Hver er framtíð tómlega túnbalans í horni Laugardalsins?

Smáhýsi fyrir heimilislausa í Laugardal hafa verið samþykkt í borgarráði þrátt fyrir mótbárur, en hvað svo? Kjarninn skoðar þær hugmyndir og áætlanir sem eru uppi um grasbalann mikla vestan við Glæsibæ. Þar er jafnvel rætt um að setja niður leikskóla.

Eyði­legur gras­bali í grennd við horn Suð­ur­lands­brautar og Engja­vegar í Reykja­vík hefur verið tölu­vert í umræð­unni að und­an­förnu. Í vik­unni sem leið sam­þykkti meiri­hluti borg­ar­ráðs, gegn mót­bárum borg­ar­full­trúa Sjálf­stæð­is­flokks, deiliskipu­lag sem felur í sér að sett verði upp nokkur smá­hýsi fyrir skjól­stæð­inga vel­ferð­ar­sviðs borg­ar­innar vest­ast á þessum reit.

Eins og Kjarn­inn hefur sagt frá hefur þeim áformum verið tekið fremur fálega af hálfu ýmissa aðila, meðal ann­arra íþrótta­fé­laga í Laug­ar­dalnum og fast­eigna­fé­lags­ins Reita, sem stendur að upp­bygg­ingu á svoköll­uðum Orku­reit handan Suð­ur­lands­braut­ar, en þar á að byggja hund­ruð íbúða í háreistum húsum á næstu árum.

Smá­hýs­in, sem borgin ætlar að setja upp fyrir fólk sem stendur höllum fæti, eru ekki hugsuð til allrar fram­tíð­ar, en í áætl­unum borg­ar­innar er kveðið á um að þau verði víkj­andi í skipu­lagi. Það þýðir að þegar borgin ráð­stafar svæð­inu þar sem þeim er ætlað að standa undir ein­hver fast­mótuð fram­tíð­ar­á­form muni úrræðið víkja af staðn­um.

Auglýsing

Í mál­flutn­ingi sjálf­stæð­is­manna í borg­ar­ráði voru sett fram þau við­horf að Laug­ar­dal­inn skuli vernda fyrir íbúða­byggð. „Ekki á að heim­ila íbúða­byggð með neinum hætti í Laug­ar­dalnum enda verður enn meiri þörf fyrir dal­inn sem úti­vistar- og íþrótta­svæði í fram­tíð­inni en nú er,“ sagði auk ann­ars í bókun full­trú­anna á borg­ar­ráðs­fundi í vik­unni.

Dauf­legt svæði í borg­inni miðri

Þetta svæði, sem er við hlið Glæsi­bæj­ar, var ansi dauf­legt á að líta er blaða­maður Kjarn­ans átti leið hjá á föstu­dag. Gras­balinn var algjör­lega auð­ur, með þeirri und­an­tekn­ingu að á honum stóð einn ein­mana gám­ur.

Arnar Þór
Arnar Þór

Ögn vestar er síðan illa hirt og holótt bíla­stæði, þar sem auk ann­ars stóð gámur, tveir sendi­bíl­ar, ein­hver hús­bíll án bíl­núm­era og vöru­flutn­ingagámur merktur Gung-Ho, sem í sumar var með stærð­ar­innar hoppukast­ala­þrauta­braut á svæð­inu. Á bíla­stæð­inu voru einnig ein­hverjar járn­grind­ur, sem lík­lega voru nýttar í tengslum við starf­semi hoppukast­al­ans stóra.

Áætl­anir borg­ar­innar núna lúta því að því að taka hluta þessa svæð­is, sem í dag er eig­in­lega alveg tómt og varla nýtt árið um kring, og setja þar niður fimm smá­hýsi.

Svæðið sem er hugsað undir smáhýsin fimm er við bílastæðið sem þarna er í dag.
Úr deiliskipulagi

Á fundi borg­ar­ráðs á fimmtu­dag­inn bók­uðu full­trúar meiri­hlut­ans að þau von­uðu að nálægð reits­ins við úti­vist­ar­svæði, almenn­ings­sam­göngur og sam­fé­lags­inn­viði myndu hafa jákvæð áhrif á þau sem þar kæmu til með að búa.

Opið fyrir bygg­ingar um ára­tuga­skeið

En hvað á svo að gera við þetta van­nýtta svæði til langrar fram­tíð­ar?

Það liggur ekki fyr­ir, en sam­kvæmt svörum sem borgin setti frá sér vegna athuga­semda sem settar voru fram við drög að breyttu aðal­skipu­lagi borg­ar­innar fram til árs­ins 2040 hefur lengi verið gert ráð fyrir þeim mögu­leika að byggja á umræddu götu­horni – raunar í öllum aðal­skipu­lags­á­ætl­unum sem gerðar hafa verið í Reykja­vík síðan á 7. ára­tugn­um.

„Reit­ur­inn er hluti þess svæðis í deiliskipu­lagi Laug­ar­dals, þar sem skipu­lagi er frestað. End­an­leg ákvörðun um hlut­fall byggðar og úti­vistar á svæð­inu hefur því ekki verið tek­in,“ sagði í svari borg­ar­innar við athuga­semdum sem bár­ust við drög að upp­færðu aðal­skipu­lagi.

Í þeim til­lögum að aðal­skipu­lagi sem skipu­lags- og sam­göngu­ráð sam­þykkti í vik­unni sem leið er verið að stækka svæði sem heitir í skipu­lag­inu M15 (Mið­svæði 15) og teygja það yfir Engja­veg­inn inn á gras­balann við hlið Glæsi­bæj­ar. Það nær ekki alveg að þeim stað þar sem fyr­ir­hugað að skjóta inn smá­hýs­un­um, en þó lang­leið­ina.

Reiturinn M15 Glæsibær teygist yfir á vannýtta túnið í uppfærslu aðalskipulagsins til 2040.
Úr þéttbýlisuppdrætti

„Borg­ar­línu­stöð verður stað­sett við þetta götu­horn og því mik­il­vægt að mynda á svæð­inu ákveðna þunga­miðju. Áður en end­an­leg til­laga verður mótuð þarf að ákvarða nánar um umfang byggð­ar­inn­ar, frek­ari afmörkun reits og skoða í sam­hengi við þann bygg­ing­ar­reit sem þegar er skil­greindur með­fram Suð­ur­lands­braut að norð­an­verð­u,“ sagði í svari borg­ar­innar við athuga­semdum við drög að aðal­skipu­lag­inu, sem meðal ann­ars komu frá Reit­um.

Suð­ur­lands­braut að norð­an­verðu?

Já, einmitt. Í breyttu aðal­skipu­lagi Reykja­víkur er skil­greindur reitur sem heitir M52g undir bland­aða byggð við norð­ur­hlið Suð­ur­lands­braut­ar, á milli umferð­ar­göt­unnar og Laug­ar­dals­ins.

Það eru þannig áform um að gera að gera Suð­ur­lands­braut­ina að breið­götu, búlevarði, með húsum til beggja handa, sam­hliða því sem Suð­ur­lands­braut­inni verður breytt veru­lega vegna legu Borg­ar­línu um hana.

Auglýsing

Þessi skipu­lags­reitur er ræma með­fram Suð­ur­lands­braut­inni sem nær alla leið frá Reykja­vegi og lang­leið­ina niður að gatna­mótum Grens­ás­vegs og Engja­vegs, eins og sjá má á mynd­inni hér að neð­an.

Áform um að byggja á þessum slóðum voru á meðal ástæðna sem gerði það að verkum að full­trúar Sjálf­stæð­is­flokks­ins sögð­ust ekki geta stutt breytt aðal­skipu­lagið og greiddu atkvæði gegn því í skipu­lags­ráði í vik­unni.

Reitur M2g liggur hér meðfram Suðurlandsbrautinni. Þar eru opnað á 2-4 hæða byggð, þó án þess að ganga á græn svæði í Laugardalnum sjálfum.
Úr þéttbýlisuppdrætti

„Á svæði M2g er gert ráð fyrir blöndu versl­un­ar, þjón­ustu, skrif­stofa og íbúða. Lágreist byggð (2–4 hæð­ir) sem fellur að götu­mynd Suð­ur­lands­brautar og með opnum sjón­ásum til dals­ins. Mögu­legt bygg­ing­ar­svæði er háð því að Suð­ur­lands­braut verði end­ur­hönnuð og skal miða við að ekki verði gengið á græn úti­vistar- og íþrótta­svæði í Laug­ar­daln­um,“ segir um reit­inn í aðal­skipu­lag­inu sem sam­þykkt var í skipu­lags­ráð­inu í vik­unni.

Reitir stinga upp á leik­skóla og tjörn

Í umsögn við end­an­legar til­lögur borg­ar­innar að breyttu aðal­skipu­lagi fram til árs­ins 2040 gerðu Reitir athuga­semdir við það að opnað yrði á bygg­ingar á horn­inu gegn Orku­reitn­um.

Reitir gerðu þannig athuga­semd við áður­nefnda stækkun mið­svæðis M15 inn í Laug­ar­dal­inn og vöktu athygli á til­lögu sem kom fram í tengslum við skipu­lags­vinnu Orku­reits, „sem Reitir telja við­eig­andi dæmi um nýt­ingu reits vestan við Glæsi­bæ.“

Reitir sjá fyrir sér að mögulega gæti þarna verið leikskóli í framtíðinni.
Úr innsendri athugasemd Reita

„Hug­myndin gengur út á að fram­lengja stíg með trjá­göngum sem liggur i gegnum Laug­ar­dal­inn og upp á milli Fjöl­skyldu- og hús­dýra­garðs upp að áform­aðri Borg­ar­línu­stöð við Laug­ar­dal. Svæðið verður þá áfram að mestu leyti grænt svæði til úti­vistar og nýt­ist einnig til að miðla ofan­vatni frá aðlægum hverfum með tjörnum sem hægt er að móta fal­lega. Jafn­framt væri hægt að koma þar fyrir leik­skóla sem felldur yrði inn í umhverf­ið. Þannig verður ekki gengið frekar á græn svæði Laug­ar­dals og íbúða­byggð ekki hleypt inn í dal­inn. Ekki er mikið eftir af óskipu­lögðu svæði í Laug­ar­daln­um, sem er óhindrað opið almenn­ingi. Til­lagan er dæmi um heil­steypta mynd af Laug­ar­daln­um, sem skýrist helst af tjá­göng­un­um, sem eru hjarta stíga­kerf­is­ins í Daln­um, og teng­ingu við Borg­ar­línu­stöð­ina,“ sagði í umsögn Reita.

Borgin tók ekki mikla afstöðu til þess­arar hug­myndar fast­eigna­fé­lags­ins, en í svari borg­ar­innar við þess­ari athuga­semd Reita sagði að ekki hefðu verið teknar „end­an­legar ákvarð­anir um form, eðli og magn byggðar á umræddu svæð­i“, auk þess sem því var svarað til að M15 Glæsi­bær væri borg­ar­hluta­kjarni og innan þeirra mætti „m.a. gera ráð fyrir leik­skól­um, bygg­ingum sem þjóna úti­vist og almenn­ings­rým­um.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar