Mynd: Aðsend blikablika1231.jpg
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ og Þorgerður Arna Einarsdóttir framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf. við undirritun samningsins í síðustu viku.
Mynd: Aðsend

Styr um samningagerð við Arion í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Níu dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar undirritaði Mosfellsbær samkomulag við félag í eigu Arion banka um uppbyggingu Blikastaðalandsins, sem er endanlegri eigu bankans. Minnihlutinn í bæjarstjórn sat ýmist hjá eða greiddi atkvæði gegn samningnum og sagði þörf á meiri umræðu um málið. Bæjarfulltrúi sem greiddi atkvæði gegn samningnum segir samvisku sína ekki hafa leyft sér annað. Meirihlutinn telur hins vegar eðlilegt að ljúka samningsgerðinni á þessu kjörtímabili, eftir vinnu undanfarinna missera.

Samn­ings­gerð Mos­fells­bæjar við Blika­staða­land ehf., félag sem í end­an­legri eigu Arion banka, vegna upp­bygg­ingar sam­nefnds lands, er umdeild á meðal bæj­ar­full­trúa í Mos­fells­bæ. Ein­ungis full­trúar Sjálf­stæð­is­flokks og Vinstri grænna, sem saman mynda fimm manna meiri­hluta í níu manna bæj­ar­stjórn Mos­fells­bæj­ar, sam­þykktu samn­ing­inn er hann var afgreiddur í bæj­ar­stjórn 4. maí.

Til­kynnt var á fimmtu­dag­inn í síð­ustu viku að samn­ingar hefðu náðst um að byggja upp á bil­inu 3.500-3.700 íbúðir fyrir um 9.000 íbúa í áföngum á næstu 15-20 árum á rúm­lega 80 hekt­ara land­svæði. Gengið er út frá því að hægt verði að hefja fram­kvæmdir við fyrsta áfanga árið 2024.

Stefán Ómar Jóns­son bæj­ar­full­trúi Vina Mos­fells­bæjar var eini bæj­ar­full­trú­inn sem greiddi atkvæði gegn sam­þykkt samn­ings­ins í bæj­ar­stjórn, en full­trúar Við­reisn­ar, Sam­fylk­ingar og Mið­flokks sátu auk þess hjá. Á bæj­ar­stjórn­ar­fund­in­um, degi fyrir und­ir­ritun sam­komu­lags­ins, lögðu full­trúar Vina Mos­fells­bæj­ar, Sam­fylk­ingar og Mið­flokks sam­eig­in­lega fram til­lögu um að afgreiðslu samn­ings­ins yrði frestað, en sú til­laga var felld af meiri­hlut­an­um.

Bæj­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn sam­þykkti samn­ing­inn sem áður segir og telur „mjög eðli­leg­t“, í ljósi þess að málið hafi verið í vinnslu stóran hluta kjör­tíma­bils­ins, að ljúka því með gerð samn­ings um upp­bygg­ingu lands­ins, sem þau segja að sé hag­stæður fyrir Mos­fells­bæ.

„Hjúpað trún­aði“ fram á síð­ustu stundu

Í sam­tali við Kjarn­ann segir Stefán Ómar and­stöðu sína við sam­þykkt samn­ings­ins fyrst og fremst stafa af því hvernig málið bar að, en bæj­ar­full­trúar höfðu eina viku til þess að kynna sér efni samn­ings­ins áður en hann var tek­inn til afgreiðslu í bæj­ar­stjórn. Á þeim tíma, segir Stefán Ómar, og sökum þess að trún­aður þurfti að ríkja um samn­ings­drögin vegna þess að Arion banki er skráð félag, gafst hvorki tími til þess að rýna samn­ing­inn á dýpt­ina né leita álits sér­fræð­inga um efni hans.

Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

„Þetta var alveg hjúpað trún­aði og þagn­ar­skyldu fram að setn­ingu fund­ar­ins á mið­viku­dag­inn var,“ segir Stefán Ómar við Kjarn­ann. Hann seg­ist einnig ekki hafa fengið skýr svör frá sér­fræð­ingum bæj­ar­ins við þeim spurn­ingum sem hann hafði um efni samn­ings­ins; til dæmis um það hver nið­ur­staðan yrði ef raunin yrði sú að fram kæmu skipu­lags­til­lögur frá land­eig­and­anum sem bær­inn gæti með engu móti fellt sig við. Sam­kvæmt samn­ingnum skal allur ágrein­ingur á milli samn­ings­að­ila fara fyrir Gerð­ar­dóm Við­skipta­ráðs Íslands.

