Samgöngustofa virðist í einhverjum tilvikum hafa haft viðskiptalega hagsmuni flugfélagsins WOW air að leiðarljósi í ákvörðunartöku sem snéri að flugfélaginu þegar það réri lífróður síðla árs 2018 og í byrjun árs 2019, í stað þess að styðjast við þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald. „Til marks um það má benda á að Samgöngustofa tilkynnti WOW air hf. um að fjárhagsmat ætti að fara fram þremur dögum eftir að skuldabréfaútboði félagsins lauk þann 18. september 2018, þó Samgöngustofa hafi fengið fyrirmæli um að framkvæma ítarlegt fjárhagsmat frá ráðuneyti sínu tveimur vikum fyrr.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air sem var tilbúin í mars síðastliðnum en kynnt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær, mánudag. Skýrslan verður til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd í næstu viku en Kjarninn hefur hana undir höndum.
Í skýrslunni er verklag Samgöngustofu harðlega gagnrýnt. Auk þess skoðaði Ríkisendurskoðun einnig vanskil WOW air við ríkisfyrirtækið Isavia. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að greiðslufrestir og lánakjör sem Isavia veitti WOW air hafi verið með þeim hætti að ekki hafi verið óeðlilega ríkisaðstoð að ræða þar sem vextir voru miðaðir við markaðskjör.
Á meðan að á dauðastríði WOW air stóð, í byrjun febrúar 2019, ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að auglýsa stöðu forstjóra Samgöngustofu lausa til umsóknar. Þórólfur Árnason hafði þá gengt starfinu síðan í byrjun ágúst 2014 og skipunartíma hans var að ljúka. Þórólfur hafði sóst eftir því að gegna starfinu áfram og var á meðal þeirra 23 sem sóttu um það. Í júní 2019 var Jón Gunnar Jónsson skipaður forstjóri Samgöngustofu til fimm ára.
Ekki óeðlileg ríkisaðstoð frá Isavia
WOW air varð gjaldþrota 28. mars 2019. Þá hafði félagið barist fyrir áframhaldandi tilveru sinni fyrir opnum tjöldum frá því síðsumars 2018 og átt í miklum erfiðleikum allt frá haustinu 2017.
Isavia, sem á og rekur Keflavíkurflugvöll og er í eigu íslenska ríkisins, þurfti að afskrifa yfir tvo milljarða íslenskra króna vegna skuldar WOW air við opinbera hlutafélagið, sem Isavia leyfði WOW air að safna upp þegar félagið var komið í fjárhagserfiðleika. Isavia reyndi, þegar WOW air var farið á hausinn, að kyrrsetja þotu sem WOW air hafði á láni frá flugvélaleigufyrirtækinu AirLease Corporation (ALC) sem tryggingu fyrir skuldinni.
Sú þota flaug af landi brott 19. júlí 2019 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem komst að þeirri niðurstöðu að Isavia gæti ekki krafið ALC um ógreidd gjöld WOW air önnur en þau sem tengdust þessari tilteknu flugvél.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að stjórn og stjórnendur Isavia hafi lagt áherslu á að vinna eftir fremsta megni með WOW air um lausn á greiðsluvanda félagsins og forðast að beita kyrrsetningarheimild í lögum um loftferðir. Slík kyrrsetning hefði að öllum líkindum valdið falli flugrekandans á skömmum tíma að mati Ríkisendurskoðunar. „Af fundargerðum og öðrum gögnum er ljóst að stjórnendur Isavia ohf. héldu stjórn félagsins vel upplýstri um vaxandi rekstrarvanda WOW air hf. Stjórn Isavia ohf. vann út frá þeirri forsendu að fullnægjandi tryggingar væru fyrir skuldum flugfélagsins með kyrrsetningu loftfars á þess vegum og hafði stjórnin aflað lögfræðiálits sem staðfesti það. Þá upplýsti stjórnarformaður Isavia ohf. fjármála- og efnahagsráðherra, sem fulltrúa eiganda félagsins, um stöðu mála vegna rekstrarerfiðleika WOW air hf.“
Ríkisendurskoðun metur það sem svo að greiðslufrestir og lánakjör sem WOW air fékk hafi ekki falið í sér óeðlilega ríkisaðstoð þar sem vextir voru miðaðir við markaðskjör hverju sinni. Ekkert í lögum meini Isavia að semja við viðskiptamenn sína um niðurgreiðslu skulda og stjórn Isavia taldi sig hafa fullnægjandi tryggingar fyrir skuld WOW air. „Að mati Ríkisendurskoðunar þykir ekki ástæða að gera athugasemdir við heimildir opinberra hlutafélaga til að veita slíka fyrirgreiðslu svo lengi sem hún er á viðskiptalegum grundvelli og fullvíst sé talið að hún teljist ekki til ólöglegrar ríkisaðstoðar.“
Varðandi kyrrsetningu þotu WOW air upp í skuld, sem skilaði ekki tilætluðum árangri, segir Ríkisendurskoðun að vafi leiki á um hversu víðtæk kyrrsetningarheimild loftferðarlaga er. „Á meðan óvissa ríkir um túlkun lagaákvæðisins er ljóst að rekstrarforsendur og umhverfi flugvallarrekanda og flugrekstraraðila munu einkennast af aukinni óvissu sem ætla má að hafi neikvæðar afleiðingar á viðskiptaumhverfi beggja aðila.“
Samgöngustofa veitti ráðuneytinu misvísandi upplýsingar
Ríkisendurskoðun var líka falið að draga fram hvernig Samgöngustofa hefði uppfyllt lögbundið hlutverk sitt í aðdraganda falls WOW air, en stofnunin hefur meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með því að flugfélög sem eru með útgefin flugrekstrarleyfi séu rekstrarhæf.
Þar er niðurstaðan afar gagnrýnin. Samgöngustofa hóf ekki að fylgjast nánar með rekstri og stöðu WOW air fyrr en í september 2018. Það er næstum ári síðar en Isavia hóf slíkt eftirlit vegna áhyggja af rekstrarhæfi flugfélagsins.
Í skýrslunni segir að þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu varð ljóst að WOW air væri komið í fjárhagsvandræði, í maí 2018, hefði það aflað sér upplýsinga um framkvæmd eftirlits Samgöngustofu með flugfélaginu. Að mati ráðuneytisins var eftirlitinu ábótavant og nauðsynlegar breytingar á því höfðu ekki náð fram að ganga í ágúst 2018. Því sendi ráðuneytið fyrst frá sér leiðbeiningar og að lokum fyrirmæli um sérstakt eftirlit í byrjun september sama ár.
Samgöngustofa kvaðst þá þegar vinna að slíku mati en samkvæmt skýrslunni hafi það hins vegar ekki verið þannig í reynd með formlegum hætti. „Það var ekki fyrr en 21. september, tveimur vikum eftir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hafði gefið stofnuninni fyrirmæli um að gera ítarlegt mat á fjárhagsstöðu WOW air hf., að Samgöngustofa tilkynnti flugfélaginu að eftirlit væri hafið með bréfi þess efnis. Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni.“
Áttu að herða eftirlit strax í maí 2018
Að mati Ríkisendurskoðunar átti Samgöngustofa að herða eftirlit með WOW air strax í maí 2018 þegar stofnunin fékk upplýsingar um erfiða stöðu félagsins og að það gæti ekki staðið undir rekstri vetrarins kæmi ekki til nýtt fjármagn.
Tæpir fjórir mánuðir liðu hins vegar frá því Samgöngustofa og ráðuneytið voru upplýst um veruleg fjárhagsvandræði WOW air þar til ráðuneytið sendi frá sér bein fyrirmæli til Samgöngustofu um að hafa sérstakt eftirlit með fjárhag flugfélagsins.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á því að á þeim tíma sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki og flugfélag stóð höllum fæti fjárhagslega hafi verið uppi ágreiningur milli Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um hvað teldist fullnægjandi fjárhagseftirlit. „Þegar svo ber undir á ráðuneytið að veita undirstofnun sinni leiðbeiningar og fyrirmæli svo fljótt sem verða má. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið brást þannig réttilega við þeim aðstæðum sem voru uppi en Ríkisendurskoðun telur að bregðast hefði mátt fyrr við. Þá hefði Samgöngustofa átt að fara að tilmælum þeim sem ráðuneytið bauð upp á, þ.e. að stofnunin nyti aðstoðar frá Fjármálaeftirlitinu. Þrátt fyrir að stofnunin nyti aðstoðar endurskoðunarstofu og sérfróðs lögmanns þá er ljóst að ekki var vanþörf á aukinni sérfræðiþekkingu til að vinna úr þeim upplýsingum sem komið höfðu fram.“
Höfðu viðskiptalega hagsmuni WOW air að leiðarljósi
Ríkisendurskoðun telur að Samgöngustofa hafi átt að veita tímabundið rekstrarleyfi til WOW Air á meðan að á fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins stóð. Skaðleg áhrif slíkrar aðgerðar á getu WOW air til að verða sér úti um nýtt fjármagn væru ekki skýr þar sem öllum hafi verið ljóst að félagið stæði höllum fæti þegar komið var fram á haustið 2018.
WOW air réðst í skuldabréfaútboð 18. september 2018 þar sem það safnaði 50 milljónum evra. Ekki var greint frá því á þeim tíma hverjir hefðu tekið þátt í útboðinu en síðar kom í ljós að um helmingur þeirra sem keyptu voru kröfuhafar WOW air sem breyttu þannig gjaldföllnum skammtímaskuldum í langtímaskuldir.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að það sé umhugsunarvert að í einhverjum tilfellum hafi Samgöngustofa haft viðskiptalega hagsmuni WOW air að leiðarljósi í ákvörðunartöku fram yfir þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald. „Til marks um það má benda á að Samgöngustofa tilkynnti Wow air hf. um að fjárhagsmat ætti að fara fram þremur dögum eftir að skuldabréfaútboði félagsins lauk þann 18. september 2018, þó Samgöngustofa hafi fengið fyrirmæli um að framkvæma ítarlegt fjárhagsmat frá ráðuneyti sínu tveimur vikum fyrr. “
Vafamál hvort viðræður hafi verið raunhæfar
Eftir að Samgöngustofa tók loks upp sérstakt eftirlit með fjárhag WOW air voru haldnir tíðir eftirlitsfundir og sérfræðingar frá endurskoðunarstofu voru fengnir til að rýna fjárhaldsgögn, reikninga, samninga og annað sem varpað gæti ljósi á fjárhagsstöðuna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að Samgöngustofa hafi metið það sem svo að WOW air hafi endurtekið sýnt fram á að félagið stæði í trúverðugri fjárhagslegri endurskipulagningu með aðkomu fjárfesta, fyrst Icelandair Group, næst Indigo Partners og svo aftur Icelandair Group. Vegna þessa hafi Samgöngustofa ekki afturkallað flugrekstrarleyfi WOW air fyrr en seint í mars 2019, þegar félagið fór í þrot.
Ríkisendurskoðun telur vafamál hvort að raunhæfar viðræður hafi staðið yfir síðustu fjóra daga í starfsemi félagsins í lok mars 2019. „Samgöngustofa hafði ekki önnur gögn en staðfestingu lögmanns skuldabréfaeigenda um að unnið væri að lausn sem fólst í að skuldum félagsins yrði breytt í hlutafé og að nýtt fjármagn yrði fengið gegn 51 prósent hlut í félaginu. Enginn fjárfestir með nýtt fé var þó nafngreindur og engin gögn lögð fram um að raunverulegar viðræður væru í gangi. Á sama tíma var félagið komið að fótum fram og ljóst að það gæti aðeins staðið undir hluta skuldbindinga sinna í örfáa daga.“
Lestu meira:
-
16. apríl 2021Hefði átt að afturkalla flugrekstrarleyfi WOW air í maí 2018
-
15. apríl 2021Sigurður Ingi ekki ánægður með leka á WOW-skýrslu Ríkisendurskoðunar
-
27. desember 2019Árið 2019: Þegar WOW air fór á hausinn
-
6. september 2019WOW air aftur í loftið í október
-
6. september 2019Bandarískt fyrirtæki kaupir eignir af þrotabúi WOW air
-
24. ágúst 2019Leiga á íbúð sögð greiðsla á persónulegum kostnaði Skúla
-
24. ágúst 2019Vonast enn til að selja vörumerkið WOW air
-
23. ágúst 2019Seldu losunarheimildir til að borga laun fyrir marsmánuð
-
23. ágúst 2019WOW air gríman fallin
-
19. ágúst 2019Skúli segist ekki hafa fengið milljarða greiðslur út úr WOW air