Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur hið gamla slagorð „báknið burt“ á stefnuskrá sinni. Í því felst meðal annars samkvæmt útskýringu flokksins, að öllum ríkisstofnunum verði gert að skila inn sparnaðartillögum fyrir næstu áramót. Þá vill flokkurinn leggja af styrki til stjórnmálaflokka sem hann kallar spillingu af hæstu gráðu, sjálftöku og búi til ríkisrekið stjórnmálabákn.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður flokksins, ræddi þessi mál í þættinum Forystusætið á RÚV í gærkvöldi.
Þar sagði hann meðal annars að ríkisútgjöld hefðu hækkað um 25 prósent á verðlagi ársins 2016. Síðan sagði Guðmundur Franklín: „Stöðugleikasáttmálinn sem var gerður við erlendu bankanna. hann er horfinn. Þetta fór allt í hækkun embættismanna og alþingismanna.“ Í kjölfarið sagði hann: „Stjórnmálamenn. Milljarðar á ári. Allir komnir með aðstoðarmenn.“
Stöðugleikaframlögin skiluðu að minnsta kosti 460 milljörðum
Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um félagið Lindarhvol, sem sá um umsýslu, fullnustu og sölu á eignum sem ríkissjóður fékk afhent vegna stöðugleikasamninganna við slitabú föllnu bankanna, og var birt í fyrra kom fram að stöðugleikaframlagið hefði skilað 460 milljörðum króna í ríkissjóð, eða 76 milljörðum króna meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Gera má ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað eitthvað síðan þá, í ljósi þess að ein eignanna sem ríkið fékk við gerð stöðugleikasamninganna var Íslandsbanki, sem var skráður á markað fyrr á þessu ári og hefur hækkað mikið í virði.
Þorri þeirra fjármuna sem komu inn vegna sölu stöðugleikaeigna var nýttur í að greiða niður skuldir ríkissjóðs og lækka með því vaxtakostnað hans. Skuldir ríkissjóðs voru 65 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2009 en fóru undir 30 prósent árið 2019 og áætlanir gera ráð fyrir að þær verði um 60 prósent árið 2025.
Kostnaður hefur hækkað, en ekki um 460 milljarða
Ríkisútgjöld hafa hækkað um 21 prósent á verðlagi ársins 2016, frá árinu 2016. Sú fullyrðing Guðmundar Franklíns er því á réttri leið, þótt hún sé ekki rétt. Á því tímabili hækkuðu ríkisútgjöldin úr 840 milljörðum króna í 1.013 milljarða króna á verðlagi áðurnefnds árs. Uppsafnaður viðbótarkostnaður í krónum talið er um 174 milljarðar króna, eða um 38 prósent af þeim fjármunum sem stöðugleikasamningarnir skiluðu samkvæmt því sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar í fyrra, og er hófleg.
Launakostnaður ríkissjóðs hefur aukist um 67 milljarða króna frá árinu 2016, eða um 44 milljarða króna á verðlagi þess árs.
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að í byrjun sumars 2016 hafi grunnlaun þingmanna á Íslandi verið 712.030 krónur á mánuði. Nú, fimm árum síðar, eru þau 1.285.411 krónur á mánuði. Þau hafa því hækkað um 573.381 krónur á tímabilinu, eða um rúmlega 80 prósent. Grunnlaun ráðherra hækkuðu enn meira í krónum talið. Þeir voru með 1.257.425 krónur í laun snemmsumars 2016 en fá nú 2.131.788 krónur á mánuði. Laun þeirra hafa því hækkað um 874.363 krónur á tímabilinu, eða um 70 prósent.
Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og allra aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 681,3 milljónir króna á þessu ári, samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2021 sem samþykkt voru í fyrra. Það er 48 prósent aukning frá áætluðum kostnaði á árinu 2018, sem var fyrsta heila ár ríkisstjórnarinnar Katrínar Jakobsdóttur við völd, en kostnaður vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra átti þá að vera 461 milljónir króna samkvæmt samþykktum fjárlögum.
Hann reyndist hins vegar verða 597 milljónir króna á árinu 2018. Árið 2019 var hann svo undir áætlun en hækkaði samt milli ára í 605 milljónir króna.
Í fyrra var hann áætlaður 660 milljónir króna á fjárlögum og í ár er hann, líkt og áður sagði, áætlaður 681,3 milljónir króna.
Stjórnmálaflokkarnir átta sem eiga fulltrúa á Alþingi munu fá samtals rúmlega 2,8 milljarða króna úr ríkissjóði á yfirstandandi kjörtímabili fyrir að vera til. Það er 127 prósent hærri upphæð en þeir hefðu fengið ef tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 hefði ekki verið samþykkt í árslok 2017.
Niðurstaða Staðreyndarvaktarinnar
Það er niðurstaða Staðreyndavaktar Kjarnans að Guðmundur Franklín Jónsson hafi farið með fleipur í Forystusætinu á RÚV þegar hann sagði: „Stöðugleikasáttmálinn sem var gerður við erlendu bankanna. hann er horfinn. Þetta fór allt í hækkun embættismanna og alþingismanna.“
Þótt laun embættismanna og alþingismanna, og ýmis annar kostnaður í kringum rekstur ríkissjóðs, hafi aukist umtalsvert þá liggur fyrir að sá kostnaður er ekki nálægt þeim 460 milljörðum króna sem stöðugleikaframlögin skiluðu í ríkissjóð, hvernig sem á það er litið. Það er hins vegar rétt hjá Guðmundi að allir þessir kostnaðarliðir hafa hækkað umtalsvert á því tímabili sem hann nefndi í viðtalinu og því er fullyrðingin ekki haugalygi.