Stefnubreytingin sem Google tilkynnti um í lok viðskiptadags, 10 ágúst síðastliðinn, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, sé mið tekið af viðbrögðum fjölmiðla víðast hvar, en var samt eitthvað sem greinendur og sérfræðingar höfðu haft grunsemdir um að væri í bígerð. Það sem helst kallaði á endurskipulagningu fyrirtækisins var hröð þróun á sviði gervigreindar, meðal annars þróun sjálfakandi rafbíla, og síðan tímabær endurnýjun á stefnumótun félagsins. Þó Google teljist fremur ungt félag þegar horft til margra þeirra sem risavöxnu fyrirtækja sem eru skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum, þá þarf stundum að minna á það sérstaklega að það varð til í bílskúr árið 1998, fyrir aðeins sautján árum.
Risi sem getur orðið að skrímsli?
Í bloggfærslu sem Larry Page og Sergey Bruin, stofnendur Google, skrifuðu á vef fyrirtækisins í tilefni breytinganna segja þeirr að markmiðið sé að láta hvert og eitt vörumerki blómstra á sinn sjálfstæða hátta. Undir væng móðurfélagsins, Alphabet, verða t.d. Google Ventures, sem mun leggja áherslu á að fjármagna sprotafyrirtæki, Google X, sem mun vinna að tækninýjungum, Google Capital, sem mun fjárfesta í tæknigeiranum til lengri tíma og síðan Google Inc. Undir væng Google Inc verður m.a. Android, Youtube og auglýsingastarfsemi fyrirtækisins, sem hefur verið grunnur að hröðum vexti þess allt frá stofnun. Nýr forstjóri Google er Sundar Pichai, 43 ára gamall Indverji, sem hefur verið meðal lykilstjórnenda Google að undanförnu.
Tekjurgrunnur fyrirtækisins er traustur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Miðað við síðustu birtu tilkynningu í kauphöll, fyrir annan ársfjórðung 2015, námu tekjur fyrirtækisins 17,7 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.300 milljörðum króna. Það er um ellefu prósent aukning frá sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir að fyrirtækið sé fyrir löngu búið að festa við sig orðið risi, þá bendir margt til þess að það geti orðið stærra og áhrifameira en það er nú. Þá er orðið skrímsli líklega ekki langt undan.
https://www.youtube.com/watch?v=M8YjvHYbZ9w
Ekkert venjulegt fyrirtæki
Einn af þeim sem fylgst hefur lengi fylgst með gangi mála í tæknigeiranum á heimsvísu er Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Íslandsbanka og fyrrverandi ráðgjafi hjá McKinsey. Hann segir stefnubreytinguna nú geta verið upphaf „svakalegrar“ sögu, ef Larry Page og félagar ná markmiðum sínum. „Google er auðvitað ekkert venjulegt fyrirtæki. Þetta hafa þeir Brin og Page sagt okkur allt frá því þeir skrifuðu þetta í fyrstu setningunni í bréfi til fjárfesta í skráningarlýsingu félagsins 2004. Alphabet aðgerð Google er bara enn einn sönnun þessara orða. Page er að segja okkur að hann ætli að einbeita sér að ævintýrum og arfleifð Google. Ef eitthvað af því tekst sem Page ætlar sér að vinna að verður saga Google enn svakalegri en við getum ímyndað okkur. Pælið í því ef Google mun auka langlífi, bæta borgaskipulag eða bæta lífsgæði með sjálfkeyrandi bílum. Þetta eru meðal stóru mála Alphabet. Á sama tíma mun hinn eitursnjalli Sundar Pichai reka hið „hefðbundna“ fyrirtæki Google . Fyrirtæki sem mun horfa á afkomuna í ársfjórðungslegum takti og tala um fjárfestingar, tekjur og kostnað eins og hvert annað fyrirtæki.
"..this [að Sundar stjórni Google] frees up time for me to continue to scale our aspirations" lesist: Ég, Larry, geri það sem er mest cool
— Björgvin Ingi Ólafs. (@bjorgvinio) August 11, 2015
Það fyrirtæki snýst um auglýsingar og hugvit og er í sjálfu sér ekkert byltingarkennt utan þess að hafa svakalega sterka markaðsstöðu. Sagan segir að það hafi hvatt Page til aðgerða nú að Pichai hafi verið boðið að taka við sem forstjóri Twitter og Page hafi alls ekki viljað missa hann eins og Marissa Mayer hjá Yahoo eða Sheryl Sandberg hjá Facebook,“ segir Björgvin Ingi, sem hefur verið virkur í umræðum um tíðindin frá Google á Twitter aðgangi sínum.
Miklar breytingar á lífi fólks
Líkt og þegar Google kom eins og stormsveipur inn í líf fólks í tölvum, árið 1998, þá bendir margt til þess að vöruþróun fyrirtækisins nú, einkum á sviði sjálfakandi bíla og gervigreindar, meðal annars í gegnum dótturfélagið Boston Dynamics, geti breytt lifnaðarháttum eins og við þekkjum þá töluvert. Jafnvel þó mörg önnur fyrirtæki í heiminum séu að þróa lausnir sem munu ýta undir breytingar á þessum fyrrnefndu þáttum þá er Google að leiða þróunina. Eða það er það sem fyrirtækið vill gera, helst alltaf á sem flestum vígstöðum.
https://www.youtube.com/watch?v=TsaES--OTzM