Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi getur ekki svarað af eða á um hvort skýrsla stofnunarinnar um sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka verði birt fyrir komandi helgi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Verið er að vinna úr umsögnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Bankasýslu ríkisins um skýrsludrögin, en ráðuneytið fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og fól undirstofnun sinni, Bankasýslunni, að selja umræddan hlut í Íslandsbanka. Frestur til að skila inn umsögnum rann út um miðja síðustu viku og fyrir liggur að bæði ráðuneytið og Bankasýsla ríkisins skiluðu inn umfangsmiklum umsögnum.
Í Morgunblaðinu er haft eftir Guðmundi Björgvini að hann vilji ekki gefa neinn tímaramma á það hversu lengi það kunni að taka að vinna úr umsögnunum. „Þetta er umfangsmikil skýrsla um flókið og umfangsmikið viðfangsefni. Umsagnirnar bera þess merki, sem eðlilegt er.“
Þegar Ríkisendurskoðun lýkur vinnu sinni mun stofnunin afhenda forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni, skýrslu sína. Þaðan fer hún til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til kynningar og umfjöllunar og í kjölfarið verður hún birt opinberlega.
Gæti haft áhrif á formannskjör
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar snýst í meginatriðum um hvort fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, og Bankasýsla ríkisins, undirstofnun þess, hafi staðið tilhlýðilega að framkvæmd sölunnar á áðurnefndum 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna í mars síðastliðnum.
Ljóst má vera að skýrsla Ríkisendurskoðunar gæti gagnast öðrum hvorum þeirra í baráttunni um formannssætið verði hún birt fyrir fundinn. Ef engar eða smávægilegar athugasemdir eru gerðar við aðkomu Bjarna að sölunni getur það nýst honum til að sækja atkvæði. Ef athugasemdir eru miklar eða alvarlegar gæti það nýst Guðlaugi Þór.
Átti að birtast fyrir júnílok
Skýrslan er gerð að beiðni Bjarna en hann bað formlega um gerð hennar 7, apríl síðastliðinn og Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér verkið í kjölfarið. Það gerðist í kjölfar þess að söluferlið var harðlega gagnrýnt víða í samfélaginu. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Það var gert þrátt fyrir háværar kröfur um að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefur mun víðtækari rannsóknarheimildir, til að fara yfir söluna. Í könnun Gallup frá því í apríl kom fram að næstum þrír af hverjum fjórum aðspurðum vildi að rannsóknarnefnd yrði skipuð og taldi að ekki væri nægjanlegt að Ríkisendurskoðun skoðaði málið. Meirihluti kjósenda allra flokka utan eins, Sjálfstæðisflokks, voru á þeirri skoðun.
Ríkisendurskoðun ákvað daginn eftir, þann 8. apríl, að verða við beiðni Bjarna.
Í bréfi sem hún sendi til Bjarna vegna þess sagði að „áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar hefur ekki farið fram en hún mun verða endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. Í því sambandi er ítrekað að skv. 3. mgr. 1. gr. framangreindra laga er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Stefnt er að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði 2022.“
Enginn ríkisendurskoðandi til staðar
Það flækti málin að Alþingi átti eftir að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda í stað Skúla Eggerts Þórðarsonar, sem ákvað að hætta sem slíkur og verða ráðuneytisstjóri í nýju viðskipta- og menningarráðuneyti. Til stóð að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda á þingi fyrir maílok.
Því var sú staða uppi að Ríkisendurskoðun var falið að ráðast í úttekt á einu umdeildasta þjóðfélagsmáli síðari ára án þess að búið væri að skipa nýjan ríkisendurskoðanda.
Guðmundur Björgvin var starfandi ríkisendurskoðandi á þessum tíma og einn þeirra tólf sem sóttist eftir embættinu.
Það frestaðist að ganga frá kosningu ríkisendurskoðanda og þann 8. júní hafði Kjarninn eftir Guðmundi Björgvini að til stæði að skila skýrslunni um Íslandsbankasöluna til Alþingis í síðustu viku júnímánaðar. Daginn eftir, þann 9. júní, var Guðmundur Björgvin kosinn nýr ríkisendurskoðandi.
Þegar þingfundum var frestað 16. júní síðastliðinn var það gert til að þingmenn gætu verið í sumarfríi til 13. september, eða í þrjá mánuði. Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, bað þingmenn hins vegar um að vera undir það búna að Alþingi yrði kallað saman til framhaldsfunda þegar þinginu hefur borist skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.
Júlí, ágúst, september, október og loks nóvember
Skýrsluskilin frestuðust þó fljótt. Þegar fjölmiðlar spurðust fyrir um stöðu mála seinni hluta júnímánaðar fengust þau svör að búist væri við því að skýrslan yrði tilbúin fyrir lok júlímánaðar, fyrir verslunarmannahelgi.
Þegar leið að verslunarmannahelgi spurðist Kjarninn fyrir um afdrif skýrslunnar og fékk þá þau svör að hún yrði tilbúin fyrri hluta ágústmánaðar.
Seint í ágúst sagði forseti Alþingis svo við RÚV að hann byggist við skýrsluna um komandi mánaðamót. Skömmu síðar var greint frá því að skýrslan myndi birtast upp úr mánaðamótunum ágúst/september.
Í byrjun september fékk Kjarninn svo þau svör að vinnan væri „á lokametrunum“ og að skýrslan myndi berast forseta Alþingis einhvern tímann í september.
Það stóðst ekki drög að skýrslunni bárust ekki þeim sem fengu tækifæri til að skila inn umsögnum um hana fyrr en 12. október. Upphaflega áttu ráðuneytið og Bankasýslan að fá viku til að vinna umsagnir sínar en Bankasýslan óskaði eftir rýmri tíma, eða viku í viðbót. Síðustu umsagnir bárust því ekki fyrr en 26. október. Nú blasir við að um sjö mánuðir munu hafa verið liðnir frá því að Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér að gera umrædda skýrslu, og skila henni fyrir júnílok, þar til að skýrslan verður gerð opinber.
Yfir 70 prósent treystu ekki Bjarna í apríl
Ástæða þess að Ríkisendurskoðun var falið að skoða þetta mál er, líkt og áður sagði, mikil gagnrýni sem kom fram í kjölfar síðasta hluta sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka.
Könnun sem Gallup gerði skömmu eftir að salan var um garð gengin sýndi að 87,2 prósent landsmanna töldu að staðið hafi verið illa að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, næstum sjö af hverjum tíu töldu að lög hefðu verið brotin og næstum níu af hverjum tíu töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hefðu verið viðhafðir. Málið hafði augljóslega áhrif á stöðu Bjarna í huga landsmanna. Í könnun sem Maskína gerði í apríl kom fram að hann naut einungis trausts 18,3 prósent kjósenda en 70,7 prósent sögðust vantreysta honum. Engum öðrum ráðherra var vantreyst jafn mikið og einungis Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var treyst af færri, eða 17,8 prósent svarenda.
Kjarninn greindi frá því fyrr í október að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.