Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
Fjórar blokkir orðnar ráðandi í íslenskum sjávarútvegi. Þær hverfast í kringum Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið. Samanlagt halda þessar blokkir, sem samanstanda að útgerðum sem eru ekki allar skilgreindar sem tengdar samkvæmt lögum, á 58,6 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Samanlögð kvótastaða tíu stærstu útgerða landsins innan aflamarkskerfisins dregst saman milli ára. Í nóvember 2021, þegar Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð tengdra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundið tólf prósent hámark, birti upplýsingar um samþjöppun aflaheimilda, héldu þær alls á 67,45 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Í nýjum tölum, sem Fiskistofa birti á miðvikudag, er það hlutfall komið niður í 56 prósent.
Það þýðir þó ekki að samþjöppun í greininni hafi dregist saman. Það hefur hún alls ekki gert, líkt og margar stórar sameiningar eða yfirtökur á undanförnu ári sýna. Breytinguna má að nánast öllu leyti rekja til þess að loðnukvóti skrapp mikið saman milli ára. Síðla árs 2021 var úthlutað 904 þúsund tonnum, en þá hafði ekki verið úthlutað kvóta í loðnu í tvö ár. Úthlutunin var sú stærsta í tvo áratugi. Hún reyndist á endanum allt of umfangsmikil, var skert og íslensku útgerðirnar veiddu 76 prósent af því sem þeim var úthlutað. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna yfirstandandi loðnuvertíðar nemur 218.400 tonnum en tæplega 80 þúsund tonnum af þessu renna til norskra, færeyskra og grænlenskra skipa. Í hlut íslenskra útgerða féllu því tæplega 132 þúsund tonn í stað þeirra 686 þúsund tonna í fyrra sem íslenskar útgerðir máttu veiða á fyrra fiskveiðiári eftir skerðingar.
Tvö fyrirtæki fengu 38,4 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað 2021. Ísfélag Vestmannaeyja fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent. Samdráttur beinum aflahlutdeildum þessarra tveggja útgerða milli ára nam næstum átta prósentustigum.
Stóru að stækka
Síldarvinnslan, sem Samherji hf. á 30,06 prósent í, gekk frá kaupum á Vísi í Grindavík í byrjun síðasta mánaðar. Auk þess á Síldarvinnslan tvö dótturfélög í útgerð, Berg-Huginn og Berg ehf. Samanlögð aflahlutdeild þessara fjögurra útgerða er 12,11 prósent og því rétt yfir lögbundnu tólf prósent hámarki.
Brim, sem skráð er á markað og metið á 174,3 milljarða króna, er sú einstaka útgerð sem er með mesta aflahlutdeild, eða 11,34 prósent. Fyrirtækið er því rétt undir lögbundnu hámarki og aðeins minni hlutdeild en Síldarvinnslusamstæðan. Brim keypti kvóta og togara af Útgerðarfélagi Reykjavíkur í nóvember á 12,4 milljarða króna.
Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa, sem bæði eru að fullu í eigu Samherja hf., koma þar næst með 8,77 prósent. kemur þar næst með 6,87 prósent.
Ísfélag Vestmanna og Rammi, sem tilkynntu um sameiningu milli jóla og nýárs, koma þar næst með 8,14 prósent og FISK Seafood, sjávarútvegsarmur Kaupfélags Skagfirðinga er í fimmta sæti með 5,17 prósent.
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta sem úthlutað er í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en tólf prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar. Til að teljast tengdur aðili er þó gerð krafa um meirihlutaeign eða raunveruleg yfirráð. Í því felst að aðili þurfi að eiga meira en 50 prósent í öðrum aðila eða ráða yfir honum með öðrum hætti til að þeir séu taldir tengdir aðilar. Þau mörk hafa verið harðlega gagnrýnd, enda mjög há í öllum samanburði.
Í þessu sambandi hefur meðal annars verið bent á lög um skráningu raunverulegra eigenda. Í þeim er miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Raunveruleg yfirráð ekki könnuð
Í janúar árið 2019 skilaði Ríkisendurskoðun svartri stjórnsýsluúttekt um Fiskistofu, sem á að hafa eftirlit með framkvæmd laga um úthlutun hans. Eitt þeirra atriða sem verulegar athugasemdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög.
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort það takmark hafi náðst. En skýrsla Ríkisendurskoðunar ýtti málum aðeins áfram. Í henni var meðal annars lagt til að ráðast í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem snúa að yfirráðum yfir aflaheimildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Í mars 2019 var skipuð verkefnastjórn sem falið var þetta verkefni. Hún skilaði skriflega af sér drögum 30. desember 2019 þar sem lagðar voru fram ýmsar tillögur til úrbóta.
Risanefnd skoðar áskoranir og tækifæri
Í maí í fyrra skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra eina fjölmennustu nefnd Íslandssögunnar til að „greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Í starfshópum, verkefnastjórn og samráðsnefnd sitja á fimmta tug einstaklinga. Nefndin á að starfa út næsta ár. Vinna við kortlagningu á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi er hluti af þeirri vinnu.
Fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs eru meðal annars ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.
Þegar tilkynnt var um skipun hópsins var haft eftir Svandísi að í sjávarútvegi ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.“
Samkeppniseftirlitið kannar eignatengsl
Í október 2022 gerði matvælaráðuneytið samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja því fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði. Auk eftirlitsins er þar um að ræða Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins vegna málsins segir að markmið kortlagningarinnar sé að stuðla að gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja ásamt upplýstri stefnumótun stjórnvalda um regluumgjörð sjávarútvegs og breytingar á henni. Einnig á vinnan að stuðla að því að farið sé að lögum og reglum á þessu sviði og eftirlitsstofnanir geti sinnt hlutverki sínu.
Kortlagningin verður sett fram í sérstakri skýrslu sem á að afhenda Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í síðasta lagi á 31. desember 2023, eða eftir tæpt ár. Skýrslan á því að nýtast ráðuneytinu í þeirri umfangsmiklu stefnumótunarvinnu um sjávarútveg sem nú stendur yfir.
Í athuguninni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.
Frummat sýndi tengsl
Samkeppniseftirlitið hefur áður kannað möguleg sameiginleg yfirráð aðila sem hafa ekki verið skilgreindir sem tengdir í sjávarútvegi.
Í lok febrúar 2021 birti eftirlitið ákvörðun vegna samruna dótturfélags Síldarvinnslunnar og útgerðarfélagsins Bergs. Þótt eftirlitið hafi ekki gert athugasemd við þann samruna eftir skoðun sína á honum var þar birt það frummat Samkeppniseftirlitsins „að til staðar séu vísbendingar um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni og að þær vísbendingar hafi styrkst frá því að Samkeppniseftirlitið fjallaði um slík möguleg yfirráð í ákvörðun nr. 10/2013.“
Í kjölfarið var kallað eftir frekari upplýsingum og sjónarmiðum frá aðilum og fylgst með eignarhaldsbreytingum sem urðu í tengslum við skráningu Síldarvinnslunnar á markað 2021. Enn sem komið er hefur hins vegar hefur ekki verið tekin ákvörðun um frekari formlega rannsókn.
Að mati eftirlitsins voru veruleg tengsl milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni og þrír af fimm stjórnarmönnum í Síldarvinnslunni á þeim tíma voru skipaðir af eða tengdir Samherja og Kjálkanesi. Einn þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Samherji stærsta blokkin
Þótt ýmsar stórar útgerðir séu ekki skilgreindar sem tengdir aðilar samkvæmt gildandi lögum og túlkun eftirlitsaðila á þeim þá eru ýmis tengsl þeirra á milli.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru, líkt og áður sagði, Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Þegar talin er saman aflahlutdeild Samherja Ísland, Útgerðarfélags Akureyringa, Síldarvinnslunnar, Vísis, Gjögurs og Bergs-Huginn og Bergs (sem eru báðar dótturfélög Síldarvinnslunnar) þá heldur sú blokk á 23,39 prósent úthlutaðra aflaheimilda.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44,72 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 2,23 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims. Brim innlimaði útgerðina Ögurvík í fyrra.
Þá eiga félögin KG Fiskverkun og Stekkjasalir, í eigu Hjálmars Kristjánssonar, bróður Guðmundar, og sona hans, saman á 5,86 prósent hlut í Brimi. KG Fiskverkun heldur einnig á eitt prósent af úthlutuðum aflaheimildum. Þess blokk er því með 15,65 prósent af öllum kvóta.
Tvær aðrar stórar blokkir
Fisk Seafood á á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Þá á Vinnslustöðin allt hlutafé í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum. FISK á til viðbótar allt hlutafé í útgerðinni Soffanías Cecilsson. Saman heldur þessi blokk á 11,45 prósent af úthlutuðum kvóta.
Þann 30. desember tilkynntu Sjávarútvegsfyrirtækin Ísfélagið í Vestmannaeyjum og Rammi, sem er með höfuðstöðvar sínar í Fjallabyggð en landar einnig í Þorlákshöfn, um sameiningu. Nýja félagið mun heita Ísfélagið hf. Stefán Friðriksson, núverandi framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., mun stýra því með aðsetur í Vestmannaeyjum og Ólafur H. Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Ramma hf., verður aðstoðarframkvæmdastjóri með aðsetur í Fjallabyggð. Til stendur að skrá sameinað fyrirtæki á markað. Sameiginleg aflahlutdeild þeirra er 8,14 prósent samkvæmt tölum Fiskistofu.
Því halda þessar fjórar blokkir, sem eru þó ekki að öllu leyti tengdar samkvæmt gildandi lögum, á samtals á 58,63 prósent af öllum úthlutuðum kvóta innan aflamarkskerfisins.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári