Enska úrvalsdeildin hefst 8. ágúst þegar fyrsta umferð tímabilsins hefst en á morgun keppa Englandsmeistarar Chelsea og bikarmeistarar Arsenal um góðgerðarskjöldinn. Þessi vinsælasta deildarkeppni heimsins á sér marga fylgjendur um allan heim enda spennan oft rafmögnuð og ástríða áhorfenda fyrir leiknum næstum áþreifanleg.
Kastljósið beinist ekki síður að knattspyrnustjórum félaganna tuttugu sem reyna að stýra liðum sínum til sigurs í hverjum leik og byggja upp lið með því að kaupa og selja leikmenn, oft ótt og títt.
Margar ákvarðanir knattspyrnustjóra í sögu úrvalsdeildarinnar hafa reynst afdrifaríkar þegar leikmannamálin eru annars vegar. Kjarninn tók saman lista yfir tíu afdríkustu ákvarðanir knattspyrnustjóra í enskri knattspyrnu á síðustu 25 árum.
Salan á Gordon Strachan til Leeds – Seldur á slikk
Howard Wilkinson, þáverandi knattspyrnustjóri Leeds United, náði að sannfæra Gordon Strachan um að koma til félagsins árið 1989. Strachan var þá 32 ára. Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, var búinn að vera við stjórnvöldinn í þrjú ár án þess að vinna deildina á þessum tíma og sá ekki fram á að geta notað Strachan í liði sínu en hann hafði í fimm ár verið lykilmaður hjá Manchester United. Ferguson var í mikilli tiltekt í leikmannahópnum og hefur sjálfur frá því greint , meðal annars í bókinni Managing My Life, að meðal þess sem hann var að gera á þessum fyrstu árum hjá félaginu, var að taka á drykkjukúltur innan þess og agavandmálum (Paul McGrath var látinn fara til Aston Villa, hann var valinn leikmaður ársins 1994). Hann þurfti að byggja upp nýjan leikmannahóp og efla unglingastarfið. En Strachan var frábær leikmaður og 200 þúsund punda kaup Wilkinson reyndust afdrifarík fyrir toppbaráttuna á Englandi. Strachan var hluti af frábærri miðju Leeds sem endaði í fjórða sæti tímabilið 1990-91, og var hann kosinn leikmaður ársins á Englandi. Með honum á miðjunni voru Gary McAllister, David Batty og Gary Speed. Ári seinna, tímabilið 91-92, tók hann við titlinum sem fyrirliði Leeds og hafði þar betur gegn fyrrverandi knattspyrnustjóra sínum Alex Ferguson og Manchester United, sem endaði í 2. sæti. En Ferguson lét þetta ekki á sig fá, svo ekki sé meira sagt.
https://www.youtube.com/watch?v=PpMsn1CshYI
Patrick Vieira mætir til Arsenal – Leiðtogi fæddur
Franski miðjumaðurinn Patrick Vieira kom til Arsenal, tvítugur að aldri, eftir misheppnaða dvöl hjá AC Milan. Þangað fór hann frá Cannes, og þótti mikið efni; teknískur og hávaxinn miðjumaður, með mikla leiðtogahæfileika. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, keypti Vieira á 3,5 milljónir punda árið 1996 og ráku margir upp stóraugu þegar tilkynnt var um þessi vistaskipti Frakkans hávaxna. Hvaða maður var þetta eiginlega? Hann hafði aðeins spilað tvo leiki fyrir aðallið AC Milan, en mest verið í varaliðinu, og þótti ekki nógu góður fyrir félagið hans Berlusconi. Hvernig hann átti að verða lykilmaður hjá Arsenal þótti mörgum hulin ráðgáta. Vieira sýndi strax að hann var enginn venjulegur miðjumaður heldur efni í einn þann allra besta. Hann var frábær bæði í vörn og sókn og gjörsamlega keyrði yfir marga þá bresku miðjumenn sem oft voru sagðir vera harðir í horn að taka. Þeir réðu ekkert við Vieira og félaga, og með fyrirliðabandið fór hann fyrir sínu liði. Hann varð í þrígang enskur meistari, meðal annars árið 2004 þegar Arsenal tapaði ekki leik í deildinni. Þessi ákvörðun Wengers, að veðja á Frakkann unga, var afdrifarík til góðs fyrir Lundúnafélagið og ein af ástæðum þess að lið Arsenal var illviðráðanlegt árum saman.
https://www.youtube.com/watch?v=jbdwKW93P_g
Beardsley frá Liverpool til Everton – Souness glórulaus
Enski sóknarmiðjumaðurinn Peter Beardsley var einn af lykilmönnum í sigursælu liði Liverpool á árunum 1987 til 1991. Hann lék 131 leik og skoraði 46 mörk, eða að meðaltali meira en mark í þriðja hverjum leik. Tímabilið 1990/91 var vandræðagangur hjá Liverpool miðað við sigursælt tímabil árin á undan. Kenny Dalglish keypti framherjan David Speedie til þess að hressa upp á sóknarleikinn, og var Beardsley tekinn út úr liðinu í nokkra leiki. Nokkrum vikum síðar sagði Dalglish upp og hætti, og skoski harðhausinn Graeme Souness tók við stjórnartaumunum. Hann boðaði nýja og betri tíma og ætlaði sér að losa sig við leikmenn sem ekki ættu framtíð hjá félaginu. Beardsley fór í kjölfarið til Everton og lék þar mjög vel. Árið 1993 var hann síðan keyptur til Newcastle þar sem hann var ein aðaldriffjöðurin í sókndjörfu liði undir stjórn Kevin Keegan. Skoraði 47 mörk í 129 leikjum fyrir félagið á fjögurra ára tímabili. Þetta var annað skeiðið á ferlinum sem hann lék með Newcastle en þar lét hann einnig ljós sitt skína á árunum 1983 til 1987. Souness hefði betur átt að halda Beardsley hjá Liverpool frekar en að láta hann frá sér, eins og frábær frammistaða hans næstu sex ár á eftir sýndi glögglega.
https://www.youtube.com/watch?v=uBlha9_fxRE
Cantona í Sheffield – Fékk ekki samning!
Árið er 1992 og það er janúar. Trevor Francis, knattspyrnustjóri Sheffield Wednesday, var í vandræðum með liðið sitt og fékk hringingu frá gömlum umboðsmanni sínum, Dennis Roach. Úr varð að franskur vandræðagemsi, Eric Cantona, mætti til æfinga hjá Sheffield í þeirri von að fá samning. Hann æfði í tvo daga en Francis ákvað að bjóða honum ekki samning. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík enda átti Cantona eftir að verða goðsögn á Englandi. Francis hefur varið þessa ákvörðun sína og sagt að ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun hafi verið aðrar en þær að hann hafi ekki talið Cantona nægilega góðan leikmann. Ein helsta ástæðan hafi verið sú að slæmt veður hafi gert það að verkum að ekki var hægt að æfa á grasi. Í staðinn þurfti að fara með leikmenn inn í íþróttahús og láta þá hlaupa og gera tækniæfingar. Cantona hafi ekki sýnt neitt sem hafi kallað á samning. Auk þess hafi ýmislegt úr fortíð Cantona í Frakklandi, þar sem hann fékk ítrekað rauð spjöld, ekki verið til þess að styrkja skyndiákvörðun. Í ljósi þess að Cantona varð goðsögn með frammistöðu sinni hjá Leeds og Manchester United, eftir að Francis hafði neitað honum um samning, verður að segja alveg eins og er, að það var algjörlega óverjandi fyrir félag eins og Sheffield Wednesday að semja ekki við Cantona án þess að þurfa að greiða neitt fyrir hann. Trevor Francis hefur engar afsakanir. Alveg ægilega afdrifarík mistök.
https://www.youtube.com/watch?v=r8vnfUrXcdk
Frank Lampard færði sig til í London
Ítalinn Claudio Ranieri stýrði liði Chelsea árið 2001 og ákvað að kaupa ungan enskan miðjumann frá West Ham United, Frank Lampard, fyrir tíu milljónir punda. Sumum þótti þetta alltof hár verðmiði, og má vafalítið deila um hvað er sanngjart í þeim efnum á hverjum tíma. En Frank Lampard átti eftir að sýna og sanna að þessi kaup hjá Ranieri væru ekki bara rétt heldur afdrifarík fyrir sögu Chelsea. Lampard er án nokkurs vafa einn allra besti leikmaður í sögu Chelsea og var hann lykilmaður í uppgangi Chelsea og á tímabilunum þar sem deildarmeistaratitillinn vannst þegar hann lék með félaginu. Ótrúleg tölfræði hans þegar kemur að markaskorun segir sína sögu. Hann er markahæsti leikmaður í sögu Chelsea með 211 mörk í öllum keppnum, og markahæsti miðjumaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Ranieri getur ekki verið stoltur af öllu á sínum ferli hjá Chelsea, en í maí á þessu ári sagði hann í viðtali við Sky Sports að Lampard væri besti leikmaður sem hann hefði þjálfað á löngum ferli. Ekki Totti. Ekki Zola. Ekki Batistuta. Ekki Del Piero. Heldur Lampard.
https://www.youtube.com/watch?v=JtiJ-COs6Fc
Henry kom sá og sigraði
Thierry Henry var mest notaður á hægri kantinum hjá Juventus og fann sig aldrei þar almennilega. Arsene Wenger, sem þjálfaði hann þegar hann steig sín fyrstu skref hjá Mónakó, vissi af hæfileikum þessa frábæra leikmanns en taldi best að nota hann í framlínunni. Hann sló til og keypti hann á ellefu milljónir punda árið 1999. Nánast um leið og hann steig fæti inn á knattspyrnuvöll í Arsenal búningnum varð ljóst að Wenger hafði tekið adrifaríka ákvörðun fyrir félagið með því að fá Henry til félagsins. Hann blómstraði í framlínunni við hliðina á hinum frábæra Dennis Bergkamp, vann titla og var óstöðvandi, einkum á árunum 2001 til 2005. Henry lék með Arsenal í átta ár og skoraði samtals 224 mörk í 377 leikjum og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Hann fór til Barcelona árið 2007 og lék þar til ársins 2010, áður en hann flutti til New York til að spila með NY Red Bulls. Hann lagði skóna endanlega á hilluna í fyrra.
https://www.youtube.com/watch?v=0ejI30Yx6UA
Írinn ungi sem breyttist í fótboltaafl
Goðsögnin Brian Clough gaf Roy Keane fyrst tækifæri þegar hann kom inn á gegn Liverpool á Anfield Road með Nottingham Forrest árið 1990. Hann kallaði á hann á hliðarlínunni; „Come here, Irish boy“ og sagði honum að láta finna fyrir sér. Það gerði hann og leit aldrei til baka á ferlinum eftir þetta, ef svo má að orði komast. Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sá leiðtogahæfileika í Keane og keypti hann fyrir metfé, 3,75 milljónir punda, árið 1993. Ekki var augljóst að Keane myndi komast í byrjunarlið Man. Utd. þar sem fyrir voru Paul Ince og Bryan Robson á miðri miðjunni. En fljótlega varð ljóst að Keane átti eftir að taka völdin og verða hálfgert fótboltaafl, svo magnaður sigurvegari var hann. Frá árinu 1997 var hann fyrirliði Manchester United á einu mesta blómaskeiði í sögu félagsins. Hann hætti hjá félaginu 2005, eftir deilur við Ferguson og fór til Celtic í Skotlandi þar sem hann lauk ferli sínum sem leikmaður ári síðar. Á tólf árum hjá Manchester United varð hann sjö sinnum Englandsmeistari og vann samtals þrettán titla. Þegar Keane lék sem best virtist hann vera í flestum stöðum á vellinum. Slík var yfirferðin og vinnusemin í þessum klóka og frábæra knattspyrnumanni. Alex Ferguson veðjaði á réttan hest þegar hann keypti Keane ungan að árum og lét hann bera fyrirliðabandið.
https://www.youtube.com/watch?v=Mlc5D8E4irM
Ungur Portúgali lék sér að John O‘Shea og var keyptur
Cristiano Ronaldo var átján ára gamall þegar Alex Ferguson ákvað að kaupa hann til Manchester United. Meginástæðan fyrir því að hann ákvað að slá til og kaupa þennan unga og efnilega Portúgala var frammistaða hans í æfingaleik gegn Sporting frá Lissabon, þar sem Ronaldo var í aðalhlutverki. Írinn John O´Shea var í því að dekka hann lengst af leik og mátti sín lítils gegn hraða og tækni Ronaldo. Strax í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni, gegn Bolton 16. ágúst 2003, sló Ronaldo í gegn. Hann spilaði í rúman hálftíma og tætti varnarmenn Bolton í sig með frábærum tilþrifum. Árin á eftir átti það eftir að verða venjan hjá honum í búningi Manchester United að gera andstæðingunum lífið leitt. Eftir sex ár var hann seldur fyrir metfé til Real Madrid þar sem hann hefur haldið áfram að raða inn mörkum og vinna titla. Hann hefur auk þess í þrígang verið valinn leikmaður ársins hjá FIFA, sem er eitthvað sem enginn annar leikmaður sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni hefur náð að afreka. Líklega mun Ronaldo fara í sögubækur enskrar knattspyrnu sem einn allra besti, ef ekki besti, leikmaður sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni.
https://www.youtube.com/watch?v=m2ha1a74hm8
Skapbráður Frakki færði ungum mönnum sjálfstraust
Árið 1992 hafði Leeds United betur gegn Manchester United í baráttu um enska meistaratitilinn. Þó margir góðir leikmenn hafi leikið með Leeds þá reyndist Frakkinn Eric Cantona drjúgur fyrir þessa erkifjendur og nágranna Man. Utd. Alex Ferguson greip tækifæri sem honum bauðst, sumarið 1992, og keypti Cantona til Man. Utd. fyrir 1,2 milljónir punda. Þrátt fyrir að hann haf leikið stórt hlutverk í liði Leeds þá taldi Howard Wilkinson að hann hefði ekki not fyrir hann áfram. Ferguson heillaðist af hinum óútreiknanlega Cantona og taldi að hann gæti veitt ungum leikmönnum liðsins innblástur með óútreiknanlegum hæfileikum sínum og sjálfstrausti. Þrátt fyrir agavandamál, meðal annars tíð ásetningsbrot og hreint og klárt ofbeldi (réðst á áhorfanda gegn Crystal Palace 25. janúar 1995 og hlaut níu mánaða keppnisbann fyrir), þá reyndust kaupin á Cantona gríðarlega afdrifarík fyrir ungt lið Manchester United sem var í mótun á þessum tíma. Titlarnir komu á færibandi strax frá hans fyrsta tímabili og oftar en ekki var það Cantona, með snilli sinni og útsjónarsemi, sem gerði gæfumuninn, oft á síðustu stundu í mikilvægustu leikjunum. Það sem verður líka að teljast óvenjulegt var hversu mikið traust Ferguson sýndi þessum skapbráða Frakka. En það sýnir kannski öðru fremur hversu mikla og óvenjulega hæfileika hann hafði.
https://www.youtube.com/watch?v=r7RMfj4WRRw
Krakkaliðið sem tók við keflinu
Skotinn Alan Hansen, sem var varnarklettur í sigursælu liði Liverpool á níunda áratug síðustu aldar, lét hafa eftir sér í beinni útsendingu í sjónvarpi, eftir að Man. Utd. tapaði gegn Aston Villa 3-1 haustið 1995, að það væri ekki hægt að vinna ensku deildina með krakka í liðinu. („You don´t win anything with kids“). Vísaði hann þar til þess að ungir leikmenn Man. Utd., undir stjórn Alex Ferguson, virtust ekki tilbúnir til þess að halda sigurkyndlinum á lofti. Í sjálfu sér var þetta ekki endilega galin yfirlýsing hjá Hansen, á þeim tímapunkti sem hún kom úr munni hans, en óhætt er að segja að hann hafi ekki verið að greina stöðuna rétt miðað við það sem á eftir fór. Ferguson tók mikla áhættu með því að veðja á unga leikmenn í bland við eldri, ekki síst Frakkann Cantona. Roy Keane, David Beckham, Paul Scholes, Andy Cole, Nicky Butt, Gary Neville, Phil Neville og Ryan Giggs töldust allir til ungra leikmanna, sem þó voru með mikla leikreynslu. Giggs var til dæmis búinn að vera lykilmaður frá því árið 1991 en var þó, tæplega fjórum árum síðar, aðeins tæplega 22 ára gamall (Hann lék í 23 ár með Man. Utd. Hætti vorið 2014!), og Roy Keane var einnig búinn að stimpla sig inn í liðið sem lykilmaður. En þrátt fyrir þetta var ekki augljóst að þetta unga lið gæti farið alla leið og unnið. Það var það sem gerðist og eftir fylgdi langt sigurtímabil þar sem „krakkarnir“ voru kjarninn sem allt snérist um og var aldrei haggað, þó leikmenn kæmu og færu.
https://www.youtube.com/watch?v=3Es-RIBnba8