Rune Christiansen heitir maður nokkur, búsettur á Suður-Jótlandi. Rune er, eða réttara sagt var, kennari við grunnskólann í bænum Egtved, skammt fyrir sunnan Billund. Egtved er ekki oft í fréttum en árið 1921 fundust þar í dys frá bronsöld, líklega um 1300 f.Kr, ótrúlega vel varðveittar líkamsleifar ungrar stúlku. Þessi fundur er talinn einn merkasti fundur frá tíma bronsaldarinnar í Evrópu, og vakti heimsathygli.
Rune Christiansen er ekki heimsþekktur eins og Egtvedstúlkan en nafn hans hefur síðustu daga mátt sjá í mörgum dönskum fjölmiðlum. Af sérstökum ástæðum.
Kennarastarfið er ekki hálaunastarf í Danmörku. Oft má lesa í fjölmiðlum um nauðsyn þess að leggja í varasjóð hluta af laununum og eiga í handraðanum þegar kemur að eftirlaunaaldrinum. Þessi umræða hafði ekki farið framhjá Rune. Til að tryggja „áhyggjulaust ævikvöld“ eins og það er kallað ákvað hann ungur að leggja til hliðar tiltekna upphæð í hverjum mánuði.
Fréttir um góða ávöxtun freistuðu
Þótt Rune Christiansen legði til hliðar í hverjum mánuði þótti honum innistæðan á bankabókinni vaxa hægt. Fréttir af mikilli hagnaðarvon svokallaðrar rafmyntar, sem iðulega voru í fréttum, freistuðu og árið 2017 ákvað Rune að veðja á þessa nýju ávöxtunarleið. Hann tók innistæðuna af bankabókinni og keypti rafmynt. Ráðgjafi í bankanum óskaði Rune alls hins besta en sagði að þótt ávöxtunin á bankabókinni væri ekki mikil væri hún trygg „maður veit aldrei með þessa rafmynt“. Rune svaraði því til að hann skildi vel þetta sjónarmið en þetta breytti engu um sín áform.
Hvað er rafmynt?
Margir setja samasemmerki milli rafmyntar og Bitcoin. Samtals eru til fleiri en 300 mismunandi tegundir rafmyntar í heiminum en Bitcoin er lang stærst og þekktust. Bitcoin var upphaflega kynnt árið 2009 af einstaklingi sem kallaði sig Satoshi Nakamoto. Enginn veit með vissu hver Satoshi Nakamoto er, þótt tilgáturnar séu margar. Bitcoin er ekki hefðbundin mynt heldur rafeyrir sem byggir á dulkóðun og hugbúnaði en hægt er að eignast myntina með „námavinnslu“ á netinu. Tilgangurinn með tilurð Bitcoin var að sögn Satoshi Nakamoto að taka völdin frá fjármálaelítunni og gefa almenningi kost á að taka þátt í fjármálakerfum heimsins. Bitcoin er ekki banki og þar er enginn bankastjóri við völd.
Allt er þetta mjög óáþreifanlegt, enda tilgangurinn. Bitcoin er einkum notað til viðskipta á netinu en margir nota myntina til fjárfestinga, líkt og Rune Christiansen hefur gert.
Miklar sveiflur
Árið 2017 þegar Rune Christiansen ákvað að fjárfesta í Bitcoin voru dönsku skattareglurnar varðandi rafmynt þannig að hagnaður af viðskiptum var skattfrjáls. Ef tap varð á viðskiptunum var það ekki frádráttarbært. Hjá Rune gekk allt vel í byrjun, peningarnir sem hann hafði varið í Bitcoin ávöxtuðust vel og danski skatturinn (skattefar eins og Danir segja) skipti sér ekki af viðskiptunum. En allt tekur enda og það gerði uppsveiflan í Bitcoin líka. Áður var minnst á skattareglurnar sem voru í gildi þegar Rune Christiansen stökk inn í Bitcoin heiminn (hans eigið orðalag) en Adam var ekki lengi í þeirri skattaparadís.
96 ára gamlar reglur rothögg fyrir Rune
Árið 2018 tóku gildi nýjar reglur í Danmörku varðandi rafmyntir. Reglurnar voru reyndar ekki nýjar, þær voru frá árinu 1922 en höfðu verið felldar úr gildi mörgum árum fyrr en nú teknar upp á ný. Í stuttu máli eru „nýju“ reglurnar þannig að nú skal greiddur skattur, 53% af hagnaði en heimilt er að draga 26,5% af tapi frá, þó með tiltekinni hámarksupphæð. Vegna mikillar lækkunar Bitcoin gengisins hefur Rune Christiansen tapað öllu sem hann lagði í Bitcoin viðskiptin og ekki nóg með það. Vegna mikils hagnaðar, sem svo hvarf, situr Rune nú uppi með reikning frá danska skattinum uppá 2,8 milljónir danskra króna, það jafngildir um rúmum 57 milljónum íslenskum. Rune sagði í viðtali við dagblaðið Børsen að hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð, hann hefði þessa peninga ekki undir koddanum og hefði í raun aldrei séð þá. Hann lagðist í þunglyndi sem varð til þess að hann varð að hætta kennslunni. Árlegir vextir af skattaskuldinni eru um það bil 250 þúsund og Rune segist ekki hafa nokkra möguleika á að borga þá, og enn síður höfuðstólinn. Danskur skattasérfræðingur sem dagblaðið Børsen ræddi við sagði þessar gömlu reglur sem skattayfirvöld hefðu dregið fram hefðu kannski átt við árið 1922 en hreint ekki í dag. Það væri í raun ótrúlegt að næstum hundrað ára gamlar rykfallnar reglur væru dregnar upp úr skúffunni hjá skattinum, eftir langt hlé.
Reglurnar í endurskoðun
Jeppe Bruus ráðherra skattamála sagði í blaðaviðtali fyrir nokkrum dögum að sérstök ráðgjafarnefnd um skattamál (Skattelovrådet) væri nú að yfirfara þessar áðurnefndu reglur og ætti að skila tillögum sínum til ráðherrans fyrir mitt ár 2023. Ráðherrann sagði að vel gæti verið að gömlu reglurnar ættu ekki lengur við. Blaðamaður spurði hvort ekki væri óeðlilegt að reglurnar hefðu ekki verið endurskoðaðar, í ljósi þess að nú væri liðið vel á annan áratug síðan farið var að höndla með rafmynt. Ráðherrann sagði að þegar rafmyntin kom fram á sínum tíma hefði enginn séð fyrir hvað myndi gerast, hvort þetta væri bara tímabundin bóla. „En nú erum við að bregðast við“ sagði Jeppe Bruus.
Í lokin er rétt að geta þess að Rune Christiansen er ekki eini maðurinn sem hefur fengið reikning frá Skattinum vegna rafmyntar. Um það bil eitt þúsund Danir hafa síðan 2019 fengið slíkan reikning. Samanlögð upphæð þeirra reikninga er 89 milljónir danskra króna, það jafngildir 1.750 milljónum íslenskum.