Víða um heim eru nú farin að sjást merki um ofhitnun á mörkuðum með atvinnuhúsnæði, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal í dag. Fjármagn hefur flætt í fasteignaverkefni þar sem er verið að byggja atvinnuhúsnæði og virðist lítið lát á því. Fermetraverð í heimsborgunum London, Hong Kong, Osaka og Chicago er nú orðið hærra en það var fyrir fjármálakreppuna á árunum 2007 til 2009, en það hríðféll í kjölfar hennar, einkum árin 2009 og 2010.
Það sama má segja um Los Angeles, Berlín, New York og Sydney samkvæmt greiningum frá Real Capital Analytics, sem Wall Street Journal vitnar til í umfjöllun sinni.
Tölur sem sáust bara 2006 og 2007
Á fyrstu sex mánuðum þessa árs jukust fjárfestingar í atvinnuhúsnæðisverkefnum um 36 prósent í Bandaríkjunum og námu samtals 225,1 milljarði Bandaríkjadala, eða sem nemur um 29 þúsund milljörðum króna. Í Evrópu var svipaða sögu að segja, en þar jukustum fjárfestingar í atvinnuhúsnæði um 37 prósent, í 148 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 20 þúsund milljörðum króna. Þetta er mesta aukning í fjárfestingum sem þessum í Evrópu síðan í byrjun árs 2007.
Lágvaxtaumhverfi þrýstir fjármagni í fasteignir
Það sem er talin helsta ástæðan fyrir þessari miklu aukningu í fjárfestingum í atvinnuhúsnæði eru afar hagstæða lánaskilyrði, þar sem vextir eru víðast hvar við núllið, auk þess sem stefnubreyting hefur orðið hjá stórum fjárfestingasjóðum í Asíu og Mið-Austurlöndum sem beina nú fjármagni sínu frekar í atvinnuhúsnæði en skuldabréf sem í boði eru á markaði. Jacques Gordon, yfirmaður greininga hjá LaSalle Investment Management eignarstýringarfélaginu í Chiacago, segir í samtali við Wall Street Journal að yfirleitt sé svona mikil og skörp hækkun í einum eignaflokki boðberi frekar slæmra tíðinda. Í þessu tilviki sé stór hópur fjárfesta að færa til fjármagn yfir í eignaflokk sem til lengdar litið eigi frekar að vera stöðugur í vexti, og þá alls ekki svona miklum eins og raunin er.
Nokkur stór viðskipti hafa fangað athygli fjölmiðla. Þar á meðal eru kaup kínverska félagsins Anbang Insurance Group á Waldor-Astoria hótelinu í New York, í febrúar síðastliðnum, en félagið greiddi tæplega tvo milljarða Bandaríkjadala fyrir hótelið, eða sem nemur tæplega 270 milljörðum króna. Tveimur mánuðum síðar setti svo annað kínverskt félag, Sunshine Insurance Group Co., met þegar það greiddi yfir tvær milljónir Bandaríkjadala, um 270 milljónir króna, fyrir hvert herbergi Baccarat Hótelsins í New York, samtals um 230 milljónir dala, eða sem nemur um þrjátíu milljörðum króna.
Varðhundarnir fylgjast grannt með gangi mála
Seðlabanki Bandaríkjanna fylgist grannt með gangi mála á þessum markaði, og gerir stöðuna að umtalsefni í skýrslu sinni til Bandaríkjaþings, í lok síðasta mánaðar. Í henni segir að mikill þrýstingur sé á þennan eignaflokk og verð á atvinnuhúsnæði sé að hækka hratt (“valuation pressures in commercial real estate are rising as commercial property prices continue to increase rapidly.”). Lífeyrissjóðir í Bandaríkjunum hafa nú um 7,7 prósent af eignum sínum bundnar í fasteignum og hefur hlutfallið hækkað úr 6,3 prósent árið 2011, sem telst umtalsvert mikil hækkun á skömmum tíma, af því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.
Örmarkaðurinn á Íslandi
Sé litið sérstaklega til örmarkaðarins á Íslandi, og markaðar með atvinnuhúsnæði sérstaklega, þá hefur raunverð á atvinnuhúsnæði hækkað um átján prósent á einu ári, sem telst mikil hækkun, töluvert umfram hækkun á markaði með íbúðir. Um þetta er meðal annars fjallað í Peningamálum Seðlabanka Íslands frá því í maí, en þar segir að verðið hafi hækkað um tæplega helming frá því það var lægst i upphafi árs 2011. Velta hefur enn fremur aukist jafnt og þétt en er ennþá ekki eins mikil og hún var mest, á árunum 2005 til 2007.