Mynd: Bára Huld Beck Sólveig Anna Jónsdóttir
Mynd: Bára Huld Beck

Mistökin sem ég gerði voru að vera ekki meira „kallinn“, að vera ekki meiri „stjóri stjóri“

Sólveig Anna Jónsdóttir er hætt sem formaður Eflingar. Hún segir sig og samstarfsfólk sitt hafa náð ótrúlegum árangri í baráttu sinni fyrir bættum kjörum verka- og láglaunafólks en að starfsfólk Eflingar hafi ekki skilið baráttuna. Krafa hafi verið uppi innan félagsins um að aðflutt fólk aðlagaði sig að því frekar en félagið að fólkinu. Á endanum hafi hópur óánægðra starfsmanna bolað henni í burtu. Græðgi og sjálftökustemning sé í kringum Eflingu sem sé nokkurs konar ríki í ríkinu.

Við náðum ótrú­legum árangri. Og við náðum honum vegna þess að minn mál­flutn­ingur og þau mál sem við erum að berj­ast fyrir eru stað­sett að öllu leyti í efna­hags­legum veru­leika verka- og lág­launa­fólks. 

Starfs­fólk Efl­ingar skildi ekki hvað ég var að segja við þau á þessum fundi á föstu­dag­inn. Þau skildu aldrei þessa bar­áttu. Þau settu sig aldrei inn í hana af þeirri dýpt sem þarf til að skilja hana. Á end­anum held ég að það sé vegna þess að þau við­ur­kenna ekki og skilja ekki þær aðstæður sem verka- og lág­launa­fólk innan Efl­ingar býr við. Og þau við­ur­kenna ekki og skilja þann sam­fé­lags­lega raun­veru­leika sem við búum við. Þau við­ur­kenna ekki og skilja ekki það eign­ar­hald sem auð­stéttin hefur á þessu sam­fé­lagi og þar með við­ur­kenna þau og skilja ekki að til þess að ná árangri þá þarf að sýna þrek og þor og hug­rekki og kapp­sem­i.“

Þetta segir Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, ný fyrr­ver­andi for­maður Efl­ing­ar, sem sagði af sér for­mennsku í stétt­ar­fé­lag­inu fyrir tæpri viku síð­an. Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Efl­ingar og nán­asti sam­starfs­maður henn­ar, sagði í kjöl­farið upp störf­um. 

Héngum yfir hyl­dýpi

Sú atburða­rás sem leiddi til afsagnar Sól­veigar Önnu hófst fimmtu­dag­inn 28. októ­ber þegar RÚV birti við­­tal við Guð­­mund Bald­­ur­s­­son, stjórn­­­ar­­mann í Efl­ingu, þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að álykt­un­ sem afhent hefði verið í júní síð­ast­liðnum og inni­hélt ásak­anir um að hún héldi úti sér­stökum „af­töku­lista“ og hefði framið grafal­var­leg kjara­samn­ings­brot. Álykt­unin var und­ir­­rit­uð af trún­­að­­ar­­mönnum og sögð sett fram fyrir hönd starfs­­manna. Guð­mundur sagði í frétt­inni að hann hefði áhyggjur af fram­komu stjórn­­enda Efl­ingar gagn­vart starfs­­fólki. Tal­aði hann meðal ann­­ars um að starfs­­fólk sem hefði hætt hjá Efl­ingu hefði talið sér „að ein­hverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógn­­ar­­stjórn.“

Sól­veig Anna er mjög skýr með það að með álykt­un­inni sem sett var fram í júní hafi vopnin sem hún telur nauð­syn­leg til að sinna því starfi sem hún var kosin til að sinna verið slegin úr hönd­unum á henni. „Á þessum árum síðan ég var kosin þá hef ég þurft að eyða miklum tíma og orku í að verj­ast allskyns ásök­un­um. Þegar þessi ályktun kom þá héngum við Viðar yfir ein­hvers­konar hyl­dýpi og það væri hægt að sleppa okkur hvenær sem er með því að birta álykt­un­ina opin­ber­lega, enda er hún und­ir­rituð af trún­að­ar­mönnum og inni­heldur ósannar og grafal­var­legar ásak­an­ir. Þá gætum við ekki varið okk­ur.“ 

Þegar sím­tal hafi borist frá frétta­manni RÚV í aðdrag­anda birt­ingu frétt­ar­innar hafi Sól­veig Anna áttað sig á því að atburða­rásin sem hún hafði að ein­hverju leyti verið að und­ir­búa sig undir að gæti orð­ið, væri að verða að veru­leika. „Ég hug­leiddi bara stöðu mína og þær aðstæður sem voru upp komnar og komst að þeirri nið­ur­stöðu að það væri ekk­ert annað að gera. Ég taldi mig vita með vissu að á þessum tíma væru mjög fáir úr starfs­manna­hópn­um, alls fimm manns auk nokk­urra stjórn­enda, sem hefðu séð þessa álykt­un. Ég taldi mig vita að það væru fáir sem hefðu komið að því að skrifa hana og að hún hefði ekki farið í neina dreif­ingu innan starfs­manna­hóps­ins. Af ein­hverjum ástæðum virð­ist Guð­mundur Bald­urs­son hafa fengið ein­hvers­konar aðgang eða veður af þessu og sömu­leiðis fyrr­ver­andi stjórn­andi sem reyndi að nota álykt­un­ina til að fjár­kúga mjög veg­legan starfs­loka­samn­ing út úr félaginu.“ 

Ekki krafa, heldur bón

Sól­veig Anna segir að hún hafi ekki verið að krefj­ast neins þegar hún ávarp­aði starfs­menn á föstu­dags­morg­un­inn og hafi tekið það skýrt fram. Hún hafi sömu­leiðis sagst skilja ef þau vildu ekki gera það sem hún var að biðja um. „En ég von­að­ist til þess að flestir starfs­menn, sem höfðu ekki séð álykt­un­ina, myndu hugsa með sér þegar það gerð­ist að það sem fram er haldið í henni stæð­ist enga skoð­un. Á þeim grund­velli bað ég um lág­marks­trausts­yf­ir­lýs­ingu. Það hefði í raun verið hægt að setja hana fram í einni setn­ingu: Á skrif­stofu Efl­ingar ríkir ekki ógn­ar­stjórn.“

Aukin róttækni og vilji til aðgerða á borð við verkfalla fylgdi komu Sólveigar Önnu inn í verkalýðsbaráttuna. Hér sést hún við verkfallsgæslu þegar starfsmenn hótela lögðu niður störf.
Mynd: Bára Huld Beck

Eftir að hafa ávarpað starfs­fólk hafi hún farið inn á skrif­stof­una sína nálægt fund­ar­rým­inu þar sem starfs­menn ræddu saman um beiðni henn­ar. „Svo þegar líður aðeins frá þá heyri ég að þau eru að fara í kaffi og að fá sér vöffl­ur. Ég heyri hlátra­sköll og þá rennur upp fyrir mér þetta ljós að þau myndu ekki vilja lið­sinna mér. Þá ákvað ég að fara heim vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að sitja þarna leng­ur. Svo liðu tveir tímar í við­bót og þá kom þessi texti ann­ars vegar sem sendur var til RÚV þar sem ekk­ert var borið til baka og hins vegar sem var sendur til stjórn­enda þar sem ég var sögð ósann­gjörn að hafa beðið um þetta og því haldið fram að inni­hald álykt­un­ar­innar ætti rétt á sér. Þar er því líka haldið fram að ekk­ert hafi verið gert og ekki hafi verið brugð­ist við. Það er bara ósatt og ég á gögn um sam­skipti sem sýna fram á ann­að.“

Henni, og helsta sam­starfs­fólki henn­ar, hafi orðið ljóst að ef álykt­unin yrði gerð opin­ber myndi þau ekki getað starfað leng­ur. „Það myndi þessi her­ferð sem rekin hefur verið gegn okkur víða að loks­ins ná þessum raun­veru­lega árangri að við hefðum á end­anum engan trú­verð­ug­leika.“

Litu á COVID-á­lag sem kjara­bætur

Að sögn Sól­veigar Önnu var starfs­manna­fund­ur­inn ekki settur á ein­ungis til að hún gæti ávarpað starfs­fólk.

Hann hafði lengi verið á dag­skrá. Á meðal þess sem átti að ræða var nið­ur­staða starfs­á­nægjukann­ana og hún segir að nið­ur­staða slíkra kann­ana sem gerðar hafi verið á hennar tíma í for­manns­stóli hjá Efl­ingu hafi sýnt að starfs­á­nægja væri almennt yfir með­al­lagi í sam­an­burði við önnur fyr­ir­tæki og stofn­anir sem geri sam­bæri­legar kann­an­ir. „Allar aðstæður á skrif­stof­unni eru mjög góð­ar. Þarna eru eig­in­lega allir starfs­menn með laun yfir 700 þús­und krónur á mán­uði, líka ósér­hæft skrif­stofu­fólk. Það er ókeypis heitur matur á hverjum degi. Það eru fullir ísskápar af mjólk­ur­vör­um. Það eru allar skúffur fullar af kexi. Það eru allir með sér skrif­stofur og öllu vinnu­tól til algjörar fyr­ir­mynd­ar. Það eru árs­há­tíð­ar­ferðir til útlanda. Það er mjög ríf­leg stytt­ing vinnu­vik­unnar við lýði og frjáls­leg umgengi um vinnu­tíma. Fólk getur komið og farið nokkuð frjáls­lega. Aldrei nokkru sinni frá því að ég kom þarna inn hef ég, eða Viðar sem var minn und­ir­mað­ur, farið fram með ein­hverjum hót­unum um að við ætl­uðum að taka eitt­hvað af fólki. Þvert á mót­i.“ 

Í því sam­hengi nefnir hún að sér­stakt COVID-á­lag hafi verið greitt, alls 36 þús­und krónur á mán­uði, allan þann tíma sem þvinguð heima­vinna vegna far­ald­urs­ins stóð yfir. „Það var ég sem lagði það til og kom því á. Þegar það var tekið í burtu eftir að ástandið breytt­ist og fólk var ekki jafn mikið að vinna heima hjá sér þá varð fólk mjög ósátt og leit svo á að það væri að verða fyrir ein­hverri kjara­skerð­ing­u.“

Hópi innan Efl­ingar sem sé upp­sigað við hana og Viðar

Hún lýsir ástand­inu sem skap­að­ist eftir fram­lagn­ingu álykt­un­ar­innar í júní, sem enn hefur ekki birst opin­ber­lega, sem gísla­töku­á­standi. Það hafi komið henni í opna skjöldu hversu tryll­ings­legt orða­lagið var, hversu ofstæk­is­fullt það var, og hversu mann­orðs­rústandi það var að hennar mati. „Orðið „af­töku­listi“ brennd­ist bara inn í huga mér.“

„Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu“

Hópur fólks sem var ráðinn inn til Eflingar eftir að Sólveig Anna og Viðar tóku við stjórnartaumunum en var síðar látið fara hefur gagnrýnt þau harðlega á opinberum vettvangi. Maxim Baru, fyrrverandi sviðsstjóri félagssviðs Eflingar, sakaði þau til að mynda um útlendingaandúð og í opnu bréfi sem Christina Milcher, fyrrverandi starfsmaður Eflingar, skrifaði til þeirra sagði hún þau hafa beitt sig einelti og ofbeldi.

Sólveig segir þennan hóp hafa verið ungt, lífsleitt millistéttarfólk sem tilheyri ekki stétt vinnuaflsins og aðhyllist anarkó-syndikalisma. „Þetta er fólk sem gat ekki og ætlaði sér aldrei að virða lýðræðislega ferla innan félagsins. Það var með sín eigin hliðarmarkmið. Það er alveg augljóst að þetta fólk hefur ekki notið neinnar velgengni í sínum verkefnum í þessu samfélagi hér.“

Samt sem áður er um að ræða fólk sem hún réð til starfa. Sólveig Anna segir að það hafi gerst á fölskum forsendum. „Ég réði Maxim Baru vissulega til starfa. Hann bara laug á ferilskránni og ég hef gögn sem sýna fram á það. Ég fór að fá aðstoðarbeiðnir frá fólki í Kanada frá fólki og samtökum sem höfðu lent í þessum manni þar sem hann réð sig til starfa. Á sex mánuðum var hann búinn að rústa öllu þar. Ég er með öll þessi gögn.

Þetta fólk er líka uppfullt af þessari græðgi og sjálftökustemningu sem er svo tryllingsleg í kringum þessa hreyfingu. Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu. Þetta er ekki opinber stofnun og engin sem kemur og segir að það þurfi að fara í niðurskurð eða annað slíkt. Hún er bara sjálfsþjónandi fyrirbæri sem er áskrifandi að peningum. Maxim Baru og hans fólk, þau bara spottuðu þetta. Hann var hálaunastjórnandi hjá okkur og fór að ráða hirð í kringum sig. Erlenda fólkið sem hefur verið með gagnrýni á okkur er að uppistöðu úr þeirri hirð.“

Í fyrradag birtist frétt á RÚV þar sem ​​fjallað var um kvartanir fyrrverandi starfsfólks um slæman starfsanda, mikla starfsmannaveltu og ámælisverða hegðun Viðars gagnvart kvenkyns starfsfólki. Þar sagði meðal annars að Viðar hefði með símtali sagt upp starfsmanni þar sem hann var rúmfastur í öndunarerfiðleikum vegna COVID.

Sólveig Anna segir ótrúlegt að RÚV fari fram með nafnlausar ásakanir gagnvart nafngreindri manneskju eins og þar hafi verið gert gagnvart Viðari. „Það var búið að reyna allt sem hægt var að gera til að takast á við stórkostleg vandamál sem komu strax í ljós frá fyrsta degi hjá þessum starfsmanni. Það var búið að fara í kostnaðarsamar aðgerðir fyrir félagið til að vinna úr alvarlegum vandamálum sem framferði starfsmannsins orsakaði inni á vinnustaðnum. Það var búið að leggja í kostnaðarsama ráðgjöf fyrir starfsmanninn. Það var vilji til staðar hjá okkur að finna starfsmanninum annað hlutverk innan félagsins en eftir samtöl þá varð ekki úr því og því var viðkomandi sagt upp. Þetta gerðist vissulega í COVID og það getur verið að viðkomandi hafi verið veikur þegar uppsögnin átti sér stað, en þetta átti sér langan aðdraganda.“

Sólveig Anna segir að það sé ekki satt sem fram komi í frétt RÚV, að henni hafi verið sýndar ásakanir sérstaklega framsettar af átta konum. „Mér var af mannauðsstjóra sýndar kvartanir í mars. Þær voru ódagsettar. Það voru engin nöfn sem fylgdu með. Það var engin leið til dæmis að sjá hvers kyns þeir sem settu fram kvartanirnar voru. Þetta var einfaldlega samansafn kvartana um mál sem geta komið upp á vinnustöðum. Að láta það líta út að þarna sé eitthvað sem eigi sér stað með kynbundnum hætti er ótrúlegt.“

Hún hafi samt sem áður tekið þetta alvarlega. Hún hafi litið svo á að þarna væri um endurgjöf vegna starfa Viðars að ræða og að hún hafi komið henni á framfæri við hann. „Svo átta ég mig á því að þessar umkvartanir sem mér voru sýndar þarna, þeim var safnað saman af óánægðum stjórnanda. Svo er þetta sett fram í kjölfarið með þessum hætti til mín. Annarlegur tilgangur segir ég.“

Sól­veig Anna seg­ist eiga erfitt með að átta sig á því í hvaða sam­hengi það hug­tak hafi verið sett fram. Það sem hafi þó teikn­ast upp fyrir henni með afskap­lega skýrum hætti sé að það sé hópur starfs­fólks innan Efl­ingar sem sé afskap­lega upp­sigað við hana og Við­ar. „Svo held ég að það fari af stað ein­hvers­konar múgæs­ing. Það er auð­vitað erfitt fyrir mig að lýsa því sem að fólk er að segja inni á vinnu­staðnum hvert við ann­að. En ég ætla samt að segja að ég tel að þessi her­ferð, þessi vagn sem þarna er settur af stað, hann hafi verið dreg­inn af fremur fámennum hópi. Aðrir hafi svo fylgt í kjöl­farið og ekki viljað standa gegn þessu.

Ástæðan er sú að ég hef ekki notið fullrar sam­hygðar og rétt­inda sem mann­eskja inni á vinnu­staðn­um. Ég er ekki innan úr þess­ari hreyf­ingu, ég kem að utan. Við Viðar erum mjög kapp­söm og mark­miða­sett. Erum vinnu­söm, með mikið starfs­þrek og mikla orku. Það kannski gerir það að verk­um, ásamt rót­tækri orð­ræðu, að ég varð jað­ar­sett innan vinnu­stað­ar­ins.“

Sólveig Anna og Agnieszka Ewa Ziółkowska, sem tók við formennsku af henni og varð um leið fyrsti formaður Eflingar sem er af erlendu bergi brotinn.
Mynd: Efling

Hóp­ur­inn sem hún telur standa að baki þessu er bland­aður að mati Sól­veigar Önnu. Hann sam­anstendur af fólki sem var fyrir á skrif­stofu Efl­ingar þegar hún tók við og af fólki sem var ráðið inn af henni og Við­ari. „Ég hef ekki komið að ráðn­ingum nema að litlu leyti og ég hef aldrei ætl­ast til þess að mér per­sónu­lega sé sýnd ein­hver yfir­gengi­leg holl­usta. Þvert á móti. Það sem ég hef ætl­ast til er að þessu verk­efni sem ég stend fyr­ir, að því sé sýnd holl­usta. Að það sé við­ur­kennt af fólki að verk­efnið skipti mestu máli.“

„Þetta fólk á bara að læra íslensku“

Það verk­efni hafi verið tví­þætt. Ann­ars vegar að gera Efl­ingu að bar­áttu­sam­tökum fyrir þá sem greiða félags­gjöld­in, verka- og lág­launa­fólks á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Og hins vegar að taka alla þjón­ust­una í gegn. „Þegar ég var í þess­ari kosn­inga­bar­áttu 2018 þá fór ég af stað með mjög rót­tæka orð­ræðu og rót­tækt plat­form sem var efna­hags­legt fyrst og fremst. En á öllum þeim fundum sem ég fór á og í sam­tölum við félags­fólk kom það í ljós með mjög skýrum hætti að krafa fólks var sú að þjón­usta félags­ins yrði mjög ræki­lega tekin í gegn.“

Það átti sér­stak­lega við gagn­vart aðfluttu fólki, sem í dag er um helm­ingur félags­manna í Efl­ingu. „Ég horfð­ist í augu við það og átt­aði mig á því að ekki aðeins var aðflutt fólk á hrika­lega slæmum stað hvað varðar laun og hús­næð­is­að­stæður heldur gat það raun­veru­lega ekki haft neinn aðgang að félag­inu. Það var engin virð­ing eða við­ur­kenn­ing á því inni í þessu skrif­stofu­virki að þessi stóri hóp­ur, helm­ingur félags­fólks, ætti alla heimt­ingu á því að geta bara ávallt fengið alla þá þjón­ustu sem það ætti rétt á og líka fulla heimt­ingu á því að geta tekið þátt í starfi félags­ins.“

Sól­veig Anna rifjar upp eitt dæmi um þetta verk­efni sem mætti þeim strax og hún og Viðar komu til starfa hjá Efl­ingu. Þá hafi verið haldin starf­manna­fundur þar sem þau lýstu því að þessar breyt­ingar stæðu til. „Þá var bara hálaun­aður starfs­maður skrif­stof­unnar sem rétti upp hönd og segir „ég er ekki sam­mála þessu. Þetta fólk á bara að læra íslensku“ og svo fram­veg­is. Þetta við­mót hefur verið mjög raun­veru­legt innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar í heild. Þessi full­yrð­ing mín er mjög auð­sann­an­leg vegna þess að það er ekki fyrr en við komum þarna inn að hreyf­ingin í heild fór að taka til í þessu mjög mark­visst. Að hún fór að við­ur­kenna og elta okkar for­dæmi. Að við­ur­kenna að þetta aðflutta fólk eru ekki bara ein­hverjir far­and­verka­menn og eitt­hvað fólk sem kemur og fer, heldur sest hérna að og eru þátt­tak­endur í sam­fé­lag­inu. Að hreyf­ingin eigi að vera fyrir það og eigi að þjón­usta það á allan hátt.“

Krafa um að aðflutt fólk aðlag­aði sig að hreyf­ing­unni, ekki öfugt

Var þá útlend­inga­andúð í hreyf­ing­unni?

„Í mis­miklu mæli. En já, ég myndi segja það og byggi mál­flutn­ing minn á þeim efn­is­lega raun­veru­leika sem við búum við. Ef það hefði verið við­ur­kennt að þessi hópur ætti að njóta alls þess sem hann á inni hjá þess­ari hreyf­ingu, þá hefði ekki þurft að bíða eftir að ný for­ysta kæmi. Krafan hafi verið sú að aðflutta fólkið aðlag­aði sig að hreyf­ing­unni í stað þess að hreyf­ingin aðlag­aði sig að þeirra stöð­u.“ 

Hætti að tala um mig með nafni og kallaði mig „konuna“

Sól­veig Anna sagði frá því í vikunni að einn af karl­kyns starfs­mönnum skrif­stofu Efl­ingar hafi „lýst því yfir við annan starfs­mann að hann væri mjög reiður út í mig og væri að hugsa um að fara heim til mín og vinna mér þar skaða sem ekki var lýst nánar en var aug­ljós­lega ein­hvers konar ofbeld­i.“ Hún hefur ekki tilgreint nánar hvað það var sem maðurinn ætlaði að gera henni en í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún að maðurinn, sem hafi verið ósáttur með að hafa ekki fengið stöðuhækkun, hefði lýst því að hann „hefði í tvö ár rispað bíl manns sem honum var illa við. Það sannaði að honum væri alvara og að hann væri fær um að fremja glæp. Hann bætti því við, að hann hefði ekki áhyggjur af að verða dæmdur í fangelsi vegna þess sem hann kynni gera mér, af því að jafnvel þó að hann yrði dæmdur þá þyrfti hann aldrei að sitja inni, þar sem hann væri með hreint sakavottorð.“

„Þegar mér er tilkynnt um þetta, þessa brjálsemi um að þarna væri maður sem kynni svona illa við mig, væri hættur að tala um mig með nafni heldur kalli mig „konuna“, sem gekk á milli starfsfólks og segið að ég væri fífl og fáviti sem kynni ekki neitt og væri núna farinn að stíga skrefinu lengra og farinn að orða fyrirætlanir sínar um að koma heim til mín og gera mér mein, þá var það mjög erfitt. Þetta var og er allt raunverulegt, staðfest. Ég fæ þessa vitneskju og var mjög brugðið. Ég tók mér marga daga í að íhuga hvað ég ætti að gera. Og aldrei hugsaði ég hvort það ætti að segja honum upp, vegna þess að ég vissi alveg að það myndi ekki geta gerst. Staða mín innan skrifstofunnar væri það slæm. Ég kemst svo að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög alvarlegt, að maðurinn væri farinn að orða þessa óra sína. Að heiftin væri svo mikil að hann geti ekki hamið sig um að lýsa því í frekar miklum smáatriðum að hann ætli að gera þetta. Að hann hafi áður framið glæp og hafi ekki áhyggjur af því að vera dæmdur vegna þess að hann væri með hreint sakavottorð. Ég hugsaði að ég gæti ekki boðið fjölskyldunni minni upp á þetta. Dóttir mín er 21 árs býr á þessu heimili. Átti ég að segja við hana að við værum í einhverskonar umsátursástandi?“

Hún segist síðar hafa fengið vitneskju um það að manneskjan sem að hefði móttekið hótunina í smáatriðum, og brugðið svo mikið að hún sagði tveimur öðrum samstarfsmönnum frá, hafi ekki viljað skaða vinnusamband sitt við umræddan mann. Því myndi hún ekki standa við frásögn sína. „Þá ákvað ég að ég gæti ekkert gert án þess að þessi ályktun trúnaðarmanna um að ég væri með „aftökulista“ yrði dregin fram og sett í það samhengi að þessi maður sem væri að hóta mér ofbeldi væri á honum. Það kom svo í ljós núna eftir að ég sagði frá þessu. Þá er sagt að ég sé að ljúga. Að þetta sé uppspuni frá rótum og enginn kannast allt í einu neitt við þetta. Þrátt fyrir að ég sé með þessa frásögn staðfesta í tölvupósti og hafi látið færa það til bókar hjá lögreglunni.“

Sólveig Anna segir að hún hafi haft samband við lögreglu nokkru áður en sú atburðarás sem leiddi til afsagnar hennar hófst í lok október.

Aðspurð um hvað þau hafi nákvæm­lega gert til að aðlaga þjón­ustu Efl­ingar að þörfum aðflutts fólks segir Sól­veig Anna að þau hafi strax gert kröfu um menn­ing­ar­læsi í við­móti á skrif­stof­unni. „Þarna unnum við mikið frum­kvöð­uls­starf. Við fórum strax í það að tryggja að allir fundir sem við höldum yrðu texta­túlk­að­ir. Við förum strax í það að láta þýða fullt af efni. Svo förum við í að útbúa heima­síð­una og „mínar síð­ur“ innan hennar þannig að fólk geti nálg­ast efni á íslensku, ensku og pólsku. Þetta hefur ver­ið, ásamt okkar mark­vissu og rót­tæku kjara­bar­áttu, þá hefur þetta verið það verk­efni sem ég hef verið mjög upp­tekin af að sé sinnt af fullum heil­indum gagn­vart félags­fólki Efl­ing­ar.“

Hún segir að strax í upp­hafi COVID-far­ald­urs­ins hafi farið að heyr­ast raddir víða í sam­fé­lag­inu um að það þyrfti að stöðva samn­ings­bundnar launa­hækk­anir og taka kjara­samn­ing­anna úr sam­bandi. „Ekki bara frá stjórn­völdum og Sam­taka atvinnu­lífs­ins, heldur líka ann­ars stað­ar. Ég sagði ein­fald­lega: ég mun aldrei gera þetta. Ég skrif­aði undir lífs­kjara­samn­ing­inn með blóði, svita og tárum, bæði mínum eigin og minna félags­manna. Ef þetta yrði tekið úr sam­bandi myndi ég fara með það í atkvæða­greiðslu innan Efl­ing­ar. Ég full­yrði, og mun full­yrða það hvar sem er, að þessi afdrátt­ar­lausa afstaða mín, með stuðn­ingi stjórnar Efl­ing­ar, að það myndi aldrei verða tekin króna af, hún varð til þess að ná þeirri nið­ur­stöðu að þetta yrði ekki gert og að tryggja að samn­ing­arnir myndu halda.“

Skrifað var undir lífskjarasamninganna í apríl 2019. Þeir tryggðu krónutöluhækkanir og þeir sem voru með lægstu launin, fengu mest.
Mynd: ASÍ

Þegar hún er spurð hvort þetta hafi verið raddir innan úr verka­lýðs­hreyf­ing­unni sagði hún þetta hafa verið vanga­veltur þaðan um að þessar leiðir væru mögu­lega það rétta í stöð­unni. „Við þurftum að taka þennan slag aftur og aftur og aftur til að kveða þetta nið­ur. Við ætl­uðum ekki að vega að efna­hags­legum rétt­indum verka- og lág­launa­fólks.“

Stærstu mis­tökin að vera ekki meira „kall­inn“

Þegar hún er spurð hvort hún hafi ekki gert ein­hver mis­tök í þessu ferli gengst Sól­veig Anna við því að hafa gert slík. „Mi­s­tökin sem ég gerði voru að vera ekki meira „kall­inn“, að vera ekki meiri „stjóri stjóri“. En ég gat það samt ekki. Ég á mjög erfitt með að leika eitt­hvað hlut­verk. Get ekki þóst vera ein­hver „kall“. En það voru á end­anum stóru mis­tök­in.

Þá hefði ég kannski ekki þurft að takast á við þetta eins og ég hef gert. Það var bara svo rík löngum hjá mér að láta hlut­ina ganga og búa ekki til eitrað ástand. En það er mjög mikið umburð­ar­lyndi innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar fyrir lágum stand­ard. Og mjög mikið umburð­ar­lyndi fyrir lágum stand­ard almennt í íslensku sam­fé­lagi. Ég vinn ekki þannig gagn­vart sjálfri mér né öðr­um. Ég vil að hlut­irnir séu gerðir vel og gerðir rétt. Ég vildi óska þess að ég hefði beitt mér öðru­vísi og ekki af svona mik­illi með­virkni gagn­vart mis­tökum og rugli sem ég ákvað að takast ekki á við vegna þess að ég var hrædd við þær afleið­ingar sem það myndi hafa.“

Ekki búin að ákveða næstu skref

Í stöðu­upp­færsl­unni þar sem Sól­veig Anna til­kynnti afsögn sína sagði hún líka að hún ætl­aði aldrei að hætta í bar­áttu fyrir rétt­læti fyrir þá sem til­heyrum stétt verka- og lág­launa­fólks og þekkja lífið undir oki auð­valds­kerf­is­ins og lág­launa­stefn­unn­ar. Aðspurð um hvað þetta þýði, og hvort hún sé að boða end­ur­komu inn í stétt­ar­fé­lags­bar­áttu innan tíð­ar, segir Sól­veig Anna ekki vera komin þang­að. „Ég er að vinna mig í gegnum þetta áfall að vera hrakin burt úr emb­ætti for­manns Efl­ingar sem ég tel mig hafa notið nær afdrátt­ar­lauss stuðn­ings félags­manna til að gegna. Og ég ætla bara að fá að vera þar. Eina ákvörð­unin sem ég hef tekið er að klára loks­ins ævi­sögu Rosu Lux­emburg, sem er mik­ill doðrant­ur.“

Sólveig Anna ásamt Viðari Þorsteinssyni, nánasta samstarfsmanni hennar, skömmu eftir að þau komu til starfa hjá Eflingu.
Mynd: Efling

Þegar spurn­ingin er ítrekuð og spurt hvort það komi til greina að hún bjóði sig aftur fram seg­ist Sól­veig Anna ekki vera búin að ákveða neitt. Hún skilji þó að það séu bolla­legg­ingar um hvort hún muni fara aftur fram í kom­andi for­manns­kosn­ingum í Efl­ingu, sem þurfa að fara fram fyrir lok mars á næsta ári. „Ég hef fengið gríð­ar­legt magn af skila­boðum frá alls­konar fólki sem lýsir yfir upp­námi yfir því að þetta sé að ger­ast og inn­takið í þessum skila­boðum frá félags­fólki Efl­ingar er ein­beitt ósk um að þetta megi ekki vera að ger­ast. Það er ekki vegna þess að þeim finnst ég svo skemmti­leg mann­eskja, heldur út af þeim árangri sem hefur náðst. Og vegna þess að það fólk sem ég hef unnið með, til dæmis í samn­inga­nefnd­um, veit að ég gefst ekki upp. Ég segi alltaf satt og rétt frá og leita alltaf eftir lýð­ræð­is­legu umboði fyrir því sem ég geri og hef reynt að vera alltaf til staðar fyrir félags­fólk. En ég lít svo á núna að ég geti ekki hugsað lengra fram í tím­ann en einn dag í einu núna. Ég er bara þar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar