankinn á 14,1 prósent í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Arðsemi eiginfjár bankans var einungis 4,7 prósent á fjórðungnum, sem er vel undir tíu prósenta arðsemismarkmiði hans og langt frá þeirri 11,7 prósent arðsemi eiginfjár sem var hjá Landsbankanum á fyrsta ársfjórðungi 2021.
Önnur félög á aðalmarkaði sem hafa lækkað skarpt það sem af er ári eru Iceland Seafood (niður um 36 prósent), Kvika banki (niður um 26,1 prósent) og Sýn (niður um 21,4 prósent). Á First North hefur PLAY lækkað um 22,4 prósent en sú lækkun var nær öll í maímánuði. Gengi bréfa í flugfélaginu er nú komið niður í útboðsgengi.
Fasteignafélögin þrjú: Eik (14,4 prósent), Reitir (12,4 prósent) og Reginn (6,8 prósent) hafa öll hækkað í verði á árinu, en lækkuðu öll skarpt í maímánuði.
Það félag sem sker sig úr þegar kemur að hækkunum það sem af er ári er þó Brim, en virði hlutabréfa þess hefur aukist um 24,7 prósent á síðustu fimm mánuðum og um 66,3 prósent á einu ári. Heildarmarkaðsvirði þess er nú 182,5 milljarðar króna og hefur aukist um 30 milljarða króna frá áramótum.
Tvö ný félög skráð á næstu dögum
Sú dýfa sem er að eiga sér stað á mörkuðum hefur þó ekki gert ný félög fráhverf því að skrá sig á markað. Í gær var greint frá því að Ölgerðin hafi fengið tæplega sjö þúsund nýja hluthafa eftir hlutafjárútboð í lok maí þar sem 29,5 prósent af heildarhlutafé félagsins var selt fyrir 7,9 milljarða króna. Miðað við það er heildarvirði Ölgerðarinnar 26,8 milljarðar króna, en fjórföld eftirspurn var í útboðinu. Viðskipti með hlutabréf félagsins hefjast fimmtudaginn 9. júní.
Í gær greindi Nova frá því hlutafjárútboð, þar sem 37,1 til 44,5 prósent af hlutafé félagsins verður selt, muni hefjast á föstudag, 3. júní, og standa yfir í eina viku. Í kjölfarið verða bréfin skráð á markað og ráðgert er að fyrsti dagur viðskipta með þau verði 21. júní næstkomandi.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi