Sundrungin í Festi sem leiddi til þess að kosið verður um hvort félagið eigi að heita Sundrung
Á þessu ári hefur Festi þurft að biðjast afsökunar á að hafa ofrukkað viðskiptavini og samþykkja að endurgreiða þeim. Stjórnarformaður félagsins þurfti að segja af sér vegna ásakana um alvarleg kynferðisbrot í heitum potti. Og loks var forstjóri Festi rekinn en í tilkynningu var ranglega fullyrt að hann hefði sagt upp. Vegna þessa óróa hefur verið boðað til hluthafafundar og stjórnarkjörs í næstu viku, tæpum fjórum mánuðum eftir síðasta aðalfund.
Þann 14. júlí næstkomandi fer fram hluthafafundur í Festi, skráðu félagi á markaði sem verðmetið er á um 65 milljarða króna. Stjórn félagsins boðaði til fundarins í kjölfar þess að hópur hluthafa – lífeyrissjóðir og einkafjárfestar – kallaði eftir því að hann yrði boðaður. Það er óvenjulegt enda einungis þrír og hálfur mánuður síðan að síðasti aðalfundur fór fram.
Ástæðan er sú að núverandi stjórn ákvað að reka Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festis síðustu sjö árin, fyrirvaralaust í byrjun júní.
Í kjölfarið sendi stjórnin tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagt var að Eggert hefði sagt starfi sínu lausu. Það reyndist ekki rétt og Eggert sagði þeim hluthöfum sem samband höfðu að þannig væri í pottinn búið.
Eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun ákvað stjórnin að senda frá sér aðra kauphallartilkynningu átta dögum síðar, þann 10. júní. Þar viðurkenndi hún að stjórnin hefði haft frumkvæði að því að óska eftir samtali við Eggert um starfslok og að „við þær aðstæður óskaði forstjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hagsmuni sjálf síns og félagsins í huga. Var fallist á þá málaleitan.“ Þetta er, samkvæmt heimildum Kjarnans, heldur ekki sannleikanum samkvæmt. Eggert hefur sagt við þá hluthafa sem óskað hafa eftir að hann ræddi við þá um stöðuna að hann hafi verið rekinn. Hreint og beint.
Auk þess fékk Eggert þær skýringar á uppsögninni að í henni fælist tækifæri fyrir hann. Sjö ár í forstjórastól væri nægjanlegur tími, Eggert væri enn ungur maður og breytinga væri þörf.
Auk þess fékk Eggert þær skýringar á uppsögninni að í henni fælist tækifæri fyrir hann. Sjö ár í forstjórastól væri nægjanlegur tími, Eggert væri enn ungur maður og breytinga væri þörf.
Í seinni tilkynningunni var gefin önnur ástæða. Samkeppni væri að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blöstu við. Það kallaði á „nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin.“
Það má ekki senda rangar tilkynningar
Það er ólöglegt að senda rangar tilkynningar til Kauphallar Íslands. Allir hluthafar sem eru ekki skilgreindir sem innherjar eiga að vera jafnsettir þegar kemur að upplýsingum sem geta haft áhrif á verðmæti hlutabréfa.
Í ljósi þess að rekstur Festi, eins stærsta smásala landsins sem rekur meðal annars Krónuna, Elko og N1, hefur gengið afar vel undir stjórn Eggerts er vel hægt að færa sterk rök fyrir því að ákvörðun um að skipta um mann í brúnni geti haft áhrif á verðmæti félagsins. Festi hefur auk þess tekist að halda markaðsvirði sínu á nánast sama stað og það var um síðustu áramót, á sama tíma og flest félög í Kauphöllinni hafa verið að síga.
Ef gefin er út fölsk yfirlýsing um að æðsta stjórnanda hafi verið sagt upp, þegar hann var í raun rekinn, þá kallar það á rannsókn hjá Kauphöllinni og eftir atvikum fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Kjarninn hefur þó ekki getað fengið staðfest enn sem komið er hvort slík rannsókn sé hafin.
Í svari fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands við fyrirspurn um málið segir að það geti ekki tjáð okkur um einstök mál sem snerta starfsemi þeirra félaga sem stofnunin hefur eftirlit með og þar með hvort þau séu til athugunar hjá fjármálaeftirlitinu eða ekki.
Þann 16 júní boðaði stjórn Festi svo loks til hluthafafundarins sem fer fram 14. júlí næstkomandi þar sem stjórnarkjör myndi fara fram.
Alls 21 bárust framboð í stjórn, þar með talið framboð allra núverandi stjórnarmanna. Tilnefningarnefnd fór í kjölfarið yfir þau framboð og komst að þeirri niðurstöðu að ellefu framboð voru talin fremst í flokki, þar með talin framboð allra núverandi stjórnarmanna. Fyrir aðra frambjóðendur, sem voru sex talsins, var lagður sérstakur spurningalisti. Á meðal þess sem þeir voru spurðir að var hvort þeir hefðu reynslu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og hvort þeir sem einstaklingar eða félög sem þeir væru í forsvari fyrir ættu í dómsmálum og/eða deilum við eftirlitsaðila sem gætu haft áhrif á orðspor og almenningsálit að þeirra mati?
Einnig var rætt við stóra hluthafa, bæði lífeyrissjóði og einkafjárfesta. Í skýrslu tilnefningarnefndar segir að í þeim viðræðum hafi komið „skýrt fram að eindreginn vilji er meðal þeirra til frekari breytinga. Þó eru mismunandi og óljósari skoðanir á því hvernig stjórnin í heild eigi að vera skipuð.“
Ekki samstaða um hverjir eigi að vera í stjórn
Lífeyrissjóðir, sem samtals eiga rúm 73 prósent hlutafjár, hafi fram til þessa ekki komið með beinar tillögur um einstaka stjórnarmenn en lýst þeim vilja sínum að í stjórninni væru stjórnarmenn sem hætta eigin fé. Einkafjárfestar hafi fremur bent á ákveðna frambjóðendur. „Fyrir aðalfundinn 2022 komu einkafjárfestar með slíkar ábendingar en ekki var samstaða í þeirra hópi og hið sama á við nú,“ segir í skýrslunni.
Þar sagði að það væri enn fremur mat tveggja óháðra nefndarmanna (einn fulltrúi núverandi stjórnar situr einnig í nefndinni) að yrði ekki brugðist við þeirri óánægju og óskum um breytingar sem hluthafar hafi lýst í viðræðum við okkur, væri viðbúið að málin yrðu áfram óútkljáð „með tilheyrandi neikvæðni og óvissu fyrir félagið og að hún raungerist eigi síðar en á næsta aðalfundi. Það er óviðunandi staða fyrir Festi ekki síst í ljósi þess að framundan er að ráða nýjan forstjóra sem þarf að vinna þétt með stjórn félagsins til langs tíma litið.“
Óháðir nefndarmenn voru einhuga um að tilnefna níu af þessum ellefu til stjórnarkjörs á hluthafafundi. Þeir eru Ástvaldur Jóhannsson, Björgólfur Jóhannsson, Guðjón Reynisson, Magnús Júlíusson, Margrét Guðmundsdóttir, Sigrún Hjartardóttir, Sigurlína Ingvarsdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir og Þórey Guðmundsdóttir.
Ekki er greint frá því hvaða tveir frambjóðendur af þeim ellefu sem talin voru fremst í flokki, hafi ekki hlotið náð fyrir augum hennar. Þar segir einfaldlega að nefndin hefði „leitaði sérfræðiaðstoðar lögmanna Festi til að kanna mögulega hagsmunaárekstra nokkurra frambjóðenda m.t.t. sáttar Festi við Samkeppniseftirlitið. Sú könnun leiddi í ljós annmarka á hæfi tveggja þeirra sem nefndin hafði áður metið í hópi hæfustu frambjóðenda og komu þeir því ekki til greina.“ Sú sátt sem vísað er til er meðal annars gerð á grundvelli þess að stærstu eigendur Festi, stærstu lífeyrissjóðir landsins, eru líka stærstu eigendur helsta samkeppnisaðila félagsins, Haga.
Heimildir Kjarnans herma að annar þeirra frambjóðenda sem hafnað hafi verið hefði verið á vegum eins af stærstu lífeyrissjóðum landsins, og eins stærsta eiganda Festi. Ekki sé útilokað að viðkomandi verði boðinn fram á hluthafafundinum þrátt fyrir að tilnefningarnefndin hafi hafnað honum.
Stór hneykslismál
Það hefur gustað um Festi undanfarna mánuði. Fyrst greindi Stundin frá því í lok síðasta árs að dótturfélag Festi, N1 Rafmagn, sem hafði verið útnefnt sem svokallaður orkusali til þrautarvara hefði rukkað neytendur sem færast óafvitandi í viðskipti við félagi hærra verð fyrir raforku en almennum viðskiptavinum stendur til boða. Eftir mikla gagnrýni baðst N1 Rafmagn afsökunar og í byrjun febrúar 2022 var greint frá því að allir viðskiptavinir sem hefðu komið til félagsins í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda myndu fá endurgreitt mismuninn sem var á auglýstum taxta og þrautavarataxta frá upphafi.
Síðar lagði kona, Vítalía Lazareva, fram ásakanir um alvarleg kynferðisbrot tveggja af stærstu einkahluthöfum Festi, Hreggviðs Jónssonar og Þórðar Más Jóhannessonar, gagnvart sér í heitum potti í félagi við Ara Edwald, fyrrverandi forstjóra Mjólkursamsölunnar, haustið 2020. Þórður Már neyddist á endanum til að segja af sér stjórnarformennsku í Festi vegna málsins. Það gerðist 6. janúar síðastliðinn. Mennirnir þrír kærðu Vítalíu nýverið til lögreglu fyrir fjárkúgun.
Marga hluthafa grunar að Þórður Már og Hreggviður hafði þrýst á uppsögn Eggerts vegna framgöngu hans í Vítalíu-málinu og viðmælendur Kjarnans segja að auk þess hafi Guðjón Reynisson, núverandi stjórnarformaður viljað fá Jón Björnsson, forstjóra Origo, til að stýra Festi. Hagsmunir hefðu því farið saman.
Flestir viðmælendur Kjarnans eru sammála um að Guðjón ætli sér enn að reyna að ráða Jón.
„Sterk samfélagsvitund“ Björgólfs
Bæði þessi atvik eru nefnd í skýrslu tilnefningarnefndar sem rökstuðningur fyrir því að hversu mikilvæg krafan um siðferði og samfélagsvitund væri
Núverandi stjórn er skipuð Guðjóni, sem er formaður, Margréti, sem er varaformaður, Þóreyju, Sigrúnu og Ástvaldi.
Af hinum fjórum sem sækjast eftir stjórnarsetu hefur framboð Björgólfs Jóhannssonar og Magnúsar Júlíussonar vakið mesta athygli. Björgólfur, sem er fyrrverandi forstjóri Icelandair Group og Samherja auk þess sem hann er stjórnarformaður Sjóvá, er einn eigenda fjárfestingafélagsins Kjálkanes sem á 1,92 prósent hlut í Festi og er auk þess annar stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Þá á Kjálkanes hlut í stærsta eiganda Sjóvar.
Björgólfur hefur verið fyrirferðamikill á undanförnum árum vegna starfa sinna fyrir Samherja, en hann var afar sýnilegur í málsvörn félagsins og árásum á nafngreinda fjölmiðlamenn í kjölfar þess að Samherjamálið svokallaða komst í hámæli síðla árs 2019. Það mál er nú í rannsókn íslenskra yfirvalda vegna gruns um mútubrot, peningaþvætti og skattasniðgöngu. Björgólfur sat áður í stjórn Festi, en sagði sig úr henni í nóvember 2019 þegar hann gerðist tímabundinn forstjóri Samherja.
Í umsögn tilnefningarnefndar um frambjóðendur til stjórnar segir meðal annars um Björgólf að á meðal kosta hans sem nýtist í stjórnarstörfum sé „sterk samfélagsvitund“. Heimildir Kjarnans herma að Björgólfur sé studdur af stærstu einkafjárfestunum í Festi, meðal annars áðurnefndum Hreggviði og Þórði Má. Auk þess nýtur hann vitanlega stuðnings Kjálkaness.
Aðstoðarmaður ráðherra vill í stjórn
Magnús stofnaði á sínum tíma, ásamt fjárfestinum Bjarna Ármannssyni, félagið Íslensk orkumiðlun sem byrjaði að selja íslenskum neytendum raforku árið 2017. Ásamt Bjarna og Magnúsi voru hluthafar Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja og síðar Festi. Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 milljónir króna fyrir félagið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Rafmagn.
Verðmatið á félaginu á þeim tíma er það var selt var alls 850 milljónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 prósent af bókfærðu virði félagsins óefnislegar eignir í formi viðskiptavildar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæmlega þessu verðmæta viðskiptavild fælist.
Magnús var um tíma deildarstjóri orkusviðs N1 eftir kaup Festis á Íslenskri orkumiðlun. Hann hætti störfum í lok síðasta árs og tók við sem aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fyrr á þessu ári. Hann staðfesti við Kjarnann í vikunni að hann myndi hætta sem aðstoðarmaður ráðherra nái hann kjöri í stjórn Festi, enda samrýmist slíkt starf ekki nýlegum lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.
Heimildir Kjarnans herma að framboð Magnúsar sé meðal annars stutt af Ísfélagi Vestmanna, sem er á meðal eigenda Festi.
Aðrir frambjóðendur eru Sigurlína Ingvarsdóttir og Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Viðmælendur Kjarnans eru sammála um að þær þurfi stuðning lífeyrissjóða til að ná inn í stjórn því hann verði ekki að finna á meðal stærstu einkafjárfesta. Flestir eru þó sammála um að mestar líkur séu á að sitjandi stjórn sitji áfram, með þeirri mögulegri undantekningu að Björgólfur setjist aftur í hana á kostnað einhvers hinna þriggja almennu stjórnarmanna.
Prestur leggur til að félagið heiti Sundrung
Fyrir utan stjórnarkjörið er eitt dagskrársett mál á dagskrá hluthafafundarins, tillaga um breytingu á samþykktum félagsins sem felur það í sér að nafni þess verði breytt í Sundrung.
Sú tillaga er lögð fram af Pétri Þorsteinssyni, presti Óháða safnaðarins, sem á lítinn hlut í Festi. Pétur sagði í samtali við mbl.is í gær að tillagan hafi verið lögð fram til að vekja athygli á aðferðinni sem beitt var við uppsögn forstjóra félagsins. Hann leggi ekki endilega til að tillagan verði samþykkt.
Það kemur svo í ljós á fimmtudag í næstu viku, þann 14. júlí, hvort sundrungin í Festi leiði til þess að þetta risastóra smásöluveldi á Íslandi, sem flestir Íslendingar eiga reglulega snertingu við með einhverjum hætti, verði skrásett sem Sundrung hf., til áminningar um þær þá dramatík sem átti sér stað innan þess á árinu 2022.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi