Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 5,3 prósent og hefur minnkað um 0,9 prósentustig á einu ári og um rúmlega tvö prósentustig á tveimur árum. Þessum tölum er sérstaklega fagnað í pistli Jason Furman, formanni efnahagsráðgjafahóps ríkisstjórnar Barack Obama, á vef Hvíta hússins en þær þykja staðfesta rétta stefnu Obama í efnahagsmálum, frá því hann tók við stjórnartaumunum í nóvember 2008. Áherslan hefur verið á að ná niður atvinnuleysi og styrkja aðstæður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, meðal annars með övarandi aðgerðum. Margt bendir til þess að þetta hafi heppnast, einkum sé horft til síðustu tveggja ára.
Einkageirinn spyrnir sér frá botni
Sérstaklega eru það góðar tölur í einkageiranum sem staðfesta að töluverð sókn er nú í bandaríska hagkerfinu. Um 210 þúsund störf urðu til í júlí í einkageiranum og sé horft yfir síðustu sautján mánuði þá hefur fimmtán sinum tekist að skapa meira en 200 þúsund ný störf á mánuði, sem er sögulega mikið og eitthvað sem stjórnvöld hafa horft til sem markmið. Þetta eru stórar tölur enda bandaríska hagkerfið risavaxið. Það er með árlega landsframleiðslu á mann upp á ríflega 53 þúsund Bandaríkjadali, jafnvirði um sjö milljóna króna, og helsti styrkur þess felst í miklum sveigjanleika, fjölbreytileika og öflugri nýsköpun. Auk þess eru mörg stærstu fyrirtæki heimsins, sem ekki aðeins skapa störf í Bandaríkjunum heldur um allan heim, með rannsóknar- og þróunarhluta sinn staðsettan í Bandaríkjunum sem hefur mikil margfeldisáhrif vítt og breitt um hagkerfið.
Myndin sýnir hvernig ný störf hafa orðið til einkageiranum í Bandaríkjunum, frá því fjármálakreppan skall á af miklum þunga fyrir mörg lítil og meðalstór fyrirtæki. Mynd: Vefur Hvíta hússins.
Eftir mikla erfiðleika í kjölfar fjármálakreppunnar á árunum 2007 til og með 2009 þá hefur einkageirinn náð að spyrna sér frá botni, ef svo má að orði komast. Atvinnuleysi fór upp í tíu prósent þegar verst lét, á árunum 2009 og 2010, og yfirskuldsetning varð mikið vandamál, ekki síst í iðnaði, þar sem eftirspurn dróst hratt saman en kostnaður fylgdi ekki nægilega hratt með niður á við.
Langtímaatvinnuleysi festir rætur
Þrátt fyrir að hlutirnir séu á réttri leið eru ýmis atriði ekki komin í lag, þegar rýnt er í atvinnuleysið. Þannig hefur langtímaatvinnuleysi fest rætur víða í Bandaríkjunum og er 34 prósent hærra en það var fyrir fjármálakreppuna. Þá sýna mælingar einnig að atvinnuleysi þar sem horft er sérstaklega til þeirra sem eru að vinna hlutastarf en myndu vilja vinna í fullri vinnu, er fjórtán prósent hærra en það var fyrir fjármálakreppuna. Konur eiga einnig í meiri erfiðleikum með að fá vinnu nú en fyrir fjármálakreppuna og sömuleiðis spænsku mælandi fólk, að því er segir í stöðumati Hvíta hússins frá því fyrr í dag.
The economy added 215,000 jobs in July—marking a record-breaking 65 consecutive months of private-sector job growth.
— Barack Obama (@BarackObama) August 7, 2015
Áskoranir framundan
Þrátt fyrir að atvinnuleysið sé að minnka, og horfurnar séu aðrar og betri en þær voru eftir þrengingarnar á fjármálamarkaði, þá stendur bandaríska hagkerfið frammi fyrir miklum áskorunum. Lífaldur er að aukast sífellt og er nú í 78,9 ár. Meðalaldur er sömuleiðis að hækka, en hann er nú 37,6 ár, en í samanburði við margar aðrar þjóðir þykir hann ásættanlegur. Í Bretlandi er hann liðlega 40 ár og á Íslandi er hann næstum alveg sá sami, eða 37,5 ár, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Framundan, horft til næstu tíu til fimmtán ára, er því þörf fyrir mikla fjölgun starfa og hraða aðlögun vinnumarkaðarins að aukinni atvinnuþátttöku fólks. Lífeyrisskerfið, hvort sem er að hálfu einkarekinna sjóða eða hins opinbera, þarf að laga sig að þessari stöðu. Fyrir þjóð sem telur tæplega 320 milljónir íbúa, sem búa í innbyrðis afar ólíkum ríkjum, með mismunandi stoðir undir efnahagnum á hverjum stað, er þetta mikil áskorun.
Örvunaðgerðir - Ganga þær endalaust?
Að baki árangrinum býr einnig markviss og skýr stefna Seðlabanka Bandaríkjanna um að örva hagkerfið með ódýru fjármagni. Vöxtum hefur verið haldið við núllið í sjö ár og atvinnulífið - ekki síst fjármálakerfið - hefur notið góðs af þeirri stöðu. En til lengdar litið mun hagkerfið ekki geta treyst á örvunaraðgerðir hins opinbera, að því er Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur látið hafa eftir sér. Hún reiknar nú með því að vextir taki að hækka síðar á árinu. En eins og svo oft þegar seðlabankastjórar eru að ræða um hlutina, þá eru fyrirvararnir margir. Óvissa sé alltaf fyrir hendi og að aðstæður geti skyndilega breyst. Þannig hljómuðu svör hennar í það minnsta eftir að hún var spurð út í framtíðarhorfur á fundi í Cleveland, 10. júlí síðastliðinn.