„Sam­viska mín bauð mér ekk­ert ann­að, á þessu stigi máls­ins, með þessum aðdrag­anda og þess­ari pressu annað en að segja: „Því mið­ur, ég get ekki tekið þátt í þessu“. Ég vil frekar gera það og vera þá und­an­skil­inn því að bera ábyrgð, sem ein­stak­lingur í vinnu fyrir sam­fé­lagið mitt,“ segir Stefán Ómar.

Hann kallar með­ferð máls­ins í stjórn­sýslu bæj­ar­ins hrein­lega dóna­lega og segir það vera á skjön við lýð­ræð­is­stefnu Mos­fells­bæjar að bera ekki stóra ákvörðun eins og þessa fram til meira sam­tals við bæj­ar­búa. „Það var ekki bara verið að sýna mér sem bæj­ar­full­trúa dóna­skap heldur fleiri hund­ruðum kjós­enda sem greiddu götu mína þarna inn,“ segir Stefán Ómar, sem ítrekar að málið hefði þurft meiri umræðu áður á lýð­ræð­is­legum vett­vangi áður en samn­ing­ur­inn var und­ir­rit­að­ur.

Aðrir full­trúa minni­hlut­ans sam­mála

Fleiri bæj­ar­full­trúar voru á því máli. Valdi­mar Birg­is­son bæj­ar­full­trúi Við­reisnar lét bóka harða gagn­rýni á vinnu­brögð bæj­ar­yf­ir­valda og sagði samn­inga­við­ræð­urnar við land­eig­endur staðið yfir um tíma án þess að bæj­ar­full­trúar hefðu verið kall­aðir til og upp­lýstir um gang mála.

„Eðli­­legra hefði ver­ið að upp­­lýsa bæj­­­ar­­full­­trúa um gang mála og skapa þannig sam­­stöðu með­­al bæj­­­ar­­full­­trú­a,“ sagði í bókun við­reisn­ar­manns­ins Valdi­mars, en hann sagði þó fagn­að­ar­efni að samn­ingur um upp­bygg­ingu lands­ins væri í höfn og fagn­aði sömu­leiðis sterkri aðkomu land­eig­enda að inn­viða­upp­bygg­ingu í fyr­ir­hug­uðu hverfi.

Anna Sig­ríður Guðna­dóttir full­trúi Sam­fylk­ing­ar­innar sagð­ist sitja hjá við afgreiðsl­una „vegna skorts á að­komu kjör­inna full­­trúa og upp­­lýs­inga­flæð­is til þeirra“ í að­drag­anda samn­ings­ins. „Sá trún­­að­ur sem hef­ur ríkt um samn­ing­inn frá því kjörn­ir full­­trú­ar fengu hann í hend­ur hef­ur kom­ið í veg fyr­ir að hægt væri að leita álits ut­an­að­kom­andi sér­­fræð­inga á samn­ingn­um sem er flók­inn og snýst um mjög mikla hags­muni Mos­­fells­bæj­­ar til langr­ar fram­­tíð­­ar,“ sagði einnig í bókun Önnu Sig­ríð­ar.

Sveinn Óskar Sig­urðs­son full­trúi Mið­flokks­ins sagði að samn­ing­inn þyrfti að meta og greina af óháðum aðilum og vís­aði til þess að sam­kvæmt 66. grein sveit­ar­stjórn­ar­laga bæri sveit­ar­fé­lag­inu að gera það. „Það hef­ur ekki ver­ið gert. Máls­­með­­­ferð og af­greiðsla þessa máls hef­ur reynst afar óheppi­­leg,“ sagði í bókun Sveins Ósk­ars á fund­in­um.

Spurn­ingar um þétt­leika og slag­kraft til ann­arra verka

Stefán Ómar er gagn­rýn­inn á fleira sem samn­ing­inn varðar en ein­ungis máls­með­ferð­ina í bæj­ar­stjórn­inni. Hann bendir til dæmis á að þétt­leiki byggð­ar­innar sem Mos­fells­bær sé nú orð­inn skuld­bund­inn til þess að skipu­leggja á land­inu sé mun meiri en áður hafi verið lagt upp með, eða um 50 íbúðir á hekt­ara að með­al­tali.

Í bænum hafa verið gerðar athuga­semdir við þetta, en Mos­fells­bær hefur löngum haft þá áherslu að vera „sveit í borg“. Í minn­is­blaði stýri­hóps bæj­ar­ins og upp­bygg­ing­ar­að­ila um verk­efnið segir að þétt­leiki svæð­is­ins sé „tölu­vert meiri en gengur og ger­ist í Mos­fellsbæ til þess að fylgja vænt­ingum um sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins“. Með þessum orðum er átt við að fyr­ir­huguð lega Borg­ar­línu um Blika­staða­landið kalli á ákveð­inn þétt­leika byggð­ar, um tvö­falt meiri en þann sem var fyr­ir­hug­aður í fyrri skipu­lags­til­lögum um land­ið.

Svona gæti Blikastaðalandið mögulega orðið uppbyggt, samkvæmt þeim hugmyndum að skipulagi sem teiknaðar hafa verið upp fyrir hönd landeiganda.
Skjáskot úr gögnum frá landeiganda

Stefán Ómar seg­ist velta því fyrir sér og hafa áhyggjur af því að þetta stóra upp­bygg­ing­ar­verk­efni geti tekið of mik­inn kraft frá öðrum fjár­fest­ing­ar­verk­efnum innan bæj­ar­ins. „Við skuldum að mínu viti sam­fé­lag­inu okkar að fara í gagn­gera end­ur­nýjun á íþrótta­svæð­inu að Var­má, bæði bygg­ingum og fót­bolta­vell­in­um, ráð­ast í stúku­bygg­ingu og ýmis­legt og svo sinna menn­ing­ar­geir­anum okk­ar,“ segir bæj­ar­full­trú­inn og bætir við að eng­inn tón­list­ar- né leik­list­ar­salur sé undir tón­list­ar­hópa og rót­gróið leik­fé­lag bæj­ar­ins.

„Við skuldum nær­sam­fé­lag­inu að kíkja á það og bæta það áður en við förum í risa­fram­kvæmd­ir,“ segir Stef­án.

Félag Arion banka mun sam­kvæmt samn­ingnum koma að borð­inu með 6 millj­arða króna greiðslu bygg­ing­ar­rétt­ar­gjalds sem á að fara upp í kostnað við upp­bygg­ingu sam­fé­lags­legra inn­viða í hverf­inu og svo einn millj­arð króna til við­bótar sem sér­stak­lega á að fara upp í bygg­ingu íþrótta­mann­virkja sem Mos­fells­bær ætlar að byggja. Auk þess gerir bær­inn ráð fyrir því að geta fengið þrjá millj­arða fyrir sölu lóða á þeim reitum sem hann fær til eignar með sam­komu­lag­inu.

Um fjárhagslegar forsendur samningsins.
Úr minnisblaði um samningsgerðina sem bæjarfulltrúar fengu undir lok aprílmánaðar.

Þá er vert að taka fram að Blika­staða­land ehf. mun sam­kvæmt samn­ingi ann­ast á eigin ábyrgð og kostnað und­ir­bygg­ingu gatna, gang­stétta og göngu­stíga, lagn­ingu frá­veitu, dreifi­kerfi vatns­veitu og hita­veitu, bund­ins slit­lags á götur og göngu- og hjóla­stíga auk upp­setn­ingar götu­lýs­ingar og lýs­ingar göngu­stíga og frá­gang leik­valla og opinna svæða.

Stefán Ómar spyr þó hver heild­ar­inn­viða­kostn­aður bæj­ar­ins á land­inu verði, og segir það vera eitt af því sem hann fékk ekki full­kom­lega á hreint áður en samn­ing­ur­inn var tek­inn til afgreiðslu í bæj­ar­stjórn, heldur hafi verið settar fram „grófar hug­myndir um svona marga skóla og svona mikið af hinu og þessu“ sem „gæti kostað hitt og kostað þetta“. Sam­kvæmt gögnum frá bænum er gert ráð fyrir tveimur skóla­bygg­ingum sem þyrftu hvor um sig að vera yfir 7.000 fer­metr­ar, íþrótta­mann­virki og nýrri sund­laug.

„Mjög eðli­legt“ að bæj­ar­stjórnin klári málið með samn­ingi eftir tveggja ára vinnu

Á fundi bæj­ar­stjórn­ar­innar fyrir rúmri viku svör­uðu full­trúar Sjálf­stæð­is­flokks og Vinstri grænna þeim athuga­semdum minni­hlut­ans sem lagðar voru fram í bók­unum og röktu form­legan feril máls­ins, sem hófst með því að félag Arion banka leit­aði til bæj­ar­ins í apríl árið 2020 með beiðni um að þró­un­ar­vinna vegna lands­ins yrði haf­in. Hug­myndir félags­ins voru svo kynntar bæj­ar­stjórn og skipu­lags­nefnd á fundi í maí 2020.

Á haust­dögum 2020 voru svo skip­aðir stýri­hópur og tveir rýni­hópar vegna und­ir­bún­ings­vinn­unn­ar, með aðilum frá bænum og land­eig­end­un­um. Í fund­ar­gerð kemur fram að í stýri­hópnum hafi setið þeir Har­aldur Sverr­is­son bæj­ar­stjóri ásamt for­stöðu­manni þjón­ustu- og sam­skipta­deildar bæj­ar­ins og lög­manni bæj­ar­ins eftir atvik­um. Í öðrum rýni­hópum tóku svo sæti fram­kvæmda­stjóri umhverf­is­sviðs bæj­ar­ins og skipu­lags­full­trúi bæj­ar­ins og í hinum hópnum voru fram­kvæmda­stjóri fræðslu- og frí­stunda­sviðs, skóla­full­trúi bæj­ar­ins og fram­kvæmda­stjóri fjöl­skyldu­sviðs, eftir atvik­um.

Þessir rýni­hópar skil­uðu af sér minn­is­blaði sum­arið 2021 sem fór fyrir bæj­ar­ráð og þaðan vísað áfram til frek­ari úrvinnslu í skipu­lags­nefnd bæj­ar­ins. Í því minn­is­blaði var meðal ann­ars lagt til að nýjar íbúðir innan Blika­staða­lands­ins yrðu á bil­inu 3.500 til 3.700 tals­ins, eins og á end­anum varð nið­ur­staðan í þeim samn­ingi sem und­ir­rit­aður var í síð­ustu viku. Bæj­ar­full­trúar ættu því ekki að hafa komið af fjöllum hvað fyr­ir­hugað bygg­ing­ar­magn á land­inu varð­ar.

„Eins og sjá má hef­ur þetta mik­il­væga mál ver­ið í vinnslu stór­an hluta kjör­­tíma­bils­ins og kom­ið með ýms­um hætti inn í stjórn, ráð og nefnd­ir bæj­­­ar­ins. Það er því mjög eðli­­legt að bæj­­­ar­­stjórn ljúki þessu máli með gerð samn­ings um upp­­­bygg­ingu lands­ins. Hann ligg­ur nú fyr­ir og er hag­­stæð­ur fyr­ir Mos­­fells­bæ,“ bók­aði meiri­hluti bæj­ar­stjórnar á fund­in­um.

Bjarki Bjarnason er forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ.

Kjarn­inn hafði sam­band við Bjarka Bjarna­son bæj­ar­full­trúa Vinstri grænna vegna upp­bygg­ing­ar­á­for­manna á Blika­staða­land­inu og hann segir í skrif­legu svari að upp­bygg­ingin muni „draga úr lóða­skorti og flýta því að Borg­ar­línan verði lögð upp í Mos­fells­bæ“.

Hann segir að á svæð­inu verði fjöl­breytt og blönduð byggð þar sem hægt verði að sinna erindum sínum fót­gang­andi innan hverf­is­ins, sem sé umhverf­is­vænt. Auk þess verði nátt­úruperlur og úti­vist­ar­svæði í seil­ing­ar­fjar­lægð, til dæmis Úlf­ars­fellið, Úlf­arsá og Leiru­vog­ur.

Um inn­viða­upp­bygg­ingu bæj­ar­ins á Blika­staða­land­inu segir Bjarki að rýni­hópar hafi á und­an­förnum miss­erum skil­greint þá upp­bygg­ingu sem sé nauð­syn­leg á land­inu sam­fara þéttri íbúa­byggð.

„Þetta á meðal ann­ars við um skóla- og íþrótta­mann­virki. Í tengslum við þær áætl­anir skiptir það mjög miklu máli að sam­kvæmt nýund­ir­rit­uðum samn­ingi mun land­eig­andi leggja fram veru­lega fjár­muni til inn­viða­upp­bygg­ing­ar, hann mun greiða fyrir gatna­gerð og auk þess leggja fram háar fjár­hæðir til bygg­ingar á öðrum innvið­um, auk þess sem Mos­fells­bær mun fá allt landið til eignar í fyll­ingu tím­ans. Að þessu leyti er þessi samn­ingur eins­dæmi,“ segir Bjarki í svari til Kjarn­ans.

Jafn­framt segir for­seti bæj­ar­stjórnar það fagn­að­ar­efni að gömlu úti­hús kúa­bús­ins sem var á Blika­stöðum verði end­ur­gerð og þeim fundið nýtt hlut­verk í nýja hverf­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar