Fimmta maí síðastliðinn sýndi danska sjónvarpsstöðin TV2 heimildaþáttinn Herlufsholms Hemmeligheder, Leyndarmál Herlufsholms. Þátturinn vakti gríðarlega athygli og skólinn, og málefni hans, hafa síðan nánast daglega verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Herlufsholm skólinn er aldagömul stofnun, hann er elsti og stærsti heimavistarskóli í Danmörku og saga hans nær aftur til ársins 1565. Saga staðarins er þó mun eldri en árið 1135 var þar stofnað munkaklaustur. Árið 1140 gaf Eríkur III konungur (Erik Lam) út sérstakt bréf þar sem kveðið var á um ýmis konar réttindi til handa klaustrinu, sem gekk undir nafninu Skovkloster. Bréfið er enn til og er elsta varðveitta handskrifaða skjal sem vitað er um í Danmörku. Á tímum siðaskiptanna 1536 lagði kóngurinn, sem þá var Kristján III. undir sig klaustrið og landareignina. Munkarnir fengu þó leyfi til að vera áfram í klaustrinu en þeir síðustu fluttu burt árið 1559.
Makaskipti og stofnun skóla
Eftir að munkarnir fluttu burtu bauð kóngurinn, Friðrik II hjónunum Herluf Trolle og Birgitte Gøye klaustrið í makaskiptum fyrir Hillerødsholm, landsvæði á Norður- Sjálandi. Þar reis síðar höllin Frederiksborg.
Hjónin Herluf og Birgitte höfðu ákveðið að stofna skóla og eftir makaskiptin við kónginn hófu þau undirbúning. Skólinn, sem fékk nafnið Herlufsholm, tók til starfa árið 1565 eins og áður sagði. Herluf sem var yfirforingi í flota danakonungs lést skömmu áður en skólinn tók til starfa en hann hafði særst alvarlega í sjóorrustu gegn Svíum á Eystrasalti fyrr á þessu sama ári. Birgitte varð fyrsti skólastjóri hins nýstofnaða skóla, sem ætlaður var „adelige og andre ærlige mænds børn“. Vel að merkja einungis drengjum.
Rúmt er um skólann og byggingarnar sem honum tilheyra en landareignin er um það bil 1050 hektarar, mestur hluti þess svæðis skógi vaxinn.
Margt breytt en jafnframt haldið í hefðir
Í upphafi var Herlufsholm eingöngu heimavistarskóli, piltarnir bjuggu allir á heimavistinni. Í dag er skólinn heimavistar- og dagskóli og nemendur um 600. Um það bil helmingur þeirra býr á heimavistinni. Árið 1966, þegar skólinn hafði starfað í rúm 400 ár, fengu stúlkur aðgang og árið 1985 fengu þær leyfi til að búa á heimavistinni.
Yngstu nemendur eru 13 til 14 ára, sem sé enn í grunnskóla en að loknu grunnskólaprófi geta þeir haldið áfram og lokið stúdentsprófi, að jafnaði 18 ára gamlir.
Þótt margt hafi breyst frá því skólinn hóf starfsemi er samt mörgum gömlum hefðum fylgt. Nemendum er gert að klæðast skólabúningum, litirnir eru tveir, dökkblár og dökkgrár. Áður fyrr urðu piltar að vera í jökkum í kennslustundum og matsal, en það er ekki lengur skylda. Stúlkur geta valið um buxur eða pils og jakka eða peysur.
Við sérstök tækifæri, árshátíð og þess háttar gilda strangar og ákveðnar reglur um klæðaburð
Meðal þess sem telst til gamalla hefða við skólann eru hinir svonefndu svefnsalir, í hverjum skála sofa 20 – 30 nemendur. Langflestir hafa reyndar lítið vinnuherbergi til einkaafnota en þar má ekki sofa.
Skóli útvalinna og ríkra
Það hefur löngum þótt sérstakur gæða- og virðingarstimpill að hafa setið í Herlufsholmskólanum. Þar hafa margir þekktir Danir, af báðum kynjum stundað nám gegnum tíðina. Námið er dýrt, árlegt skólagjald fyrir nemanda sem býr á heimavistinni samsvarar um það bil 4,3 milljónum íslenskra króna og þar við bætist ýmis kostnaður.
Glansmyndir og skuggahliðar
Á undanförnum árum hafa verið gerðir fjölmargir sjónvarps- og útvarpsþættir um Herlufsholm og lífið þar. Sú mynd sem þar hefur verið dregin upp hefur lang oftast verið mjög jákvæð og það er jafnframt sú ímynd sem skólinn hefur almennt haft í hugum Dana. Þarna væri eftirsóknarvert að stunda nám, skólabragurinn allur annar og betri en í flestum öðrum skólum. Námið væri góð undirstaða hvaða leið sem nemendur veldu.
En, engin er rós án þyrna og í heimildaþættinum „Herlufsholms Hemmeligheder“ var dregin upp önnur, og dekkri, mynd af lífinu í þessum þekkta skóla.
Ekki er ofmælt að þátturinn hafi vakið mikla athygli í Danmörku. Þáttagerðarfólkið hafði kafað djúpt og lagt mikla vinnu í verkið, vitandi að öllu skipti að farið væri rétt með og á bak við allt sem fram kæmi væru pottþéttar upplýsingar. Það hefur enda sýnt sig að enginn hefur reynt að halda því fram að það sem fram kom í þættinum væri ekki allt sannleikanum samkvæmt.
Einelti, kynferðisleg áreitni og margs konar ofbeldi virðist hafa viðgengist í skólanum um árabil, kannski um aldir. Svo virðist sem enginn af stjórnendum skólans hafi hreyft hönd né fót til að sporna gegn því sem tíðkaðist í skólanum, þótt margir hafi vitað af ástandinu. Eldri nemendur undirokuðu þá yngri og létu þá þjóna sér að vild.
Fyrst var rektorinn látinn fjúka og svo stjórnin
Tveimur dögum eftir að fyrrnefndur þáttur var sýndur í sjónvarpi var rektorinn látinn fjúka. Sérstök eftirlitsnefnd sem starfar á vegum menntamálayfirvalda hafði, fyrir mörgum mánuðum, fengið veður af gerð sjónvarpsþáttarins og hóf þá rannsókn á skólastarfinu. Drög að skýrslu nefndarinnar voru gerð opinber fyrir nokkrum dögum og þar var allt staðfest sem komið hafði fram í sjónvarpsþættinum. Í framhaldi af þessu sagði skólanefndin af sér. Fram hefur komið að líklegt sé að árlegur styrkur sem skólinn hefur fengið frá ríkinu verði felldur niður, að minnsta kosti tímabundið, en hann skiptir verulegu máli fyrir reksturinn.
Nýr yfirmaður skólans er Jon Stokholm, fyrrverandi hæstaréttardómari. Hann sagði í viðtali mikið verk fyrir höndum að vinna úr málum skólans og endurreisa orðspor hans. Hann nefndi sérstaklega svefnskálana og að kannski væri rétt að leggja þá af. Það yrði skoðað nánar. Honum hefur verið falið að velja og skipa nýja skólanefnd.
Krónprinsparið hikandi
Athygli danskra fjölmiðla vegna þessa máls hefur ekki hvað síst beint að Friðriki krónprins og Mary. Elsta barn þeirra hjóna, Christian (f. 2005) hóf nám í fyrsta bekk framhaldsskólans á Herlufsholm haustið 2021 og áformað var að hann héldi þar áfram námi í haust. Tilkynnt hafði verið að systir hans Isabella (f. 2007) hæfi þar nám í haust. Fjölmiðlar veltu því fyrir sér, strax eftir sýningu þáttarins um leyndarmál Herlufsholms, hvort Christian yrði áfram í skólanum og hvort Isabella myndi setjast þar á skólabekk í haust. Fjölmiðlar rifjuðu upp, trekk í trekk, að Mary krónprinsessa hefði í orði og verki lagt mikla áherslu á málefni barna, einkum baráttu gegn einelti. Friðrik og Mary voru fyrst í stað hikandi og vildu ekki svara neinu varðandi framtíð barna sinna á Herlufsholm. Sögðu að þetta væri sorglegt mál og að breytingar til úrbóta væru óhjákvæmilegar.
Fyrir viku, 26. júní tilkynntu þau Friðrik og Mary að börn þeirra, þau Christian og Isabella, myndu ekki setjast á skólabekk í Herlufsholm í haust. Einn danskur blaðamaður sagði ákvörðunina óhjákvæmilega. Það væri ennfremur gott fyrir þau Christian og Isabellu að kynnast „venjulegum“ unglingum, nemendur á Herlufsholm væru ekki dæmigerðir danskir unglingar.
Ekkert hefur komið fram um það í hvaða skóla systkinin fara í haust.
Þess má geta að hvorki Friðrik krónprins né Jóakim bróðir hans stunduðu nám á Herlufsholm en Nikolaj elsta barn Jóakims (f.1999) stundaði þar nám og útskrifaðaðist sem stúdent árið 2018.