Stórsókn Pírata virðist ætla að halda meirihlutanum á floti
Sósíalistaflokkurinn bætir við sig einum manni í borgarstjórn samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Sjálfstæðisflokkur tapar þremur mönnum, Viðreisn og Samfylkingin einum og Miðflokkurinn þurrkast út. Meirihlutinn heldur tólf fulltrúum þar sem Píratar bæta við sig tveimur, en 78 prósent líkur eru á því að meirihlutinn haldi. Framsókn hirðir þrjá fulltrúa og yrði líklega í lykilstöðu ef svo færi að meirihlutinn héldi ekki velli í kosningunum á laugardag.
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur heldur velli með óbreyttan fjölda borgarfulltrúa, en bæði Samfylkingin og Viðreisn missa einn mann frá því sem nú er, á meðan Píratar bæta við sig tveimur fulltrúum, samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar.
Sjálfstæðisflokkurinn sér enn fram á afhroð og mun samkvæmt niðurstöðu kosningaspárinnar fá 19,1 prósent fylgi, sem yrði versta niðurstaða flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi, en flokkurinn fékk 30,8 prósent atkvæða í borginni árið 2018. Samfylkingin yrði nú stærsti flokkurinn með hartnær fjórðungsfylgi, samkvæmt kosningaspánni.
Samhliða kosningaspánni er nú keyrð sætaspá. Hún er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borgarfulltrúum og þar sem sýndarkosningarnar eru allar með innbyggða óvissu þá getur fylgi flokka í hverri einstakri sýndarkosningu stundum verið hærra og stundum lægra, þótt meðaltal kosninganna allra sé það sama og kom fram í kosningaspánni. Hægt er að sjá sætaspánna hér að neðan:
- >99%Dagur B. Eggertsson
- >99%Heiða Björg Hilmisdóttir
- >99%Skúli Þór Helgason
- 99%Sabine Leskopf
- 92%Hjálmar Sveinsson
- 68%Guðný Maja Riba
- 33%Sara Björg Sigurðardóttir
- >99%Hildur Björnsdóttir
- >99%Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
- >99%Kjartan Magnússon
- 92%Marta Guðjónsdóttir
- 70%Björn Gíslason
- 35%Friðjón R. Friðjónsson
- >99%Dóra Björt Guðjónsdóttir
- 97%Alexandra Briem
- 83%Magnús Norðdahl
- 47%Kristinn Jón Ólafsson
- >99%Einar Þorsteinsson
- 98%Árelía Eydís Guðmundsdóttir
- 86%Magnea Gná Jóhannsdóttir
- 51%Aðalsteinn Haukur Sverrisson
- 17%Þorvaldur Daníelsson
- 87%Sanna Magdalena Mörtudóttir
- 47%Trausti Breiðfjörð Magnússon
- 11%Andrea Jóhanna Helgadóttir
- 82%Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
- 39%Pawel Bartoszek
- 67%Líf Magneudóttir
- 22%Stefán Pálsson
- 69%Kolbrún Baldursdóttir
- 18%Helga Þórðardóttir
- 36%Ómar Már Jónsson
Áfram verða átta flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur, samkvæmt þessum niðurstöðum, en Framsóknarflokkurinn kæmi inn af krafti með þrjá fulltrúa á meðan að fylgi Miðflokksins dugar ekki til þess að fá mann kjörinn.
Sósíalistar verða með tvo menn samkvæmt þessari nýjustu kosningaspá, oddvitann Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússon sem situr í öðru sæti listans. Frá niðurstöðum síðustu kosningaspár hefur Trausti ýtt Pawel Bartoszek, öðrum manni á lista Viðreisnar, út úr borgarstjórn.
Samfylking og Píratar með 10 af 23 fulltrúum
Samfylkingin og Píratar yrðu samanlagt með tíu borgarfulltrúa af 23, en samanlagt fylgi flokkanna tveggja er 40,3 prósent samkvæmt kosningaspánni. Það má því segja að þessir flokkar, sem eiga málefnalega samleið um margt, hafi öll tromp á hendi er kemur að myndun nýs meirihluta.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar hefur sagt á undanförnum dögum að hans fyrsti valkostur eftir kosningar verði að halda núverandi meirihlutasamstarfi við Pírata, Vinstri græn og Viðreisn áfram, ef meirihlutinn heldur.
Aðrir oddvitar meirihlutaflokkanna hafa einnig gefið það til kynna í vikunni að fyrsti valkostur þeirra yrði að hið minnsta setjast niður með núverandi meirihluta og ræða áframhaldandi samstarf, að því gefnu að meirihlutinn haldi velli.
Píratar eru samkvæmt kosningaspánni þriðji stærsti flokkurinn í borginni með 15,6 prósent fylgi og myndu þá bæta verulega við sig frá síðustu kosningum, en þá fékk flokkurinn 7,7 prósent greiddra atkvæða.
Ef kosningaspáin rættist væri óhætt að tala um Pírata sem sigurvegara kosninganna, ásamt Framsóknarflokknum sem hefur risið upp í borginni með Einar Þorsteinsson í oddvitasætinu. Framsókn fær 11,9 prósent atkvæða samkvæmt kosningaspánni en fékk einungis 3,2 prósent í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum, alls 1.870 atkvæði.
Viðreisn dalar ögn frá síðustu kosningaspá og mælist nú með 7,3 prósent og er Pawel Bartoszek borgarfulltrúi á mörkum þess að ná inn í borgarstjórn eins og mál standa. Samkvæmt kosningaspánni mælist hann ekki inni, heldur tapar sæti sínu til annars manns Sósíalistaflokksins, sem áður segir.
Vinstri græn eru í veseni í Reykjavík og mælast nú með 5 prósent fylgi, sem myndi duga til þess að halda Líf Magneudóttur oddvita flokksins inni í borgarstjórn en flokkurinn er langt frá því að ná öðrum manni inn og fylgið er á niðurleið í þessari nýjustu kosningaspá.
Flokkur fólksins siglir nokkuð lygnan sjó og er með 4,7 prósenta fylgi, sem er aðeins meira en kom upp úr kjörkössunum í borginni árið 2018 og myndi tryggja Kolbrúnu Baldursdóttur áframhaldandi veru í borgarstjórn. Eitthvað sérstakt virðist þó þurfa að koma til svo Miðflokkurinn nái manni í borgarstjórn, en fylgi flokksins mælist 2,4 prósent í kosningaspánni.
Samkvæmt síðustu kosningaspá sögðust samanlagt 0,2 prósent ætla að kjósa ýmist Reykjavík, bestu borgina eða Ábyrga framtíð, en það hlutfall eykst nokkuð nú og samkvæmt kosningaspánni hyggjast 1,7 prósent kjósenda ljá þeim framboðum atkvæði sitt.
Engin sjáanleg leið fyrir Sjálfstæðisflokk í meirihluta
Kosningaspáin reiknar líka út líkurnar á meirihlutum í borginni. Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Líkurnar á því að sitjandi meirihluti haldi mælast nú 78 prósent og hafa þær líkur farið vaxandi eftir því sem nær dregur kosningum, en til samanburðar voru líkurnar á því að meirihlutinn héldi 47 prósent um miðjan apríl.
Athyglisvert er að staðan er nú sú að líkur á að hægt verði að mynda þriggja flokka meirihluta Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks eru meiri en að núverandi meirihluti haldi, þó ekki muni miklu, en 83 prósent líkur eru á því að slíkur meirihluti, sem hefði 13 borgarfulltrúa, gæti orðið til.
Nú þegar tveir dagar eru til kosninga virðast afar fáir möguleikar í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni. Um miðjan apríl benti kosningaspáin til þess að um helmingslíkur væru á því að flokkurinn gæti leitt meirihluta í samfloti við Framsókn, Viðreisn og Flokk fólksins, en í dag mælast líkurnar á því einungis 14 prósent.
Það eru minni líkur en kosningaspáin gefur tveggja flokkar meirihluta Samfylkingar og Pírata, en líkurnar á því að þeir tveir flokkar bæti hvor um sig við sig einum manni frá núverandi stöðu og nái að mynda tveggja flokka meirihluta mælast nú 16 prósent.
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir borgarstjórnarkosningar 14. maí:
- Skoðanakönnun Prósent 4. – 9. maí (48,7%)
- Skoðanakönnun Maskínu 6. – 11. maí (51,3%)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Lestu meira um komandi kosningar:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni