Rússnesk stjórnvöld standa frammi fyrir miklum áskorunum vegna niðursveiflu í hagkerfi landsins óhjákvæmilegt er að þau taki til hendinni og hagræði í rekstri, og beiti auk þess stjórntækjum sem framkvæmd peningastefnu í seðlabanka landsins býður upp á til að sporna við slæmri þróun. Þetta kemur fram í stöðumati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á horfum í Rússlandi en hröð verðlækkun á olíu, ofan í efnahagsþvinganir Vesturlanda, hafa leikið hagkerfi landsins grátt. Því er spáð að hagkerfið minnki um 3,4 prósent í ár en hagvöxtur verði aftur orðinn sjáanlegur á næsta ári. Samkvæmt spá sérfræðinga sjóðsins gæti hann orðið 1,5 prósent á næsta ári.
Kúvending
Á innan við ári hefur fatið af olíu lækkað úr 110 Bandaríkjadölum niður fyrir 50 dali nú. Fyrir olíuútflutningsríki eins og Rússland eru þetta vondar fréttir, svo ekki sé meira sagt. Margfeldisáhrif olíugeirans í Rússlandi eru mikil um allt hagkerfið þar sem ýmis þjónusta og þekkingariðnaður hefur byggst upp í kringum olíuútflutninginn. Það er ekki síst þar sem hefur orðið samdráttur vegna lækkandi verðs, og ekki augljóst að hann nái sér á strik aftur nema að miklar breytingar verði á mörkuðum.
Höft á inn- og útflutningi
Efnahagsþvinganir Vesturlanda sameiginlega, alþjóðastofnanna og síðan sértækt hjá einstökum ríkjum, hafa verið umfangsmiklar og ekki sér fyrir endann á þeim. Ástæðan eru átökin á Krímskaga og framferði Rússa í garð Úkraínu. Þá hafa ýmsir þjóðarleiðtogar varað við Vladímir Pútín, forseta Rússlands, sérstaklega og gekk Angela Merkel það langt að kalla hann veruleikafirrtan. Nauðsynlegt væri að taka höndum saman gegnum valdabrölti hans, annars væri voðinn vís.
Aðgerðirnar hafa birst í því að höft hafa verið sett á kaup á rússneskum vörum, sem hefur komið illa við útflutningshlið hagkerfisins. Þá hafa eignir rússneskra auðmanna erlendis verið frystar, meðal annars í Bandaríkjunum. Rússar hafa brugðist við þessu með því að banna innflutning á vörum frá Vesturlöndum til Rússlands, með undantekningum þó. Ísland er á meðal þeirra ríkja sem innflutningsbannið nær ekki til, eins og verið hefur til umræðu að undanförnu. Á skömmum tíma hefur Rússlandsmarkaður orðið mikilvægur fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, einkum þegar kemur að viðskiptum með makríl. Í fyrra námu viðskipti við Rússland rúmlega 21 milljarði króna og er uppistaðan vegna viðskipta með makríl. Ljóst er að innflutningsbann á Ísland gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir mörg fyrirtæki. En afstaða íslenskra stjórnvalda, og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, hefur verið skýr um að standa með Vesturlöndum í því að styðja efnahagslegar þvinganir gagnvart Rússum. Ekkert hefur breyst í þessum efnum ennþá, en vaxandi þrýstingur hefur verið á íslensk stjórnvöld að endurskoða afstöðu sína í ljósi þeirra viðskiptalegu hagsmuna sem eru undir. Útgerðarmenn hafa fundað með Gunnari Braga og hans fólk, oftar en einu sinni, þar sem þessi mál hafa verið rædd og þá hafa einstaka þingmenn, meðal annars Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki, nefnt að Ísland verði að hugsa um sína hagsmuni og hugsanlega draga sig út úr sameiginlegum þvingunaraðgerðum með Vesturlöndum og alþjóðastofnunum, þar á meðal Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Birgir Ármansson Sjálfstæðisflokki, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur þó sagt að ekki sé ástæða til þess að endurskoða afstöðu Íslands hvað þessi mál varðar.
Igor Morozov, þingmaður í Rússlandi og flokksbróðir Pútíns, hefur sérstaklega gert þátt Íslands í þvingunaraðgerðunum að umtalsefni að undanförnu vill að þeim verði svarað. Meðal annars með því að takmarka ferðamannastraum frá Rússlandi hingað til lands og jafnvel með öðrum aðgerðum.
Augljóslega er því pólitískur titringur hvað þátt Íslands varðar fyrir hendi.
Þessi mynd birtist í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um gang mála í Rússlandi, í gær. Hún sýnir hversu mikil vandamál eru nú að einkenna rússneskan efnahag. Mynd/AGS
Stór markaður og dyr að enn stærri markaði
Rússlandsmarkaður er risavaxinn, á flesta mælikvarða, og er oft sagður vera markaðurinn fyrir Austur-Evrópu í heild og einnig mikilvægar dyr inn á aðra markaði, meðal annars í Asíu. Vörur eru seldar til Rússlands, og síðan áfram annað. Tæplega 150 milljónir manna búa í Rússlandi og hefur kaupmáttur vaxið hratt á undanförnum árum, með tilheyrandi aukningu í sölu á neysluvörum. En á þessu hefur orðið hröð breyting að undanförnu, þó enn sé þetta mikilvægt og stórt markaðssvæði.
Aðgerðirnar hafa bitið
Þó Pútín hafi sagt að Rússar hafi svarað efnahagslegum þvingunum með sjálfstæðum aðgerðum, meðal annars innflutningsbanni sem eigi að örva framleiðslu heima fyrir, þá telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að aðgerðir Vesturlanda hafi bitið verulega í rússneska björninn. Hann er nú særður, en að mati sjóðsins hefur hagvöxtur í landinu minnkað um eitt til eitt og hálft prósentustig vegna aðgerðanna. Það verður að teljast gríðarmikið högg á skömmum tíma, enda ekki langt síðan að Rússland taldist til mest vaxandi markaðssvæða heimsins og Moskva á sama tíma höfuðvígi milljarðamæringa. Þessi staða er nú breytt og framtíðin er óljós og lituð óvissu.