Þeir sem hafa verið atvinnulausir að öllu leyti hérlendis í meira en sex mánuði voru 12.761 talsins um síðustu mánaðamót. Það fjölgaði í hópnum um rúmlega þúsund manns milli mánaða og frá áramótum hefur fjöldin aukist um tæplega 1.900 manns.
Ef horft er rúmlega eitt ár aftur í tímann, til byrjun janúarmánaðar 2020, þá voru alls 3.820 manns á landinu öllu sem höfðu verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur. Síðan þá hefur fjölgað í þeim hópi um 8.941 manns. Það eru rúmlega eitt þúsund fleiri en búa á Akranesi og næstum tvisvar sinnum allur sá fjöldi sem býr á Seltjarnarnesi.
Þetta kemur fram í viðbótarupplýsingum sem Vinnumálastofnun birtir um stöðu vinnumarkaðar á Íslandi í hverjum mánuði.
Atvinnulausum fækkaði en langtímaatvinnulausum fjölgaði
Heildaratvinnuleysi dróst saman í síðasta mánuði. Almennt atvinnuleysi mældist 11,4 prósent og lækkaði um 0,2 prósentustig milli mánaða. Ástæða þessa er rakin að mestu til þess að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar í febrúar sem leiddi til þess að fleiri voru ráðnir til starfa í veitingaþjónustu og ferðaþjónustu. Þá var einnig fjölgun í sjávarútvegi, að öllum líkindum í tengslum við loðnuvertíð, sem nú er að mestu afstaðin.
Heildaratvinnuleysið, þegar þeir sem nýta hlutabótaleiðina eru meðtaldir, mældist 12,5 prósent. Alls fækkaði þeim sem eru atvinnulausir að öllu leyti um 457 í þeim mánuði. Það var í fyrsta sinn síðan því í maí í fyrra sem fjöldi atvinnulausra dróst saman milli mánaða.
Hlutfall þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en sex mánuði, af heildarfjölda atvinnulausra, hefur hins vegar ekki verið hærra síðan í ágúst 2012 enda fjölgaði þeim í síðasta mánuði. Þá voru 63 prósent allra atvinnulausra búnir að vera án vinnu í að minnsta kosti sex mánuði en það hlutfall er nú 60 prósent. Heildarfjöldi atvinnulausra var hins vegar lægri þá, eða 8.346 alls.
Ríkisstjórnin ræðst í átak
Ríkisstjórnin kynnti atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“ síðastliðinn föstudag þegar Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, fór yfir innihald þess á blaðamannafundi ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Markmiðið er að skapa allt að 7.000 tímabundin störf hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir er allt að fimm milljarðar króna.
Að meginuppistöðu snýst átakið um að víkka út svokallaða ráðningarstyrki, sem kynntir voru til leiks sem COVID-19 úrræði haustið 2020.
Lítil og meðalstór fyrirtæki, með undir 70 starfsmenn, munu geta sótt um ráðningarstyrki til þess að ráða starfsmenn sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Það myndast þannig hvati fyrir fyrirtæki til þess að ráða fólk til starfa sem hefur verið lengi án vinnu, en sá hópur hefur farið ört vaxandi í COVID-kreppunni. Hverjum nýjum starfsmanni mun fylgja allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5 prósent framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.
Fyrirtæki af öllum stærðum munu áfram geta fengið ráðningarstyrk sem nemur grunnatvinnuleysisbótum ef þau ráða starfsmenn sem hafa verið án vinnu í 30 daga eða lengur. Styrkurinn með hverjum starfsmanni er til allt að sex mánaða. Fyrirtæki af öllum stærðum munu áfram geta fengið ráðningarstyrk sem nemur grunnatvinnuleysisbótum ef þau ráða starfsmenn sem hafa verið án vinnu í 30 daga eða lengur. Styrkurinn með hverjum starfsmanni er til allt að sex mánaða. Þetta úrræði er ekki nýtt heldur hefur staðið til boða frá því í fyrrahaust.
Sérstakar aðgerðir fyrir þá sem fullnýta bótarétt
Sérstakar aðgerðir eru fyrir þá eru við það að fullnýta bótarétt sinn í atvinnuleysistryggingakerfinu.
Vinnumálastofnun greiðir ráðningastyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningu einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti.
Stofnuninni er heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði fyrir þessu er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.
Sveitarfélögum er einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.
Félagasamtök geta fengið styrk fyrir tímabundna starfskrafta
Félagasamtökum sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði auk 11,5 prósenta mótframlags í lífeyrissjóð. Krafa er að þeir sem ráðnir eru til félagasamtaka hafi verið án atvinnu í meira en eitt ár.
Einnig verður greitt 25 prósent álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og fleira.