Ásdís Hlökk Theodórsdóttir lét af störfum sem forstjóri Skipulagsstofnunar fyrr á árinu, en hefur þó ekki sagt skilið við skipulagsmálin, heldur fært sig yfir í kennslu og fræðastörf á því sviði við Háskóla Íslands. Þar er hún að fara af stað með rannsóknarverkefni á því sem hún kallar „faglegt og stjórnsýslulegt bolmagn sveitarfélaga í skipulagsmálum“.
Í samtali við Kjarnann um skipulagsmál á Íslandi segir Ásdís Hlökk að í íslenskri stjórnsýslu hafi sveitarfélögum verið veitt mikið forræði á skipulagsmálum á sama tíma og þau sé „ótrúlega mörg“ og sum „ótrúlega smá“ og því eðli málsins samkvæmt með fámenna stjórnsýslu. Þarna séu „augljóslega ákveðnir veikleikar og brotalamir“.
„Það gefur auga leið í mínum huga, en ég ætla svo sem ekki að hafa um það stærri orð á þessu stigi, heldur leyfa rannsókninni að hafa sinn gang“ segir Ásdís Hlökk.
Langtímahugsun var henni ofarlega í huga þegar hún settist niður með blaðamanni í aðdraganda jóla til þess að ræða um skipulagsmál á Íslandi og þær áskoranir sem ætíð er glímt við á því sviði, að tryggja gæði byggðar og góða landnýtingu; að búa í haginn fyrir samfélag framtíðarinnar.
Ásdís Hlökk segir fegurðina við skipulagsmálin í hennar huga vera að í þeim málaflokki er ávallt verið að skoða hlutina með samþættum hætti, fremur en að beina athygli að einungis einum málaflokki í einu. Við skipulagsgerð er maður „alltaf í þessum vangaveltum um samspil byggðar, náttúru, orku, samgangna landbúnaðar og svo framvegis,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að það veiti gott tækifæri til að skapa samþættan ávinning.
Það er mikilvægt, segir hún, „því hættan er ávallt sú þegar þú ert að vinna áætlanir um einn málaflokk að þá sértu með markmið þess málaflokks í forgrunni og annað mæti afgangi. „Ef þú ert að vinna að skógræktaráætlun þá hugsar þú hvar er besta landið til að rækta skóg án þess kannski að gefa öðrum hagsmunum sérstakan gaum og jafnvel þegar þú ert að vinna samgönguáætlun þá, jafnvel þó samgöngur hafi þann eina tilgang að þjóna fólkinu í byggðinni og samfélaginu, þá virðist tilhneigingin á stundum verða að hugsa um samgöngumannvirkin á forsendum samgöngumannvirkjanna,“ segir Ásdís Hlökk.
Fengur þegar stjórnmálamenn með skýra sýn veljast inn
„Langtímahugsunin, hún er náttúrlega alfa og ómega í skipulagsmálum,“ segir Ásdís Hlökk einnig, en bætir við að það kallist að einhverju leyti á við það að ákvarðanataka í málaflokknum er falin lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum, sem við veljum og veitum umboð á fjögurra ára fresti.
„Það getur verið kúnst, og það er alltaf mikill fengur þegar það veljast inn stjórnmálamenn sem hafa skýrar hugmyndir og sýn um hið byggða umhverfi og landnýtingu og hafa bakland, þroska og kjark til að setja markið svolítið langt inn í framtíðina en hugsa ekki bara um ákvarðanir og uppbyggingu morgundagsins,“ segir Ásdís Hlökk og bendir á að þrátt fyrir að lagarammi skipulagsmála í dag skyldi sveitarfélög til þess að gera skipulagsáætlanir til 12 ára, sé alltaf nauðsynlegt að horfa til enn lengri tíma.
Spurð hvort Íslendingar hafi verið heppnir, og fengið inn í stjórnmálin fólk sem einmitt horfi til lengri tíma, segir Ásdís Hlökk að svo sé að einhverju leyti.
