Fyrsta höggið á nýrri alþjóðlegri mótaröð í golfi, LIV mótaröðinni, var slegið á fimmtudag á Centurion golfvellinum norður af Lundúnum. Mótið er það fyrsta af átta mótum sem haldin verða á mótaröðinni á þessu ári. Þrátt fyrir þá staðreynd að margir af þekktustu kylfingum heims séu á meðal þátttakanda er mótaröðin vægast sagt mjög umdeild meðal kylfinga. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mótaröðin er fjármögnuð af opinberum fjárfestingarsjóði Sádi-Arabíu, Public Investment Fund (PIF) og það eitt er víst að ekki skortir peninga á mótaröðinni.
Samkvæmt umfjöllun the Guardian þá hafa Sádar dælt peningum í auknum mæli í íþróttastarf á undanförnum árum. Til dæmis keypti PIF ráðandi hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle á síðasta ári. PIF hefur einnig haft augastað á golfheiminum í nokkurn tíma. Félagið hefur til að mynda áður verið bakhjarl á golfmótum á mótaröðum karla og kvenna. Nú hefur sérstök mótaröð fyrir karlkylfinga litið dagsins ljós og við það eru stjórnendur stærstu mótaraðanna, PGA mótaraðarinnar í Bandaríkjunum og DP World Tour í Evrópu, allt annað en sáttir.
Keppendur úti í kuldanum á PGA mótaröðinni
Forsvarsmenn PGA mótaraðarinnar stigu niður fæti í vikunni og felldu niður keppnisrétt þeirra kylfinga sem taka þátt á LIV mótaröðinni. Þeir kylfingar sem hafa þegið boð um að keppa á LIV mótaröðinni geta því ekki lengur keppt á virtustu mótaröð í heimi, bandarísku PGA mótaröðinni. Líkt og áður segir eru margar af þekktustu stjörnum golfheimsins á meðal þátttakenda á LIV mótaröðinni, kylfingar á borð við Phil Mickelson, Dustin Johnson og Sergio Garcia. Þeir eru því nú án keppnisrétts á PGA mótaröðinni.
Til þess að keppa á mótaröð atvinnukylfinga, á borð við PGA mótaröðina og DP World Tour, þurfa kylfingar að vinna sér inn keppnisrétt. Það geta þeir gert með því að taka þátt í úrtökumótum. Haldnar eru nokkrar umferðir af slíkum úrtökumótum og þurfa keppendur sem vilja komast á eftirsóttar mótaraðir að vera á meðal efstu manna á hverju stigi þessara úrtökumóta, svo ferlið inn á slíka mótaröð er ansi strembið. Á lokaúrtökumótunum fær tiltekinn fjöldi efstu kylfinga þátttökurétt á mótaröðinni en einnig geta þeir kylfingar sem ekki eru í efstu sætunum fengið takmarkaðan þátttökurétt. Þegar keppnisréttur er tryggður geta kylfingar svo haldið honum með því að leika vel á mótum mótaraðarinnar. Þannig tryggir góður árangur áframhaldandi keppnisrétt.
Styrktaraðilar móta fá einnig tækifæri til þess að bjóða kylfingum sem ekki hafa keppnisrétt að taka þátt í einstökum mótum. Samkvæmt tilkynningu PGA mótaraðarinnar sem var send út á fimmtudag segir að þeir kylfingar sem taka þátt í mótum LIV mótaraðarinnar hafi einnig fyrirgert rétti sínum til þess að spila á mótum PGA mótaraðarinnar sem gestir styrktaraðila.
Mun meiri peningar en á hinum mótaröðunum
Þetta er því ansi stór fórn sem kylfingarnir færa með því að gerast þátttakendur á LIV mótaröðinni. Eða hvað? Líkt og áður segir skortir ekki fjármagnið og það endurspeglast í verðlaunafénu sem í boði er á mótum LIV mótaraðarinnar. Í umfjöllun Guardian kemur fram að sigurvegari mótsins á Centurion vellinum fái fjórar milljónir Bandaríkjadala í sinn hlut, það er um 530 milljónir króna. Kylfingurinn sem lendir í öðru sæti fær rúmar tvær milljónir dala, um 280 milljónir króna, og fyrir þriðja sætið fæst ein og hálf milljón dala, tæpar 200 milljónir króna. Eftir því sem neðar dregur á listanum lækkar verðlaunaféð. Þó fær sá sem lendir í síðasta sæti 120 þúsund dali í sinn hlut, tæpar 16 milljónir króna.
Þetta eru umtalsvert hærri upphæðir en þekkjast á hinum stóru mótaröðunum og það á ekki bara við um féð sem fellur í hlut sigurvegarans. Forbeshefur tekið saman meðaltal verðlaunafés kylfinga á einstökum golfmótum í ár. Á fyrsta móti LIV mótaraðarinnar er meðaltal verðlaunafés á hvern þátttakenda 521 þúsund dalir eða 69 milljónir. Á PGA mótaröðinni er meðaltalið fyrir þá keppendur sem komast í gegnum niðurskurðinn á bilinu 156 til 288 þúsund dalir, eða frá 20,7 milljónum króna til 38,1 milljóna.
Keppendunum 48 á LIV mótaröðinni hefur einnig verið skipt upp í tólf fjögurra manna lið. Liðin keppa sín á milli og kylfingarnir í þeim liðum sem standa sig best fá einnig vænar fúlgur. Það lið sem spilar á lægsta skori í fyrsta móti LIV mótaraðarinnar skiptir á milli sín þremur milljónum dala, um 400 milljónum króna.
Það er ekki bara verðlaunaféð sem sker LIV mótaröðina frá hinum mótaröðunum því LIV mótin eru snarpari heldur en þau sem kylfingar eiga að venjast. Spilaðir eru þrír hringir í stað fjögurra eins og venja er. Keppendur leika því samtals 54 holur og þaðan er nafn mótaraðarinnar komið, en 54 ritað með rómverskum tölustöfum er LIV. Þar að auki er enginn niðurskurður og því spila allir keppendur þrjá hringi. Þannig geta allir keppendur gert ráð fyrir að fá ágæta summu fyrir þátttöku í LIV mótum en á öðrum mótaröðum er niðurskurður eftir tvo keppnisdaga. Þeir keppendur sem ekki komast í gegnum niðurskurðinn á mótum PGA mótaraðarinnar og DP World Tour fá ekkert verðlaunafé.
Segja fjármögnun íþrótta eina tegund hvítþvotts
Fyrri utan óvenjuhátt verðlaunafé þá fá stærstu stjörnurnar sem taka þátt í mótaröðinni væna þóknun fyrir það eitt að spila. Heimildir herma að Phil Mickelson fái 200 milljónir dala, um 26,5 milljarða króna, í sinn hlut fyrir það eitt að taka þátt. Dustin Johnson sem var um nokkurt skeið efstur á heimslista karla fær öllu minna en væna þóknun þó, 125 milljónir dala eða um rúmlega 16,5 milljarða króna.
Líkt og áður segir er mótaröðin svona umdeild vegna þess hvaðan fjármagnið kemur. Krónprins Sádi-Arabíu Mohammed bin Salman situr í sæti stjórnarformanns fjárfestingarfélagsins PIF. Krónprinsinn hefur verið, ásamt fleiri háttsettum embættismönnum í Sádi-Arabíu, sakaður um að bera ábyrgð á morðinu á blaðamanninum Jamal Kashoggi en hann var Sádi-Arabi og gagnrýninn á þarlend stjórnvöld.
Í umfjöllun BBC segir að Sádi-Arabía hafi á nýliðnum árum ausið fjármagni inn í íþróttir á borð við Formúlu-1, hnefaleika, fótbolta og golf til þess að hvítþvo ímynd landsins og orðspor. Í umfjölluninni er vitnað í Greg Norman sem er framkvæmdastjóri LIV mótaraðarinnar en hann á að baki farsælan feril sem kylfingur. „Við gerum öll mistök,“ sagði Norman þegar hann var spurður út í stjórnvöld Sádi-Arabíu og morðið á Jamal Kashoggi.
Tiger og Rory hafa ekki áhuga
Líkt og áður segir hafa forsvarsmenn LIV mótaraðarinnar náð að sannfæra heimsfræga kylfinga um að taka þátt á mótaröðinni, áðurnefnda Phil Mickelson, Dustin Johnson og Sergio Garcia, en einnig Louis Oosthuizen, Greame McDowell, Lee Westwood ,Martin Kaymer og Ian Poulter. Þetta eru allt þungavigtarkylfingar en þó eru ekki allir tilbúnir til þess að taka tilboði LIV mótaraðarinnar. Tiger Woods hefur til dæmis ekki þekkst boðið og það sama hefur Rory McIlroy gert.
„Ég held að mín afstaða hafi verið skýr frá upphafi. Þetta er ekki eitthvað sem ég vil taka þátt í,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi fyrir RBC Canadian Open mótið sem haldið er um helgina og er hluti af PGA mótaröðinni. Hann sagðist skilja ákvörðun kylfinga sem ætla að taka þátt á LIV mótaröðinni en hann hafi engan áhuga á því að snúa bakinu við PGA mótaröðinni hvar hann fær tækifæri til þess að etja kappi við bestu kylfinga í heimi.
Hann bætti því við að ákvarðanir sem teknar eru bara vegna peninga séu, þegar öllu er á botninn hvolft, yfirleitt slæmar ákvarðanir.