Meira en áratugur er liðinn síðan fyrst heyrðist af áformum um alþjóðlega stórskipahöfn í Finnafirði við Langanes, sem myndi tengja saman Asíu, austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. Koma þessi áform til vegna mögulegrar aukningar á vöruflutningum með kaupskipum á siglingaleiðum í Norður-Íshafi, sem verða stöðugt greiðari.
Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa haft samstarf við þýska hafnarfyrirtækið Bremenports og verkfræðistofuna Eflu um rannsóknir á svæðinu allt frá árinu 2013. Fyrir tveimur árum virtist vera að komast aukinn skriður á málið þegar skrifað var undir samstarfssamning um verkefnið sem Bremenports hefur veitt forystu og á ráðandi hlut í. Síðan hefur lítið gerst þar til nú er fréttir berast af samningaviðræðum við landeigendur og að næstu skref séu að fá fjárfesta að verkefninu.
Hvers vegna Finnafjörður?
Finnafjarðarverkefnið gengur út á byggingu stórskipahafnar með tilheyrandi athafnasvæði sem yrði ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Fullgerð yrði höfnin gríðarstór með meira en sex kílómetra langa viðlegukanta og aðliggjandi athafna- og þjónustusvæði upp á 1300 hektara. Til að átta sig á stærðinni er það álíka og byggður væri viðlegukantur meðfram strandlengjunni í Reykjavík, frá Grandagarði inn í Elliðavog, og athafnasvæðið myndi ná suður að Hringbraut og Miklubraut. Þykir Finnafjörður henta mjög vel fyrir svo umfangsmikla hafnaraðstöðu hvað varðar staðhætti, jarðveg, sjó- og landslag.
Ljóst er að slíkar framkvæmdir muni taka talsverðan tíma en áætlanir gera ráð fyrir að þær gætu hafist innan fárra ára. Fyrst yrði byrjað á lágmarkshafnaraðstöðu en gert er ráð fyrir að allt að 40 ár geti liðið þar til svæðið verður fullbyggt. Finnafjarðarhöfn gæti einnig orðið þjónustuhöfn fyrir fyrirtæki sem stunda jarðefnavinnslu á Austur-Grænlandi en jafnframt er gert ráð fyrir annarskonar tengdri starfsemi. Má þar nefna vetnisframleiðslu í stórum stíl sem hluta af þeirri þróun að vetnisvæða kaupskip, sem forráðamenn Bremenports segja að verði einn þáttur verkefnisins.
Siglingaleiðir um Norður-Íshafið – pólsiglingar verða mögulegar
Miklar breytingar eru nú að verða á norðurslóðum vegna bráðnunar hafíss. Nýjar siglingaleiðir hafa verið að opnast og siglingar aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Nú hillir undir að Norðausturleiðin fyrir ströndum Rússlands verði fær allan ársins hring en leiðin getur stytt siglingatíma á milli Evrópu og Asíu um meira en 10 daga. Hver dagur fyrir risaflutningaskip á sjó er dýr, en rekstrarkostnaður getur jafnvel numið tugum milljóna króna á dag, og því mikið í húfi verði hægt að stytta siglingatíma.
Áætlanir fyrir Finnafjarðarhöfn byggja á þessum forsendum öllum. Verði aukning í siglingum um Íshafið gæti Finnafjörður orðið kjörinn staður sem grunn-þjónustuhöfn, þar sem mætti umskipa og dreifa vörum til mismunandi svæða og áfangastaða.
Kálið er ekki sopið
En það eru nokkur ljón í veginum og óvíst að verkefnið verði að veruleika. Flutningar sem gætu farið um Norðausturleiðina eru tvennskonar; gámaflutningar og magnflutningar. Margir hafa spáð miklum vexti í slíkum siglingum á milli Atlantshafs og Kyrrahafs eftir því sem ísinn hefur bráðnað, þar sem Norðausturleiðin er talsvert styttri en hin hefðbundna leið um Suez-skurð og Indlandshaf. Siglingar um Norður-Íshafið, eins og fyrir ströndum Rússlands, eru þó langt í frá auðveldar í framkvæmd. Veður eru válynd, jafnvel um sumartímann og langt í aðstoð ef eitthvað kemur upp á. Ísbrjótar hafa þurft að fara fyrir skipunum sem eru einnig sérstaklega byggð til siglinga í hafís.
Helsti sérfræðingur heims í þessum málum, Frederic Lasserre, bendir einmitt á að þrátt fyrir að umferð hafi vissulega aukist er það ekki flutningaumferð á milli heimsálfa, heldur til áfangastaða á svæðinu. Á þessu tvennu er mikill munur og umferðin samanstendur helst af skipum sem fara til að sinna tilteknum verkefnum hvort sem það eru fiskveiðar, ferðaþjónusta eða skip sem tengjast vinnslu á náttúruauðlindum. Lasserre segir nokkrar ástæður vera fyrir því, sú helsta að leiðin sé enn mjög árstíðabundin sem gerir nákvæmar tímaáætlanir ómögulegar.
Gámaflutningar eru hluti af framleiðslukeðju sem kallast hefur „tímastillt framleiðsla í birgðarýrum kerfum“ (e. Just In Time) – sem miðar að því að lágmarka birgðahald. Þannig treystir bílaframleiðandi í Asíu á afhendingu íhluta til framleiðslunnar út frá eftirspurn eftir bílum, með tímaáætlanir sem eru birtar sex eða níu mánuði fram í tímann. Það er mjög erfitt að sjá fyrir í byrjun janúar hvernig ísalög muni líta út í júní eða júlí og því ómögulegt að gefa út nákvæmar áætlanir um afhendingu sendinga. Þess vegna kjósa skipafélög enn sem komið er venjulegar leiðir þar sem bætist við að hægt er að hlaða og afferma í nokkrum höfnum á leiðinni.
Það sama á eiginlega við um skipafélög sem einbeita sér að tilfallandi flutningum sem ekki eru eins háðir nákvæmum tímasetningum. Það er dýrt spaug að láta skip bíða færis til siglinga dögum, jafnvel vikum saman, skip sem eru einmitt bæði dýrari í kaupum og rekstri vegna sérútbúnaðar fyrir siglingar í ís.
Af þessum ástæðum er ekki líklegt að mikill vöxtur verði í umferð á Norðausturleiðinni með gámaskipum að svo stöddu. Magn- og gámaskip þurfa enn að vera búin til ísbrots til að sigla á norðurslóðum, en þetta kann að breytast og eftir 20 ár gætu málin horft öðruvísi við, segir Lasserre.
Mótstaða vegna umhverfis- og náttúrusjónarmiða
Ljóst er að svo stór framkvæmd eins og Finnafjarðarhöfn hefur mikil umhverfisáhrif og því eru ekki allir sáttir. Landvernd hefur lagst gegn framkvæmdunum því iðnaðarsvæðið sé skilgreint á náttúruminjasvæði. Segir í áliti á tillögu Langanesbyggðar til aðalskipulags frá árinu 2012, að þetta sé í miklu ósamræmi við markmiða- og stefnumiðasetningu sveitarfélagsins, ekki síst vegna þess hve viðamikil og stórvaxin starfsemi sé fyrirhuguð í Finnafirði.
Jafnframt hefur núverandi framkvæmdastjóri Landverndar tjáð sig um málið og sagt framkvæmdina óhjákvæmilega hafa mikil og óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, á fuglalíf, landslag, ferðaþjónustu og lífríkið í heild. Hún segir ljóst að þarna verði mikið rask og framkvæmdin verði að fara í umhverfismat, mesta hættan sé tengd olíuslysum og í köldum sjó séum við vanbúin til viðbragða.
Nú þegar samningar við landeigendur standa fyrir dyrum er óvíst hvernig þeim viðræðum reiðir af. Reimar Sigurjónsson, bóndi á Felli, einu jörðinni sem er í byggð í firðinum, hefur lýst óánægju sinni með þessi áform og segir ekkert samráð hafa verið haft við ábúendur. Hann segir uppbygginguna vera algerlega andstæða þeirri uppbyggingu í ferðaþjónustu sem hann hefur staðið fyrir sem sé byggð á ósnortinni náttúru. Ennfremur segist Reimar efast um réttmæti yfirlýsinga um hversu umhverfisvæn höfnin muni verða og áréttar í samtali að svo stór framkvæmd snúist um miklu meira en bara landið sem fer undir hana.
Þessi mótstaða er að einhverju leyti skiljanleg því umhverfisáhrif munu verða afar víðtæk og fjölbreytt. Bent hefur verið á að slíkt svæði verði að öllum líkindum að stórum hluta frí-tollasvæði sem þurfi að huga vel að þegar kemur að vinnuaðstæðum. Viðbúið sé að verkamenn, sem flestir verði á lágmarkslaunum, muni búa í vinnubúðum innan svæðis og starfsemin myndi skilja lítil verðmæti eftir sig miðað við þá fórn sem færð er með náttúrspjöllum og umhverfisógn. Gríðarleg skipaumferð risaskipa frá öðrum heimshornum þýddi mikla mengun sem bærist í nærliggjandi firði auk þess sem í land gætu borist áður óþekkt dýr og gróður sem spillt gætu íslenskri náttúru.
Ríkið víkkar út öryggissvæðið við Gunnólfsvík
Finnafjörður liggur að Gunnólfsvíkurfjalli þar sem ein af ratsjárstöðvum Íslenska loftvarnakerfisins er staðsett, en kerfið er hluti af samþættu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins (NATO). Vegna þessa er talið mikilvægt að ríkið endurskilgreini þörf á stærð öryggissvæðisins þar í kring. Hafa verið kynnt drög að frumvarpi til laga um breytingar á varnarmálalögum þar sem mörk núverandi öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall eru færð út.
Segir í rökstuðningi við frumvarpsdrögin að markmið þess séu að tryggja hagsmuni ríkisins á svæðinu, m.a. að færa skipulags- og mannvirkjavald á endurskilgreindu öryggissvæði yfir til ríkisins. Jafnframt er tilgangur lagabreytinganna sagður vera að tryggja heimildir ríkisins til skipulagsþróunar út frá stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, en einnig þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland með tilliti til umhverfis- og öryggishagsmuna.
Gert er ráð fyrir að á starfssvæðinu, sem er í umsjá Landhelgisgæslunnar, verði viðlegukantur, þyrlupallar, þyrluflugskýli, eldsneytisbirgðastöð, varahlutageymslur og þess háttar. Tekið er sérstaklega fram að frumvarpinu sé í engu ætlað að torvelda umrædda uppbyggingu í Finnafirði heldur fyrst og fremst að tryggja hagsmuni ríkisins með helgun svæðis til mögulegrar nýtingar, m.a. hvað varðar leit og björgun.
Komið hefur fram gagnrýni frá Félagi hernaðarandstæðinga á útfærslu öryggissvæðisins, að þar sé verið að leggja grunn að hernaðaruppbyggingu og mögulegri herskipahöfn. Jafnvel þó ekkert liggi á borðinu um slíka uppbyggingu þá er þessi gagnrýni ekki alveg úr lausu lofti gripin. Slík risahöfn sem um ræðir hefur gríðarlega mikla landfræðipólitíska þýðingu því þarna munu, ef öll áform ganga eftir, sigla í stórum stíl kínversk risaskip inn á svæði í íslenskri lögsögu.
