Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá ýmsum annmörkum háð og leggja til að það nái ekki óbreytt fram að ganga.
Í frumvarpi Katrínar segir að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki séu háð einkaeignarrétti séu þjóðareign og að enginn geti fengið þau gæði eða réttindi til eignar eða varanlegra afnota. þá eigi að kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni með lögum, ekki í stjórnarskrá.
Athugasemdir samtakanna, sem settar eru fram í umsögn um frumvarpið, snúa aðallega að setningu þessa auðlindaákvæðis í stjórnarskrá og skilgreiningu á hugtakinu „þjóðareign“, sem SFS telur að sé ekki skýr samkvæmt frumvarpinu. Undir umsögnina skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa líkað skilað inn umsögn um frumvarpið þar sem margháttaðar athugasemdir eru gerðar við áform um setningu auðlindaákvæði. Samtökin leggja til að auðlindaákvæðið verði einfaldlega fellt á brott úr frumvarpinu. Undir umsögn SA skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna. Samtökin gera ekki athugasemdir við önnur ákvæði frumvarps forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingar.
Athugasemdir SA eru af sambærilegum toga og hjá SFS og sérstaklega fundið að notkun á hugtakinu „þjóðareign“. Í umsögn samtakanna segir í flestum tilfellum sé talað um ríkiseign í stjórnarskrám sem á annað borð hafa að geyma ákvæði um eignarhald að auðlindum. „Aðeins stjórnarskrár Eistlands og Slóveníu hafa að geyma þjóðareignarákvæði. Eina nágrannalandið sem hefur ákvæði af þessum toga í stjórnarskrá sinni er Írland, en þar er talað um ríkiseign. Það er varasamt að leita fyrirmynda að svona ákvæði til ríkja sem Ísland ber sig allajafna ekki saman við. Réttarkerfi þessara ríkja, þar á meðal stjórnskipunarréttur og eignarréttur, er allt annars eðlis en á Íslandi. Miklu eðlilegra er að líta til Norðurlanda þar sem réttarfarið er sambærilegt því íslenska.“
Varanleiki heimilda hornsteinn fiskveiðistjórnunarkerfis
SFS segir í sinni umsögn að ótækt sé að byggja rétt á óljósri skilgreiningu á „þjóðareign“. „Skortur á skýrleika hefur í för með sér óvissu sem er til þess fallin að hafa áhrif á fjölda sviða, enda er gert ráð fyrir því að allar náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti falli undir þessa tegund eignarhalds. Þá er á það að benda að allsendis óljóst er hvert samspil þessa frumvarpsákvæðis og 72. gr. stjórnarskrárinnar er.“
SFS segjast þó líka telja það mikilvægt að ná og viðhalda samfélagslegri sátt og samstöðu um sjávarútveg enda sé um að ræða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. „Sjálfbær nýting, skynsamleg stjórnun veiða og nýsköpun í sjávarútvegi eru enda hagur bæði þeirra sem við atvinnugreina starfa og þjóðarinnar allrar. Stöðugt og fyrirsjáanlegt lagaumhverfi, þar sem hvati ríkir til þess að gera sem mest verðmæti úr sameiginlegri auðlind, öllum til hagsbóta, án þess að gengið sé á rétt komandi kynslóða til hins sama, er nauðsynlegt. Það hafa Íslendingar lagt áherslu á til þessa við fiskveiðistjórn og það er ljóst að margar þjóðir líta til Íslands þegar kemur að skipulagi veiða og vinnslu.“
Að mati samtakanna sé varanleiki heimilda til nýtingar á nytjastofnum sjávar einn af hornsteinum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Festa og fyrirsjáanleiki skipti miklu máli til að tryggja góða umgengni um auðlindina, rekstraröryggi fyrirtækja, atvinnuöryggi starfsmanna, fjármögnun, lánskjör fyrirtækja og nýsköpun. „Óvissa um rekstrarumhverfi greinar í harðri alþjóðlegri samkeppni mun bitna á samkeppnishæfni hennar og þar með þjóðarhag til lengri tíma litið, þvert á markmið frumvarpsins. Leggja ber sérstaka áherslu á að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki selja um 98% af afla á alþjóðlegum markaði og að langan tíma hefur tekið að byggja upp sterka markaðsstöðu og tryggja hæstu verð. Missi fyrirtækin fótfestu þar mun taka langan tíma að ná henni aftur, náist hún yfir höfuð.“
Telja misráðið að setja auðlindaákvæði
Viðskiptaráð Íslands er á svipuðum slóðum í sinni umsögn og segir að skýra þurfi náttúruverndar- og auðlindaákvæði frumvarpsins. Að mati ráðsins sé misráðið að auðlindaákvæðið fari óbreytt inn í stjórnarskrá lýðveldisins enda sé ekkert sem kemur í veg fyrir að markmiðum með hinu nýja hugtaki „þjóðareign“ verði náð fram með almennri lagasetningu. Viðskiptaráð vill því að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til athugasemda sinna.
Að mati Viðskiptaráðs liggur fyrir að ekki hafi náðst nægileg pólitísk sátt um þær breytingar sem frumvarpið hefur að geyma. „Þannig hafa þrjár breytingartillögur komið fram í þinginu nú þegar og að þeim standa þingmenn úr fjórum stjórnarandstöðuflokkum. Stjórnarskrám er ætlað að standast tímans tönn og löng hefð er fyrir því að breytingar á stjórnarskrám séu gerðar í sátt þvert á stjórnmálaflokka. Viðskiptaráð telur mikilvægt að stjórnarskrárbreytingar séu almennt gerðar í sem mestri sátt.“
Undir umsögnina ritar Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, en framkvæmdastjóri þess er Svanhildur Hólm Valsdóttir.