Slitabú Glitnis þarf að borga íslenska ríkinu allt að 173,9 milljörðum krónum minna með því að greiða því stöðugleikaframlag og sleppa þannig við álagningu stöðugleikaskatts. Með því að greiða stöðugleikaframlag áætlar Glitnir að búið þurfi að greiða ríkissjóði 205,4 til 254,4 milljarða króna. Ef stöðugleikaskattur yrði lagður á búið myndi sú greiðsla hins vegar verða á bilinu 329,3 til 379,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Glitnis sem birt var fyrir helgi.
Stærstu kröfuhafar Glitnis hafa þegar náð samkomulagi við íslensk stjórnvöld um að mæta stöðugleikaskilyrðum þeirra og greiða stöðugleikaframlag. Það hafa stærstu kröfuhafar slitabúa Kaupþings og Landsbankans einnig gert. Tilboð þeirra voru send inn klukkutímum áður en viðhafnarkynning á áætlun stjórnvalda vegna losun fjármagnshafta fór fram í Hörpu. Í kynningunni var höfuðáhersla lögð á að kynna útfærslu og áhrif stöðugleikaskatts upp á 39 prósent, þrátt fyrir að samkomulag lægi fyrir við stærstu slitabú föllnu bankanna um að komast hjá álagningu hans.
Aðgerðir stjórnvalda vegna losun fjármagnshafta voru kynntar með viðhöfn í Hörpu 8. júní síðastliðinn. Þá lá þegar fyrir samkomulag við stærstu kröfuhafa föllnu bankanna um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda.
Slitabúin hafa fram að áramótum til að ljúka slitum á búum sínum og greiða stöðugleikaframlag sitt til ríkisins. Gerist það ekki á stöðugleikaskatturinn að leggjast á.
Stöðugleikaskatt þarf að greiða í reiðufé
Í hálfsársuppgjöri Glitnis, sem var birt 28. ágúst síðastliðinn, er gerður samanburður á áhrifum stöðugleikaframlags og stöðugleikaskatts. Þar segir að stöðugleikaskattur myndi þýða að 34 til 39 prósent af eignum búsins, sem eru 981,1 milljarður króna, myndu renna til íslenska ríkisins í reiðufé. Munurinn á prósentuhlutfallinu fellst í því að Glitni stendur til boða að fjárfesta í ákveðnum íslensku fyrirtækjum gegn því að skattprósentan lækki niður í 34 prósent ,fari svo að skatturinn falli á slitabúið. Það þýðir að Glitnir þyrfti að greiða 329,3 til 379,3 milljarða króna til íslenska ríkisins ef stöðugleikaskattur yrði lagður á búið.
Til samanburðar býst slitastjórn Glitnis við því að greiðsla stöðugleikaframlags, í samræmi við samkomulag sem stærstu kröfuhafar slitabúsins hafa gert við íslensk stjórnvöld, muni minnka eignir búsins um 21 til 28 prósent. Munurinn felist í því hvort það takist að selja Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri eða ekki. Ef aðrir gjaldmiðlar en íslensk króna fást fyrir bankann, miðað við bókfært virði hans, fær slitabúið fær slitabúið 40 prósent af kaupverðinu og íslenska ríkið 60 prósent. Ef Íslandsbanki verður hins vegar seldur fyrir íslenskar krónur rennur allt söluandvirðið til íslenska ríkisins. Þetta þýðir að slitabú Glitnis áætlar að mæting stöðugleikaskilyrða muni kosta kröfuhafa þess 205,4 til 254,4 milljarða króna.
Í uppgjörinu kemur fram að kostir þess að greiða stöðugleikaframlag felist einnig í því að það má að hluta til greiða með eignum og fjármálagjörningum sem eru ekki komnir á gjalddaga, en að stöðugleikaskattinn þurfi að greiða í reiðufé.
Yfirlit úr hálfsársuppgjöri Glitnis þar sem afleiðingar álagningar stöðugleikaskatts eru bornar saman við greiðslu á stöðugleikaframlagi.
Vilja koma í veg fyrir nýja snjóhengju
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að þegar kröfuhafar Glitnis lögðu fram tilboð um að mæta stöðugleikaskilyrðum íslenskra stjórnvalda, sem síðar var samþykkt, þá fól það tilboð meðal annars í sér að Íslandsbanki yrði seldur og ágóðanum skipt milli kröfuhafa Glitnis og ríkissjóðs. Mikla athygli vakti að í tilboðinu er innbyggður hvati fyrir Glitni að selja bankann til erlends aðila. Í einföldu máli þá er bókfært virði Íslandsbanka um 119 milljarðar króna og erlendir aðilar þyrftu að greiða sirka það verð fyrir hann. Innlendir aðilar þyrftu hins vegar að greiða allt að 200 milljörðum króna.
Til viðbótar er ákvæði í tilboði kröfuhafa Glitnis sem segir að erlendur kaupandi bankans megi ekki selja hann aftur til innlends aðila í fimm ár eftir að gengið verður frá kaupunum.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að stærstu kröfuhafar Glitnis, sem komu að samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld, settu inn þessa hvata. Í fyrsta lagi fengist með því gjaldeyrir fyrir bankann sem nýst getur til að greiða niður skuldir. Íslenska ríkið fengi til að mynda 71 milljarð króna í sinn hlut ef Íslandsbanki yrði seldur útlendingum á bókfærðu virði, og gæti notað það fé til að minnka skuldir og vaxtakostnað sinn verulega. Ef innlendir aðilar myndu kaupa bankann og nota til þess krónur væri illa hægt að nota þær krónur til að greiða niður innlendar skuldir. Það myndi auka á þenslu í hagkerfinu með tilheyrandi verðbólgu.
Gagnrýnendur hafa bent á að Íslendingar eigi líka gjaldeyri sem hægt væri að nota til að kaupa bankann. Þar er mest horft til eigna lífeyrissjóða erlendis. Þær eru hins vegar einungis 23,5 prósent af heildareignum sjóðanna og því varhugavert, með tilliti til áhættudreifingar í eignarsafni þeirra, að minnka það hlutfall mikið. Lífeyrissjóðirnir hafa líka verið að kalla eftir því að fá að fjárfesta meira erlendis, frekar en að koma heim með peninga.
Vilja koma í veg fyrir nýja snjóhengju
En það eru fleiri ástæður fyrir því að kröfuhafar Glitnis vilja frekar selja útlendingum en Íslendingum Íslandsbanka. Á uppgjörsfundi hjá Íslandsbanka á þriðjudag sagði Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, að ein ástæða þess að erlent eignarhald yrði bundið í fimm ár eftir sölu væri til að koma í veg fyrir að erlendur kaupandi seldi Íslandsbanka strax aftur til innlends aðila. Ef það myndi gerast þá væri strax komin ný snjóhengja upp á 119 milljarða króna. Vandamálið sem áætlun stjórnvalda um losun hafta á að leysa yrði samstundis til á ný.
En er ástæða til að óttast svona snúning? Miðað við stöðu Íslandsbanka, sem á 187 milljarða króna í eigið fé, hefur mikla möguleika til að vaxa, er með mikla markaðshlutdeild og það hversu mikil völd fylgja því að eiga banka á fákeppnismarkaði á Íslandi, er ljóst að margir innlendir aðilar gætu hugsað sér að ráðast í slíkan snúning. Og sagan sýnir okkur líka að það yrði ekki í fyrsta sinn sem erlendur aðili yrði notaður til að „leppa“ eignarhald á banka til að tryggja innlendum fjárfestum yfirráð yfir honum. Það var gert þegar S-hópurinn svokallaði keypti Búnaðarbankann, með aðstoð hins þýska Hauck & Aufhauser.