Hlutabréfavísitölur víða um heim lækkuðu mikið í gær og lokaði markaðnum á Wall Street í gær þannig, að mesta dagslækkun í fjögur ár varð staðreynd. Lækkun Nasdaq vísitölunnar var 3,52 prósent og lækkun S&P 500 3,19 prósent. Í Evrópu og Asíu var svipaða sögu að segja. DAX vísitalan í Þýskalandi lækkaði um 2,95 prósent, CAC 40 vísitalan í Frakklandi um 3,2 prósent, FTSE í Bretlandi um 2,8 prósent og Nikkei í Japan um 2,98 prósent.
New York Times sagði í frétt sinni um þessar miklu lækkanir á mörkuðum, að dagurinn í gær gæti markað endalok mestu hækkunarsögu sem fjármálamarkaðir í Bandaríkjunum hafa séð. Sú saga hófst eftir hrunið á mörkuðum, á árunum 2007 til 2009. Fjárinnspýting Seðlabanka Bandaríkjanna, og annarra seðlabanka heimsins, með vextina við núlið hefur örvað efnhagslíf og verðbréfðaviðskipti ekki síst um árabil. Þetta sést á gangi mála á hlutabréfamörkuðum, en Nasdaq vísitalan hefur á fimm árum farið úr 2.153 í 4.706 nú.
The New York Times sendi frá sér þetta fréttaskot á póstlista sinn þegar markaðir lokuðu í gær. Mynd: Skjáskot, The New York Times.
Sá sem setti eina milljón Bandaríkjadali, 130 milljónir króna, í sjóð sem ávaxtast eftir Nasdaq vísitölunni, fyrir fimm árum, á tæplega 2,2 milljónir Bandaríkjadala í dag, eða sem nemur 286 milljónum krónum á núverandi gengi. Það gefur ákveðna mynd af því hvernig markaðir hafa einkennst af miklum hækkunum á undanförnum árum.
Hvað er að gerast?
Hér í Bandaríkjunum hefur mikil umræða átt sér stað að undanförnu um hvort heimsbúskapurinn sé að sigla inn í djúpa lægð, ekki síst eftir að stjórnvöld í Kína tóku þá afdrifaríku ákvörðun að veikja gjaldmiðil sinn, Júan, um tæplega tvö prósent gagnvart Bandaríkjadal, með það að markmiði að örva útflutningshluta hagkerfisins. Þetta er mesta inngrip stjórnvalda í Kína, af þessu tagi, síðan 1994 en frá þeim hefur svo til allt breyst í efnahagslífi Kína. Hagvöxtur hefur verið á bilinu sjö til 10 prósent í næstum tuttugu ár í röð, og hagkerfið stækkað hratt og eftirspurn aukist mikið. Þetta fjölmennasta ríki heimsins, með 1,4 milljarða íbúa, er nú orðið efnahagsstórveldi, þó umdeilanlegt sé á hversu traustum fótum það standi.
Eins og Kjarninn fjallaði ítarlega um á dögunum, eru margir sérfræðingar farnir að efast um kínverska hagkerfið og telja í reynd fyrstu merkin komin fram um að það sé að gefa hressilega eftir. Á meðal þeirra er Robert Z. Aliber, hagfræðiprófessor og rithöfundur.
Global market rout intensifies as Dow plunges 531 points, and more top stories. http://t.co/kzP5Epbd46
— Wall Street Journal (@WSJ) August 22, 2015
„Það er líklegt að þetta sé fyrst og fremst leiðrétting, sú fyrsta í fjögur ár,“ segir David Rosenberg, hagfræðingur og sérfræðingur hjá fyrirtækinu Gluskin Sheff, í samtali við New York Times. Hann segir enn fremur að hagtölur í Bandaríkjunum séu góðar í augnablikinu og þrátt fyrir erfiðleika og neikvæðni víða utan Bandaríkjanna, þá þurfi það ekki að þýða mikið lækkunarferli á næstunni. En það er ómögulegt að segja, og nefnir Rosenberg meðal annars að eftir því sem dregið er úr fjárinnspýtingu seðlabanka, ekki síst í Bandaríkjunum, þá muni koma í ljós hvernig hagkerfið muni bregðast við. Hugsanlega verði það mun erfiðari markaður en hefur verið, en hugsanlega ekki. Eins og svo oft þegar hagfræðileg álitamál eru annars vegar, þá er vandi að spá fyrir um framtíðina.