Lífeyrissjóðirnir gætu tekið við mun vegameira hlutverki á íbúðalánamarkaði ef fram heldur sem horfir, en frá því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna tilkynnti um breytingu á íbúðalánahlutverki sínu, 2. október, hefur síminn varla stoppað á skrifstofunni, og eftirspurn eftir lánum hjá sjóðnum margfaldast, samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni sjóðsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans, hefur það verið rætt á vettvangi lífeyrissjóðanna, meðal annars í stjórnum þeirra, að íbúðalánahlutverki kunni að færast meira til sjóðanna í framtíðinni, og möguleg góð lausn á vanda Íbúðalánasjóðs, að lífeyrissjóðirnir tækju við eignasafni sjóðsins, að minnsta að kosti að hluta. Lífeyrissjóðirnir eru enda stærstu kröfuhafar sjóðsins, sem eigendur íbúðabréfa, og eiga á bilinu 62 til 80 prósent bréfa. Restin skiptist á milli fagfjárfesta, tryggingarfélaga og fjárfestingasjóða ekki síst.
Stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um hvernig staðið verði að því að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um nauðsyn þess, bæði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Íslands. Heildarútlán Íbúðalánasjóðs nema í dag tæplega 700 milljörðum króna, miðað við stöðu mála eins og hún var um mitt þetta ár, og var eiginfjárhlutfallið 4,8 prósent. Sjóðurinn er með litla hlutdeild á markaði, en bankarnir hafa verið með um 90 prósent hlutdeild í nýjum lánum á undanförnum árum. Þar til nú.
Mun betri kjör
Eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu á vef Kjarnans 9. október, komu ný viðmið og vaxtakjör Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á íbúðalánamarkaði eins og þruma úr heiðskíru lofti inn á markaðinn. Sjóðurinn býður nú mun betri kjör en Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Íbúðalánasjóður og aðrir lífeyrissjóðir einnig, bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Hámarks veðhlutfall er 75 prósent.
Munar þar, miðað við vaxtatöfluna eins og hún lítur út í dag, að meðaltali um fjórðungi eða 25 prósent. Fastir vextir á verðtryggðum lánum eru nú 3,6 prósent, breytilegir verðtryggðir vextir 3,35 prósent, eftir hækkun um 0,15 prósentustig í dag, og fastir vextir til þriggja ára 6,97 prósent.
Til samanburðar eru vextir Landsbankans, sem hefur haft mesta hlutdeild á íbúðalánamarkaði að undanförnu, mun hærri. Fastir vextir á verðtryggðum lánum eru 3,85 prósent, breytilegir vextir 3,65 prósent og fastir óverðtryggðir vextir til þriggja ára 7,3 prósent.
Bankarnir hafa ekki brugðist við
Bönkunum er nokkur vandi á höndum, samkvæmt viðmælendum Kjarnans, þar sem þeir telja sig ekki geta boðið sömu kjör og lífeyrissjóðir. Þar munar ekki síst um bankaskatt og einnig viðmið og kröfur sem Fjármálaeftirlitið setur rekstri banka. Eiginfjárkröfur eftirlitisins hafa verið háar, í alþjóðlegum sambanburði, eða í kringum 19 prósent, og þá er bankaskatturinn ígildi tæplega 0,4 prósentustiga álags í útlánum. Í ljósi þess að lífeyrissjóðurinn eru að eðli með allt aðra starfsemi en bankar, þar sem ekki er verið að byggja upp eigið fé líkt og í fyrirtækjum, þá geti þeir boðið mun betri kjör á íbúðalánum, ekki síst við núverandi aðstæður. Lífeyrissjóðir þurft að fjárfesta fyrir tólf til þrettán milljarða á mánuði, og því gæti aukin hlutdeild á íbúðalánamarkaði verið kærkomin leið fyrir þá til þess að koma fjármagni í „hagstæða vinnu“ eins og einn viðmælenda komst að orði.
Húsnæðisstefnan óljós
Eins og var til umfjöllunar í fréttaskýringu Kjarnans í gær, þá liggur ekki ljóst fyrir hvenær húsnæðisstefna stjórnvalda, sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sagt að sé í bígerð, verður ljós. Mörgum spurningum er enn ósvarað, þó nú þegar liggi fyrir í fjárlögum fyrir næsta ár, að ríkið ætli sér að byggja upp 2.300 íbúðir til að mæta mikilli eftirspurn eftir húsnæði. Íbúðirnar eiga að vera tilbúnar árið 2019 en sé mið tekið af árlegri byggingarþörf lítilla og meðalstórra íbúða, þá er hún um 1.700 til 2000 íbúðir. Þessi íbúðabygging ríkisins mun því duga skammt, þegar kemur að því að breyta um stefnu á húsnæðismarkaði.
Hvernig sem verður, er ljóst að breytingar á stefnumörkun í húsnæðismálum geta haft mikil áhrif á íbúðalánamarkað.
Eygló hefur sagt að það sé forgangsmál að styrkja stöðu leigjenda og ná niður byggingakostnaði, svo mögulegt sé að byggja með ódýrari hætti, en ekkert liggur fyrir enn, fasti í hendi, um hvernig útfærslan verður. Ójafnvægi virðist vera á íbúðamarkaði í augnblikinu, en íbúðafjáfesting dróst saman um 13,3 prósent á fyrri helmingi ársins, þrátt fyrir vaxandi eftirspurn í hagkerfinu, ekki síst eftir íbúðum. Hár byggingarkostnaður virðist vera að koma í veg fyrir nýbyggingar.
Lagafrumvörp hafa ekki verið afgreidd á Alþingi, og samkvæmt heimildum Kjarnans, er ágreiningur uppi um hvert skuli stefnt í þessum málum milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Boðað hefur verið, að húsnæðisstefna stjórnvalda verði eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar á þessum þingvetri, en ekki liggur fyrir, með útfærðri áætlun, hvernig hún á að vera
Eygló í pontu.
.