Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu síðan 28. apríl síðastliðinn. Upphaflega beindust mótmælin gegn fyrirhuguðum skattabreytingum sem Ivan Duque, forseti landsins, vildi koma til leiðar til þess að reyna að reisa efnahaginn við eftir efnahagslægðina sem af kórónuveirufaraldrinum hlaust. Í kjölfar mikillar hörku lögregluyfirvalda í garð mótmælanda tóku mótmælin ákveðnum breytingum, fleiri tóku þátt og mótmælin beindust gegn harðræði lögreglu.
Á Twitter-síðu félagasamtakanna Temblores segir að á fyrstu tíu dögum mótmælanna, fram að morgni laugardags, hefðu 39 fallið í valinn í mótmælunum vegna aðgerða lögreglu. Félagasamtökin halda utan um tilkynningar um ofbeldisverk af hendi lögreglu og hefur The Guardian stuðst við tölur frá Temblores í sínum fréttaflutningi af mótmælunum. Opinberar tölur eru lægri, þær segja að á fyrstu átta dögum mótmælanna hefðu 26 fallið í valinn. Til samanburðar segja Temblores að á sama tímabili hafi 37 látist vegna aðgerða lögreglunnar.
Frumvarp forsetans hefur verið dregið til baka
Mótmælafundir voru skipulagðir af stærstu stéttarfélögum landsins og verkafólk streymdi að. Með í hópinn slóst fólk úr millistétt sem hafði áhyggjur af því að nýja löggjöfin myndi steypa þeim í fátækt. Tæplega helmingur landsmanna í Kólumbíu býr við fátækt og hefur kórónuveirufaraldurinn einungis aukið misskiptingu þar í landi.
Skattalagabreytingin sem um ræðir fólst meðal annars í því að lækka skattleysismörk. Breytingin hefði haft áhrif á alla þá sem hafa meira en 2,6 milljónir pesóa í mánaðarlaun, eða rétt um 85 þúsund krónur. Þar að auki stóð til að fella á brott ýmsar undanþágur sem standa einstaklingum til boða sem og að hækka ýmsa skatta sem lagðir eru á fyrirtæki.
Síðasta sunnudag dró Iván Duque, forseti landsins, frumvarpið til baka. Engu að síður hafa mótmælin haldið áfram enda þusti fólk út á götur til þess að mótmæla viðbrögðum stjórnvalda og hörku lögreglunnar. Fjöldi mótmælenda óx eftir því sem á leið og í hópnum má nú finna kennara, lækna, nema, verkalýðsleiðtoga og aðgerðarsinna í bland við íbúa landsins sem aldrei hafa mótmælt á götum úti áður, líkt og New York Times fjallar um.
Í frétt miðilsins er haft eftir Helenu Osorio, 24 ára gömlum hjúkrunarfræðingi að hún sé í sárum vegna ástandsins í landinu. „Það eina sem við getum gert til þess að láta raddir okkar heyrast er að mótmæla,“ segir Helena sem mótmælti í höfuðborginni Bogotá. „Og fyrir það erum við drepin.“
Annar viðmælandi miðilsins, hin 28 ára gamla Mayra Lemus sem starfar sem kennari, sagði mótmælin snúast um meira en lagabreytingar. „Þetta snýst ekki bara um breytingar á skattalögum. Þetta snýst um spillingu, misskiptingu og fátækt. Og við unga fólkið höfum fengið okkur fullsödd af þessu öllu saman.“
Kórónuveiran hefur leikið landið grátt
Mótmælin eru að hluta til framhald mótmælaöldu sem gekk yfir Suður-Ameríku á síðari hluta ársins 2019 þegar fólk mótmælti meðal annars á götum Bólivíu, Síle, Kólumbíu, Ekvador Perú og Níkaragva. Mótmæli innan hvers lands voru hver með sínu sniði en öll áttu þau það sameiginlegt að vera beint gegn spillingu stjórnvalda.
Síðan kom heimsfaraldur kórónuveiru sem bitnaði illa á íbúum Suður-Ameríku á árinu 2020. Kirkjugarðar fylltust, fólk lá fyrir dauðanum á göngum spítala og fólk beið í röðum fram eftir nóttu í veikri von um að geta keypt súrefniskúta til þess að halda smituðum ástvinum á lífi.
Efnahagurinn hefur tekið dýfu í kjölfarið. Samdráttur í löndum álfunnar var að meðaltali sjö prósent á síðasta ári og atvinnuleysi hefur aukist mikið, sérílagi meðal ungs fólks.
Og staðan hefur einungis versnað.
Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur P1 afbrigði kórónuveirunnar, sem kallað hefur verið brasilíska afbrigðið, valdið miklum usla í álfunni og tölur yfir þá sem létust úr kórónuveirunni fóru að hækka á ný eftir að afbrigðið fór að dreifa sér.
Fyrirhugaðar skattabreytingar voru því líkt og neisti sem kveikti í púðurtunnu enda hefði einn angi þeirra haft bein áhrif á vöruverð. Því tóku íbúar Kólumbíu ekki þegjandi og hljóðalaust, eftir að hafa reynt að draga fram lífið við krappari kjör svo mánuðum skiptir.
Stjórnvöld hafa kennt skæruliðum um ofbeldið
Samkvæmt umfjöllun BBC hafa þarlend stjórnvöld kennt vinstri sinnuðum uppreisnarseggjum um ofbeldið. Þau segja meðlimi Þjóðfrelsishers Kólumbíu (ELN) hafa kynnt undir mótmælunum ásamt andófsmönnum úr röðum skæruliðahreyfingarinnar FARC, þeim sem ekki hafa samþykkt friðarsamkomulag FARC við stjórnvöld frá árinu 2016.
„Ofbeldið var kerfisbundið, framið vísvitandi og það var fjármagnað af glæpasamtökum,“ er haft eftir Diego Molano, varnarmálaráðherra landsins, í frétt BBC. Lögregluyfirvöld halda því fram að í mörgum tilvikum hafi lögregluþjónar verið beittir ofbeldi við skyldustörf, er þeir reyndu að hindra glæpamenn frá því að hnupla úr verslunum og bera eld að strætisvögnum, svo dæmi séu tekin.
Forsetinn hefur sagt að stjórnvöld séu reiðubúinn til að eiga í samtali við þjóðina. Hann tilkynnti nýlega um að settur hafi verið á laggirnar vettvangur til að hlusta á íbúa landsins og móta með þeim lausnir á þeim vandamálum sem að landinu steðja.