Levakovic fjölskyldan er án efa ein þekktasta fjölskylda á sínu sérsviði í Danmörku. Sérsviðin eru reyndar fleiri en eitt: rán, innbrot, ofbeldi og sérstök færni í að lifa á dönsku bóta- og framfærslukerfi.
Í dönskum fjölmiðlum hefur á undanförnum árum margoft verið fjallað um þessa fjölskyldu, sem segist vera sígaunar og fussar og sveiar ef einhver segir þau rómafólk.
Hér í Kjarnanum hafa birst allnokkrir pistlar um þessa fjölskyldu sem fyrst kom til Danmerkur í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Frá Króatíu, sem þá var hluti Júgóslavíu og var með júgóslavnesk vegabréf. Fjölskyldan, hjón með sex börn, kom til Danmerkur á gömlum Opel bíl, með hrörlegt hjólhýsi. Síðar bættust við fjögur börn.
Vel tekið
Fjölskyldunni var vel tekið í Kaupmannahöfn og henni kynnt allt sem tilheyrði flutningi til landsins. Þótt þau Levakovic, sem settust að á Amager, hafi tekið vel eftir upplýsingum varðandi nýju búsetuna var það, í ljósi sögunnar, einkum það sem laut að reglum varðandi framfærslulífeyri og opinbera aðstoð sem fjölskyldan kynnti sér í þaula.
Minni áherslu kannski á ráð varðandi atvinnuleit, en til þess að gera langa sögu stutta hefur enginn úr fjölskyldunni, sem nú telur vel á fimmta tug, fundið vinnu við hæfi heldur lifað á opinberum framfærslulífeyri. Samanlagt nemur sú upphæð frá upphafi jafngildi um tveggja milljarða íslenskra króna. En sökum þess að fjölskyldan hefur tamið sér lífsstíl sem útheimtir meira fé en dönsk stjórnvöld telja að dugi til framfærslu hafa þau Levakovic árum saman stundað óhefðbundna tekjuöflun, rán og gripdeildir.
Kölluð illræmdasta fjölskylda Danmerkur
Þau Levakovic hafa í dönskum fjölmiðlum iðulega verið kölluð illræmdasta fjölskylda Danmerkur. Afskipti lögreglunnar af sjálfsbjargarviðleitni fjölskyldunnar hafa iðulega leitt til þess að einstakir fjölskyldumeðlimir hafa orðið að dvelja að heiman um lengri eða skemmri tíma. Ættarhöfuðið, Gimi Levokovic, sem flutti barnungur með foreldrum sínum til Danmerkur, hefur samtals mátt dúsa í grjótinu í 6 ár og bræður hans, og bræðrasynir hafa margoft setið inni, um lengri eða skemmri tíma.
Allir karlmenn í fjölskyldunni 18 ára og eldri, og að minnsta kosti tvær konur, hafa komist í kast við lögin. Í tveimur sjónvarpsþáttum sem danska sjónvarpsstöðin TV2 gerði um Levakovic fjölskylduna lagði Gimi mikla áherslu á gildi fjölskyldunnar og samstöðu hennar. „Sígaunar eru friðsamir,“ sagði hann en lét hjá líða að nefna að hann barði fyrrverandi konu sína til óbóta og keyrði síðar, eftir að þau skildu, á hana og stórslasaði.
Eitt mál ættarhöfðingjans fyrir Hæstarétt
Undirréttur í Danmörku (lægsta dómstig af þremur) hefur margoft úrskurðað að einstaklingum úr fjölskyldunni skuli vísað úr landi. Landsréttur hefur í langflestum tilvikum snúið þeim dómum við. Mál ættarhöfðingjans Gimi fór fyrir Hæstarétt árið 2016. Þá hafði Landsréttur snúið við dómi Undirréttar sem hafði úrskurðað að Gimi skyldi vísað úr landi. Hæstiréttur staðfesti dóm undirréttar og ættarhöfðinginn fékk áfram að vera í Danmörku.
Danskur lagaprófessor sagði í blaðaviðtali að Hæstiréttur hefði bersýnilega valið að fylgja stefnu sem Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefði markað og nefndi sérstaklega að Gimi ætti ung börn og þótt hann væri ekki danskur ríkisborgari (er með króatískt ríkisfang) hafi hann nær alla ævi búið í Danmörku. Margir danskir stjórnmálamenn lýstu undrun sinni og kröfðust þess að danska þingið, Folketinget, setti lög um túlkun Mannréttindasáttmálans, aðrir töldu Hæstarétt túlka lagarammann alltof veikt, brottvísun rúmaðist innan hans. Þess má geta að ættarhöfðinginn Gimi hefur samtals 27 sinnum hlotið dóm fyrir ýmis konar afbrot.
Sex úr fjölskyldunni hefur nú verið vísað úr landi
Ekki hafa allir úr Levakovic fjölskyldunni verið jafn heppnir og ættarhöfðinginn Gimi. Nú hefur samtals 6 úr fjölskyldunni verið vísað úr landi. Fyrir hálfum mánuði fengu fjórir úr fjölskyldunni þunga dóma og tveir þeirra jafnframt brottvísun úr landi að afplánun lokinni. Þeir mega ekki koma til Danmerkur í 9 ár. Tveimur úr fjölskyldunni hafði þegar verið vísað úr landi, til Króatíu.
Skiptu Króatíu út fyrir Svíþjóð
Fyrir nokkrum dögum greindi danska dagblaðið B.T. frá því að 4 úr Levakovic fjölskyldunni hefðu ekki farið langt þótt danskir dómstólar hefðu vísað þeim úr landi, til Króatíu, þar sem þeir hafa ríkisfang. Þeir hefðu einfaldlega flutt sig yfir Eyrarsundið til Svíþjóðar. Nánar tiltekið Skánar. Og þar hefðu þeir tekið upp fyrri iðju en ekki sloppið við arm laganna.
B.T. hafði fengið aðgang að réttargögnum þar sem fram kemur að fjórmenningarnir hefðu allir hlotið dóma fyrir ýmis konar afbrot. Í smábænum Billesholm, skammt fyrir austan Helsingjaborg höfðu tveir úr Levakovic fjölskyldunni stolið 350 súkkulaðiplötum (Marabou) og 16 rúllum af salernispappír úr verslun í bænum.
Á eftirlitsmyndavél í verslunini sást hvar annar þjófanna hélt starfsmanni uppi á snakki meðan hinn fór út með innkaupakörfuna. Í smábænum Bjuv, skammt frá Billesholm stálu þeir kjúklingum, skinku og beikoni. Góssið seldu þeir á spottprís á svarta markaðnum. Á eftirlitsmyndavélum sást ennfremur þar sem þeir óku burt frá verslununum en þeir eru báðir án ökuréttinda.
B.T. komst einnig að því að Jura Levakovic hlaut í fyrra mun þyngri dóm í Bæjarrétti í Malmö, fyrir hótanir, þjófnaði og svindl. Jura er sagður sá forhertasti í fjölskyldunni. Í sjónvarpsþáttunum sem TV2 í Danmörku gerði um fjölskylduna fyrir sjö árum sagði hann setningu sem danskir fjölmiðlar hentu á lofti. „Í öllum fjölskyldum er einn svartur sauður en í okkar fjölskyldu eru bara svartir sauðir.“