Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda vöxtum við núllið áfram, eins og þeir hafa verið frá því í desember 2008. Margir höfðu búist við því að seðlabankinn hæfi vaxtahækkunarferli enda hafði Janet Yellen, seðlabankastjóri, gefið það út í byrjun ársins að vextir gætu farið að hækka í kringum „mitt ár“. Síðan hefur nokkur spenna byggst upp enda þykir ákvörðunin um að hækka vexti vera viðurkenning á því að bandaríska hagkerfið sé formlega komið í gegnum öldudal, og að heimsbúskapurinn búi við nægilegt jafnvægi svo að þessi stærsta mynt heimsins séu bundin við hærri vexti.
Þrýstingur um að fara varlega
Það sem kemur í veg fyrir að vextir séu hækkaðir eru ekki atburðir í Bandaríkjunum, heldur á öðrum mörkuðum. Áhyggjur vegna minnkandi eftirspurnar, verðlækkunar á hrávörumörkuðum og óróa í Kína eru frekar ástæðan fyrir því að seðlabankinn hikar nú við að hækka vextina. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni segir orðrétt að gangur efnahagsmála í heimsbúskapnum sé líklegur til að „þrýsta á verðbólgu niður á við“, frekar en hitt. Því sé mikilvægt að stíga varlega til jarðar, þar sem verðbólga er nú 0,2 prósent. Vaxtahækkun nú gæti þrýst verðbólgu í verðhjöðnun, sem seðlabankinn vill forðast en verðbólgumarkmiðið er tvö prósent.
Fed leaves interest rates unchanged http://t.co/QOnKfoo0Bo pic.twitter.com/7v2iGi4wFN
— NYT Business (@nytimesbusiness) September 17, 2015
Nýjustu hagtölur í Bandaríkjunum hafa sýnt mikil batamerki og hefur atvinnuleysi meðal annars náð þeim lægðum sem það var í þegar best var fyrir hrunið á fjármálamörkuðum 2007 til 2009. Það mælist nú 5,1 prósent og hefur nýjum störfum fjölgað hratt undanfarin misseri, eða um að meðalti 230 þúsund í mánuði. Hagvaxtarspáin gerir ráð fyrir tvö til prósent hagvexti á þessu ári. Neikvæðustu atriðin í hagkerfinu snú að langtímaatvinnuleysi sem hefur fest sig meira í sessi en dæmi eru um á síðustu þrjátíu árum. Um 10,3 prósent af þeim sem eru án atvinnu eru hættir að leita að vinnu vegna þess að þeir telja ekki líklegt að þeir fái vinnu og þeir hafa jafnframt verið án vinnu í meira en sex mánuði.
Horfa út fyrir landsteinana
Eins og staða mála er nú er Seðlabanki Bandaríkjanna frekar með augun á öðrum mörkuðum en þeim sem er heima fyrir. Vegna þess hve bandaríski markaðurinn er áhrifamikill á heimsvísu, ekki síst þar sem Bandaríkjadalur er stærsta mynt heimsins og varasjóður þjóðríkja að miklu leyti bundinn í þessari mynt.