„Maður sér það gjarnan með sveitarstjórnarfólk, að það kemur inn í sveitarstjórn algjörlega ókunnugt skipulagsmálum en áttar sig fljótt á því á setu sinni þar hvað þetta er mikill grundvallar málaflokkur fyrir þróun viðkomandi byggðarlags og samfélags. En svo er misjafnt hvað fólk dvelur lengi á þeim vettvangi, við sjáum allt spektrúmið, frá fólki sem staldrar stutt við og hefur litla innsýn og áhuga og yfir í fólk sem virkilega hellir sér í þennan málaflokk, kynnir sér hann vel og hefur gott fagfólk sér til ráðuneytis og skýra sýn,“ segir Ásdís Hlökk og nefnir að þróun undanfarinna ára á höfuðborgarsvæðinu, með svæðisskipulagi þess, sé gott dæmi um verkefni þar sem langtímasýn hafi verið höfð að leiðarljósi.
„Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem er ramminn um alla uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar og var unnið á árunum 2013 til 2015, það horfir 25 ár fram í tímann og kannski í rauninni lengra. Það er dæmi um skipulagsvinnu hérlendis þar sem er unnið af faglegum metnaði og þekkingu og það myndast skýr pólitísk sýn um að hverju skuli stefnt og það liggja fyrir góðar og traustar greiningar til grundvallar því að ákveða að taka þessa línu um þróun byggðar og samgangna og umhverfismótun á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að við eigum svona mjög farsæl dæmi og við eigum líka síður farsæl dæmi,“ segir Ásdís Hlökk.
Blaðamaður getur ekki stillt sig um að reyna að kalla fram þau dæmi sem Ásdís Hlökk telur síður farsæl.
„Ég veit ekki hvort maður á að vera beinlínis að nefna þau. En auðvitað eru aðstæður gríðarlega ólíkar og Reykjavíkurborg til dæmis er með burðugan skipulagskontór, stórt embættismannabatterí og fjölmenna borgarstjórn þar sem eru stjórnmálamenn sem hafa það að atvinnu að sinna þessu verki, en svo erum við með örsveitarfélög þar sem er nánast þegnskylda og sjálfboðastarf að sitja í sveitarstjórn og mjög takmarkaður faglegur stuðningur og styrkur,“ segir Ásdís Hlökk.
Spurð hvort hætta sé á að mikill aðstöðumunur, eða valdaójafnvægi, verði á milli framkvæmdaaðila sem vilja ráðast í einhver tiltekin verkefni og stjórnvaldsins sem fer með skipulagsvaldið, þá sér í lagi í minni sveitarfélögum, segir Ásdís Hlökk að svo geti verið, en það snúist líka um skilning sveitarstjórnarfólks á þeirra hlutverki.
„Maður heyrir stundum á sveitarstjórnarfólki að það skilgreinir það ekki sem sitt hlutverk að setja fram sýnina og leiða þróun viðkomandi samfélags, heldur lítur meira á sig sem afgreiðsluapparat fyrir uppbyggingaráform viðkomandi landeigenda eða uppbyggingaraðila. Auðvitað geta landeigendur og þróunaraðilar verið gríðarlega mikilvægur drifkraftur í þróun landnýtingar og byggðar en, eðli málsins samkvæmt, eru þeir líka líklegir til að setja fram hugmyndir út frá eigin hag frekar en almannahag. Þess vegna eru skipulagskerfi eins og þau eru, það er falið lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum að leiða þessa þróun. Maður verður svolítið áskynja þessa skilnings í fámennari samfélögum, sem er kannski einhverskonar sjálfsbjargarviðleitni,“ segir Ásdís Hlökk.
Enn eimi af gömlum venjum hjá stórum opinberum aðilum
Hún bætir því þó við að hið sama geti gilt um mun fjölmennari samfélög, bæði hérlendis erlendis. „Þungavigtaraðilar geta haft óeðlilega mikil áhrif á gang mála, í krafti fjármagns, eignarhalds á landi, þekkingar, pólitískra áhrifa eða einhverrar blöndu af þessu. Við sjáum einhverja birtingarmynd þessa iðulega í skipulagsmálum hér á landi og aðstöðumunurinn getur verið meira sláandi og áberandi í fámennari samfélögum en fjölmennari.“
„En það er líka vert að hafa í huga að hluti af þessari mynd snýst ekki bara um það sem við erum að horfa á venjulega, þ.e. byggingarfélögin, þróunarfélögin, stóriðjuna eða núna vindorkufyrirtækin sem eru að koma inn á þetta svið, heldur eru þetta líka opinberu aðilarnir. Við erum með stóra öfluga opinbera framkvæmdaaðila, Vegagerðina, Landsnet, Landsvirkjun, Isavia, og það getur líka verið mikill aðstöðu- og beinn eða óbeinn valdamunur á milli sveitarfélagsins sem er skipulagsyfirvaldið í héraði og þessara framkvæmdaaðila og þá skiptir máli hvernig þeir fara fram,“ segir Ásdís Hlökk.
Eru þess einhver dæmi að þessir opinberu aðilar hafi jafnvel farið fram með einhverju offorsi gagnvart sveitarfélögum?
„Ef við skoðum söguna þá tel ég að það hafi áreiðanlega verið þannig. Þegar ég byrjaði að starfa sem ungur sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun fyrir aldamót, þá náði ég aðeins í skottið á „gamla tímanum“. Á þeim tíma voru til dæmis ekki til neinar formlegar leyfisveitingar sveitarfélaga fyrir framkvæmdum á borð við vegi, raflínur og virkjanir. Þá voru þessir aðilar svolítið bara ríki í ríkinu og maður hafði á tilfinningunni að þetta væru nánast eins og tilkynningar um hvað stæði til að gera varðandi stórar innviðaframkvæmdir, fremur en samráð við nærsamfélagið og sveitarfélögin, hvað þá umsóknir um leyfi,“ segir Ásdís Hlökk, en nefnir að þegar horft sé yfir síðustu áratugi hafi orðið menningarbreyting í skipulagsmálum, yfir til samráðs og samtals og að ná sátt og samkomulagi um það sem áformað er að gera.
„Á þessum tíma hefur líka umhverfismatið komið til og ríkari áhersla orðið á að láta mat á áhrifum á umhverfi og samfélag hafa áhrif á og ráða niðurstöðu um útfærslu uppbyggingar og innviða. Þessir stóru aðilar, ég held að það sé alveg hægt að segja það, án þess að á nokkurn sé hallað, að þeir hafi verið svolítið seinir til að tileinka sér þessi nýju vinnubrögð.“
Eimir enn af gömlu menningunni?
„Það gerir það eitthvað,“ segir Ásdís Hlökk og segir það spila saman við hugmyndaþróun í skipulagsmálum um allan heim, „til meira samráðs, meiri meðvitundar um umhverfisáhrif og meiri fagmennsku í skipulagsgerð“ og að á sama tíma hafi líka orðið hugmyndafræðilegar breytingar um það í hverju gæði byggðar felast.
„Við erum á þessum sama tíma að sjá módernismann með sína groddalegu innviði og „masculine“ nálgun á skipulag byggðar víkja fyrir öðrum manneskjulegri og mýkri áherslum í skipulagsmálum og þessar gömlu innviðastofnanir okkar hafa setið svolítið fast í þessari gömlu menningu og hafa verið svolítið lengi að þroskast frá henni,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að einhverju leyti gerist það með kynslóðaskiptum og fjölbreyttari hópi starfsfólks innan stofnana og hjá ráðgjafastofum.
Mismunur á gæðum byggðar endurspeglist takmarkað í verði
Gæði byggðar eru Ásdísi Hlökk ofarlega í huga, enda má segja að það sé kjarninn í skipulagsmálunum, að skapa góða umgjörð fyrir okkur mannfólkið. Mikil uppbygging húsnæðis hefur átt sér stað á undanförnum árum, bæði á uppbyggingarsvæðum í eldri hverfum höfuðborgarsvæðisins, sem og í jaðri höfuðborgarsvæðisins og svo í nágrannabyggðum þess.
Ásdís Hlökk segir að þessi uppbyggingarsvæði og nýju hverfi séu „mjög misjöfn að gæðum“ og að inn í það spili margar breytur, meðal annars sýn viðkomandi sveitarstjórnar, metnaður og styrkur þeirra fagaðila sem starfa fyrir viðkomandi sveitarfélag að skipulagsgerð og hönnun, hvernig aðkoma landeigenda og byggingarfélaga sé að verkefnum og fleira.
Spurð hvar hún telji að vel hafi tekist til og hvar síður segir Ásdís Hlökk að hún telji ekki skynsamlegt að alhæfa um það. „En gæðin eru, það er himinn á haf á milli og ég held að við sjáum það ekki að endurspeglast að öllu leyti í til dæmis verði. Það er verk að vinna í því að við sem borgarar séum læs á gæði í hinu byggða umhverfi. Auðvitað hljómar kannski hrokafullt að segja það, því við vitum hvert og eitt hvar okkur líður vel, en það er kannski ekki sjálfgefið að við áttum okkur á því út frá teikningum af nýju skipulagi eða einhverjum lýsingum á nýju hverfi, hvort það muni með tíð og tíma veita okkur gott umhverfi að búa í eða hvaða kröfur er réttmætt að gera til nýrrar byggðar. Það er kúnstin, þeir borgarar sem setjast í sveitarstjórnir og skipulagsnefndir, þeir þurfa að vera læsir á þessi gögn,“ segir Ásdís Hlökk.
Það er verk að vinna í því að við sem borgarar séum læs á gæði í hinu byggða umhverfi
„Það er alltaf auðveldara að tilgreina dæmi sem maður telur til fyrirmyndar en maður vill kannski síður gefa dóma um meinta tossa. En þar sem við sjáum unnið af miklum metnaði með nútímalegar áherslur og þverfagleg teymi og þar sem fléttað er saman áherslu á náttúrufar, byggð, samfélag, fagurfræði og svo framvegis, þar sjáum við bestu útkomuna verða til,“ segir Ásdís Hlökk og nefnir Nýja-Skerjafjörðinn í Vatnsmýrinni sem dæmi um svæði þar sem hún telur gæði byggðar verða mikil – „burt séð frá spurningum um Reykjavíkurflugvöll og rekstrarhæfi hans“.
„Það er skipulagsverkefni sem er mjög framsækið, gerir ráð fyrir þéttri byggð en er um leið hófstillt í hæðum húsa og massa og með áhugaverðar lausnir, blöndu af ólíku húsnæði og búsetuformum, skýrri áherslu á fjölbreytta ferðamáta og ekki með þessa bílastæðakjallara-nálgun sem við höfum setið svolítið uppi með í seinni tíð, heldur sameiginleg bílastæðahús sem mun veita miklu meiri möguleika á samnýtingu á stæðum og betri nýtingu. Það er mikil áhersla á bæjarrýmin og gæði þeirra, efnisnotkun og gróður. Þetta er hógvært skipulagsverkefni sem ég er mjög spennt að sjá verða að veruleika,“ segir Ásdís Hlökk.
Hún nefnir svo annað verkefni, Urriðaholtið í Garðabæ, með þeim fyrirvara að þar hafi hún „taugaenda“ sjálf eftir að hafa unnið að rammaskipulagi og fyrstu deiliskipulagsáföngum hverfisins á árunum 2005-2007.
„Þar er dæmi um jákvæð áhrif landeigenda. Þarna er land í einkaeigu þar sem landeigendurnir sýndu frumkvæði og voru tilbúnir að leggja í mikla fjárfestingu til þess að vanda til verka í framsæknu skipulagi svæðisins. Það breytir því ekki að svæðið er staðsett á jaðri byggðar og hefur ákveðnar takmarkanir þess vegna, en engu að síður var þarna mjög vandað til verka og settur saman feykilega hæfur hópur ráðgjafa og hönnuða sem komu víða að, erlendis frá líka. Það er eitthvað sem skiptir máli hér hjá okkur, í okkar fámenna samfélagi og með svona sérhæfða þekkingu sem skipulagsgerðin er, að við þurfum að gæta þess að sækja okkur þekkingu og reynslu annars staðar að og vera ekki alltaf í jafningjafræðslunni hvert með öðru. Það var bryddað upp á mörgum nýjungum í Urriðaholtsskipulaginu sem ég held að megi segja að hafi leitt umræðu og þróun á ákveðnum útfærslum á götum og bæjarrýmum og auðvitað sjálfbærum ofanvatnslausnum og fleiru sem hefur síðan seitlað inn í bransann og praxísinn í öðrum hverfum,“ segir Ásdís Hlökk.
„Svo er auðvitað margt sem manni finnst fólki hafa verið verulega mislagðar hendur með,“ segir Ásdís Hlökk, en neitar sem fyrr að nefna dæmi um það. Blaðamaður spyr þá hvort sú áhersla á hraða uppbyggingu húsnæðis, sem stundum er ráðandi í umræðunni um húsnæðisþörf landans, geti komið niður á gæðum byggðar.
„Já, það er þetta með hraðann, hann má ekki koma niður á gæðunum. Nú geri ég mér vel grein fyrir því að það er fólk sem er í húsnæðisþörf – en þetta er gjarnan alltof einhliða og þröng umræða og þörf fyrir hraðann og magnið á stundum spiluð upp,“ segir Ásdís Hlökk.
Talar fyrir sameiningu Skipulagsstofnunar og Byggðastofnunar
Eftir að hafa leitt Skipulagsstofnun sem forstjóri í níu ár þekkir Ásdís Hlökk innviði skipulagskerfisins á Íslandi eflaust betur en flestir. Við breytingar í Stjórnarráðinu við myndun ríkisstjórnar í lok árs 2021 færðist stofnunin undir hatt nýs innviðaráðuneytis, eftir að hafa áður heyrt undir umhverfisráðuneytið frá stofnun þess. Ásdís Hlökk segir skipulagsmálin vera þess eðlis að það sé sama hvar þau séu staðsett innan Stjórnarráðsins, þau muni alltaf þurfa að tengjast inn á málefni sem heyra undir önnur ráðuneyti, og það gildi jafnt nú sem áður. Nú þarf að mynda tengingar til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um loftslagsmál, orku og landslag svo dæmi sé tekið. Og sama mætti segja um matvælaráðuneytið varðandi landbúnað, skógrækt og fiskeldi.
Hugmyndir hafa stundum verið í umræðunni um sameiningu Skipulagsstofnunar og annarra stofnana og segir Ásdís Hlökk að Skipulagsstofnun, sem tiltölulega fámenn stofnun, sé sjálfgefið undir í þeirri almennu umræðu um sameiningu stofnana. Stofnunin þyrfti í reynd að vera töluvert stærri til þess að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað, en hjá Skipulagsstofnun starfa um þrjátíu manns.
„Það var auðvitað tekin þessi ákvörðun við myndun nýrrar ríkisstjórnar að færa málaflokk skipulagsmála yfir til nýs innviðaráðuneytis og á sama tíma komu húsnæðis- og mannvirkjamál frá félagsmálaráðuneytinu og eru þarna ásamt samgöngumálum, sveitarstjórnarmálum og byggðamálum. Það eitt og sér felur ekki í sér breytingar á stofnununum, en það hefur vaknað ákveðin umræða og vangaveltur um það hvort sameina eigi Skipulagsstofnun öðrum stofnunum undir nýju innviðaráðuneyti eða hvort að hún færist inn í eða nær ráðuneytinu, en ég veit ekki til þess að það sé einhver formleg áform um slíkt eða niðurstaða í því önnur en að stofnunin bara standi eins og hún stendur, allavega að svo stöddu,“ segir Ásdís Hlökk og vísar til dæmis til vangaveltna sem verið hafi á kreiki um sameiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Skipulagsstofnunar.
„Ég sjálf hef oft nefnt að það mætti skoða sameiningu Skipulagsstofnunar og Byggðastofnunar, þar eru mörg skyld verkefni og snertifletir. Sameiningar stofnana verða að leiða til þess að þær verði faglega sterkari, það má ekki bara snúast um að það sé praktískara að hafa einn bókhaldara fyrir fleiri starfsmenn, heldur að það sé raunveruleg fagleg samlegð í verkefnum þeirra stofnana sem leggjast saman,“ segir Ásdís Hlökk.
Hún segist hafa „tröllatrú“ á því að skýr stefna í skipulagsmálum og sýn stjórnvalda bæði á landsvísu og í héraði skipti mjög miklu máli fyrir farsæla þróun viðkomandi samfélags og telur enn vannýtt tækifæri til þess að nýta skipulagstólið betur við áætlanagerð hins opinbera.
„Það er ekki fyrr en með setningu nýrra skipulagslaga árið 2010 sem stjórnvöld á landsvísu fengu tækifæri til að setja formlega fram sína stefnu í skipulagsmálum. Fram að því vorum við bara með skipulag fyrir einstaka bæi og sveitarfélög. En með skipulagslögunum 2010 kom landsskipulagsstefna inn sem vettvangur fyrir stjórnvöld á landsvísu að setja fram sína skipulagspólitík og sýn. Það er í reynd stutt síðan, þannig að það er kannski ekki þess að vænta að við höfum náð þeim þroska sem mörg nágrannalönd okkar hafa varðandi framgöngu stjórnvalda á landsvísu í skipulagsmálum og að stjórnmálamenn skynji skipulagstækið og þennan vettvang, hvað hann er mikill lykilvettvangur til að samþætta stefnu um svo margt – farsæla byggðaþróun, samgöngur, gott akuryrkjuland, verndun votlendis, skógrækt, verndun víðerna, ferðaþjónustu og svo framvegis og framvegis. Í skipulagsstefnu er hægt að tengja allt sem varðar byggðaþróun og nýtingu lands saman á einum vettvangi. Ár frá ári eykst skilningur á því hjá stjórnmálamönnum og innan stjórnkerfisins en við erum komin skemmra á veg en ég hefði viljað hvað varðar stjórnkerfið á landsvísu. Víða á sveitarstjórnarstiginu er þessi skilningur búinn að festa sig betur í sessi og það má sjá það víða hjá stærri sveitarfélögunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og til dæmis Akureyri og eflaust fleirum, að það er orðin hefð, skilningur og menning fyrir því að líta á skipulagsmálin sem svolítið lykilverkfæri til að halda utan um þróun viðkomandi samfélags, landnýtingar og byggðaþróun,“ segir Ásdís Hlökk.
Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
Víða um land hafa framkvæmdaaðilar nú uppi áform um uppbyggingu vindorkuvera, svo mjög að stundum er jafnvel talað um „vindmyllukapphlaup“ í þeim efnum. Þessi staða, segir Ásdís Hlökk, „dregur fram ýmsa þekkta veikleika í stjórnkerfi skipulagsmála og stjórnsýslu og ekki síður stjórnkerfi orkumála og samspili orku- og skipulagsmála“.
„Fyrir það fyrsta, hvað varðar orkumálin, þá er allavega í mínum huga mjög mikil þörf á að sett sé fram skýrari og útfærðari stefna í orkumálum. Við eigum náttúrlega þá orkustefnu sem var sett fram fyrir nokkrum árum, en hún talar frekar almennum orðum og það sem við eigum eftir að fá rætt í meiri þaula og útfært og ná sameiginlegum skilningi um er hvað ætlum við og þurfum við að framleiða mikla orku í þessu landi til næstu áratuga, til hvaða nota á þessi orka að fara og hvernig tryggjum við að hún fari þangað. Þetta eru spurningar sem í mínum huga verða að fást skýrari svör við af hálfu löggjafans og stjórnvalda og verður að fara fram opnara samtal um, meira en bara að einhverjir hópar setjist niður og búi til módel um hvað sá hópur telur æskilegt að framleiða mikla orku í landinu,“ segir Ásdís Hlökk.
Hvað skipulagsmálin varðar þurfi svo að setja fram stefnu um hvað eigi að ráða varðandi staðsetningu einstakra vindorkuvera. „Vindorkan er þannig að hana þarf að staðsetja þar sem er vindur, og það vill svo til að það er víðast hvar á Íslandi, svo það er takmörkuð krítería, en engu að síður auðvitað atriði sem þarf að ganga út frá. Staðsetning einstakra vindorkuvera þarf einnig að ráðast af því hvar er hægt að koma þessum stóru íhlutum á vettvang, það þarf að vera höfn og góðir vegir og það þarf að vera hægt að koma orkunni frá sér inn á flutningskerfið, svo það eru ákveðnar tæknilegar breytur sem þarf að taka tillit til. En stóru, stóru skipulagsmálin sem er snúnast að takast á við, það eru áhrifin á ásýnd lands, á búsetulandslag og karakter og staðarsérkenni og ímynd svæða. Nándaráhrif á nágranna og svo áhrif á náttúrufar og þá ekki síst á fuglalíf, og auðvitað áhrif á aðrar atvinnugreinar, eins og ferðaþjónustuna, sem er auðvitað mjög stór atvinnugrein sem byggir á náttúru landsins,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að fyrir liggi í könnunum meðal erlendra ferðamanna að þeir komi til Íslands fyrst og fremst til að upplifa og njóta íslenskrar náttúru. Víðsýnisins, landslagsins.
„Auðvitað fela þessi stóru hreyfanlegu mannvirki í sér mikla breytingu þar sem þau verða vel sýnileg. Það er áskorun að velja réttu verkefnin, réttu staðina,“ segir Ásdís Hlökk, sem segir í því tilliti að það fylgi því bæði kostir og gallar að vindorkuverkefnin fari í gegnum rammaáætlun.
„Rammaáætlun er sannarlega ekki gallalaust verkfæri og löngu tímabært að endurskoða verklag og umgjörð þar, en það er þó mikil lukka að vindorkan er þó í þessu rammaáætlunarferli enn sem komið er, því þar fer fram ákveðin samræmd greining á einum stað. En gallinn er meðal annars að rammaáætlunarverklagið skoðar hvern virkjunarkost fyrir sig, okkur skortir heildstæða stefnumótun og skoðun á samlegðaráhrifum af því að virkja vindinn víða,“ segir Ásdís Hlökk.
„Það er ákveðinn vandi á höndum við að ákveða hvernig haga skal ákvarðanatöku um vindorkuna til framtíðar. Það hefur verið skoðað að fara sömu leið og gert er sumstaðar í nágrannalöndum okkar, að þessar ákvarðanir séu bara teknar af sveitarfélögunum, eins og aðrar skipulagsákvarðanir almennt, en þá verðum við að hafa það í huga að þar sem það er gert þá eru alltaf inngripsheimildir og möguleiki ríkisins til að taka yfir slíkar ákvarðanir. Slík inngripsúrræði höfum við ekki í íslenskum skipulagslögum. Ég hef nú gjarnan verið talskona þess að við eigum ekki að finna upp hjólið heldur kynna okkur hvað er gert annarsstaðar og taka mið af því við þróun á okkar skipulagslöggjöf, en við verðum þó að vera varkár við að taka ekki einstök ákvæði samhengislaust úr löggjöf og praxís annarsstaðar og stinga inn í okkar kerfi og vera mjög varkár ef valið verður að fara þá leið að færa þessar ákvarðanir meira eða alfarið til sveitarfélaga, þá verða að fylgja því einhverjar breytingar í þá veru að ríkisvaldið geti tekið þær ákvarðanir yfir og haft eitthvað um þær að segja,“ segir Ásdís Hlökk.
Þau sjónarmið hafa svo verið viðruð að best væri að nýta þau landsvæði sem þegar eru röskuð vegna orkuvinnslu undir vindorkuver.
„Ég held að við þurfum að gæta okkar á slíkum alhæfingum, því sú orkuvinnsla sem er fyrir felur í sér allt annars konar landnýtingu, annars konar mannvirki og allt önnur áhrif á landslag. Það er vissulega ákveðin einföldun en það er svolítið eins og að halda því fram að það sé ákjósanlegt að nýta svæði þar sem lengi hefur verið lágreist byggð til að byggja háhýsahverfi. Það á bara ekki alls staðar við.
Ég hef til dæmis efasemdir um að það sé æskilegast að byggja vindorkuver við hálendisbrúnina þó að þar séu fyrir vatnsaflsvirkjunarsvæði sem eru vissulega röskuð og þar sem er tiltölulega handhægt að tengjast flutningskerfinu, þá erum við þarna á brúninni á þessum miklu víðernum og vin sem hálendið er. Þessi mál eru heilmikil áskorun fyrir okkar stjórnkerfi, ekki síst í því tilliti að sveitarstjórnir eru margar og með takmarkaða burði til að kljást við stóra aðila sem fara mikinn og bjóða jafnvel gull og græna skóga,“ segir Ásdís Hlökk.
Hún segir líka víti að varast í þessum efnum. Það er ábyrgðarhluti að fara fram með stór framkvæmdaáform inn í lítil samfélög og sveitarfélög.
„Það geta orðið svo hatrammar deilur um uppbyggingu að það grær seint eða aldrei um heilt. Við höfum séð alltof mörg dæmi um þetta; vegaframkvæmdir, virkjanaframkvæmdir og fleira. Það er ábyrgðarhluti að fara inn í lítil samfélög með stór uppbyggingaráform og skiptir máli hvernig að því er staðið og hvernig mál eru borin upp og samskipti eru við nærsamfélagið, sveitarstjórn og svo framvegis,“ segir Ásdís Hlökk.
Einnig eigum við nú þegar standandi vitnisburð um að í okkar skipulagsframkvæmd höfum við ekki samtengt ákvarðanir sem eru háðar hver annarri nægilega vel.
„Við eigum hálfbyggt álver úti í Helguvík sem engar virkjanir voru fyrir og engar raflínur lágu að og svo er það þessi sorgarsaga sem er kísilverið í Helguvík, og fulláformað kísilver við hlið þess sem ekki hafa hafist framkvæmdir við. Við verðum að draga lærdóm af þessum verkefnum, þar sem farið hefur verið fram af svo miklu kappi í ákveðna uppbyggingu og að hefja framkvæmdir þótt að það liggi fyrir að forsendur uppbyggingarinnar séu ekki til staðar.“
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu