Styr um samningagerð við Arion í bæjarstjórn Mosfellsbæjar
Níu dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar undirritaði Mosfellsbær samkomulag við félag í eigu Arion banka um uppbyggingu Blikastaðalandsins, sem er endanlegri eigu bankans. Minnihlutinn í bæjarstjórn sat ýmist hjá eða greiddi atkvæði gegn samningnum og sagði þörf á meiri umræðu um málið. Bæjarfulltrúi sem greiddi atkvæði gegn samningnum segir samvisku sína ekki hafa leyft sér annað. Meirihlutinn telur hins vegar eðlilegt að ljúka samningsgerðinni á þessu kjörtímabili, eftir vinnu undanfarinna missera.
Samningsgerð Mosfellsbæjar við Blikastaðaland ehf., félag sem í endanlegri eigu Arion banka, vegna uppbyggingar samnefnds lands, er umdeild á meðal bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ. Einungis fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem saman mynda fimm manna meirihluta í níu manna bæjarstjórn Mosfellsbæjar, samþykktu samninginn er hann var afgreiddur í bæjarstjórn 4. maí.
Tilkynnt var á fimmtudaginn í síðustu viku að samningar hefðu náðst um að byggja upp á bilinu 3.500-3.700 íbúðir fyrir um 9.000 íbúa í áföngum á næstu 15-20 árum á rúmlega 80 hektara landsvæði. Gengið er út frá því að hægt verði að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga árið 2024.
Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar var eini bæjarfulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn samþykkt samningsins í bæjarstjórn, en fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Miðflokks sátu auk þess hjá. Á bæjarstjórnarfundinum, degi fyrir undirritun samkomulagsins, lögðu fulltrúar Vina Mosfellsbæjar, Samfylkingar og Miðflokks sameiginlega fram tillögu um að afgreiðslu samningsins yrði frestað, en sú tillaga var felld af meirihlutanum.
Bæjarstjórnarmeirihlutinn samþykkti samninginn sem áður segir og telur „mjög eðlilegt“, í ljósi þess að málið hafi verið í vinnslu stóran hluta kjörtímabilsins, að ljúka því með gerð samnings um uppbyggingu landsins, sem þau segja að sé hagstæður fyrir Mosfellsbæ.
„Hjúpað trúnaði“ fram á síðustu stundu
Í samtali við Kjarnann segir Stefán Ómar andstöðu sína við samþykkt samningsins fyrst og fremst stafa af því hvernig málið bar að, en bæjarfulltrúar höfðu eina viku til þess að kynna sér efni samningsins áður en hann var tekinn til afgreiðslu í bæjarstjórn. Á þeim tíma, segir Stefán Ómar, og sökum þess að trúnaður þurfti að ríkja um samningsdrögin vegna þess að Arion banki er skráð félag, gafst hvorki tími til þess að rýna samninginn á dýptina né leita álits sérfræðinga um efni hans.
„Þetta var alveg hjúpað trúnaði og þagnarskyldu fram að setningu fundarins á miðvikudaginn var,“ segir Stefán Ómar við Kjarnann. Hann segist einnig ekki hafa fengið skýr svör frá sérfræðingum bæjarins við þeim spurningum sem hann hafði um efni samningsins; til dæmis um það hver niðurstaðan yrði ef raunin yrði sú að fram kæmu skipulagstillögur frá landeigandanum sem bærinn gæti með engu móti fellt sig við. Samkvæmt samningnum skal allur ágreiningur á milli samningsaðila fara fyrir Gerðardóm Viðskiptaráðs Íslands.
„Samviska mín bauð mér ekkert annað, á þessu stigi málsins, með þessum aðdraganda og þessari pressu annað en að segja: „Því miður, ég get ekki tekið þátt í þessu“. Ég vil frekar gera það og vera þá undanskilinn því að bera ábyrgð, sem einstaklingur í vinnu fyrir samfélagið mitt,“ segir Stefán Ómar.
Hann kallar meðferð málsins í stjórnsýslu bæjarins hreinlega dónalega og segir það vera á skjön við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar að bera ekki stóra ákvörðun eins og þessa fram til meira samtals við bæjarbúa. „Það var ekki bara verið að sýna mér sem bæjarfulltrúa dónaskap heldur fleiri hundruðum kjósenda sem greiddu götu mína þarna inn,“ segir Stefán Ómar, sem ítrekar að málið hefði þurft meiri umræðu áður á lýðræðislegum vettvangi áður en samningurinn var undirritaður.
Aðrir fulltrúa minnihlutans sammála
Fleiri bæjarfulltrúar voru á því máli. Valdimar Birgisson bæjarfulltrúi Viðreisnar lét bóka harða gagnrýni á vinnubrögð bæjaryfirvalda og sagði samningaviðræðurnar við landeigendur staðið yfir um tíma án þess að bæjarfulltrúar hefðu verið kallaðir til og upplýstir um gang mála.
„Eðlilegra hefði verið að upplýsa bæjarfulltrúa um gang mála og skapa þannig samstöðu meðal bæjarfulltrúa,“ sagði í bókun viðreisnarmannsins Valdimars, en hann sagði þó fagnaðarefni að samningur um uppbyggingu landsins væri í höfn og fagnaði sömuleiðis sterkri aðkomu landeigenda að innviðauppbyggingu í fyrirhuguðu hverfi.
Anna Sigríður Guðnadóttir fulltrúi Samfylkingarinnar sagðist sitja hjá við afgreiðsluna „vegna skorts á aðkomu kjörinna fulltrúa og upplýsingaflæðis til þeirra“ í aðdraganda samningsins. „Sá trúnaður sem hefur ríkt um samninginn frá því kjörnir fulltrúar fengu hann í hendur hefur komið í veg fyrir að hægt væri að leita álits utanaðkomandi sérfræðinga á samningnum sem er flókinn og snýst um mjög mikla hagsmuni Mosfellsbæjar til langrar framtíðar,“ sagði einnig í bókun Önnu Sigríðar.
Sveinn Óskar Sigurðsson fulltrúi Miðflokksins sagði að samninginn þyrfti að meta og greina af óháðum aðilum og vísaði til þess að samkvæmt 66. grein sveitarstjórnarlaga bæri sveitarfélaginu að gera það. „Það hefur ekki verið gert. Málsmeðferð og afgreiðsla þessa máls hefur reynst afar óheppileg,“ sagði í bókun Sveins Óskars á fundinum.
Spurningar um þéttleika og slagkraft til annarra verka
Stefán Ómar er gagnrýninn á fleira sem samninginn varðar en einungis málsmeðferðina í bæjarstjórninni. Hann bendir til dæmis á að þéttleiki byggðarinnar sem Mosfellsbær sé nú orðinn skuldbundinn til þess að skipuleggja á landinu sé mun meiri en áður hafi verið lagt upp með, eða um 50 íbúðir á hektara að meðaltali.
Í bænum hafa verið gerðar athugasemdir við þetta, en Mosfellsbær hefur löngum haft þá áherslu að vera „sveit í borg“. Í minnisblaði stýrihóps bæjarins og uppbyggingaraðila um verkefnið segir að þéttleiki svæðisins sé „töluvert meiri en gengur og gerist í Mosfellsbæ til þess að fylgja væntingum um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins“. Með þessum orðum er átt við að fyrirhuguð lega Borgarlínu um Blikastaðalandið kalli á ákveðinn þéttleika byggðar, um tvöfalt meiri en þann sem var fyrirhugaður í fyrri skipulagstillögum um landið.
Stefán Ómar segist velta því fyrir sér og hafa áhyggjur af því að þetta stóra uppbyggingarverkefni geti tekið of mikinn kraft frá öðrum fjárfestingarverkefnum innan bæjarins. „Við skuldum að mínu viti samfélaginu okkar að fara í gagngera endurnýjun á íþróttasvæðinu að Varmá, bæði byggingum og fótboltavellinum, ráðast í stúkubyggingu og ýmislegt og svo sinna menningargeiranum okkar,“ segir bæjarfulltrúinn og bætir við að enginn tónlistar- né leiklistarsalur sé undir tónlistarhópa og rótgróið leikfélag bæjarins.
„Við skuldum nærsamfélaginu að kíkja á það og bæta það áður en við förum í risaframkvæmdir,“ segir Stefán.
Félag Arion banka mun samkvæmt samningnum koma að borðinu með 6 milljarða króna greiðslu byggingarréttargjalds sem á að fara upp í kostnað við uppbyggingu samfélagslegra innviða í hverfinu og svo einn milljarð króna til viðbótar sem sérstaklega á að fara upp í byggingu íþróttamannvirkja sem Mosfellsbær ætlar að byggja. Auk þess gerir bærinn ráð fyrir því að geta fengið þrjá milljarða fyrir sölu lóða á þeim reitum sem hann fær til eignar með samkomulaginu.
Þá er vert að taka fram að Blikastaðaland ehf. mun samkvæmt samningi annast á eigin ábyrgð og kostnað undirbyggingu gatna, gangstétta og göngustíga, lagningu fráveitu, dreifikerfi vatnsveitu og hitaveitu, bundins slitlags á götur og göngu- og hjólastíga auk uppsetningar götulýsingar og lýsingar göngustíga og frágang leikvalla og opinna svæða.
Stefán Ómar spyr þó hver heildarinnviðakostnaður bæjarins á landinu verði, og segir það vera eitt af því sem hann fékk ekki fullkomlega á hreint áður en samningurinn var tekinn til afgreiðslu í bæjarstjórn, heldur hafi verið settar fram „grófar hugmyndir um svona marga skóla og svona mikið af hinu og þessu“ sem „gæti kostað hitt og kostað þetta“. Samkvæmt gögnum frá bænum er gert ráð fyrir tveimur skólabyggingum sem þyrftu hvor um sig að vera yfir 7.000 fermetrar, íþróttamannvirki og nýrri sundlaug.
„Mjög eðlilegt“ að bæjarstjórnin klári málið með samningi eftir tveggja ára vinnu
Á fundi bæjarstjórnarinnar fyrir rúmri viku svöruðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna þeim athugasemdum minnihlutans sem lagðar voru fram í bókunum og röktu formlegan feril málsins, sem hófst með því að félag Arion banka leitaði til bæjarins í apríl árið 2020 með beiðni um að þróunarvinna vegna landsins yrði hafin. Hugmyndir félagsins voru svo kynntar bæjarstjórn og skipulagsnefnd á fundi í maí 2020.
Á haustdögum 2020 voru svo skipaðir stýrihópur og tveir rýnihópar vegna undirbúningsvinnunnar, með aðilum frá bænum og landeigendunum. Í fundargerð kemur fram að í stýrihópnum hafi setið þeir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri ásamt forstöðumanni þjónustu- og samskiptadeildar bæjarins og lögmanni bæjarins eftir atvikum. Í öðrum rýnihópum tóku svo sæti framkvæmdastjóri umhverfissviðs bæjarins og skipulagsfulltrúi bæjarins og í hinum hópnum voru framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, skólafulltrúi bæjarins og framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs, eftir atvikum.
Þessir rýnihópar skiluðu af sér minnisblaði sumarið 2021 sem fór fyrir bæjarráð og þaðan vísað áfram til frekari úrvinnslu í skipulagsnefnd bæjarins. Í því minnisblaði var meðal annars lagt til að nýjar íbúðir innan Blikastaðalandsins yrðu á bilinu 3.500 til 3.700 talsins, eins og á endanum varð niðurstaðan í þeim samningi sem undirritaður var í síðustu viku. Bæjarfulltrúar ættu því ekki að hafa komið af fjöllum hvað fyrirhugað byggingarmagn á landinu varðar.
„Eins og sjá má hefur þetta mikilvæga mál verið í vinnslu stóran hluta kjörtímabilsins og komið með ýmsum hætti inn í stjórn, ráð og nefndir bæjarins. Það er því mjög eðlilegt að bæjarstjórn ljúki þessu máli með gerð samnings um uppbyggingu landsins. Hann liggur nú fyrir og er hagstæður fyrir Mosfellsbæ,“ bókaði meirihluti bæjarstjórnar á fundinum.
Kjarninn hafði samband við Bjarka Bjarnason bæjarfulltrúa Vinstri grænna vegna uppbyggingaráformanna á Blikastaðalandinu og hann segir í skriflegu svari að uppbyggingin muni „draga úr lóðaskorti og flýta því að Borgarlínan verði lögð upp í Mosfellsbæ“.
Hann segir að á svæðinu verði fjölbreytt og blönduð byggð þar sem hægt verði að sinna erindum sínum fótgangandi innan hverfisins, sem sé umhverfisvænt. Auk þess verði náttúruperlur og útivistarsvæði í seilingarfjarlægð, til dæmis Úlfarsfellið, Úlfarsá og Leiruvogur.
Um innviðauppbyggingu bæjarins á Blikastaðalandinu segir Bjarki að rýnihópar hafi á undanförnum misserum skilgreint þá uppbyggingu sem sé nauðsynleg á landinu samfara þéttri íbúabyggð.
„Þetta á meðal annars við um skóla- og íþróttamannvirki. Í tengslum við þær áætlanir skiptir það mjög miklu máli að samkvæmt nýundirrituðum samningi mun landeigandi leggja fram verulega fjármuni til innviðauppbyggingar, hann mun greiða fyrir gatnagerð og auk þess leggja fram háar fjárhæðir til byggingar á öðrum innviðum, auk þess sem Mosfellsbær mun fá allt landið til eignar í fyllingu tímans. Að þessu leyti er þessi samningur einsdæmi,“ segir Bjarki í svari til Kjarnans.
Jafnframt segir forseti bæjarstjórnar það fagnaðarefni að gömlu útihús kúabúsins sem var á Blikastöðum verði endurgerð og þeim fundið nýtt hlutverk í nýja hverfinu.
Lesa meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu