Sakamálið sem allir unnendur sakamálahlaðvarpa þekkja, mál Adnan Syed, komst í hámæli í vikunni þegar Syed var sleppt úr haldi eftir 22 ára fangelsisvist.
Þakka má samspili klókinda lögfræðinga og vina Syed og lagabreytinga á dómum yfir sakborningum undir lögaldri fyrir að dómur yfir Syed var ógiltur, að ógleymdum tugum milljóna hlaðvarpshlustenda.
Adnan Syed, sem setið hefur í fangelsi í 22 ár fyrir morðið á Hae Min Lee, fyrrverandi kærustu sinni og bekkjarfélaga, var sleppt úr haldi í vikunni eftir að dómari ógilti dóm yfir honum vegna nýrra upplýsinga. Syed hefur ekki verið lýstur saklaus og verður í stofufangelsi þar til frekari ákvarðanir verða teknar.
Mál Syed er um margt áhugavert, ekki síst vegna umfjöllunar um rannsóknina og sakfellinguna sjálfa. Fjallað var um málið í hlaðvarpsþættinum Serial árið 2014, fyrsta sakamálahlaðvarpinu sem byggir á sönnum sakamálum (e. true crime). Serial greiddi götu sakamálahlaðvarpa sem hlaupa nú á hundruðum en óhætt er að fullyrða að ekkert þeirra hefur náð jafn miklum vinsældum og Serial.
Adnan Syed var 18 ára þegar hann hlaut lífstíðardóm fyrir morðið á Hae Min Lee, fyrrverandi kærustu sinni, árið 1999. Lee, sem var 18 ára, sást síðast yfirgefa Woodlawn-framhaldsskólann í Baltimore 13. janúar 1999. Lík hennar fannst um mánuði seinna, grafið í almenningsgarði. Rannsókn lögreglu beindist fljótt að Syed sem var handtekinn, grunaður um morðið, en hann hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu og farið fram á endurupptökubeiðni án árangurs, síðast fyrir þremur árum.
Í réttarhöldunum yfir Syed árið 1999 sögðu saksóknarar Syed vera „fyrirlitlegan elskhuga“ sem kyrkti Lee og hafi, með hjálp frá vini, falið lík hennar í Leakin-almenningsgarðinum í Baltimore. Saksóknarar studdust að hluta við staðsetningargögn úr farsíma. Nýjar rannsóknir hafa sýnt fram á að gögnin eru óáreiðanleg. Það er einmitt aðalástæða þess að Marilyn Mosby, yfirsaksóknari í Baltimore, fór fram á að dómurinn yfir Syed yrði ógiltur.
Upphafið af vinsældum sakamálahlaðvarpa
Tíu árum eftir að lífstíðardómur var kveðinn upp yfir Syed hafði Rabia Chaudry, lögmaður og fjölskylduvinur Syed, samband við blaðamanninn Sarah Koenig og bað hana að rannsaka morðið á Lee. Koenig vissi lítið sem ekkert um málið á þessum tíma en það vakti athygli hennar. Rannsóknarvinna hennar skilaði sér í hlaðvarpsþáttunum Serial, sem hófu göngu sína haustið 2014, þar sem markmiðið var að setja saman tímalínu um það sem átti sér stað kvöldið sem Lee var myrt.
Serial ýtti undir vinsælda hlaðvarpa, á því leikur enginn vafi. Stílbragð Koenig og viðfangsefnið, nýlegt sakamál, urðu til þess að hlustendum fjölgaði í hverri viku. Fyrstu þáttaröðinni af Serial, þar sem fjallað er um mál Syed, hefur verið halað niður meira en 300 milljón sinnum sem setur það í hóp vinsælustu hlaðvarpa í heimi. Þáttaraðirnar þar á eftir nutu ekki jafn mikilla vinsælda en Koening og teymi hennar greiddu engu að síður leið annarra sakamálahlaðvarpa.
Slík tegund hlaðvarpa, þar sem fjallað er um sönn sakamál, njóta gríðarlegra vinsælda. Með þeim getur hver sem er sett sig í spor rannsóknarlögreglu með auknu upplýsingaflæði og leiðum til að miðla efni, ekki síst á samfélagsmiðlum, allt frá Facebook til TikTok.
Heilinn veitir ógnvænlegu efni meiri athygli
Kjarninn ræddi við Margréti Valdimarsdóttur, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, síðasta haust um breyttan veruleika við umfjöllun sakamála.
„Heilinn á okkur er hannaður til að veita því sem er ógnvænlegt meiri athygli en því sem er gott og jákvætt. Til að forða okkur frá hættu. Við ofmetum hættuna eða líkurnar á því að vera drepin af morðingja eða maka til dæmis. Í ljósi hver við erum sem manneskjur er þessi áhugi ekkert skrýtinn, þetta er bara meira spennandi núna. En fyrir marga er þetta bara spennusaga en þetta gefur okkur meira af því þetta er að gerast núna og þetta er alvöru og því meira spennandi,“ sagði Margrét meðal annars í samtali við Kjarnann í fyrra.
Að hennar sögn er engin ástæða til að óttast þennan breytta veruleika, það er þegar hver sem er virðist geta sett sig í spor rannsóknarlögreglu, en að mikilvægt sé að gera greinarmun á sakamálum sem afþreyingu og lögreglurannsókn.
Koenig virðist hafa tekist að feta einhvers konar milliveg með Serial. Hún rannsakaði málið sjálf og það, auk lagabreytingar, varð til þess að dómur yfir Syed var ógiltur.
Í hlaðvarpsþáttunum er meðal annars varpað ljósi á fjölmörg Brady-brot (e. Brady violations), það er brot þar sem ákæruvaldið neitaði að afhenda sönnunargögn sem hefði mögulega getað leitt til sýknu í aðdraganda réttarhaldanna yfir Syed.
Lagabreyting sem skipti sköpum
Syed var hins vegar alltaf neitað um endurupptöku. En í október í fyrra tók lagabreyting gildi í Maryland, ríkinu sem Syed afplánar lífstíðardóm sinn, sem kveður á um að fangar geti farið fram á mildari dóm ef þeir hafa setið inni í að minnsta kosti 20 ár fyrir glæpi sem þeir frömdu þegar undir lögaldri. Lögfræðingar Syed voru ekki lengi að vísa máli hans til Marilyn Mosby, yfirsaksóknara í Baltimore. Þá loks fór boltinn að rúlla.
Við yfirferð málsins kom ýmislegt nýtt í ljós, meðal annars ný sönnunargögn sem sýndu fram á að ákæruvaldið vissi af tveimur öðrum mönnum sem voru mögulegar grunaðir um morðið. Þeim upplýsingum var ekki komið til verjenda Syed. Sönnunargögnin sýna meðal annars að annar mannanna hótaði að láta Lee „hverfa“ og „drepa hana“.
Melissa Phinn, dómari við svæðisdómstól í Baltimore, sagði við dómsuppkvaðningu á mánudag að úrskurður hennar byggi á „sanngirni og réttlæti“ og sagði hún ríkisvaldið hafa brugðist í að leggja fram sönnunargögn sem hefðu varið hann fyrir dómstólum.
Syed, sem er 41 árs í dag, er þó ekki laus allra mála, síður en svo, þar sem ekki er búið að lýsa hann saklausan. Saksóknaraembættið hefur 30 daga til að taka ákvörðun um hvort Syed verði ákærður að nýju eða fallið verði frá öllum málatilbúnaði.
„Við erum ekki búin að lýsa Adnan Syed saklausan,“ sagði Mosby yfirsaksóknari í samtali við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið eftir að dómari fyrirskipaði lausn Syed.
Ekki hlaðvarp heldur martröð
Young Lee, bróðir Hae Min Lee, var viðstaddur þegar dómur yfir Syed var ógiltur í vikunni
„Þetta er ekki hlaðvarp fyrir mér. Þetta er alvara lífsins sem mun engan endi taka. Þetta hefur verið staðan í yfir 20 ár. Þetta er martröð,“ sagði Young Lee.
Fjölskylda Lee neitaði frá upphafi að taka þátt í hlaðvarpsþáttunum og hafa ávallt haldið því fram að Syed sé sekur. Young Lee segist samt sem áður hafa trú á réttarkerfinu og styðji það ferli sem nú er fram undan: Að vita fyrir víst hver myrti systur hans.