Hins vegar má fullyrða að aukin skipaumferð um norðurslóðir kalli almennt á meiri viðbúnað af hálfu Íslendinga og mikilvægt að til staðar sé öflug öryggis- og björgunarmiðstöð. Jafnframt er full ástæða til viðbúnaðar af hálfu ríkisins út frá ýtrustu kröfum um þjóðaröryggi. Íslensk stjórnvöld vilja greinilega hafa vaðið fyrir neðan sig og sé litið til þeirra umsvifa sem gætu orðið í Finnafirði með aukinni stórskipaumferð væri í raun einkennilegt ef ríkið myndi ekki taka fast á þessum málum. Á það við um innviðauppbyggingu, sem bæði snýr að landfræðipólitískri stefnumótun og beinum öryggisviðbúnaði.
Verkefnið er hugsað til framtíðar – mikilvægi skýrrar stefnu stjórnvalda
Þrátt fyrir að ekkert sé fast í hendi er margt sem bendir til þess að Finnafjarðarverkefnið sé byggt á raunhæfum áætlunum. Það er hugsað í áratugum og ljóst að aðstæður til siglinga um norðurslóðir munu breytast þegar fram í sækir og verða auðveldari. Það mun auka skipaumferð sem sannarlega kallar á aðstöðu eins og þá sem fyrirhuguð er í Finnafirði. Þó siglingar um Norður-Íshaf séu enn vandkvæðum bundnar, er ein af forsendum verkefnisins einmitt sú að höfnin gæti orðið umskipunarmiðstöð fyrir öflug og sérútbúin risaskip – sem einungis sigldu um Íshafið.
Forráðamenn verkefnisins hafa lagt áherslu á að vel sé hugað að umhverfismálum við hönnun og skipulag framkvæmda og við þá starfsemi sem fyrirhuguð er, einn liður í því er að gera sjóflutninga vistvænni. Takist vel til gæti Finnafjarðarhöfn rennt stoðum undir sífellt fjölbreyttara atvinnulíf Íslendinga. Framkvæmdir sem þessar munu hins vegar ávallt kalla á fórnir á óspilltri náttúru. Því er mikilvægt er að þær fari í eðlilegt umhverfismat og tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.
Ríkisvaldið hefur stigið varlega til jarðar í málinu og forðast að koma inn sem einhverskonar forystuafl á viðskiptalegum grunni. Það er skiljanleg og rökrétt afstaða. En hvað sem yfirlýsingum forsvarsmanna verkefnisins um umhverfisvitund líður er ljóst að það er gríðarlega umfangsmikið og mun valda miklu raski og umhverfisáhrifum – og vekja athygli á alþjóðavísu.
Hrein og ómenguð náttúra er vörumerki sem verður sífellt verðmætara og getur orðið aðal-útflutningsvara Íslendinga, sé hún ekki þegar orðin það. Ekki einungis hvað varðar það sem selt er í formi vöru og þjónustu heldur þá ímynd sem skapar smáríkinu Íslandi vægi á alþjóðavettvangi – sem er ómetanlegt.
Að sama skapi felast miklar áskoranir í verkefninu á sviði hefðbundinna öryggis- og varnarmála. Kína er einræðisríki sem hefur reynt að seilast til áhrifa á norðurslóðum, m.a. með óvenju mikilli viðveru á Íslandi og tilraunum til jarðakaupa. Í því samhengi vekur Fríverslunarsamningur við Íslendinga sem gerður var árið 2013 athygli, þar er vert að spyrja: Hvaða hag sjá Kínverjar af honum?
Íslendingar hafa viljað láta taka sig alvarlega þegar kemur að norðurslóðamálum, forgangsmáli í utanríkisstefnunni, jafnvel haft metnað til þess að verða leiðandi á því sviði. Því er mikilvægt að Íslenska ríkið sé afgerandi í aðkomu sinni að þessu umfangsmikla verkefni í Finnafirði, stjórnvöld átti sig á landfræðipólitískum þáttum þess og marki skýra umgjörð hvað varðar umhverfismál.