Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
Í nýbirtum ársreikningi Samherja Holding kemur fram að samstæðan telji mikilvægt að unnið sé að heilindum og að hún líði ekki spillingu af neinu tagi. Samherji Holding og starfsmenn samstæðunnar eru til rannsóknar á Íslandi og í Namibíu vegna gruns um mútubrot, skattasniðgöngu og peningaþvætti.
„Hjá Samherja Holding er mikilvægt að unnið sé af heilindum og við líðum ekki spillingu af neinu tagi.“ Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Samherja Holding, félags sem heldur meðal annars utan um erlenda starfsemi Samherjasamstæðunnar. Umrædd yfirlýsing er sett fram í svokallaðri ófjárhagslegri upplýsingagjöf sem er óendurskoðuð og birtist í lok reikningsins. Hún var ekki til staðar í ársreikningi Samherja Holding í fyrra.
Þar segir að undir spillinum falli „mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinningur af sérhverju tagi í skiptum fyrir óeðlileg áhrif á ákvarðanatöku. Þá er peningaþvætti ekki liðið af neinu tagi og er Samherji Holding staðráðið í að fara eftir gildandi lögum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og munum grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir og koma auga á ólögmætar greiðslur.“
Samherji Holding er að uppistöðu í eigu forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar, Helgu S. Guðmundsdóttur fyrrverandi eiginkonu hans og Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherjasamstæðunnar. Hinn hluti Samherjasamstæðunnar, Samherji hf. sem heldur utan um innlenda sjávarútvegsstarfsemi og fjárfestingastarfsemi, er nú að mestu í eigu barna eftir að samstæðan var brotin upp í tvennt og meginþorri eignarhluta í Samherja hf. færðir til þeirra.
Saman áttu þessi tvö félög, Samherji hf. og Samherji Holding, eigið fé upp á um 160 milljarða króna um síðustu áramót. Þorsteinn Már er forstjóri bæði Samherja hf. og Samherja Holding.
Í rannsókn í Namibíu og á Íslandi
Helstu eignir Samherja Holding eru fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá hefur Samherji Holding einnig fjárfest í flutningastarfsemi og er stærsti hluthafinn í Eimskip með 32,79 prósent eignarhlut. Auk þess hélt Samherji Holding utan um alla starfsemi Samherjasamstæðunnar í Namibíu, en samstæðan og lykilstarfsfólk innan hennar hafa verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra á Íslandi frá lokum árs 2019. Auk þess er málið í rannsókn og ákærumeðferð í Namibíu. Átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara vegna málsins. Þeirra á meðal er Þorsteinn Már.
Hérlendis hófst rannsókn eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Í umfjöllun Stundarinnar um rannsóknina fyrr í þessum mánuði var haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara að rannsóknin á Íslandi væri langt komin.
Krafa á dótturfélagið utan um namibísku starfsemina færð niður
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að endurskoðendur Samherja Holding hafi undirritað ársreikning félagsins 2021 án fyrirvara. Í ársreikningi Samherja Holding vegna ársins 2020 var fyrirvari gerður við ársreikninginn vegna óvissu „um málarekstur vegna fjárhagslegra uppgjöra sem tengjast rekstrinum í Namibíu.“ Sá fyrirvari var gerður bæði af stjórn Samherja Holding og endurskoðanda félagsins.
Í nýja reikningnum kemur fram að dótturfélagið Hermono Investments ltd., hafi haldið utan um starfsemi samstæðunnar í Namibíu. Í árslok 2019 var tekin ákvörðun um að leggja niður starfsemi Hermono Investments og dótturfélaga þess, selja eignir og gera upp skuldir. Starfsemi Hermono samstæðunnar er því flokkuð sem aflögð starfsemi í efnahags- og rekstrarreikningi samstæðunnar.
Hluti af eignum aflagðrar starfsemi var skipið Heinaste, en skipið var selt í nóvember 2020 til þriðja aðila fyrir 18 milljónir Bandaríkjadala (2.682 milljónir króna á núvirði). Hluti söluverðsins, um sex milljónir Bandaríkjadala (894 milljónir króna á núvirði), er ógreiddur en til greiðslu á árunum 2022-2023.
Í ársreikningi fyrir 2021 segir að „sá hluti sem hefur verið greiddur, samkvæmt sérstöku samkomulagi við namibísk stjórnvöld, er geymdur á sameiginlegum reikningi með ríkissjóði Namibíu, þar til niðurstöður dómsmáls í Namibíu liggja fyrir. Það er því óljóst hvenær andvirði sölunnar verður tiltækt til notkunar fyrir samstæðuna og vegna þeirrar óvissu er krafan færð niður.“
Fyrir vikið lækka eignir aflagðrar starfsemi Samherja Holding úr 16,4 milljónum Bandaríkjadala (2.444 milljónir króna) í 471 þúsund Bandaríkjadali (70,2 milljónir króna).
Greint frá stöðu rannsókna
Í ársreikningnum er Namibíumálið rakið að einhverju leyti. Þar segir að í október 2019 hafi fyrrverandi starfsmaður erlends dótturfélags Samherja Holding sakað félagið og starfsmenn samstæðunnar um lögbrot, meðal annars um mútur og spillingu. Þar er um að ræða uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson.
Í reikningnum segir að Samherji Holding hafi tekið þessar ásakanir alvarlega og að stjórn þess hafi ráðið til sín alþjóðlegu lögmannstofuna Wikborg Rein til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfsemi dótturfélaga sem tengdust starfseminni í Namibíu. „Rannsókn Wikborg Rein var mjög yfirgripsmikil og voru niðurstöður hennar kynntar stjórn félagsins í júlí 2020,“ segir í reikningnum en Samherjasamstæðan hafði boðað að niðurstöðurnar yrðu gerðar opinberar. Það hefur ekki gerst þrátt fyrir að næstum tvö og hálft ár sé liðið frá því að Wikborg Rein lauk rannsókn sinni.
Í ársreikningnum er greint frá því að ásakanirnar séu til rannsóknar hjá yfirvöldum í Namibíu og á Íslandi en að ekki hafi verið höfðað mál á hendur félaginu né að neinn starfsmaður þess hafi verið ákærður. Fyrir liggur þó að stjórnvöld í Namibíu hafa viljað ákæra þrjá starfsmenn samstæðunnar þar og hafa leitað eftir aðstoð til að fá þá framselda, án árangurs.
Félagið segist hafa mótmælt öllum ásökunum um lögbrot og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum opinberlega. „Það hefur fjallað ítarlega um hvað fór úrskeiðis í rekstrinum í Namibíu og hvers vegna. Gripið hefur verið til víðtækra ráðstafana til að koma í veg fyrir að slík atvik geti hent á ný. Mikilvægir hagsmunaaðilar sem félagið á í samskiptum við, bankar, birgjar og stórir viðskiptavinir hafa haldið tryggð við félagið.“
Á Íslandi hafi rannsókn Héraðssaksóknara haldið áfram með óbreyttum hætti, henni sé ekki lokið og því óvíst hver niðurstaða hennar verður. „Starfsemi dótturfélaga í Namibíu var lögð niður í árslok 2019 og hefur verið lögð áhersla á að dótturfélög Samherja í landinu muni uppfylla skyldur sínar gagnvart namibískum yfirvöldum.“
Tilkynnt til lögreglu í Færeyjum
Í ársreikningnum er einnig gerð grein fyrir því að Samherji hf., hafi greitt fyrir hönd Sp/f Tindhólms, dótturfélags Samherja Holding, samtals um 17 milljónir danskra króna til færeyskra skattyfirvalda vegna óvissu um gildi skattfrelsis fyrir ákveðna áhafnarmeðlimi.
Í apríl á þessu ári var greint frá því í færeyskum fjölmiðlum að stærstur hluti þess fjár sem Samherji greiddi til færeyskra skattayfirvalda, í kjölfar þess að fram kom að félagið hefði skráð sjómenn sem voru við veiðar í Namibíu sem farmenn á flutningaskipum í Færeyjum, hefði verið sendur til íslenskra skattayfirvalda, alls um 250 milljónir króna.
Skattyfirvöld í Færeyjum tilkynntu Tindhólm til lögreglu í fyrra vegna málsins. Í ársreikningnum segir að óljóst sé „hvort eða hvernig færeysk skattayfirvöld og lögregla munu fylgja málinu eftir en á árinu 2022 var Sp/F Tindhólmur úrskurðað gjaldþrota.“
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári