Stríðinu í Alvogen lokið með sátt nokkrum dögum áður en það rataði fyrir dóm
Alvogen mun greiða ótilgreinda upphæð til Halldórs Kristmannssonar vegna áunninna launa og ógreiddra kaupauka, auk útlags lögmannskostnaðar. Á móti lýsir Halldór meðal annars yfir að hann uni traustsyfirlýsingu gagnvart Róberti Wessman og samþykkir að fjármagna ekki frekar útgáfu bókar sem Reynir Traustason hefur unnið að um Róbert.
Í janúar 2021 sendi Halldór Kristmannsson, sem verið hafði einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman forstjóra systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech, bréf til stjórnar Alvogen þar sem hann setti fram allskyns ásakanir um starfshætti forstjórans. Erlend lögmannsstofa, White & Case, var fengin til að fara yfir kvartanir Halldórs og íslenska lögmannsstofan Lex veitti ráðgjöf. Rannsóknin stóð yfir í átta vikur og samkvæmt yfirlýsingu sem Alvogen sendi frá sér í mars 2021 var niðurstaðan sú að efni kvartanna ætti sér enga stoð. „Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til þess að aðhafast neitt vegna þessa máls.“
Viku síðar, 29. mars, sendi Halldór frá sér yfirlýsingu þar sem hann opinberaði innihald bréfsins sem hann sendi til stjórnar Alvogen og Alvotech í janúar 2021. Samhliða því sagðist hann vera að stiga fram sem uppljóstrari í skilningi laga sem höfðu tekið gildi í upphafi árs 2021 og skömmu síðar opnaði hann sérstaka vefsíðu með upplýsingum um uppljóstranir sínar.
Lífslátshótanir og meint misnotkun fjölmiðla
Í yfirlýsingunni kom meðal annars fram að Róbert hefði meðal annars hótað að drepa Mark Keatly, fyrrverandi fjármálastjóra Actavis, í smáskilaboðum og hótað að vinna fjölskyldu hans og Claudio Albrecht, fyrrverandi forstjóra Actavis, skaða. Róbert hefur gengist við því að hafa sent skilaboðin og sagst hafa beðist afsökunar á að hafa sent þau.
Í yfirlýsingu Halldórs var því einnig haldið fram að Róbert hefði beitt sig óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum. Orðrétt sagði í yfirlýsingunni: „Ég taldi fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði. Úr þessu skapaðist vaxandi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauðbeygður til hliðar tímabundið, og upplýsti stjórnir fyrirtækjanna um málavexti. Ég vil standa vörð um ákveðin siðferðisleg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum málum.“
Vert er að taka fram að fjölmiðillinn Mannlíf hefur síðan skipt um eigendur og er nú í eigu Sóltúns, sem er að öllu leyti í eigu Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs.
Samið skömmu fyrir aðalmeðferð
Í apríl 2021 stefndi Alvogen Halldóri. Í stefnunni var honum gefið að hafa framið alvarlegt trúnaðarbrot í starfi meðal annars með því að hafa fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni, fjárfesti og aðaleiganda Novator, í nóvember 2020. Björgólfur Thor og Róbert Wessman hafa átt í miklum erjum árum saman, eða allt frá því að samstarfi þeirra í lyfjafyrirtækinu Actavis lauk síðsumars 2008. Deilurnar hafa meðal annars hafa endað fyrir dómstólum og birst í vilja beggja til að setja umtalsvert fé í fjölmiðlarekstur á Íslandi sem virtist ekki vera gert á rekstrarlegum forsendum.
Í stefnu Alvogen sagði með hátterni sínu hefði Halldór fyrirgert rétti sínum til að njóta sérstakrar verndar sem uppljóstrari samkvæmt íslenskum lögum.
Með sáttinni sem tilkynnt var um í gær liggur því fyrir að ekki mun reyna á lög um vernd uppljóstrara fyrir íslenskum dómstólum í fyrsta sinn, en Halldór hafði skilgreint stöðu sína sem slíkur.
Lögin tóku, líkt og áður sagði, gildi í byrjun árs í fyrra. Þau kveða á um vernd til handa starfsmönnum sem upplýsa um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns. Sú vernd felur í sér að miðlun upplýsinga telst ekki brot á þagnar- og trúnaðarskyldu, sem starfsmaðurinn væri annars bundinn af, sé hann skilgreindur sem uppljóstrari samkvæmt lögunum.
Aðalmeðferð í máli Alvogen gegn Halldóri átti, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, að fara fram á föstudag í héraðsdómi Reykjavíkur. Af því varð ekki. Í gær var greint frá því að sátt hefði náðst milli deiluaðila.
Hin endanlega sátt, sem hafði verið marga mánuði í bígerð, var því ekki opinberuð fyrr en nokkrum dögum áður en aðalmeðferðin átti að hefjast. Undirbúningur fyrir þá aðalmeðferð var lagt kominn og búið var að gera lista yfir þau vitni sem átti að kalla fyrir í henni. Þar var meðal annars um að ræða einstaklinga sem áttu að geta staðfest þær ásakanir sem Halldór hafði sett fram.
Greina ekki frá upphæðinni
Samkomulagið um sátt sem opinberað var í gær er gert milli Halldórs og Alvogen í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu frá Alvogen sem send var á fjölmiðla vegna þessa sagði: „Í janúar 2021 sendi Halldór Kristmannsson bréf til stjórnar Alvogen, sem innihélt fjölda ásakana um starfshætti Róberts Wessman. Að lokinni óháðri rannsókn sérfræðinga, stefndi Alvogen Halldóri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og átti málflutningur að fara fram á haustmánuðum. Aðilar hafa náð sáttum í málinu og mun Alvogen falla frá málsókninni. Halldór mun loka heimasíðu sinni og hefur lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar að lýsa yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar.“
Talsmaður fjárfestingafélagsins Flóka Invest, sem Róbert Wessman stýrir, sagðist ekki geta greint frá hversu háa upphæð Halldór hafi fengið greidda.
Halldór segir í samtali við Kjarnann það vera hluta af samkomulaginu við Alvogen að hann greini ekki frá þeirri upphæð sem Alvogen greiðir honum vegna sáttarinnar. Í henni felst að Halldór fær greidd uppsagnarfrest og áunna kaupauka frá fyrirtækinu, auk þess sem það greiðir útlagðan lögmannskostnað hans. Sá kostnaður hefur verið umtalsverður en auk lögmanns sem vann fyrir Halldór hér á Íslandi naut hann liðsinnis lögmannsstofunnar Quinn Emanuel Urquhart & Sullivan, sem sendu meðal annars lögfræðibréf til stjórna Alvogen og Alvotech, og gættu hagsmuna Halldórs í Bandaríkjunum.
Þegar málið rataði í íslenska fjölmiðla í lok mars í fyrra sendi Róbert Wessman frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði það augljóst af bréfasendingum bandarísku lögmannsstofunnar að ásakanir Halldórs hefðu verið „gerðar í fjárhagslegum tilgangi enda koma þar fram kröfur um greiðslur til handa honum.“
Fjármagnar ekki lengur bókina um Róbert
Á meðan að á deilum Halldórs við Alvogen og Róbert stóðu yfir var mikið fjallað um málið á fréttavefnum Mannlif.is, sem ritstýrt er af Reyni Traustasyni eins aðaleiganda vefsins. Róbert kærði Reyni nokkrum sinnum til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna þeirrar umfjöllunar og nú liggja þegar fyrir fjórir úrskurðir nefndarinnar, sem fallið hafa í ár, þar sem Reynir telst hafa brotið alvarlega gegn siðareglum félagsins.
Í maí komst Siðanefnd að þeirri niðurstöðu, í tveimur úrskurðum, að með því að þiggja fjármuni frá Halldóri, vegna bókaskrifa um Róbert, hafi Reynir orðið vanhæfur til að fjalla um málefni Róberts með þeim hætti sem gert var. Í úrskurðunum kom fram að Róbert teldi að Halldór hefði greitt, í gegnum félag sitt Skrúðás, rúmlega 30 milljónir króna á árinu 2021 til Mannlífs fyrir textasmíð og aðstoð við textasmíð. Sú háttsemi gekk, að mati siðanefndar, í berhögg við 5. grein siðareglna sem segir að blaðamenn eigi að varast hagsmunaárekstra. Brotin töldust alvarleg.
Í september komst siðanefndin svo að því í tveimur málum til viðbótar að Reynir hefði gerst áfram sekur um alvarleg brot gegn 5. grein siðareglna vegna skrifa um Róbert, í ljósi þess að Reynir hefði þegið fjármuni frá Halldóri vegna bókaskrifa um Róbert. Aftur sem áður töldust brotin alvarleg.
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur aflað sér er það hluti af sáttinni sem náðst hefur milli Alvogen og Halldórs Kristmannssonar að hann komi ekki frekar að gerð umræddrar bókar og veiti ekki frekari fjárhagsstuðning vegna vinnu við hana.
Í ársreikningi Skrúðás kemur fram að rekstrarfjöld félagsins á árinu 2021 hafi verið 42 milljónir króna, eða um 33 milljónum krónum hærri en árið áður. Í ársreikningi Sólartúns, eiganda Mannlífs, kemur fram að tekjur þess félags hafi verið 82,4 milljónir króna á síðasta ári. Sólartún var eitt þeirra 25 einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja sem fékk rekstrarstuðning úr ríkissjóði vegna síðasta árs. Alls námu greiðslur til félagsins úr ríkissjóði 10,5 milljónum króna.
Lestu meira:
-
23. nóvember 2022Stríðinu í Alvogen lokið með sátt nokkrum dögum áður en það rataði fyrir dóm
-
22. nóvember 2022Alvogen og Halldór Kristmannsson ná sáttum – Fallið frá málsókn gegn Halldóri
-
15. apríl 2021„Andsetnar strategíur“ í stríðinu innan Alvogen
-
6. apríl 2021Setið fyrir Halldóri fyrir utan World Class með uppsagnarbréf og stefnu
-
29. mars 2021Stríðið í Alvogen: Morðhótanir, ofbeldi og misnotkun á fjölmiðlum
-
29. mars 2021Wessman segir augljóst að ásakanir séu gerðar í „fjárhagslegum tilgangi“