Meta að ekkert hafi farið úrskeiðis við mælingar á loðnu þrátt fyrir að kvótinn hafi ekki allur veiðst
Hafrannsóknarstofnun mælti með að risakvóta af loðnu yrði úthlutað í fyrrahaust. Ráðgjöfin var síðar lækkuð en samt tókst ekki að veiða nema 76 prósent. Virði skráðra útgerða hækkaði gríðarlega í aðdraganda þess að tilkynnt var um ráðgjöfina og er nú tugum milljarða króna meira en það var snemma í september í fyrra.
Hafrannsóknastofnun metur það sem svo að ekkert hafi farið úrskeiðis við mælingar á stærð loðnustofnsins við Íslandsstrendur þrátt fyrir að ekki hafi tekið að veiða nema hluta þess kvóta sem úthlutað var á grundvelli ráðleggingar stofnunarinnar.
Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þann 1. október 2021 lagði Hafrannsóknastofnun til að gefin yrði út 904.200 tonna kvóti af loðnu á fiskveiðiárinu 2021/2022.
Nokkrum mánuðum síðar, 18. febrúar 2022, var loðnuráðgjöfin lækkuð um 34.600 tonn niður í 869.600 tonn. Hluti hans fór til Norðmanna, Grænlendinga og Færeyinga en kvóti íslenskra útgerða var 686 þúsund tonn. Af honum tókst að veiða 521 þúsund tonn, eða 76 prósent úthlutaðs kvóta.
Engum loðnukvóta hafði verið úthlutað í tvö ár áður en kom að þessum risakvóta, sem var sá stærsti í tæpa tvo áratugi, þannig að um gríðarlega búbót var að ræða fyrir útgerðir sem fengu úthlutað loðnu og þjóðarbúið í heild. Áætlað er að útflutningsverðmæti framleiðslunnar hafi verið um 55 milljarðar króna. Aðallega er um loðnumjöl að ræða, en á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2022 var samanlagt útflutningsverðmæti mjöls og lýsis unnið úr loðnu um 77 prósent af heildarverðmætum útfluttra loðnuafurða. Á sama tímabili í fyrra voru mjöl og lýsi sex prósent af heildarverðmætunum.
Stærsti hlutinn af stærstu loðnunni átti að vera á leið í hrygningu
Þegar Hafrannsóknarstofun skilaði sinni upprunalegu ráðgjöf í fyrrahaust kom fram í rökstuðningi fyrir henni að stærsti hlutinn af stærstu loðnunni væri á leið í hrygningu. Í ráðgjöfinni sagði þó einnig að „Meiri óvissa var í mati á kynþroskahlutfalli loðnu í mælingunni í haustsamanborið við fyrri ár. Heilt yfir var loðnan komin stutt á veg með þroskun kynkirtla og því í sumum tilvikum erfitt að greina á milli ókynþroska loðnu sem mun hrygna 2023 frá kynþroska loðnu sem mun hrygna 2022“.
Í frétt sem birtist á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar 22. mars 2022 sagði meðal annars „að mikill munur hafi verið á milli mælinga á stærð hrygningarstofns loðnu í september 2021 (1834 þús. tonn) og í janúar/febrúar 2022 (1213 þús. tonn að meðtöldum afla fram að mælingu). Mögulegar ástæður fyrir þessum mun hafa einnig verið ræddar, en sú veigamesta er óvenju mikil óvissa á kynþroskamati í haustmælingunni sem skapaði meiri óvissu í mati á stærð hrygningarstofnsins en alla jafna.“
Þrátt fyrir þessa óvissu á kynþroskamati í haustmælingum Hafrannsóknastofnunar úthlutaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, kvóta til útgerða í samræmi við ráðgjöfina þann 13. október í fyrra. Það gerðist eftir síðustu þingkosningar en áður en að ný ríkisstjórn, skipuð sömu flokkum og á síðasta kjörtímabili, tók við. Kristján Þór var ekki í framboði í síðustu kosningum og var því hættur á þingi þegar úthlutunin átti sér stað en beið myndun nýrrar ríkisstjórnar á ráðherrastóli.
Hafði gríðarleg áhrif á markaðsvirði skráðra útgerða
Þrjú fyrirtækið fengu 56,5 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað. Ísfélag Vestmannaeyja, einkafyrirtæki að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar, fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent og Brim var í þriðja sæti með um 18 prósent.
Tvö þessara félaga, Síldarvinnslan og Brim, eru skráð á hlutabréfamarkað. Eftir tilkynninguna um úthlutun kvótans rauk markaðsvirði þeirra upp.
Hækkunarhrinan hófst raunar nokkrum dögum fyrr. Þann 23. september 2021 var markaðsvirði Brim tæplega 108 milljarðar króna. Næstu vikuna hækkaði markaðsvirði félagsins um 20 prósent og daginn sem upphafleg loðnuráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar var kynnt, rauk markaðsvirðið upp um níu prósent og hafði þá hækkað um 31 prósent á átta dögum, eða 33 milljarða króna. Síðan þá hefur það haldið áfram að hækka og er nú 182,5 milljarðar króna. Því hafa 74,5 milljarðar króna bæst við markaðsvirðið frá 23. september og bréf í félaginu því hækkað um 72 prósent. Ekkert félag í Kauphöllinni hefur hækkað nálægt því jafn mikið á umræddu tímabili og Brim. Það sem af er ári eru hækkanir á bréfum Brim í sérflokki á meðal skráðra félaga, en langflest félög í henni hafa lækkað umtalsvert í verði á tímabilinu.
Sambærileg þróun átti sér stað með bréf í Síldarvinnslunni. Þann 23. september 2021 var markaðsvirði félagsins tæplega 116 milljarðar króna. Næstu vikuna hækkaði virði bréfa í Síldarvinnslunni um tæp 13 prósent og daginn áður en tilkynnt var um loðnukvótann var markaðsvirðið rúmlega 130 milljarðar króna. Daginn eftir, þegar tilkynnt var um umfang úthlutaðs kvóta, hækkuðu bréfin um níu prósent.
Í dag er markaðsvirði Síldarvinnslunnar 162 milljarðar króna og hefur hækkað um 46 milljarða króna frá 23. september 2021.
Samanlagt hefur virði Brim og Síldarvinnslunnar hækkað um meira en 120 milljarða króna frá þeim degi.
Besta afkoma frá upphafi
Bæði félögin, Síldarvinnslan og Brim, högnuðust um rúma ellefu milljarða króna í fyrra. Á grundvelli þess árangurs greiddi Brim hluthöfum sínum rúmlega fjóra milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs og Síldarvinnslan greiddi sínum 3,4 milljarða króna. Stærstu eigendur Brim, Útgerðarfélag Reykjavíkur (í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim= og félög Hjálmars Kristjánssonar (bróður Guðmundar) fengu um tvo milljarða króna af arðgreiðslu Brims í sinn hlut og Samherji, Kjálkanes og Snæfugl, stærstu eigendur Síldarvinnslunnar, rúmlega 1,8 milljarða króna af arðgreiðslur hennar.
Þegar félögin birtu uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2022 kom í ljós mikil veltuaukning. Hjá Brim var um að ræða bestu afkomu á fyrsta ársfjórðungi í sögu félagsins og skipti góð loðnuvertíð þar lykilmáli. Velta jókst um 32 prósent milli ára og var 13,5 milljarðar króna. Hagnaður var 3,8 milljarðar króna.
Hjá Síldarvinnslunni næstum tvöfölduðust rekstrartekjur miðað við sama ársfjórðung 2021 og voru 12,9 milljarðar króna. Hagnaður á fyrstu þremur mánuðum ársins var 3,5 milljarðar króna. Ástæðan var fyrst og síðast fyrsta stóra loðnuvertíðin í mörg ár.
Óvarlegt að draga ályktanir um ráðgjöfina
Hafrannsóknarstofnun segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um ástæður þess að ekki tókst að veiða úthlutuðum afla séu margþættar. Þar á meðal séu svæða- og tímatakmarkanir norskra skipa, tíminn sem skip gáfu sér til loðnuveiða, óveður og frátafir vegna þeirra sem og óvenjuleg hrygningarganga stofnsins.
Það sé því óvarlegt að gefa sér það að aflinn hafi ekki náðst því stærð veiðistofnsins, og þar með ráðgjöfin, hafi ekki dugað fyrir heildaraflamarkinu. „Samkvæmt aflareglu ber að nota allar þær mælingar á stærð veiðistofnsins sem eru til hverju sinni og hafa verið metnar áreiðanlegar. Niðurstöður allra „heppnaðra” mælinga hafa þannig fengið jafnt vægi svo og metin óvissa þeirra við ákvörðun á aflamarki. Þessu var fylgt eftir í ráðgjafarferlinu fyrir síðustu vertíð.“
Ráðgjöfin hafi byggt á aflareglu sem fylgt var eftir og henni beitt eins og tíðkast hefur. „Það var einróma álit allra þeirra sérfræðinga sem komu að stofnmatinu og ráðgjafarvinnunni að ekki væru forsendur til að bregða út frá henni í þetta skiptið frekar en önnur.“
Óvissa í kynþroskamati illmetanleg
Í haustmælingunni hafi komið upp óvissa í kynþroskamati á loðnu sem væri illmetanleg og sem hefur verið talin óveruleg hingað til. Ef hún eigi að skýra muninn milli haust- og vetrarmælingu þýði það að aðeins um 50 prósent af 2019 árganginum varð kynþroska við tveggja ára aldur (í stað 66 prósent). Svo lágt kynþroskahlutfall hefur aðeins sést einu sinni áður, eða hjá árgangi 1983 sem var stærsti loðnuárgangurinn frá upphafi veiða. Þessi 2019 árgangur er sennilega stærsti árgangurinn síðan 1983 og því sé ekki fráleitt að kynþroskahlutfallið kunni að vera þetta lágt. „Hlutfall ókynþroska loðnu kann því vel hafa verið hærra en mat stofnunarinnar frá í haust gaf til kynna og gæti því skýrt muninn milli haust- og vetrarmælingar. Hverjar eru þá afleiðingar af þessari óvissu? Þess er vænst að það fáist mat á það í haustleiðangrinum 2022 hvort hlutfall ókynþroska loðnu hafi verið vanmetið haustið 2021. Hafi svo verið má búast við því að meira af þeim árgangi komi til hrygningar veturinn 2023 en vænta mátti. Á móti kemur að árgangurinn þar á eftir (frá 2020) sem jafnframt er metinn yfir meðallagi, mun mögulega skila sér í lægra hlutfalli en allan jafnan til hrygningar við þriggja ára aldur. Stærðargráða þessarar óvissu mun því mögulega upplýsast í haust og afleiðingarnar gætu orðið breyttar væntingar um stærð hrygningarstofnsins árið 2023 og 2024.“
Annað atriði sem bendi til þess að óvissa við kynþroskagreiningar geti skýrt muninn milli mælinga tengist fjölda þriggja ára einstaklinga, úr árgangi 2018. Hann hafi verið um sjö prósent af fjölda kynþroska loðnu í haustmælingunni 2021, 12 prósent í janúarmælingunni og 15 prósent í aflanum sem tekinn er milli mælinganna. Afgangurinn var tveggja ára, úr árgangi 2019. „Þegar tekið er tillit til afla og náttúrulegra affalla þá ber mat á fjölda 2018 árgangsins í haust og vetrarmælingu mjög vel saman. Það sýnir að munurinn á mati á stærð hrygningarstofnsins að hausti og vetri er fyrst og fremst tilkominn vegna mismunandi mats á fjölda tveggja ára. Þann mismun teljum við tengjast óvissu í kynþroskamati.“
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári