Stríðið í Austur-Úkraínu, sem hefur kraumað í nokkur ár og vakið mismikla athygli, hefur stigmagnast að undanförnu. Rússar hafa flutt mikinn herafla að landamærum Úkraínu, allt að hundrað þúsund hermenn, og Bandaríkin séð ástæðu til að bregðast við og íhuguðu um tíma að senda flugmóðurskip inn á Svartahaf. Átökin hófust árið 2014, skömmu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga, þegar upp úr sauð á milli aðskilnaðarsinna – sem Rússar styðja – og stjórnvalda í Kænugarði.
Úkraína færir sig í átt að Evrópu – Rússar bregðast við
Ástæða átakanna er m.a. meint ósætti hins fjölmenna rússneska minnihluta við tilburði stjórnvalda til aukinna samskipta í vesturátt, m.a. með nánari samvinnu við Evrópusambandið og NATO. Átökin fara nú fram í héruðunum Donetsk og Luhansk á svæði sem kallast Donbas og liggur að landamærum Rússlands. Svæðið á sér langa sögu, hvar rússnesk áhrif hafa ætíð verið mikil og Rússar verið fjölmennir. Þeir eru minnihluti sem telur tæplega 40 prósent þeirra rúmlega 6 milljóna sem þar búa.
Í nóvember 2013 tilkynnti Janúkóvitsj, þáverandi forseti – sem hliðhollur var Rússum – að úkraínsk stjórnvöld myndu ekki undirrita umfangsmikinn samstarfssamning við Evrópusambandið. Sá samningur fól í sér fyrsta skrefið í átt að nánari samvinnu og á endanum inngöngu landsins í Sambandið. Úkraínubúar streymdu út á götur í mótmælaskyni og öryggissveitir gerðu árásir á mótmælendur sem komu saman á Maidan-torgi í miðborg höfuðborgarinnar Kænugarðs. Andstaðan var mikil og á endanum hrökklaðist Janúkóvitsj forseti frá völdum.
Á vormánuðum árið 2014 kaus úkraínska þingið starfandi forsætisráðherra og forseta. Þeir tóku upp þráðinn og lýstu þegar í stað yfir þeim fyrirætlunum að undirrita samninginn og færa landið nær nánara Evrópusamstarfi. Rússar brugðust við með hervaldi og innlimun Krímskaga og í kjölfarið brutust út bardagar í Donbas, þar sem rússneskar öryggissveitir studdu dyggilega hreyfingu aðskilnaðarsinna. Rússar hafa nú náð undirtökum á svæðinu og réttlæta aðgerðir og stuðning við uppreisnarmenn með því að rússneskur minnihluti sé kúgaður og ofsóttur innan landamæra Úkraínu – sem þeim beri skylda að verja.
Síðan átökin hófust árið 2013 hafa hátt í 15 þúsund manns látist og tugir þúsunda særst. Þar með taldir þau 298 sem létu lífið þegar uppreisnarmenn studdir af rússum skutu niður malasíska farþegaþotu á leið frá Hollandi. Hryðjuverk eru daglegt brauð á hernámssvæðunum og um ein og hálf milljón manna, íbúar Krímskaga og Donbas-svæðisins, eru á flótta innanlands eftir að hafa verið neyddir til að yfirgefa heimili sín vegna hernáms Rússa. Mikilvægt er að taka fram að þar á meðal eru margir íbúar af rússneskum uppruna.
Nýlega tilkynntu Úkraína og NATO um sameiginlegar heræfingar og kallar Vladimir Zelensky forseti eftir því að inngöngu Úkraínu í bandalagið verði flýtt. Hann hefur lagt áherslu á friðsamlega lausn deilunnar en hvatti NATO til að styrkja hernaðarlega veru sína á Svartahafssvæðinu og fullyrti að slík ráðstöfun myndi virka sem „öflugur fælingarmáttur“ gagnvart Rússum. Eftir fundinn tísti Stoltenberg: „NATO styður fullveldi Úkraínu og landhelgi. Við erum áfram skuldbundin til náins samstarfs.“
Aðferðir Rússa – fjölþáttahernaður í sinni skýrustu mynd
Fyrir Rússa er Úkraína eins og varnarmúr milli þeirra og Vesturlanda og eru hin auknu vestrænu tengsl því augljós þyrnir í augum. Þetta á ekki bara við um Úkraínu því svipaðir hlutir hafa verið að gerast í öðrum fyrrum Sovétlýðveldum eins og Georgíu. Til að viðhalda ítökum sínum og vörnum hefur Rússland þannig í reynd aldrei viðurkennt algilt fullveldi margra fyrrum Sovétlýðvelda.
Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hafa þeir jafnt og þétt einnig náð undirtökum á Donbas-svæðinu. Að þeirra sögn með hjálp rússneskættaðra sjálfboðaliða – litlu grænu kallanna – en ekki skipulögðum hernaðaraðgerðum.
Hins vegar er það staðreynd að Rússar beita fjölþáttahernaði til að ná fram markmiðum sínum, aðferðum sem þeir nota einnig í Eystrasaltsríkjunum og á Balkanskaga – í ríkjum sem þó sum eiga aðild bæði að NATO og ESB. Fjölþáttahernaður Rússa er ekki einungis bundinn við lönd þar sem þeir telja sig eiga einhverra beinna hagsmuna að gæta því þeir beita slíkum aðferðum víða um heim. Vestur-Evrópulönd hafa t.a.m. ekki farið varhluta af upplýsingaóreiðu-herferðum Rússa en þar er Þýskaland aðal skotmarkið.
Rússar hafa beitt fjölþáttahernaði til hins ítrasta í Úkraínu. Má þar nefna netárásir, efnahags- og viðskiptalegan þrýsting og hindranir á orkuflutningi, bein hryðjuverk og ógnun við úkraínska ríkisborgara, upplýsingaóreiðu þar sem staðreyndum er afneitað og andstæðingum kennt um eigin glæpi.
Jafnframt beita Rússar kúgunaraðgerðum og stunda stórfelld og kerfisbundin brot á mannréttindum og grundvallarfrelsi borgaranna. Var ógnvekjandi ástand mannréttindamála á herteknum Krímskaga fordæmt með ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt 19. desember 2016.
Sjónarmið Rússa – og sumra Vesturlandabúa
Frá sjónarhóli Rússa líta málin talsvert öðruvísi út og á Vesturlöndum eru til þeir sem taka undir þau sjónarmið. Samkvæmt þeim er ábyrgð Vesturlanda mun meiri í málinu en þau vilji vera láta. Úkraína sé margklofin vegna ágreinings hvað varðar þjóðerni, tungumál, trú, menningu, efnahag og stjórnmál. Úkraína sé vissulega eitt ríki en mjög langt frá því að vera sameinuð þjóð og spillt yfirstétt hafi gert deilurnar, sem eru langt í frá nýtilkomnar, enn verri. Borgarastríðið stafi af innri deilum þar sem ofbeldis- og öfgafullar hreyfingar komi að mótmælum og hafi náð undirtökum í stjórnmálum vegna ómarkvissrar aðkomu Vesturlanda.
Rússar litu á aðkomu ESB að málefnum Úkraínu sem ögrun en Sambandið hafði frá árinu 1991 tekið þátt í stækkunaraðgerðum með fyrrum Sovétlýðveldum, undir ýmsum formerkjum. Hvort einfeldni hafi verið um að kenna skal ósagt látið en lítið samstarf var haft við Rússa. Þeir sjá þannig fyrrnefndan viðskiptasamning Evrópusambandsins sem leið til að lokka Úkraínu til Vesturheims, þar með talið inn í NATO. Þetta sé ögrun við Rússland sem neyðist til að bregðast hart við.
Rússar hafa brotið gegn fullveldi Úkraínu – en þeir eru ekkert að fara
Þessi söguskýring Rússa er ansi hæpin og sprottin af þeim miklu hagsmunum sem þeir telja sig eiga að gæta. Þarna er mikilvægt að halda til haga að hvort sem Rússum líkar betur eða verr er Úkraína sjálfstætt fullvalda ríki sem Rússar hafa brotið alvarlega gegn. Þá er rétt að taka fram að stuðningur rússneska minnihlutans við aðskilnaðarstefnu eða þýlyndi við Moskvu er heldur ekki algilt – og ríkur vilji er meðal Úkraínubúa til nánara samstarfs við Vesturlönd.
Það sem vekur ugg hjá vestrænum stjórnarerindrekum og sérfræðingum er harka í orðfæri embættismanna í Kreml og eðli umfjöllunar rússneskra fjölmiðla. Þeir segja frá meintum áætlunum úkraínskra stjórnvalda um að sækja fram í Donbas og að þau séu mögulega að skipuleggja þjóðernishreinsanir á Rússum. Sagði talsmaður Pútíns nýlega að ráðamenn í Kreml óttist vopnahlésbrot og þeir væru reiðubúnir til að grípa til ráðstafana til að vernda rússneska borgara. Yfirmaður Úkraínuhers vísaði þessum fullyrðingum Rússa á bug og sakar þá um að leita að yfirskini til að hefja innrás.
Bandaríkin og Evrópulönd hafa augljóslega mikilla hagsmuna að gæta en viðbrögð við ógnandi tilburðum Rússa undanfarið hafa þó verið misjöfn. Sumir segja að með aukinni hernaðarlegri nærveru séu Rússar einungis að þyrla upp ryki og muni ekki fylgja því eftir með raunverulegum aðgerðum. Aðrir hafa meiri áhyggjur og telja að fyrirætlanir Pútíns séu ófyrirsjáanlegar, ögrun sem ætlað er að prófa nýjan og óreyndan forseta og gæti stigmagnast með slæmum afleiðingum.
Hinn afgerandi stuðningur NATO – í orði – og Bandaríkjanna sem veitt hafa miklum fjárhæðum í aðstoð við Úkraínu, gæti reynst tvíeggjað sverð. Þegar hafðir eru í huga landfræðipólitískir hagsmunir Rússa, sem munu ólíklega sætta sig við Úkraínu sem „vestrænt“ ríki, mögulega í ESB og NATO, má gera ráð fyrir að þeir séu ekkert að fara að bakka út. Þeir muni því halda áfram að beita hámarksþrýstingi með þeim ógeðfelldu aðferðum fjölþáttahernaðar sem tiltækar eru og þeir eru þekktir fyrir, ef ekki fara í beina innrás í landið.
Vanmáttur Vesturlanda – Rússar hafa lært að ofbeldi borgar sig
Þarna kemur til kasta samstöðu vestrænna ríkja og getunnar til að leika leikinn af yfirvegun, en um leið nægilegri ákveðni. Samkvæmt kenningunum í alþjóðasamskiptum er varasamt að króa af sterkan andstæðing sem gerir sér grein fyrir því að veldi hans fer hnignandi, því hann er þá líklegur til að láta skeika að sköpuðu. Ákjósanleg niðurstaða er að aðgerðir Vesturlanda fái Rússa til að sjá hag sínum best borgið með því að taka þátt í alþjóðasamfélaginu á eðlilegum forsendum – án þess að treysta á yfirráð og bein ítök í nágrannaríkjum – sem er viðhaldið með ófyrirleitni og yfirgangi eins og Rússar eru þekktir fyrir.
Það má segja að áðurnefndar kenningar hafi í reynd litað viðbrögð Vesturlanda. Viðskiptaþvinganir, ferðabönn og hefðbundin diplómasía eru aðferðirnar sem beitt hefur verið í stað beinnar íhlutunar sem leitt gæti til vopnaðra átaka. Aðferðafræði Rússa á Krímskaga og í Donbas svipar mjög til atburða í Georgíu 2008 þegar „sjálfstæði“ Abkasíu og Suður-Ossetíu, tveggja héraða innan Georgíu var „tryggt“ með rússneskri íhlutun. Þá, eins og í Úkraínu, varð það til þess að hreyfing í átt til aðildar að ESB og NATO sigldi í strand.
Rússar hafa þannig lært að íhlutun, yfirgangur og ofbeldi er aðferð sem virkar. Vesturlönd, þrátt fyrir hernaðar- og efnahagslega yfirburði eru einfaldlega of vanmáttug til að bregðast við með afgerandi hætti því samstaða þeirra brestur á endanum. Viðskiptahagsmunir verða gjarnan ofan á: Gasleiðslur verða áfram lagðar, jarðefnaeldsneyti áfram keypt, sama hversu oft er hlutast til um innanríkismál nágrannaríkja með hernaði og undirróðri, eða rússneskir andófsmenn myrtir af rússneskum flugumönnum.
Miðað við aukna hörku í umræðunni undanfarið – og mun meira afgerandi talsmáta nýrra stjórnvalda í Washington, má velta fyrir sér hvort senn dragi til meiri tíðinda. Verður áhugavert að fylgjast með þegar utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Sergei Lavrov hittast á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem haldinn verður Reykjavík í næsta mánuði.