Afríka er að rísa, er frasi sem hefur verið sagður oft á undanförnum árum. Það sem helst er horft til þegar þetta er sagt, eru hagtölur sem sýna hagvöxt og grósku á svæðum þar sem áður var mikil fátækt, óróri og veikir innviðir. En það eru aðrar breytingar sem Afríka er að ganga í gegnum um þessar mundir sem gætu ýtt enn frekar undir vöxt og sterkari innviði. Það er útbreiðsla á betri nettengingum og snjallsímum og öllu því hagræði og tækifærum sem þeim fylgja.
Ekki aðeins í raunhagkerfinu
Stærstu hagkerfi Afríku, Nígería, Suður-Afríka, Egyptaland, Alsír og Angóla, eiga mikið undir hrávöruvinnslu og hafa hagkerfin byggst upp í kringum þau útflutningsviðskipti, ekki síst á undanförnum árum. Nígería er stórveldið í Afríku, þar sem olíuviðskipti eru hryggjarstykkið. En mikil hrávöru sala frá hinum fyrrnefndu löndunum, ekki síst á mat, ávöxtum og kaffi, hefur vaxið nokkuð hratt á undanförnum árum.
Fjölmennasta ríkið álfunnar, Nígeríu, er með íbúafjölda upp á 177 milljónir, sem er meira en sem nemur öllum íbúafjölda Suður-Evrópu, það er Spánar, Ítalíu, Portúgal og Grikklands. Hagvöxtur er mikill víða í álfunni, einkum í þróuðustu ríkjum, eins og Nígeríu og Suður-Afríku. Í Nígeríu, stærsta hagkerfi Afríku, var hagvöxtur 6,2 prósent í fyrra, en 4,1 prósent í Suður-Afríku.
Heildarstærð þessara fimm stærstu hagkerfa Afríku er um 1.500 milljarðar Bandaríkjadala, og þar af er Nígería með 568 milljarða, samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans, og Angóla 131 milljarð.
Nú eru blikur á lofti eftir hraða uppgangstíma, þar sem olíuverð hefur lækkað hratt á innan við ári. Farið úr 110 Bandaríkjadölum niður í um 50 Bandaríkjadali. Aðrar hrávörur hafa einnig lækkað nokkuð sem eru Afríkulöndum mikilvægar, en verðsveiflur eru þó lífsins gangur með þær vörur eins og aðrar. Skjálftinn í Kína, þar sem minnkandi eftirspurn hefur gert vart við sig á ýmsum hrávörumörkuðum, gæti reynst þessum löndum þungur, ef marka má skrif sérfræðinga undanfarin misseri. Afríkuríkin eru það háð eftirspurn frá Kína hvað ýmsar vörur varðar að kreppa gæti skapast á sköpum tíma ef það hallar meira undan fæti.
Einmitt í þessu ljósi skiptir sköpum fyrir Afríku að efla nýsköpun, og það hefur gengið vel undanfarin misseri.
Frumkvöðlasetur og vaxandi snjallsímamarkaður
Frumkvöðlasetur (Startup Hub) hafa sprottið upp víð í Afríku, eins og Kjarninn fjallaði um í mars síðastliðnum eftir að The Economist gerði jákvæða þróun í álfunni að umtalsefni.
Herds of new tech start-ups and small businesses are being birthed across Africa http://t.co/Rbrgp7lEo1 pic.twitter.com/klXVGXsDNs
— The Economist (@TheEconomist) March 14, 2015
Eitt af því sem talið er að geti flýtt mikið fyrir framförum er hraðari útbreiðsla á snjallsímum. Afríka, sé litið á heildarstöðuna í álfunni sem er með 1,1 milljarð íbúa, hefur setið eftir í þessari tæknibyltingu og horfa stærstu símaframleiðendur heimsins nú til álfunnar. Gert er ráð fyrir að 120 milljónir snjallsíma verði seldir í Afríku fyrir árið 2020, eða næstu fimm árum en um tuttugu prósent af þeim símum sem nú seljast í álfunni kosta undir 100 Bandaríkjadölum eða sem nemur 13 þúsund krónum. Google hefur byrjað með sérstaka vörulínu fyrir Afríkumarkað sem heitir Infinix Hot 2, og á að falla vel að þörfum fólks víða í álfunni, og byggir á Android One símanum. Google ætlar sér stóra hluti og vill leiða nauðsynlega og fyrirsjáanlega breytingu í Afríku með því að bjóða góðan og ódýran síma. En það verður ekki auðvelt því mesta markaðshlutdeildin í Afríku er nú á gráum markaði með kínverska síma, að mestu leyti eftirlíkingar. Þeir eru ekki eins og góðir og símarnir frá Google eða Apple, en þeir kosta lítið sem ekkert og með þeim er hægt að gera næstum allt þar sem hinn venjulegi neytandi gerir. Nathan Eagle, sérfræðingur hjá tæknifyrirtækinu Jana í Boston, segir í viðtali við Quartz að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu stór grái markaðurinn með snjallsíma í Afríku sé. Það verði mikil ögrun að yfirstíga þá hindrun, en með meiri útbreiðslu og þekkingu, til viðbótar við samkeppnishæft verð, þá geti árangur náðst tiltölulega hratt.
Good night ✨ @juliemasr #egyptbyme A photo posted by EGYPT (@egypt) on
Ásýnd sem kann að breytast
Ímynd Afríku verður líklega seint komin á þann stað í hugum fólks, eftir þá mikla erfiðleika sem álfan hefur gengið í gegnum undanfarna áratugi, að þar séu mikil og spennandi tækifæri. Fjárfestar hafa margir hverjir kveikt á þessu, og aukning í erlendri fjárfestingu víðsvegar í álfunni er til marks um það. En hjá almenningi mun þessi sýn úr Afríku, það er ásýnd áræðni og framþróunar, líklega helst koma fram eftir því sem tækni, sem þykkir sjálfsögð í þróuðum ríkjum, breiðist út.