Skattfrelsi fyrir húsnæðiseigendur en skattlagning á aðra
Þeir sem hafa tekið út séreignarsparnað undanfarið ár hafa greitt yfir níu milljarða króna í skatta af honum. Þeir sem hafa nýtt séreignarsparnað til að borga niður húsnæðislánið sitt undanfarin tæp sjö ár hafa fengið 21 milljarð króna í skattaafslátt.
Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem kynntur var 21. mars 2020, var ein af aðgerðunum sem kynnt var til leiks sú að landsmönnum gert kleift að taka út séreignasparnað til að takast á við skammtímafjárhagsvanda. Þeir sem nýttu sér þetta úrræði þurftu þó að greiða skatt af sparnaðinum þegar hann var tekinn út. Því var líka um tekjuskapandi aðgerð að ræða fyrir ríkissjóð.
Upphaflega reiknaði ríkisstjórnin með því að teknir yrðu út um tíu milljarðar króna af þessum sparnaði, sem var upphaflega hugsaður til að auka ráðstöfunarfé fólks þegar það fer á eftirlaun. Eftirspurnin eftir nýtingu á úrræðinu reyndist hins vegar miklu meiri en búist var við og nú áætlað stjórnvöld að útgreiðslur verði 28,6 milljarðar króna fram í mars á næsta ári, þegar heimild til útgreiðslu lýkur. Það þýðir að landsmenn tóku út tæplega þrisvar sinnum meira af sparnaði sínum til að takast á við efnahagslegar afleiðingar COVID-19 en upphaflega var reiknað með.
Þann 11. febrúar síðastliðinn var búið að greiða þorra þeirrar upphæðar út, eða alls 25,6 milljarða króna. Ætla má að skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga vegna þessa hafi verið um níu milljarðar króna. Þegar upp verður staðið munu skattgreiðslurnar fara yfir tíu milljarða króna.
Ekki hefur verið birt neitt niðurbrot á þeim hópi sem hefur nýtt sér þetta úrræði en ætla má að þar sé, að minnsta kosti að hluta, um að ræða fólk sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Þeir sem fóru úr vel launuðum störfum á atvinnuleysisbætur eru líklegri til að tilheyra þessum hópi en aðrir, þar sem tekjuhærri hafa almennt verið líklegri til að spara séreign en tekjulægri.
Sú ályktun fær stoð í fjölmörgum samtölum sem Kjarninn hefur átt við fólk sem hefur misst vinnu eða tekjur undanfarna mánuði og í könnun sem Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, gerði og var lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB í nóvember og desember 2020 þar sem staða launafólks var könnuð. Í niðurstöðum hennar kom fram að um fjórðungur launafólks átti erfitt með að láta enda ná saman og fimmtungur þess gat ekki mætt óvæntum útgjöldum. Um helmingur atvinnulausra átti erfitt með að láta enda ná saman og um 40 prósent þeirra gat ekki mætt óvæntum útgjöldum.
Þar er um að ræða þá hópa sem verða fyrir mestum neikvæðum efnahagslegum áhrifum af yfirstandandi heimsfaraldri.
Skattfrelsi til að greiða niður húsnæðislán
Þetta er ekki eini hópurinn sem fær að nota séreignasparnaðinn sinn áður en hann fer á eftirlaun. Frá miðju ári 2014 hafa þeir landsmenn sem eru með húsnæðislán getað nýtt séreignasparnaðinn sinn til að greiða þau lán niður. Sú niðurgreiðsla er hins vegar annars eðlis en sú sem býðst sem hluti af COVID-19 aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Hún er nefnilega skattfrjáls. Ríki og sveitarfélög gefa þessum hópi fasteignaeigenda eftir tekjur til að húsnæðislán þeirra geti lækkað.
Frá þeim tíma sem úrræðið byrjaði fyrst hafa alls 62.952 einstaklingar, um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, nýtt sér hið skattfrjálsa úrræði. Þar er um að ræða bæði þá sem hafa nýtt sér almenna úrræðið, sem á að renna út í sumar, og úrræðið „Fyrsta fasteign“, sem kynnt var til sögunnar sumarið 2016.
Samkvæmt tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman fyrir Kjarnann nemur umfang nýtingar Íslendinga á úrræðunum tveimur frá miðju árið 2014 og fram til loka janúar 2021 alls 92 milljörðum króna. Í þeim tölum kemur einnig fram að áætluð lækkun tekjuskatts og útsvars frá því að úrræðin buðust fyrst og fram til síðustu áramóta sé 21,1 milljarður króna.
Því hefur þessi hópur fengið 21,1 milljarða króna í meðgjöf úr ríkissjóði sem öðrum hefur ekki boðist á umræddu tímabili. Um er að ræða tekjutap sem ríki og sveitarfélög þurfa ekki að takast á við nú, þar sem skattur af séreignarsparnaði er vanalega borgaður þegar fólk fer á eftirlaun. Þegar stærsti hluti þess hóps sem nýtir skattfrjálsa úrræðið kemst á þann aldur verða stjórnmálamenn nútímans líkast til flestir löngu hættir og aðrir teknir við ábyrgð á ríkisfjármálunum. Peningagjöf þeirra til hluta landsmanna síðustu ár verður því tekjusamdráttur sem öðrum verður gert að takast á við.
Markmiðinu sem átti að nást 2017 loks náð í fyrra
Nýting á séreignarsparnaði til að greiða niður húsnæðislán var upphaflega hluti af hinni svokölluðu Leiðréttingu, sem kynnt var til leiks í mars 2014. Upphaflega átti heildarumfang hennar að vera 150 milljarðar króna.
Um 80 milljarðar króna áttu að vera greiðsla úr ríkissjóði inn á höfuðstól þess hóps sem hafði verið með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, óháð efnahag. Á endanum nam Leiðréttingagreiðslan 72,2 milljörðum króna. Hún fór að mestu til tekjuhærri og eignarmeiri hópa samfélagsins.
Um 70 milljarðar króna áttu síðan að koma til vegna þess að landsmönnum yrði gert kleift að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán sín í þrjú ár, frá miðju ári 2014 og fram til 30. júní 2017.
Búið er að framlengja nýtingu séreignarsparnaður til að greiða inn á húsnæðislán tvívegis síðan þá, fyrst fram á sumarið 2019 og svo aftur, í tengslum við gerð lífskjarasamninganna, fram á mitt ár 2021.
Séreignasparnaðarúrræðið eitt og sér, ef frá eru taldir þeir sem nýttu sér Fyrstu fasteign, hafði í lok síðasta árs gert landsmönnum kleift að nota 81,5 milljarða króna af sínum eigin sparnaði til að greiða inn á húsnæðislánið. þremur og hálfu ári eftir að upphaflega nýtingartímabilinu lauk hafði uppgefið 70 milljarða króna markmið Leiðréttingarinnar, sem áttu að klárast sumarið 2017, loks náðst.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði