Þrír virkjunarkostir Orkuveitu Reykjavíkur eru í nýtingarflokki samkvæmt þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar sem lögð verður fram, ennþá einu sinni, á Alþingi í lok mars. Allir eru þeir í jarðvarma og á Hengilsvæðinu: Hverahlíð II (90 MW), Þverárdalur (90 MW) og Meitillinn (45 MW).
Virkjun í Þverárdal er í biðflokki núgildandi rammaáætlunar en verkefnisstjórn 3. áfanga lagði til í lokaskýrslu sinni í ágúst 2016 að kosturinn færi í nýtingarflokk. Hverahlíð II er hins vegar „nýr“ kostur sem tekin var til mats í þriðja áfanga og ekki var hreyft við flokkun Meitilsins sem er þegar í nýtingarflokki núgildandi áætlunar.
Í svörum við fyrirspurn Kjarnans um áherslur Orkuveitunnar nú þegar ákveðið hefur verið að leggja þingsályktunartillöguna fram í fjórða sinn og af fjórða ráðherranum á rúmlega fimm árum, segir að allir þeir kostir sem fyrirtækið lagði fram til mats í þriðja áfanga eigi enn við, þ.e.a.s. enginn þeirra er orðinn úreltur og ekki lengur fýsilegur.
„Við leggjum áherslu á að halda öllum kostum á Hengilssvæðinu sem eru flokkaðir í nýtingarflokk áfram þar,“ segir í svörum OR. „Mikilvægt er að skoða svæðið eins heildstætt og völ er á til að setja framtíðarnýtingarstefnu fyrir Hengilinn. OR leggur ekki til að færa kosti úr biðflokki yfir í nýtingarflokk.“
Aðeins einn virkjunarkostur, einnig í jarðvarma, er í biðflokki samkvæmt tillögunni, Innstidalur, og enginn kostur fyrirtækisins sem lagður var til mats verkefnisstjórnar 3. áfanga, er í verndarflokki.
Innstidalur er lokaður dalur sunnan Hengils en norðan Skarðsmýrarfjalls. Dalurinn sjálfur er tiltölulega lítið raskaður og hefur gildi sem slíkur þótt umhverfi í kring hafi verið raskað, sagði m.a. í niðurstöðu verkefnisstjórnar þriðja áfanga um virkjanakostinn. Yrði Þverárdalur nýttur til orkuframleiðslu væri líklegt að verðmæti Innstadals myndu aukast, sérstaklega í ljósi nálægðar svæðisins við höfuðborgarsvæðið og þar með aukins fágætis samfara fækkun aðgengilegra og lítt raskaðra útivistarsvæða. „Vegna samlegðaráhrifa ber því að skoða ráðstöfun Innstadals í samhengi við afdrif Þverárdals. Af þessum sökum telur verkefnisstjórn 3. áfanga ekki réttlætanlegt að ráðstafa báðum þessum virkjunarkostum án þess að leggja nýtt mat á þau áhrif sem ráðstöfun annars svæðisins hefur á verðmæti hins.“ Verkefnisstjórn taldi sérstöðu Innstadals einnig meiri, m.a. vegna þess að um hann liggur fjölfarin gönguleið á Hengilinn.
Kjarninn hefur undanfarið fjallað um tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar í ljósi þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að finna loforð um að lokið verði við afgreiðslu hans. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað. Frekari útskýringar hafa stjórnvöld ekki gefið á hvað standi til og spurningum Kjarnans til umhverfisráðherra hefur enn ekki verið svarað.
Vegna óvissunnar hafa vaknað spurningar um hvernig afgreiðsla tillögunnar verði. Að fjölga kostum í biðflokki getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hefur ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Í stjórnarsáttmála var hins vegar einnig að finna loforð um a lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, þ.e. rammaáætlun, verði endurskoðuð „frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd orkukosta á Íslandi“. Sérstök lög á svo að setja um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera.
Markmið rammaáætlunar, þar sem framlagðir virkjanakostir eru metnir í faghópum út frá ýmsum áherslum, er að leysa sem mest má úr ágreiningi í samfélaginu um virkjana- og náttúruverndarmál. Að forgangsraða öllum þeim virkjanahugmyndum sem eru uppi hverju sinni og flokka í ýmist orkunýtingar-, biðflokk eða verndarflokk.
Núgildandi rammaáætlun, 2. áfangi, var samþykktur á Alþingi í janúar árið 2013 fyrir nákvæmlega níu árum síðan. Verkefnisstjórnir næstu tveggja áfanga hafa þegar lokið störfum og stjórn þess fimmta þegar hafið störf.
Þessa flóknu stöðu, sem hefur orðið til þess að nú velta margir fyrir sér hvort til standi að „rífa upp“ tillögu að þriðja áfanga í þinglegri meðferð hennar, færa kosti milli flokka, eða hvort hún verði einfaldlega endanlega lögð til hliðar og ný lög sett til að takast á við framhaldið, á rætur að rekja til stjórnmálanna.
Verkefnisstjórnir hafa staðið við sitt, skilað sínu, þótt sú fjórða undir forystu Guðrúnar Pétursdóttur hafi vegna óvissu um fyrri tillögu og ólíkrar sýnar þáverandi orkumálastjóra unnist tími til að ljúka lokaskýrslu sinni. Sú verkefnisstjórn lagði aðeins fram drög að tillögu að flokkun og eingöngu nokkurra þeirra sem Orkustofnun skilaði loks til stjórnarinnar eftir ítrekaðar beiðnir.
Komi að fjórða ráðherranum
Stjórnarslit hafa tvisvar sinnum orðið til þess að ekki tókst að afgreiða tillögu að þriðja áfanga á þinginu. Þriðja ríkisstjórnin, fyrsta ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sat heilt kjörtímabil og á því var tillagan tvisvar sinnum lögð fram en ekki afgreidd.
Nú er því komið að fjórða umhverfisráðherranum, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem einnig er ráðherra orkumála, að leggja hina fimm ára gömlu tillögu fram og hefur dagurinn 31. mars verið valinn til þess.