Hver er framtíð tómlega túnbalans í horni Laugardalsins?
Smáhýsi fyrir heimilislausa í Laugardal hafa verið samþykkt í borgarráði þrátt fyrir mótbárur, en hvað svo? Kjarninn skoðar þær hugmyndir og áætlanir sem eru uppi um grasbalann mikla vestan við Glæsibæ. Þar er jafnvel rætt um að setja niður leikskóla.
Eyðilegur grasbali í grennd við horn Suðurlandsbrautar og Engjavegar í Reykjavík hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Í vikunni sem leið samþykkti meirihluti borgarráðs, gegn mótbárum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, deiliskipulag sem felur í sér að sett verði upp nokkur smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar vestast á þessum reit.
Eins og Kjarninn hefur sagt frá hefur þeim áformum verið tekið fremur fálega af hálfu ýmissa aðila, meðal annarra íþróttafélaga í Laugardalnum og fasteignafélagsins Reita, sem stendur að uppbyggingu á svokölluðum Orkureit handan Suðurlandsbrautar, en þar á að byggja hundruð íbúða í háreistum húsum á næstu árum.
Smáhýsin, sem borgin ætlar að setja upp fyrir fólk sem stendur höllum fæti, eru ekki hugsuð til allrar framtíðar, en í áætlunum borgarinnar er kveðið á um að þau verði víkjandi í skipulagi. Það þýðir að þegar borgin ráðstafar svæðinu þar sem þeim er ætlað að standa undir einhver fastmótuð framtíðaráform muni úrræðið víkja af staðnum.
Í málflutningi sjálfstæðismanna í borgarráði voru sett fram þau viðhorf að Laugardalinn skuli vernda fyrir íbúðabyggð. „Ekki á að heimila íbúðabyggð með neinum hætti í Laugardalnum enda verður enn meiri þörf fyrir dalinn sem útivistar- og íþróttasvæði í framtíðinni en nú er,“ sagði auk annars í bókun fulltrúanna á borgarráðsfundi í vikunni.
Dauflegt svæði í borginni miðri
Þetta svæði, sem er við hlið Glæsibæjar, var ansi dauflegt á að líta er blaðamaður Kjarnans átti leið hjá á föstudag. Grasbalinn var algjörlega auður, með þeirri undantekningu að á honum stóð einn einmana gámur.
Ögn vestar er síðan illa hirt og holótt bílastæði, þar sem auk annars stóð gámur, tveir sendibílar, einhver húsbíll án bílnúmera og vöruflutningagámur merktur Gung-Ho, sem í sumar var með stærðarinnar hoppukastalaþrautabraut á svæðinu. Á bílastæðinu voru einnig einhverjar járngrindur, sem líklega voru nýttar í tengslum við starfsemi hoppukastalans stóra.
Áætlanir borgarinnar núna lúta því að því að taka hluta þessa svæðis, sem í dag er eiginlega alveg tómt og varla nýtt árið um kring, og setja þar niður fimm smáhýsi.
Á fundi borgarráðs á fimmtudaginn bókuðu fulltrúar meirihlutans að þau vonuðu að nálægð reitsins við útivistarsvæði, almenningssamgöngur og samfélagsinnviði myndu hafa jákvæð áhrif á þau sem þar kæmu til með að búa.
Opið fyrir byggingar um áratugaskeið
En hvað á svo að gera við þetta vannýtta svæði til langrar framtíðar?
Það liggur ekki fyrir, en samkvæmt svörum sem borgin setti frá sér vegna athugasemda sem settar voru fram við drög að breyttu aðalskipulagi borgarinnar fram til ársins 2040 hefur lengi verið gert ráð fyrir þeim möguleika að byggja á umræddu götuhorni – raunar í öllum aðalskipulagsáætlunum sem gerðar hafa verið í Reykjavík síðan á 7. áratugnum.
„Reiturinn er hluti þess svæðis í deiliskipulagi Laugardals, þar sem skipulagi er frestað. Endanleg ákvörðun um hlutfall byggðar og útivistar á svæðinu hefur því ekki verið tekin,“ sagði í svari borgarinnar við athugasemdum sem bárust við drög að uppfærðu aðalskipulagi.
Í þeim tillögum að aðalskipulagi sem skipulags- og samgönguráð samþykkti í vikunni sem leið er verið að stækka svæði sem heitir í skipulaginu M15 (Miðsvæði 15) og teygja það yfir Engjaveginn inn á grasbalann við hlið Glæsibæjar. Það nær ekki alveg að þeim stað þar sem fyrirhugað að skjóta inn smáhýsunum, en þó langleiðina.
„Borgarlínustöð verður staðsett við þetta götuhorn og því mikilvægt að mynda á svæðinu ákveðna þungamiðju. Áður en endanleg tillaga verður mótuð þarf að ákvarða nánar um umfang byggðarinnar, frekari afmörkun reits og skoða í samhengi við þann byggingarreit sem þegar er skilgreindur meðfram Suðurlandsbraut að norðanverðu,“ sagði í svari borgarinnar við athugasemdum við drög að aðalskipulaginu, sem meðal annars komu frá Reitum.
Suðurlandsbraut að norðanverðu?
Já, einmitt. Í breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er skilgreindur reitur sem heitir M52g undir blandaða byggð við norðurhlið Suðurlandsbrautar, á milli umferðargötunnar og Laugardalsins.
Það eru þannig áform um að gera að gera Suðurlandsbrautina að breiðgötu, búlevarði, með húsum til beggja handa, samhliða því sem Suðurlandsbrautinni verður breytt verulega vegna legu Borgarlínu um hana.
Þessi skipulagsreitur er ræma meðfram Suðurlandsbrautinni sem nær alla leið frá Reykjavegi og langleiðina niður að gatnamótum Grensásvegs og Engjavegs, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Áform um að byggja á þessum slóðum voru á meðal ástæðna sem gerði það að verkum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðust ekki geta stutt breytt aðalskipulagið og greiddu atkvæði gegn því í skipulagsráði í vikunni.
„Á svæði M2g er gert ráð fyrir blöndu verslunar, þjónustu, skrifstofa og íbúða. Lágreist byggð (2–4 hæðir) sem fellur að götumynd Suðurlandsbrautar og með opnum sjónásum til dalsins. Mögulegt byggingarsvæði er háð því að Suðurlandsbraut verði endurhönnuð og skal miða við að ekki verði gengið á græn útivistar- og íþróttasvæði í Laugardalnum,“ segir um reitinn í aðalskipulaginu sem samþykkt var í skipulagsráðinu í vikunni.
Reitir stinga upp á leikskóla og tjörn
Í umsögn við endanlegar tillögur borgarinnar að breyttu aðalskipulagi fram til ársins 2040 gerðu Reitir athugasemdir við það að opnað yrði á byggingar á horninu gegn Orkureitnum.
Reitir gerðu þannig athugasemd við áðurnefnda stækkun miðsvæðis M15 inn í Laugardalinn og vöktu athygli á tillögu sem kom fram í tengslum við skipulagsvinnu Orkureits, „sem Reitir telja viðeigandi dæmi um nýtingu reits vestan við Glæsibæ.“
„Hugmyndin gengur út á að framlengja stíg með trjágöngum sem liggur i gegnum Laugardalinn og upp á milli Fjölskyldu- og húsdýragarðs upp að áformaðri Borgarlínustöð við Laugardal. Svæðið verður þá áfram að mestu leyti grænt svæði til útivistar og nýtist einnig til að miðla ofanvatni frá aðlægum hverfum með tjörnum sem hægt er að móta fallega. Jafnframt væri hægt að koma þar fyrir leikskóla sem felldur yrði inn í umhverfið. Þannig verður ekki gengið frekar á græn svæði Laugardals og íbúðabyggð ekki hleypt inn í dalinn. Ekki er mikið eftir af óskipulögðu svæði í Laugardalnum, sem er óhindrað opið almenningi. Tillagan er dæmi um heilsteypta mynd af Laugardalnum, sem skýrist helst af tjágöngunum, sem eru hjarta stígakerfisins í Dalnum, og tengingu við Borgarlínustöðina,“ sagði í umsögn Reita.
Borgin tók ekki mikla afstöðu til þessarar hugmyndar fasteignafélagsins, en í svari borgarinnar við þessari athugasemd Reita sagði að ekki hefðu verið teknar „endanlegar ákvarðanir um form, eðli og magn byggðar á umræddu svæði“, auk þess sem því var svarað til að M15 Glæsibær væri borgarhlutakjarni og innan þeirra mætti „m.a. gera ráð fyrir leikskólum, byggingum sem þjóna útivist og almenningsrýmum.“
Lesa meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu