Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar SARS-CoV-2, veirunnar sem fyrst greindist fyrir rúmum tveimur árum og hefur líkt og við mátti búast stökkbreyst ítrekað síðan þá, hefur gjörbreytt faraldrinum á heimsvísu. Það er gríðarlega smitandi en veldur, sem betur fer, mun vægari sjúkdómseinkennum en delta, afbrigðið sem áður var ríkjandi.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið í skyn að ómíkron-bylgjan og útbreitt ónæmi sem henni fylgir gæti markað endalok faraldursins en þó aðeins ef meirihluti jarðarbúa verði orðinn bólusettur í sumar. Ýmsir sérfræðingar vara hins vegar við að óvissan sé enn mikil og alls ekki víst að ómíkron verði sá „bjargvættur“ sem við óskum.
Ómíkron breiðist svo hratt út að fjöldi smita getur auðveldlega tvöfaldast á aðeins örfáum dögum. Það þýðir, að sögn vísindamanna, að mjög erfitt er að undirbúa viðbrögð og geta sér til um framhaldið. Og jafnvel þótt hraðað verði á bólusetningum megi ekki gleyma því að það taki um tvær vikur fyrir þær að ná fullri virkni. „Ómíkron er eins og flensa á sýru,“ hefur vísindatímaritið Nature eftir Graham Medley, sérfræðingi í spálíkönum fyrir farsóttir og einum helsta ráðgjafa breskra stjórnvalda í þeim efnum.
Hin gríðarlega hraða útbreiðsla gerir það einmitt að verkum að mjög erfitt er að spá fyrir um hvað kunni að gerast næst. Skiptar skoðanir voru í upphafi ómíkron-bylgjunnar meðal sérfræðinga um hvernig ætti að bregðast við. Suður-afrísku vísindamennirnir sem uppgötvuðu afbrigðið sögðu þegar í upphafi að það virtist valda mun vægari einkennum en delta. En stjórnvöld margra ríkja, m.a. á Íslandi, vildu ekki taka þá áhættu að bíða og sjá heldur gripu til hertari aðgerða. Flestar þjóðir eru nú búnar eða eru í því ferli að aflétta.
Annað sem gerir sérfræðingum erfitt fyrir að spá um framhaldið er sú staðreynd að nú eru ekki allir jafn næmir fyrir veirunni og fyrir einu ári eða tveimur. Margir hafa fengið COVID-19 síðustu mánuði og að auki er rúmlega helmingur jarðarbúa nú bólusettur þrátt fyrir að skiptingin sé mjög misjöfn milli landa og heimsálfa. Ólíkar tegundir bóluefna eru svo notaðar og vörn þeirra gegn hinu og þessu afbrigðinu misjöfn.
Landslagið hefur því breyst mikið. Sá lykilþáttur sem fylgst hefur verið náið með, þ.e. hversu margir veikjast alvarlega, er orðinn síbreytilegur eftir afbrigðum, bólusetningum og fyrri sýkingum af völdum annarra afbrigða veirunnar.
Af þessum sökum voru vísindamenn í Evrópu t.d. margir hverjir í fyrstu efins um að ómíkron væri endilega mun vægara afbrigði. Íbúar sunnanverðrar Afríku voru ekki aðeins mun yngri að meðaltali en Evrópulanda, sem minnkaði áhættu á veikindum, heldur höfðu mun fleiri þeirra líklega sýkst af öðrum afbrigðum en að sama skapi mun færri verið bólusettir.
Fljótt kom í ljós að hlutfall innlagna af smitfjölda í ómíkron-bylgjunni var allt annað og lægra heldur en af fyrri afbrigðum. Spár sem byggðar voru á hegðun fyrri afbrigða reyndust því rangar og þær svartsýnustu gengu sem betur fer ekki eftir.
Veiran hverfur ekki en faraldurinn breytist
En hvernig mun faraldurinn fjara út? Ekki með ómíkron, segja vísindamenn sem Nature ræðir við. „Þetta verður ekki síðasta afbrigðið og næsta afbrigði mun hafa sína eigin eiginleika,“ segir Medley.
Ólíklegt er að kórónuveiran nýja muni nokkru sinni hverfa alfarið úr samfélagi manna. Hún mun kannski ekki valda endalausum heimsfaraldri heldur valda sýkingum hjá tilteknum hópum á ákveðnum svæðum. Það þýðir ekki að hún verði hættulaus, ekki frekar en inflúensan sem árlega gengur yfir heimsbyggðina. En SARS-CoV-2 er ný veira og því er enn sem komið er nær ómögulegt að spá fyrir um hegðun hennar til framtíðar. Að „lifa með veirunni“, sem margir telja næsta skref eftir tveggja ára takmarkanir í flestum samfélögum, gæti því þýtt að meta þurfi hversu mörg dauðsföll séu „ásættanleg“, segir breski faraldsfræðingurinn Sebastian Funk við Nature.
Mark Woolhouse, sérfræðingur í smitsjúkdómum við Háskólann í Edinborg, telur að faraldurinn verði aðeins árstíðabundinn líkt og inflúensan nú ef meirihluti fólks, fyrst á barnsaldri, smitast af veirunni mörgum sinnum á nokkrum áratugum og myndar þannig náttúrulegt ónæmi. Þangað til að slíkum áfanga verði náð muni því margt eldra fólk og aðrir viðkvæmir hópar eiga á hættu að veikjast alvarlega ef það fær ekki reglulega örvunarbólusetningu.
Það er engin vissa fyrir því að næsta afbrigði kórónuveirunnar verði mildara, segir breski veirufræðingurinn Julian Tang, þótt að það virðist þó þróunin með ómíkron.
Kórónuveiran SARS-CoV-2 hefur nefnilega allt að því óteljandi möguleika til að stökkbreytast. Til að skilja hegðun hennar og spá fyrir um þróun reyna vísindamenn a kortleggja „landslag“ erfðamengisins – dali og hæðir eiginleikanna hverju sinni – eiginleika sem t.d. gera hana hæfari til að smitast manna á milli eða valda alvarlegri veikindum hýsla sinna. En af því að hún er ólíkindatól, líkt og margoft hefur verið sagt, er erfitt og kannski ómögulegt að spá fyrir um hverju hún tekur upp á næst á þróunarbraut sinni. Gott dæmi um það er tilkoma ómíkron.
Þegar delta-afbrigðið hóf að breiðast út virtist það ætla að útrýma öðrum afbrigðum, svo hæft var það. „Ég hélt að næsta afbrigði myndi þróast út frá delta,“ segir Katia Koelle, líffræðingur við Emory-háskóla í ítarlegri fréttaskýringu The Atlantic. En þá allt í einu birtist ómíkron á fjarlægri hæð í „landslagi“ erfðamengis veirunnar.
Ómíkron spratt ekki frá delta
Veiran sem veldur COVID-19 þróaðist í nokkur ólík afbrigði og framan af voru alfa, beta og delta þeirra þekktust, segir í ítarlegri útskýringu Arnars Pálssonar erfðafræðings á Vísindavefnum, af tilurð ómíkron. Samanburður á erfðamengi ómíkron, sem fannst í nóvember í fyrra, sýnir að það hafði mjög margar stökkbreytingar í geninu sem myndar bindiprótínið, um 30 breytingar alls. Þótt sumar þessara breytinga þekkist úr öðrum afbrigðum sýna gögnin, svo óyggjandi er, að það spratt ekki úr neinu af hinum 10 afbrigðunum sem þekkt voru á þeim tímapunkti.
„Það viðurkennist að eftir að delta-afbrigðið var orðið mjög algengt áttu fáir von á því að nýtt afbrigði myndi skáka því,“ skrifar Arnar. Til áminningar þá er metið að delta hafi 50 prósent meiri smithæfni en alfa, sem var 50 prósent meira smitandi en upprunalega gerðin. Það er mjög mikil aukning í hæfni. „Ómíkron kom því flestum fagmönnum á sviðinu á óvart, bæði sú staðreynd að hún spratt úr „þróunarlegri“ rót ættartrésins og það hversu margar breytingar höfðu orðið á ættmeið afbrigðisins.“
Næsta afbrigði gæti allt eins komið okkur jafn mikið á óvart. Það gæti til dæmis haft enn meiri smithæfni en ómíkron. Og sérfræðingar segja nær fullvíst að veiran muni finna nýjar leiðir til að komast fram hjá því ónæmi sem við höfum öðlast annað hvort með sýkingu eða bólusetningu. Veiran mun halda áfram að finna þessar hæðir í landslagi sínu, segir í grein The Atlantic, en þó er mjög ólíklegt að hún nái að gera ónæmi okkar að engu.
Afritin öðruvísi en uppruninn
Í hvert skipti sem veiran nær að sýkja manneskju þá „afritar“ hún sjálfa sig í gríð og erg. Sum „afritin“ eru öðruvísi, þ.e. stökkbreyting verður. Sumar þessar stökkbreytingar eru veirunni sjálfri í hag en aðrar hýslinum. Í dæmigerðri COVID-sýkingu nær veiran ekki að stökkbreytast stórkostlega en þegar gríðarlega margir eru sýktir samtímis þá eykst hættan á því og nýtt afbrigði getur orðið til.
Ef veiran „mallar“ hins vegar í líkömum fólks í lengri tíma, t.d. vegna veiklaðs ónæmiskerfis, hefur hún margfalt meiri tækifæri til að stökkbreytast og margfalt líklegra verður að stökkbreytingarnar nái yfirhöndinni og að nýtt afbrigði – með aðra eiginleika – geti orðið til.
Vísindamenn reyna nú að komast að því hvernig ómíkron varð til. Ef það tekst aukast líkurnar á því að hægt verði að spá fyrir um næstu skref kórónuveirunnar á þróunarbrautinni.
„Við vorum heppin með ómíkron,“ segir Sergei Pond, þróunarlíffræðingur við Temple-háskóla við The Atlantic. Stökkbreytingarnar sem valda því að afbrigðið er svona bráðsmitandi gera það einnig að verkum að sýkingin verður ekki jafn hættuleg. Hann segir hins vegar ekki víst að þannig verði það alltaf.
„Á meðan ýmsir eiginleikar ómíkron komu á óvart, var það fyrirsjáanlegt að það sprytti upp í þeim heimshluta þar sem bóluefni hafa verið af skornum skammti,“ minnir Arnar Pálsson á. Af þeim fimm afbrigðum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir nú varhugaverð, urðu fjögur til í löndum þar sem bólusetningar eru ónógar. „Það bendir sterklega til að besta leiðin til að stoppa nýliðun afbrigða sé að gera bóluefni aðgengileg fyrir alla á jörðinni.“
Nýja kórónuveiran gæti þróast í ýmsar áttir héðan í frá og með tímanum gætum við áttað okkur betur á hvaða leið hún líklegast velur. En eins og staðan er núna er að minnsta kosti ekkert sem bendir til þess að hún muni hverfa í bráð.