Það besta sem gat komið fyrir hinn 59 ára gamla John A. Paulson var allsherjarhrun fjármálamarkaða og fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum frá 2007 til 2009. Þá breytti hann eignum sem voru innan við 50 milljónir Bandaríkjadala í 20 milljarða dala og gerðu hann að einum ríkasta manni í heimi. Bókin, Greatest Trade Ever, sem blaðamaður Wall Street Journal, Gregory Zuckerman, skrifar, rekur þá ótrúlegu sögu. Í stuttu máli veðjaði Paulson, með hjálp vinar síns og skólafélaga Paolo Pellegrini, að fasteignaverð myndi hrynja og að vanskil myndu hrannast upp í kerfinu með þeim afleiðingum að skuldabréfavafningar yrðu verðlausir. Þetta gekk eftir, og bæði Paulson og Pellegrini, sem er doktor í stærðfræði, urðu moldríkir. Pellegrini rekur nú sjóðinn PSQR en John Paulson er með víðtæka eignastýringarþjónustu í nokkrum sjóðum en félag hans Paulson & Co. Inc. er stærst og móðurfélag flestra sjóðanna.
Erfiðleikar hjá Paulson
Í gær var frá því greint að viðskiptavinir Bank of America Merril Lynch hefðu ákveðið að yfirgefa sjóði Paulson vegna slæmrar ávöxtunar í fyrra, og erfiðleika það sem af er ári. Samtals hafa nú þegar verið teknir 81 milljónir Bandaríkjadala úr sjóðum Paulson, en heildarstærð þeirra var um tveir milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 265 milljörðum króna. Þó 81 milljón Bandaríkjadala af tveggja milljarða dala sjóði virki ekki mikið, þá eru það skilaboðin sem risabankinn er að senda út á markaðinn sem eru alvarlegustu tíðindin fyrir Paulson. Nú standa eftirsóttustu viðskiptavinir sjóða í New York ekki lengur í biðröðum eftir því að komast með fé sitt til Paulson til ávöxtunar. Eftir að fréttir spurðust út af ótrúlegu veðmáli hans þegar fjármálamarkaðir hrundu, var það reyndin. Hann gat valið fjárfesta til að vinna með.
En síðustu tvö árin hafa verið erfið. Áhættusæknar fjárfestingar í heilbrigðistengdri nýsköpun hafa ekki skilað sér til baka, og þá hafa stöðutökur sjóða hans í hlutabréfum heldur ekki verið að skila árangri. Eignir eru nú metnar á 11,2 milljarða Bandaríkjadala en voru þegar best lét ríflega 30 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um fjögur þúsund milljörðum króna.
Þrátt fyrir allt er Paulson enn með áhrifameiri fjárfestum í New York. Hann velur fífldjarfa áhættusækni í mörgum sínum sjóðum og fjárfestar sem leggja honum til fé sitt vita það mæta vel. Allt getur tapast en ef veðmálin ganga upp þá er ávöxtunarmöguleikinn gríðarlegur.
Wall Street, helsta táknmynd markaða í New York. Fjárfestar sem kenndir eru við meginstraum Wall Street eru ekki á sömu línu og Paulson, sem leitar uppi vandamál og reynir að græða á þeim. Mynd: EPA.
Fjárfesti á Íslandi, í Grikklandi og Púertó Ríkó
Sjóðir í stýringu hjá Paulson létur hrunið á Íslandi ekki framhjá sér fara og var sjóðurinn Paulson Credit Oportunities Master um tíma meðal stærstu eigenda krafna í slitabú Glitnis. Í desember 2014 seldi hann kröfur sínar sem voru að nafnvirði upp á 53 milljarða króna á þeim tíma.
Paulson hefur einnig verið með fjárfestingar í gangi á öðrum stöðum þar sem erfiðleikar hafa verið fyrir hendi og nú síðast í Grikklandi. Sjóður sem þar hefur fjárfest fyrir háar fjárhæðir, Special Situations Fund, skilaði neikvæðri ávöxtun upp á 3,8 prósent í júní síðastliðnum og virðist sem Paulson hafi verið að veðja á aðra útkomu úr viðræðum Grikkja við kröfuhafa en reyndin varð. Sjóðurinn er næst stærsti hluthafinn í Piraeus Bank Group á eftir gríska ríkinu og hefur einfaldlega upplifað algjört hrun á markaðsvirði bankans og erfiðleika við fjármögnun. Þá keypti sjóðurinn einnig hluti í fyrirtækjunum Athens Water Supply and Sewerage Company, sem framleiðir vatn eins og nafnið gefur til kynna. Samtals námu þessar fjárfestingar 137 milljónum Bandaríkjadala. Markaðsvirðið hefur hrunið, og mikið fé tapast á skömmum tíma. En Paulson hefur sjálfur beðið fjárfesta um þolinmæði, ekki séu öll kurl komin til grafar ennþá í Grikklandi.
Nýleg kaup hans á opinberum skuldum Púertó Ríkó, sem á í miklum erfiðleikum þessa dagana, sýna enn fremur að Paulson vill helst vera þar sem vandamálin eru stór og mikil. Kaup sjóða hans á kröfum upp á 120 milljónir Bandaríkjadala er enn ein staðfesting á því.
Gefur ótrúlegar upphæðir til góðgerðarmála
Í maí síðastliðnum sendi Paulson bréf til verkfræðideildar Harvard háskóla og sagðist hafa áhuga því styrkja deildina. Síðan fylgdi annað bréf þar sem hann sagðist vilja gefa deildinni 400 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 60 milljarða króna, sem er stærsta gjöf sem skólinn hefur nokkurn tímann fengið. Fyrstu viðbrögð skólans voru hikandi, vegna þess að þetta birtist eins og þruma úr heiðskíru lofti. En eftir nokkrar umræður, þar sem gjöfin var gagnrýnd meðal annars vegna þess að hún þótti það stór að hún gæti búið til þá ímynd að Harvard væri til sölu, þá sagði skólinn já.
Í febrúar 2012 kom svipað bréf frá Paulson til almenningsgarða félags New York borgar, sem styður við uppbyggingu almenningsgarða, þar á meðal kennitáknsins glæsilega Central Park. Paulson sagðist vilja styrkja uppbyggingu garðsins og stuðla að verndun hans. (Myndin hér að neðan sýnir börn að leik í Central Park, sem Paulson vill að verði verndaður alveg, og mikill peningur settur í almennt viðhald. Blaðamaður fór þangað með syni sínum á dögunum, sem valdi að vera í vatninu í hitanum, öðru fremur).
Í byrjun ágústmánaðar bárust svo fréttir af því að Paulson hefði ákveðið að styrkja Success Academy skólann um 8,5 milljónir Bandaríkjadala, og hafa þær fréttir leitt til gagnrýni á skólann fyrir að taka við peningunum, nú síðast í dag.
Lawmakers slam @MoskowitzEva over $8.5M from #JohnPaulson http://t.co/hg6BpPW9fQ #NYC #newyork #education #PuertoRicoCrisis #puertorico
— Miles Trager (@TragerUFT) August 6, 2015
Er Paulson með plan?
Erfiðleikarnir hjá John Paulson vekja upp spurningar. Er hann með plan, þar sem ávöxtunin gæti komið hratt til baka ef markaðsaðstæður breytast? Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér? Að hluta er þetta óráðið, enda er hann frægur fyrir að sýna ekki of mikið á spilin heldur frekar reyna að fá fjárfesta til þess að treysta sér fyrir peningunum sínum, með vitund um að veðmálin geti farið vel og illa. Þessi tæplega sextugi fjárfestir, sem hefur BA prófum í klassískum vísindum frá New York University og MBA próf frá Harvard, hefur sýnt það áður að hann fer sínar eigin leiðir í stað þess að elta meginstrauminn á Wall Street. Þó hann sé kominn upp við vegg núna, þýðir ekki endilega að hann viti ekki hvað hann er að gera.