Mistökin sem ég gerði voru að vera ekki meira „kallinn“, að vera ekki meiri „stjóri stjóri“
Sólveig Anna Jónsdóttir er hætt sem formaður Eflingar. Hún segir sig og samstarfsfólk sitt hafa náð ótrúlegum árangri í baráttu sinni fyrir bættum kjörum verka- og láglaunafólks en að starfsfólk Eflingar hafi ekki skilið baráttuna. Krafa hafi verið uppi innan félagsins um að aðflutt fólk aðlagaði sig að því frekar en félagið að fólkinu. Á endanum hafi hópur óánægðra starfsmanna bolað henni í burtu. Græðgi og sjálftökustemning sé í kringum Eflingu sem sé nokkurs konar ríki í ríkinu.
Við náðum ótrúlegum árangri. Og við náðum honum vegna þess að minn málflutningur og þau mál sem við erum að berjast fyrir eru staðsett að öllu leyti í efnahagslegum veruleika verka- og láglaunafólks.
Starfsfólk Eflingar skildi ekki hvað ég var að segja við þau á þessum fundi á föstudaginn. Þau skildu aldrei þessa baráttu. Þau settu sig aldrei inn í hana af þeirri dýpt sem þarf til að skilja hana. Á endanum held ég að það sé vegna þess að þau viðurkenna ekki og skilja ekki þær aðstæður sem verka- og láglaunafólk innan Eflingar býr við. Og þau viðurkenna ekki og skilja þann samfélagslega raunveruleika sem við búum við. Þau viðurkenna ekki og skilja ekki það eignarhald sem auðstéttin hefur á þessu samfélagi og þar með viðurkenna þau og skilja ekki að til þess að ná árangri þá þarf að sýna þrek og þor og hugrekki og kappsemi.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, ný fyrrverandi formaður Eflingar, sem sagði af sér formennsku í stéttarfélaginu fyrir tæpri viku síðan. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar og nánasti samstarfsmaður hennar, sagði í kjölfarið upp störfum.
Héngum yfir hyldýpi
Sú atburðarás sem leiddi til afsagnar Sólveigar Önnu hófst fimmtudaginn 28. október þegar RÚV birti viðtal við Guðmund Baldursson, stjórnarmann í Eflingu, þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að ályktun sem afhent hefði verið í júní síðastliðnum og innihélt ásakanir um að hún héldi úti sérstökum „aftökulista“ og hefði framið grafalvarleg kjarasamningsbrot. Ályktunin var undirrituð af trúnaðarmönnum og sögð sett fram fyrir hönd starfsmanna. Guðmundur sagði í fréttinni að hann hefði áhyggjur af framkomu stjórnenda Eflingar gagnvart starfsfólki. Talaði hann meðal annars um að starfsfólk sem hefði hætt hjá Eflingu hefði talið sér „að einhverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógnarstjórn.“
Sólveig Anna er mjög skýr með það að með ályktuninni sem sett var fram í júní hafi vopnin sem hún telur nauðsynleg til að sinna því starfi sem hún var kosin til að sinna verið slegin úr höndunum á henni. „Á þessum árum síðan ég var kosin þá hef ég þurft að eyða miklum tíma og orku í að verjast allskyns ásökunum. Þegar þessi ályktun kom þá héngum við Viðar yfir einhverskonar hyldýpi og það væri hægt að sleppa okkur hvenær sem er með því að birta ályktunina opinberlega, enda er hún undirrituð af trúnaðarmönnum og inniheldur ósannar og grafalvarlegar ásakanir. Þá gætum við ekki varið okkur.“
Þegar símtal hafi borist frá fréttamanni RÚV í aðdraganda birtingu fréttarinnar hafi Sólveig Anna áttað sig á því að atburðarásin sem hún hafði að einhverju leyti verið að undirbúa sig undir að gæti orðið, væri að verða að veruleika. „Ég hugleiddi bara stöðu mína og þær aðstæður sem voru upp komnar og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert annað að gera. Ég taldi mig vita með vissu að á þessum tíma væru mjög fáir úr starfsmannahópnum, alls fimm manns auk nokkurra stjórnenda, sem hefðu séð þessa ályktun. Ég taldi mig vita að það væru fáir sem hefðu komið að því að skrifa hana og að hún hefði ekki farið í neina dreifingu innan starfsmannahópsins. Af einhverjum ástæðum virðist Guðmundur Baldursson hafa fengið einhverskonar aðgang eða veður af þessu og sömuleiðis fyrrverandi stjórnandi sem reyndi að nota ályktunina til að fjárkúga mjög veglegan starfslokasamning út úr félaginu.“
Ekki krafa, heldur bón
Sólveig Anna segir að hún hafi ekki verið að krefjast neins þegar hún ávarpaði starfsmenn á föstudagsmorguninn og hafi tekið það skýrt fram. Hún hafi sömuleiðis sagst skilja ef þau vildu ekki gera það sem hún var að biðja um. „En ég vonaðist til þess að flestir starfsmenn, sem höfðu ekki séð ályktunina, myndu hugsa með sér þegar það gerðist að það sem fram er haldið í henni stæðist enga skoðun. Á þeim grundvelli bað ég um lágmarkstraustsyfirlýsingu. Það hefði í raun verið hægt að setja hana fram í einni setningu: Á skrifstofu Eflingar ríkir ekki ógnarstjórn.“
Eftir að hafa ávarpað starfsfólk hafi hún farið inn á skrifstofuna sína nálægt fundarrýminu þar sem starfsmenn ræddu saman um beiðni hennar. „Svo þegar líður aðeins frá þá heyri ég að þau eru að fara í kaffi og að fá sér vöfflur. Ég heyri hlátrasköll og þá rennur upp fyrir mér þetta ljós að þau myndu ekki vilja liðsinna mér. Þá ákvað ég að fara heim vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að sitja þarna lengur. Svo liðu tveir tímar í viðbót og þá kom þessi texti annars vegar sem sendur var til RÚV þar sem ekkert var borið til baka og hins vegar sem var sendur til stjórnenda þar sem ég var sögð ósanngjörn að hafa beðið um þetta og því haldið fram að innihald ályktunarinnar ætti rétt á sér. Þar er því líka haldið fram að ekkert hafi verið gert og ekki hafi verið brugðist við. Það er bara ósatt og ég á gögn um samskipti sem sýna fram á annað.“
Henni, og helsta samstarfsfólki hennar, hafi orðið ljóst að ef ályktunin yrði gerð opinber myndi þau ekki getað starfað lengur. „Það myndi þessi herferð sem rekin hefur verið gegn okkur víða að loksins ná þessum raunverulega árangri að við hefðum á endanum engan trúverðugleika.“
Litu á COVID-álag sem kjarabætur
Að sögn Sólveigar Önnu var starfsmannafundurinn ekki settur á einungis til að hún gæti ávarpað starfsfólk.
Hann hafði lengi verið á dagskrá. Á meðal þess sem átti að ræða var niðurstaða starfsánægjukannana og hún segir að niðurstaða slíkra kannana sem gerðar hafi verið á hennar tíma í formannsstóli hjá Eflingu hafi sýnt að starfsánægja væri almennt yfir meðallagi í samanburði við önnur fyrirtæki og stofnanir sem geri sambærilegar kannanir. „Allar aðstæður á skrifstofunni eru mjög góðar. Þarna eru eiginlega allir starfsmenn með laun yfir 700 þúsund krónur á mánuði, líka ósérhæft skrifstofufólk. Það er ókeypis heitur matur á hverjum degi. Það eru fullir ísskápar af mjólkurvörum. Það eru allar skúffur fullar af kexi. Það eru allir með sér skrifstofur og öllu vinnutól til algjörar fyrirmyndar. Það eru árshátíðarferðir til útlanda. Það er mjög rífleg stytting vinnuvikunnar við lýði og frjálsleg umgengi um vinnutíma. Fólk getur komið og farið nokkuð frjálslega. Aldrei nokkru sinni frá því að ég kom þarna inn hef ég, eða Viðar sem var minn undirmaður, farið fram með einhverjum hótunum um að við ætluðum að taka eitthvað af fólki. Þvert á móti.“
Í því samhengi nefnir hún að sérstakt COVID-álag hafi verið greitt, alls 36 þúsund krónur á mánuði, allan þann tíma sem þvinguð heimavinna vegna faraldursins stóð yfir. „Það var ég sem lagði það til og kom því á. Þegar það var tekið í burtu eftir að ástandið breyttist og fólk var ekki jafn mikið að vinna heima hjá sér þá varð fólk mjög ósátt og leit svo á að það væri að verða fyrir einhverri kjaraskerðingu.“
Hópi innan Eflingar sem sé uppsigað við hana og Viðar
Hún lýsir ástandinu sem skapaðist eftir framlagningu ályktunarinnar í júní, sem enn hefur ekki birst opinberlega, sem gíslatökuástandi. Það hafi komið henni í opna skjöldu hversu tryllingslegt orðalagið var, hversu ofstækisfullt það var, og hversu mannorðsrústandi það var að hennar mati. „Orðið „aftökulisti“ brenndist bara inn í huga mér.“
„Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu“
Hópur fólks sem var ráðinn inn til Eflingar eftir að Sólveig Anna og Viðar tóku við stjórnartaumunum en var síðar látið fara hefur gagnrýnt þau harðlega á opinberum vettvangi. Maxim Baru, fyrrverandi sviðsstjóri félagssviðs Eflingar, sakaði þau til að mynda um útlendingaandúð og í opnu bréfi sem Christina Milcher, fyrrverandi starfsmaður Eflingar, skrifaði til þeirra sagði hún þau hafa beitt sig einelti og ofbeldi.
Sólveig segir þennan hóp hafa verið ungt, lífsleitt millistéttarfólk sem tilheyri ekki stétt vinnuaflsins og aðhyllist anarkó-syndikalisma. „Þetta er fólk sem gat ekki og ætlaði sér aldrei að virða lýðræðislega ferla innan félagsins. Það var með sín eigin hliðarmarkmið. Það er alveg augljóst að þetta fólk hefur ekki notið neinnar velgengni í sínum verkefnum í þessu samfélagi hér.“
Samt sem áður er um að ræða fólk sem hún réð til starfa. Sólveig Anna segir að það hafi gerst á fölskum forsendum. „Ég réði Maxim Baru vissulega til starfa. Hann bara laug á ferilskránni og ég hef gögn sem sýna fram á það. Ég fór að fá aðstoðarbeiðnir frá fólki í Kanada frá fólki og samtökum sem höfðu lent í þessum manni þar sem hann réð sig til starfa. Á sex mánuðum var hann búinn að rústa öllu þar. Ég er með öll þessi gögn.
Þetta fólk er líka uppfullt af þessari græðgi og sjálftökustemningu sem er svo tryllingsleg í kringum þessa hreyfingu. Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu. Þetta er ekki opinber stofnun og engin sem kemur og segir að það þurfi að fara í niðurskurð eða annað slíkt. Hún er bara sjálfsþjónandi fyrirbæri sem er áskrifandi að peningum. Maxim Baru og hans fólk, þau bara spottuðu þetta. Hann var hálaunastjórnandi hjá okkur og fór að ráða hirð í kringum sig. Erlenda fólkið sem hefur verið með gagnrýni á okkur er að uppistöðu úr þeirri hirð.“
Í fyrradag birtist frétt á RÚV þar sem fjallað var um kvartanir fyrrverandi starfsfólks um slæman starfsanda, mikla starfsmannaveltu og ámælisverða hegðun Viðars gagnvart kvenkyns starfsfólki. Þar sagði meðal annars að Viðar hefði með símtali sagt upp starfsmanni þar sem hann var rúmfastur í öndunarerfiðleikum vegna COVID.
Sólveig Anna segir ótrúlegt að RÚV fari fram með nafnlausar ásakanir gagnvart nafngreindri manneskju eins og þar hafi verið gert gagnvart Viðari. „Það var búið að reyna allt sem hægt var að gera til að takast á við stórkostleg vandamál sem komu strax í ljós frá fyrsta degi hjá þessum starfsmanni. Það var búið að fara í kostnaðarsamar aðgerðir fyrir félagið til að vinna úr alvarlegum vandamálum sem framferði starfsmannsins orsakaði inni á vinnustaðnum. Það var búið að leggja í kostnaðarsama ráðgjöf fyrir starfsmanninn. Það var vilji til staðar hjá okkur að finna starfsmanninum annað hlutverk innan félagsins en eftir samtöl þá varð ekki úr því og því var viðkomandi sagt upp. Þetta gerðist vissulega í COVID og það getur verið að viðkomandi hafi verið veikur þegar uppsögnin átti sér stað, en þetta átti sér langan aðdraganda.“
Sólveig Anna segir að það sé ekki satt sem fram komi í frétt RÚV, að henni hafi verið sýndar ásakanir sérstaklega framsettar af átta konum. „Mér var af mannauðsstjóra sýndar kvartanir í mars. Þær voru ódagsettar. Það voru engin nöfn sem fylgdu með. Það var engin leið til dæmis að sjá hvers kyns þeir sem settu fram kvartanirnar voru. Þetta var einfaldlega samansafn kvartana um mál sem geta komið upp á vinnustöðum. Að láta það líta út að þarna sé eitthvað sem eigi sér stað með kynbundnum hætti er ótrúlegt.“
Hún hafi samt sem áður tekið þetta alvarlega. Hún hafi litið svo á að þarna væri um endurgjöf vegna starfa Viðars að ræða og að hún hafi komið henni á framfæri við hann. „Svo átta ég mig á því að þessar umkvartanir sem mér voru sýndar þarna, þeim var safnað saman af óánægðum stjórnanda. Svo er þetta sett fram í kjölfarið með þessum hætti til mín. Annarlegur tilgangur segir ég.“
Sólveig Anna segist eiga erfitt með að átta sig á því í hvaða samhengi það hugtak hafi verið sett fram. Það sem hafi þó teiknast upp fyrir henni með afskaplega skýrum hætti sé að það sé hópur starfsfólks innan Eflingar sem sé afskaplega uppsigað við hana og Viðar. „Svo held ég að það fari af stað einhverskonar múgæsing. Það er auðvitað erfitt fyrir mig að lýsa því sem að fólk er að segja inni á vinnustaðnum hvert við annað. En ég ætla samt að segja að ég tel að þessi herferð, þessi vagn sem þarna er settur af stað, hann hafi verið dreginn af fremur fámennum hópi. Aðrir hafi svo fylgt í kjölfarið og ekki viljað standa gegn þessu.
Ástæðan er sú að ég hef ekki notið fullrar samhygðar og réttinda sem manneskja inni á vinnustaðnum. Ég er ekki innan úr þessari hreyfingu, ég kem að utan. Við Viðar erum mjög kappsöm og markmiðasett. Erum vinnusöm, með mikið starfsþrek og mikla orku. Það kannski gerir það að verkum, ásamt róttækri orðræðu, að ég varð jaðarsett innan vinnustaðarins.“
Hópurinn sem hún telur standa að baki þessu er blandaður að mati Sólveigar Önnu. Hann samanstendur af fólki sem var fyrir á skrifstofu Eflingar þegar hún tók við og af fólki sem var ráðið inn af henni og Viðari. „Ég hef ekki komið að ráðningum nema að litlu leyti og ég hef aldrei ætlast til þess að mér persónulega sé sýnd einhver yfirgengileg hollusta. Þvert á móti. Það sem ég hef ætlast til er að þessu verkefni sem ég stend fyrir, að því sé sýnd hollusta. Að það sé viðurkennt af fólki að verkefnið skipti mestu máli.“
„Þetta fólk á bara að læra íslensku“
Það verkefni hafi verið tvíþætt. Annars vegar að gera Eflingu að baráttusamtökum fyrir þá sem greiða félagsgjöldin, verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu. Og hins vegar að taka alla þjónustuna í gegn. „Þegar ég var í þessari kosningabaráttu 2018 þá fór ég af stað með mjög róttæka orðræðu og róttækt platform sem var efnahagslegt fyrst og fremst. En á öllum þeim fundum sem ég fór á og í samtölum við félagsfólk kom það í ljós með mjög skýrum hætti að krafa fólks var sú að þjónusta félagsins yrði mjög rækilega tekin í gegn.“
Það átti sérstaklega við gagnvart aðfluttu fólki, sem í dag er um helmingur félagsmanna í Eflingu. „Ég horfðist í augu við það og áttaði mig á því að ekki aðeins var aðflutt fólk á hrikalega slæmum stað hvað varðar laun og húsnæðisaðstæður heldur gat það raunverulega ekki haft neinn aðgang að félaginu. Það var engin virðing eða viðurkenning á því inni í þessu skrifstofuvirki að þessi stóri hópur, helmingur félagsfólks, ætti alla heimtingu á því að geta bara ávallt fengið alla þá þjónustu sem það ætti rétt á og líka fulla heimtingu á því að geta tekið þátt í starfi félagsins.“
Sólveig Anna rifjar upp eitt dæmi um þetta verkefni sem mætti þeim strax og hún og Viðar komu til starfa hjá Eflingu. Þá hafi verið haldin starfmannafundur þar sem þau lýstu því að þessar breytingar stæðu til. „Þá var bara hálaunaður starfsmaður skrifstofunnar sem rétti upp hönd og segir „ég er ekki sammála þessu. Þetta fólk á bara að læra íslensku“ og svo framvegis. Þetta viðmót hefur verið mjög raunverulegt innan verkalýðshreyfingarinnar í heild. Þessi fullyrðing mín er mjög auðsannanleg vegna þess að það er ekki fyrr en við komum þarna inn að hreyfingin í heild fór að taka til í þessu mjög markvisst. Að hún fór að viðurkenna og elta okkar fordæmi. Að viðurkenna að þetta aðflutta fólk eru ekki bara einhverjir farandverkamenn og eitthvað fólk sem kemur og fer, heldur sest hérna að og eru þátttakendur í samfélaginu. Að hreyfingin eigi að vera fyrir það og eigi að þjónusta það á allan hátt.“
Krafa um að aðflutt fólk aðlagaði sig að hreyfingunni, ekki öfugt
Var þá útlendingaandúð í hreyfingunni?
„Í mismiklu mæli. En já, ég myndi segja það og byggi málflutning minn á þeim efnislega raunveruleika sem við búum við. Ef það hefði verið viðurkennt að þessi hópur ætti að njóta alls þess sem hann á inni hjá þessari hreyfingu, þá hefði ekki þurft að bíða eftir að ný forysta kæmi. Krafan hafi verið sú að aðflutta fólkið aðlagaði sig að hreyfingunni í stað þess að hreyfingin aðlagaði sig að þeirra stöðu.“
Hætti að tala um mig með nafni og kallaði mig „konuna“
Sólveig Anna sagði frá því í vikunni að einn af karlkyns starfsmönnum skrifstofu Eflingar hafi „lýst því yfir við annan starfsmann að hann væri mjög reiður út í mig og væri að hugsa um að fara heim til mín og vinna mér þar skaða sem ekki var lýst nánar en var augljóslega einhvers konar ofbeldi.“ Hún hefur ekki tilgreint nánar hvað það var sem maðurinn ætlaði að gera henni en í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún að maðurinn, sem hafi verið ósáttur með að hafa ekki fengið stöðuhækkun, hefði lýst því að hann „hefði í tvö ár rispað bíl manns sem honum var illa við. Það sannaði að honum væri alvara og að hann væri fær um að fremja glæp. Hann bætti því við, að hann hefði ekki áhyggjur af að verða dæmdur í fangelsi vegna þess sem hann kynni gera mér, af því að jafnvel þó að hann yrði dæmdur þá þyrfti hann aldrei að sitja inni, þar sem hann væri með hreint sakavottorð.“
„Þegar mér er tilkynnt um þetta, þessa brjálsemi um að þarna væri maður sem kynni svona illa við mig, væri hættur að tala um mig með nafni heldur kalli mig „konuna“, sem gekk á milli starfsfólks og segið að ég væri fífl og fáviti sem kynni ekki neitt og væri núna farinn að stíga skrefinu lengra og farinn að orða fyrirætlanir sínar um að koma heim til mín og gera mér mein, þá var það mjög erfitt. Þetta var og er allt raunverulegt, staðfest. Ég fæ þessa vitneskju og var mjög brugðið. Ég tók mér marga daga í að íhuga hvað ég ætti að gera. Og aldrei hugsaði ég hvort það ætti að segja honum upp, vegna þess að ég vissi alveg að það myndi ekki geta gerst. Staða mín innan skrifstofunnar væri það slæm. Ég kemst svo að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög alvarlegt, að maðurinn væri farinn að orða þessa óra sína. Að heiftin væri svo mikil að hann geti ekki hamið sig um að lýsa því í frekar miklum smáatriðum að hann ætli að gera þetta. Að hann hafi áður framið glæp og hafi ekki áhyggjur af því að vera dæmdur vegna þess að hann væri með hreint sakavottorð. Ég hugsaði að ég gæti ekki boðið fjölskyldunni minni upp á þetta. Dóttir mín er 21 árs býr á þessu heimili. Átti ég að segja við hana að við værum í einhverskonar umsátursástandi?“
Hún segist síðar hafa fengið vitneskju um það að manneskjan sem að hefði móttekið hótunina í smáatriðum, og brugðið svo mikið að hún sagði tveimur öðrum samstarfsmönnum frá, hafi ekki viljað skaða vinnusamband sitt við umræddan mann. Því myndi hún ekki standa við frásögn sína. „Þá ákvað ég að ég gæti ekkert gert án þess að þessi ályktun trúnaðarmanna um að ég væri með „aftökulista“ yrði dregin fram og sett í það samhengi að þessi maður sem væri að hóta mér ofbeldi væri á honum. Það kom svo í ljós núna eftir að ég sagði frá þessu. Þá er sagt að ég sé að ljúga. Að þetta sé uppspuni frá rótum og enginn kannast allt í einu neitt við þetta. Þrátt fyrir að ég sé með þessa frásögn staðfesta í tölvupósti og hafi látið færa það til bókar hjá lögreglunni.“
Sólveig Anna segir að hún hafi haft samband við lögreglu nokkru áður en sú atburðarás sem leiddi til afsagnar hennar hófst í lok október.
Aðspurð um hvað þau hafi nákvæmlega gert til að aðlaga þjónustu Eflingar að þörfum aðflutts fólks segir Sólveig Anna að þau hafi strax gert kröfu um menningarlæsi í viðmóti á skrifstofunni. „Þarna unnum við mikið frumkvöðulsstarf. Við fórum strax í það að tryggja að allir fundir sem við höldum yrðu textatúlkaðir. Við förum strax í það að láta þýða fullt af efni. Svo förum við í að útbúa heimasíðuna og „mínar síður“ innan hennar þannig að fólk geti nálgast efni á íslensku, ensku og pólsku. Þetta hefur verið, ásamt okkar markvissu og róttæku kjarabaráttu, þá hefur þetta verið það verkefni sem ég hef verið mjög upptekin af að sé sinnt af fullum heilindum gagnvart félagsfólki Eflingar.“
Hún segir að strax í upphafi COVID-faraldursins hafi farið að heyrast raddir víða í samfélaginu um að það þyrfti að stöðva samningsbundnar launahækkanir og taka kjarasamninganna úr sambandi. „Ekki bara frá stjórnvöldum og Samtaka atvinnulífsins, heldur líka annars staðar. Ég sagði einfaldlega: ég mun aldrei gera þetta. Ég skrifaði undir lífskjarasamninginn með blóði, svita og tárum, bæði mínum eigin og minna félagsmanna. Ef þetta yrði tekið úr sambandi myndi ég fara með það í atkvæðagreiðslu innan Eflingar. Ég fullyrði, og mun fullyrða það hvar sem er, að þessi afdráttarlausa afstaða mín, með stuðningi stjórnar Eflingar, að það myndi aldrei verða tekin króna af, hún varð til þess að ná þeirri niðurstöðu að þetta yrði ekki gert og að tryggja að samningarnir myndu halda.“
Þegar hún er spurð hvort þetta hafi verið raddir innan úr verkalýðshreyfingunni sagði hún þetta hafa verið vangaveltur þaðan um að þessar leiðir væru mögulega það rétta í stöðunni. „Við þurftum að taka þennan slag aftur og aftur og aftur til að kveða þetta niður. Við ætluðum ekki að vega að efnahagslegum réttindum verka- og láglaunafólks.“
Stærstu mistökin að vera ekki meira „kallinn“
Þegar hún er spurð hvort hún hafi ekki gert einhver mistök í þessu ferli gengst Sólveig Anna við því að hafa gert slík. „Mistökin sem ég gerði voru að vera ekki meira „kallinn“, að vera ekki meiri „stjóri stjóri“. En ég gat það samt ekki. Ég á mjög erfitt með að leika eitthvað hlutverk. Get ekki þóst vera einhver „kall“. En það voru á endanum stóru mistökin.
Þá hefði ég kannski ekki þurft að takast á við þetta eins og ég hef gert. Það var bara svo rík löngum hjá mér að láta hlutina ganga og búa ekki til eitrað ástand. En það er mjög mikið umburðarlyndi innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir lágum standard. Og mjög mikið umburðarlyndi fyrir lágum standard almennt í íslensku samfélagi. Ég vinn ekki þannig gagnvart sjálfri mér né öðrum. Ég vil að hlutirnir séu gerðir vel og gerðir rétt. Ég vildi óska þess að ég hefði beitt mér öðruvísi og ekki af svona mikilli meðvirkni gagnvart mistökum og rugli sem ég ákvað að takast ekki á við vegna þess að ég var hrædd við þær afleiðingar sem það myndi hafa.“
Ekki búin að ákveða næstu skref
Í stöðuuppfærslunni þar sem Sólveig Anna tilkynnti afsögn sína sagði hún líka að hún ætlaði aldrei að hætta í baráttu fyrir réttlæti fyrir þá sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks og þekkja lífið undir oki auðvaldskerfisins og láglaunastefnunnar. Aðspurð um hvað þetta þýði, og hvort hún sé að boða endurkomu inn í stéttarfélagsbaráttu innan tíðar, segir Sólveig Anna ekki vera komin þangað. „Ég er að vinna mig í gegnum þetta áfall að vera hrakin burt úr embætti formanns Eflingar sem ég tel mig hafa notið nær afdráttarlauss stuðnings félagsmanna til að gegna. Og ég ætla bara að fá að vera þar. Eina ákvörðunin sem ég hef tekið er að klára loksins ævisögu Rosu Luxemburg, sem er mikill doðrantur.“
Þegar spurningin er ítrekuð og spurt hvort það komi til greina að hún bjóði sig aftur fram segist Sólveig Anna ekki vera búin að ákveða neitt. Hún skilji þó að það séu bollaleggingar um hvort hún muni fara aftur fram í komandi formannskosningum í Eflingu, sem þurfa að fara fram fyrir lok mars á næsta ári. „Ég hef fengið gríðarlegt magn af skilaboðum frá allskonar fólki sem lýsir yfir uppnámi yfir því að þetta sé að gerast og inntakið í þessum skilaboðum frá félagsfólki Eflingar er einbeitt ósk um að þetta megi ekki vera að gerast. Það er ekki vegna þess að þeim finnst ég svo skemmtileg manneskja, heldur út af þeim árangri sem hefur náðst. Og vegna þess að það fólk sem ég hef unnið með, til dæmis í samninganefndum, veit að ég gefst ekki upp. Ég segi alltaf satt og rétt frá og leita alltaf eftir lýðræðislegu umboði fyrir því sem ég geri og hef reynt að vera alltaf til staðar fyrir félagsfólk. En ég lít svo á núna að ég geti ekki hugsað lengra fram í tímann en einn dag í einu núna. Ég er bara þar.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár