Starfsfólk Landsbankans má ekki taka þátt í útboðum sem bankinn annast
Fjármálaeftirlitið rannsakar mögulega hagsmunaárekstra sem áttu sér stað þegar starfsmenn söluráðgjafa eða umsjónaraðila lokaðs útboðs í Íslandsbanka tóku sjálfir þátt í útboðinu. Kjarninn spurði hina þrjá stóru banka landsins hvort starfsmenn þeirra mættu kaupa í útboðum sem þeir kæmu að, og ef svo væri hvaða reglur giltu um slík kaup?
Enginn starfsmaður Landsbankans, sem var á meðal söluráðgjafa í sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars, óskaði eftir heimild til að taka sjálfur þátt í útboðinu og enginn starfsmaður bankans fékk slíkt leyfi. Starfsfólki Landsbankans er óheimilt að taka þátt í almennum útboðum á fjármálagerningum sem bankinn gefur út og í almennum útboðum sem bankinn annast, nema því aðeins að í útboði sé óskað eftir tilboðum í hlutabréf á föstu gengi en ekki verðtilboðum í hlutabréf, gengi eða vaxtakjör og að þeir gangi ekki fyrir sem fyrstir skrá sig.
Þetta kemur fram í svari Rúnars Pálmasonar, upplýsingafulltrúa bankans, við fyrirspurn Kjarnans um hvaða reglur gilda um þátttöku starfsmanna Landsbankans í útboðum sem hann sér um eða kemur að. Landsbankinn var einn fimm innlendra söluráðgjafa sem komu að lokuðu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars.
Rúnar segir enn fremur að í útboðslýsingu vegna almennra útboða sem bankinn annist eigi að greina frá því hvort starfsfólki sé heimilt að taka þátt í útboði og samkvæmt hvaða skilmálum og skulu tilboð starfsmanna berast við upphaf fyrsta tilboðsdags.
Þetta er hluti af regluverki sem Landsbankinn hefur sett sér um viðskipti starfsfólks með fjármálagerninga og gjaldeyri. Í svarinu segir að markmið reglnanna sé að forðast hagsmunaárekstra og draga úr hættu á viðskiptum sem geta gefið tilefni til gagnrýni á stjórnarhætti, stjórnendur og starfsfólk eða stofna hagsmunum viðskiptavina í hættu. „Starfsfólk skal afla samþykkis regluvörslu til viðskipta með fjármálagerninga fyrirfram, þ.m.t. óskráða fjármálagerninga. Regluvarsla metur hvort að til staðar séu hagsmunaárekstrar samkvæmt reglum bankans.
Regluvarsla kann að setja frekari skorður við þátttöku starfsfólks ef hætta er talin á hagsmunaárekstrum. Þannig hafa verið settar skorður á þátttöku starfsfólk sem annast framkvæmd útboða eða kunna að hafa frekari upplýsingar um framkvæmdina sem ekki eru opinberar.“
Starfsfólk Landsbankans sem vegna starfa sinna telst faglegir ráðgjafar útgefanda fjármálagernings, er auk þess óheimilt að eiga viðskipti með fjármálagerning viðkomandi útgefenda frá því að verkefni hefst og næstu þrjá mánuði eftir að því lýkur, nema því aðeins að verkefni ljúki fyrr með opinberri útgáfu á upplýsingum.
Tíðkast ekki erlendis
Tilefni fyrirspurnar Kjarnans var þátttaka átta starfsmanna Íslandsbanka, eða aðila tengdum starfsmönnum, í lokuðu útboði á 22,5 prósent hlut ríkisins í bankanum 22. mars síðastliðinn, en fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka voru á meðal umsjónaraðila útboðsins.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er að rannsaka háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu. Þar sé að minnsta kosti verið að horfa á þátttöku áðurnefndra átta starfsmanna eða tengdra aðila innan Íslandsbanka og kaup stærsta eiganda Íslenskra Verðbréfa, sem er einnig eiginkona forstjóra fyrirtækisins, keypti auk þess hlut.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið frá Íslandsbanki sagði að stjórnendur hans hlusti á þá gagnrýni sem fram hefur komið um þátttöku starfsfólks bankans í útboðinu og að reglur um þátttöku starfsmanna yrðu rýndar í kjölfar þessa. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna birtingu á uppgjöri bankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem birt var á fimmtudag, var haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að vinna „við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna“ standi yfir.
Á fundi fjárlaganefndar í apríl sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, að allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hefðu fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess, en að það lægi ekki fyrir að grunur væri um möguleg brot á reglum eða lögum gagnvart þeim öllum.
Hann hafi rekið augun í nafn starfsmanns Íslandsbanka á væntum kaupendalista þegar verið var að safna áskriftum og spurt bankann út í það, en fengið þau svör að regluvörður hefði samþykkt þetta. Jón Gunnar sagði að erlendis hefði það aldrei tíðkast að starfsmenn söluráðgjafa tækju þátt í útboði og að það hefði verið litið hornauga.
Starfsmenn fá ekki almenna heimild til að kaupa í tilboðssölu
Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að bankinn hafi sett sér sérstakar reglu um verðbréfaviðskipti starfsfólks. „Samkvæmt þeim er starfsmönnum, og nátengdum aðilum, óheimilt að eiga viðskipti með verðbréf búi þeir yfir trúnaðarupplýsingum sem tengjast viðkomandi viðskiptum. Ætíð er horft til þess að verðbréfaviðskipti starfsfólks séu hafin yfir gagnrýni og skapi hvorki hættu á hagsmunaárekstrum né orðsporðsáhættu.“
Þegar Arion banki hafi verið söluaðili í almennum frumútboðum, sem standi almenningi til boða, hafi reglan verið sú að heimila starfsfólki þátttöku án þess að óska eftir áliti regluvörslu fyrir að hámarki tíu milljónir króna. Þátttaka umfram það kalli á samþykki regluvörslu. „Þessi framkvæmd skýrist af því að lýsing hefur verið gefin út og því eiga engar innherjaupplýsingar að vera til staðar. Starfsmönnum sem halda utan um tilboðsbók er þó óheimilt að taka þátt, til að fyrirbyggja að unnt sé að lesa út úr upplýsingum um þátttöku eftir að útboðið er byrjað. Í ákveðnum tilvikum hefur einnig verið sett sú takmörkun að starfsmönnum er eingöngu heimilt að taka þátt fyrsta dag útboðs. Það er líka regla í frumútboðum að tekið er samtal við útgefanda varðandi mögulega frekari útilokun einhverra hópa starfsmanna.“
Í tilboðssölu gildi þó í öllum aðalatriðum sömu reglur nema hvað starfsmenn fái ekki almenna heimild til þátttöku. „Þeirra þátttaka er háð ríkari takmörkunum og heimild frá regluvörslu,“ segir Haraldur. Arion banki var ekki á meðal þeirra fjármálafyrirtækja sem veittu söluráðgjöf þegar hlutir í Íslandsbanka voru seldir í mars.
Regluvörður hefur heimilað starfsmönnum að kaupa
Það var Kvika banki ekki heldur. Í svari Ernu Heiðrúnar Jónsdóttur, regluvarðar Kviku banka, við fyrirspurn Kjarnans um hvaða reglur gildi um útboð sem bankinn kemur að segir að hann hafi sett sér umfangsmiklar og ítarlegar innri reglur um eigið viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga, þar sem þeim séu settar verulegar skorður. „Reglur þessar ná til þátttöku starfsmanna í útboðum. Þátttaka er alltaf háð samþykki regluvarðar. Í reglunum er sérstakt ákvæði sem kveður á um að starfsmönnum sé óheimilt að taka þátt í útboðum sem bankinn annast (þ.e. er umsjónaraðili að), nema að uppfylltum ákveðnum ströngum skilyrðum. Áður en kemur að útboðinu sjálfu er möguleg þátttaka starfsmanna rædd milli regluvarðar og stjórnenda, þ.e. hvort viðeigandi sé að starfsmenn taki þátt og ef svo er hvort og hvernig umrædd skilyrði séu uppfyllt. Bankinn hefur áður bannað þátttöku starfsmanna undir þessum kringumstæðum.“
Efnisatriði reglnanna og breytingar þar á séu ræddar í framkvæmdastjórn bankans að viðstöddum regluverði og svo teknar fyrir og samþykktar af stjórn. Regluvörður og stjórnendur ræða þátttöku starfsmanna í útboðum sem bankinn hefur umsjón með eða kemur að áður en til útboðs kemur. Í samræmi við þessar reglur og verklag hafi regluvörður bankans heimilað starfsmönnum að kaupa í útboðum sem bankinn hafi séð um eða kom að.
Sé Kvika ekki umsjónaraðili en hugsanlega ráðgefandi í útboðsferli eða komi að ferlinu með öðrum hætti gilda reglur um eigin viðskipti starfsmanna með sama hætti og um önnur viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga. „Framangreind sérskilyrði eiga þá ekki við með beinum eða jafn ströngum hætti. Þátttaka er heimil ef innri reglur koma ekki í veg fyrir það af einhverjum ástæðum, t.a.m. hagsmunaárekstrum/orðsporsáhættu o.s.frv. Undir þessum kringumstæðum er einnig alla jafna farið almennt yfir hugsanlega þátttöku starfsmanna áður en til útboðs kemur af regluverði og stjórnendum. Starfsmenn eru alla jafna háðir 90 daga lágmarks eignarhaldstíma frá kaupdegi fjármálagernings. Sú krafa gildir um fjármálagerninga sem starfsmenn eignast við þátttöku í útboðum og miðast upphafsdagur þá við þann dag sem bréfin eru tekin til viðskipta.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana