Golli

Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi

Eftir níu ár á forstjórastóli hjá Skipulagsstofnun söðlaði Ásdís Hlökk Theodórsdóttir um á árinu, yfir í kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Í viðtali við Kjarnann ræðir hún skipulagsmál á Íslandi, mismikla burði sveitarfélaga til að takast á við það mikla vald sem þeim hefur verið veitt, mun á gæðum nýrrar byggðar sem hún segir að endurspeglist ekki alltaf í fasteignaverði og álitamál um beislun vindorkunnar.

Ásdís Hlökk Theo­dórs­dóttir lét af störfum sem for­stjóri Skipu­lags­stofn­unar fyrr á árinu, en hefur þó ekki sagt skilið við skipu­lags­mál­in, heldur fært sig yfir í kennslu og fræða­störf á því sviði við Háskóla Íslands. Þar er hún að fara af stað með rann­sókn­ar­verk­efni á því sem hún kallar „fag­legt og stjórn­sýslu­legt bol­magn sveit­ar­fé­laga í skipu­lags­mál­u­m“.

Í sam­tali við Kjarn­ann um skipu­lags­mál á Íslandi segir Ásdís Hlökk að í íslenskri stjórn­sýslu hafi sveit­ar­fé­lögum verið veitt mikið for­ræði á skipu­lags­málum á sama tíma og þau sé „ótrú­lega mörg“ og sum „ótrú­lega smá“ og því eðli máls­ins sam­kvæmt með fámenna stjórn­sýslu. Þarna séu „aug­ljós­lega ákveðnir veik­leikar og brotala­mir“.

„Það gefur auga leið í mínum huga, en ég ætla svo sem ekki að hafa um það stærri orð á þessu stigi, heldur leyfa rann­sókn­inni að hafa sinn gang“ segir Ásdís Hlökk.

Lang­tíma­hugsun var henni ofar­lega í huga þegar hún sett­ist niður með blaða­manni í aðdrag­anda jóla til þess að ræða um skipu­lags­mál á Íslandi og þær áskor­anir sem ætíð er glímt við á því sviði, að tryggja gæði byggðar og góða land­nýt­ingu; að búa í hag­inn fyrir sam­fé­lag fram­tíð­ar­inn­ar.

Ásdís Hlökk segir feg­urð­ina við skipu­lags­málin í hennar huga vera að í þeim mála­flokki er ávallt verið að skoða hlut­ina með sam­þættum hætti, fremur en að beina athygli að ein­ungis einum mála­flokki í einu. Við skipu­lags­gerð er maður „alltaf í þessum vanga­veltum um sam­spil byggð­ar, nátt­úru, orku, sam­gangna land­bún­aðar og svo fram­veg­is,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að það veiti gott tæki­færi til að skapa sam­þættan ávinn­ing.

Það er mik­il­vægt, segir hún, „því hættan er ávallt sú þegar þú ert að vinna áætl­anir um einn mála­flokk að þá sértu með mark­mið þess mála­flokks í for­grunni og annað mæti afgangi. „Ef þú ert að vinna að skóg­rækt­ar­á­ætlun þá hugsar þú hvar er besta landið til að rækta skóg án þess kannski að gefa öðrum hags­munum sér­stakan gaum og jafn­vel þegar þú ert að vinna sam­göngu­á­ætlun þá, jafn­vel þó sam­göngur hafi þann eina til­gang að þjóna fólk­inu í byggð­inni og sam­fé­lag­inu, þá virð­ist til­hneig­ingin á stundum verða að hugsa um sam­göngu­mann­virkin á for­sendum sam­göngu­mann­virkj­anna,“ segir Ásdís Hlökk.

Fengur þegar stjórn­mála­menn með skýra sýn velj­ast inn

„Lang­tíma­hugs­un­in, hún er nátt­úr­lega alfa og ómega í skipu­lags­mál­u­m,“ segir Ásdís Hlökk einnig, en bætir við að það kall­ist að ein­hverju leyti á við það að ákvarð­ana­taka í mála­flokknum er falin lýð­ræð­is­lega kjörnum stjórn­völd­um, sem við veljum og veitum umboð á fjög­urra ára fresti.

„Það getur verið kúnst, og það er alltaf mik­ill fengur þegar það velj­ast inn stjórn­mála­menn sem hafa skýrar hug­myndir og sýn um hið byggða umhverfi og land­nýt­ingu og hafa bak­land, þroska og kjark til að setja markið svo­lítið langt inn í fram­tíð­ina en hugsa ekki bara um ákvarð­anir og upp­bygg­ingu morg­un­dags­ins,“ segir Ásdís Hlökk og bendir á að þrátt fyrir að lag­ara­mmi skipu­lags­mála í dag skyldi sveit­ar­fé­lög til þess að gera skipu­lags­á­ætl­anir til 12 ára, sé alltaf nauð­syn­legt að horfa til enn lengri tíma.

Spurð hvort Íslend­ingar hafi verið heppn­ir, og fengið inn í stjórn­málin fólk sem einmitt horfi til lengri tíma, segir Ásdís Hlökk að svo sé að ein­hverju leyti.

„Maður sér það gjarnan með sveit­ar­stjórn­ar­fólk, að það kemur inn í sveit­ar­stjórn algjör­lega ókunn­ugt skipu­lags­málum en áttar sig fljótt á því á setu sinni þar hvað þetta er mik­ill grund­vallar mála­flokkur fyrir þróun við­kom­andi byggð­ar­lags og sam­fé­lags. En svo er mis­jafnt hvað fólk dvelur lengi á þeim vett­vangi, við sjáum allt spek­t­rú­m­ið, frá fólki sem staldrar stutt við og hefur litla inn­sýn og áhuga og yfir í fólk sem virki­lega hellir sér í þennan mála­flokk, kynnir sér hann vel og hefur gott fag­fólk sér til ráðu­neytis og skýra sýn,“ segir Ásdís Hlökk og nefnir að þróun und­an­far­inna ára á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, með svæð­is­skipu­lagi þess, sé gott dæmi um verk­efni þar sem lang­tíma­sýn hafi verið höfð að leið­ar­ljósi.

„Svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, sem er ramm­inn um alla upp­bygg­ingu á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til fram­tíðar og var unnið á árunum 2013 til 2015, það horfir 25 ár fram í tím­ann og kannski í raun­inni lengra. Það er dæmi um skipu­lags­vinnu hér­lendis þar sem er unnið af fag­legum metn­aði og þekk­ingu og það mynd­ast skýr póli­tísk sýn um að hverju skuli stefnt og það liggja fyrir góðar og traustar grein­ingar til grund­vallar því að ákveða að taka þessa línu um þróun byggðar og sam­gangna og umhverf­is­mótun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þannig að við eigum svona mjög far­sæl dæmi og við eigum líka síður far­sæl dæmi,“ segir Ásdís Hlökk.

Blaða­maður getur ekki stillt sig um að reyna að kalla fram þau dæmi sem Ásdís Hlökk telur síður far­sæl.

„Ég veit ekki hvort maður á að vera bein­línis að nefna þau. En auð­vitað eru aðstæður gríð­ar­lega ólíkar og Reykja­vík­ur­borg til dæmis er með burð­ugan skipu­lags­kontór, stórt emb­ætt­is­manna­batt­erí og fjöl­menna borg­ar­stjórn þar sem eru stjórn­mála­menn sem hafa það að atvinnu að sinna þessu verki, en svo erum við með örsveit­ar­fé­lög þar sem er nán­ast þegn­skylda og sjálf­boða­starf að sitja í sveit­ar­stjórn og mjög tak­mark­aður fag­legur stuðn­ingur og styrk­ur,“ segir Ásdís Hlökk.

Golli

Spurð hvort hætta sé á að mik­ill aðstöðu­mun­ur, eða valda­ó­jafn­vægi, verði á milli fram­kvæmda­að­ila sem vilja ráð­ast í ein­hver til­tekin verk­efni og stjórn­valds­ins sem fer með skipu­lags­vald­ið, þá sér í lagi í minni sveit­ar­fé­lög­um, segir Ásdís Hlökk að svo geti ver­ið, en það snú­ist líka um skiln­ing sveit­ar­stjórn­ar­fólks á þeirra hlut­verki.

„Maður heyrir stundum á sveit­ar­stjórn­ar­fólki að það skil­greinir það ekki sem sitt hlut­verk að setja fram sýn­ina og leiða þróun við­kom­andi sam­fé­lags, heldur lítur meira á sig sem afgreiðslu­apparat fyrir upp­bygg­ing­ar­á­form við­kom­andi land­eig­enda eða upp­bygg­ing­ar­að­ila. Auð­vitað geta land­eig­endur og þró­un­ar­að­ilar verið gríð­ar­lega mik­il­vægur drif­kraftur í þróun land­nýt­ingar og byggðar en, eðli máls­ins sam­kvæmt, eru þeir líka lík­legir til að setja fram hug­myndir út frá eigin hag frekar en almanna­hag. Þess vegna eru skipu­lags­kerfi eins og þau eru, það er falið lýð­ræð­is­lega kjörnum stjórn­völdum að leiða þessa þró­un. Maður verður svo­lítið áskynja þessa skiln­ings í fámenn­ari sam­fé­lög­um, sem er kannski ein­hvers­konar sjálfs­bjarg­ar­við­leitn­i,“ segir Ásdís Hlökk.

Enn eimi af gömlum venjum hjá stórum opin­berum aðilum

Hún bætir því þó við að hið sama geti gilt um mun fjöl­menn­ari sam­fé­lög, bæði hér­lendis erlend­is. „Þunga­vigt­ar­að­ilar geta haft óeðli­lega mikil áhrif á gang mála, í krafti fjár­magns, eign­ar­halds á landi, þekk­ing­ar, póli­tískra áhrifa eða ein­hverrar blöndu af þessu. Við sjáum ein­hverja birt­ing­ar­mynd þessa iðu­lega í skipu­lags­málum hér á landi og aðstöðu­mun­ur­inn getur verið meira slá­andi og áber­andi í fámenn­ari sam­fé­lögum en fjöl­menn­ari.“

„En það er líka vert að hafa í huga að hluti af þess­ari mynd snýst ekki bara um það sem við erum að horfa á venju­lega, þ.e. bygg­ing­ar­fé­lög­in, þró­un­ar­fé­lög­in, stór­iðj­una eða núna vind­orku­fyr­ir­tækin sem eru að koma inn á þetta svið, heldur eru þetta líka opin­beru aðil­arn­ir. Við erum með stóra öfl­uga opin­bera fram­kvæmda­að­ila, Vega­gerð­ina, Lands­net, Lands­virkj­un, Isa­via, og það getur líka verið mik­ill aðstöðu- og beinn eða óbeinn valda­munur á milli sveit­ar­fé­lags­ins sem er skipu­lags­yf­ir­valdið í hér­aði og þess­ara fram­kvæmda­að­ila og þá skiptir máli hvernig þeir fara fram,“ segir Ásdís Hlökk.

Eru þess ein­hver dæmi að þessir opin­beru aðilar hafi jafn­vel farið fram með ein­hverju offorsi gagn­vart sveit­ar­fé­lög­um?

„Ef við skoðum sög­una þá tel ég að það hafi áreið­an­lega verið þannig. Þegar ég byrj­aði að starfa sem ungur sér­fræð­ingur hjá Skipu­lags­stofnun fyrir alda­mót, þá náði ég aðeins í skottið á „gamla tím­an­um“. Á þeim tíma voru til dæmis ekki til neinar form­legar leyf­is­veit­ingar sveit­ar­fé­laga fyrir fram­kvæmdum á borð við vegi, raf­línur og virkj­an­ir. Þá voru þessir aðilar svo­lítið bara ríki í rík­inu og maður hafði á til­finn­ing­unni að þetta væru nán­ast eins og til­kynn­ingar um hvað stæði til að gera varð­andi stórar inn­viða­fram­kvæmd­ir, fremur en sam­ráð við nær­sam­fé­lagið og sveit­ar­fé­lög­in, hvað þá umsóknir um leyf­i,“ segir Ásdís Hlökk, en nefnir að þegar horft sé yfir síð­ustu ára­tugi hafi orðið menn­ing­ar­breyt­ing í skipu­lags­mál­um, yfir til sam­ráðs og sam­tals og að ná sátt og sam­komu­lagi um það sem áformað er að gera.

„Á þessum tíma hefur líka umhverf­is­matið komið til og rík­ari áhersla orðið á að láta mat á áhrifum á umhverfi og sam­fé­lag hafa áhrif á og ráða nið­ur­stöðu um útfærslu upp­bygg­ingar og inn­viða. Þessir stóru aðil­ar, ég held að það sé alveg hægt að segja það, án þess að á nokkurn sé hall­að, að þeir hafi verið svo­lítið seinir til að til­einka sér þessi nýju vinnu­brögð.“

Eimir enn af gömlu menn­ing­unni?

„Það gerir það eitt­hvað,“ segir Ásdís Hlökk og segir það spila saman við hug­mynda­þróun í skipu­lags­málum um allan heim, „til meira sam­ráðs, meiri með­vit­undar um umhverf­is­á­hrif og meiri fag­mennsku í skipu­lags­gerð“ og að á sama tíma hafi líka orðið hug­mynda­fræði­legar breyt­ingar um það í hverju gæði byggðar fel­ast.

„Við erum á þessum sama tíma að sjá módern­is­mann með sína grodda­legu inn­viði og „masculine“ nálgun á skipu­lag byggðar víkja fyrir öðrum mann­eskju­legri og mýkri áherslum í skipu­lags­málum og þessar gömlu inn­viða­stofn­anir okkar hafa setið svo­lítið fast í þess­ari gömlu menn­ingu og hafa verið svo­lítið lengi að þroskast frá henn­i,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að ein­hverju leyti ger­ist það með kyn­slóða­skiptum og fjöl­breytt­ari hópi starfs­fólks innan stofn­ana og hjá ráð­gjafa­stof­um.

Mis­munur á gæðum byggðar end­ur­speglist tak­markað í verði

Gæði byggðar eru Ásdísi Hlökk ofar­lega í huga, enda má segja að það sé kjarn­inn í skipu­lags­mál­un­um, að skapa góða umgjörð fyrir okkur mann­fólk­ið. Mikil upp­bygg­ing hús­næðis hefur átt sér stað á und­an­förnum árum, bæði á upp­bygg­ing­ar­svæðum í eldri hverfum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, sem og í jaðri höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins og svo í nágranna­byggðum þess.

Ásdís Hlökk segir að þessi upp­bygg­ing­ar­svæði og nýju hverfi séu „mjög mis­jöfn að gæð­um“ og að inn í það spili margar breyt­ur, meðal ann­ars sýn við­kom­andi sveit­ar­stjórn­ar, metn­aður og styrkur þeirra fag­að­ila sem starfa fyrir við­kom­andi sveit­ar­fé­lag að skipu­lags­gerð og hönn­un, hvernig aðkoma land­eig­enda og bygg­ing­ar­fé­laga sé að verk­efnum og fleira.

Spurð hvar hún telji að vel hafi tek­ist til og hvar síður segir Ásdís Hlökk að hún telji ekki skyn­sam­legt að alhæfa um það. „En gæðin eru, það er him­inn á haf á milli og ég held að við sjáum það ekki að end­ur­spegl­ast að öllu leyti í til dæmis verði. Það er verk að vinna í því að við sem borg­arar séum læs á gæði í hinu byggða umhverfi. Auð­vitað hljómar kannski hroka­fullt að segja það, því við vitum hvert og eitt hvar okkur líður vel, en það er kannski ekki sjálf­gefið að við áttum okkur á því út frá teikn­ingum af nýju skipu­lagi eða ein­hverjum lýs­ingum á nýju hverfi, hvort það muni með tíð og tíma veita okkur gott umhverfi að búa í eða hvaða kröfur er rétt­mætt að gera til nýrrar byggð­ar. Það er kúnstin, þeir borg­arar sem setj­ast í sveit­ar­stjórnir og skipu­lags­nefnd­ir, þeir þurfa að vera læsir á þessi gögn,“ segir Ásdís Hlökk.

Það er verk að vinna í því að við sem borgarar séum læs á gæði í hinu byggða umhverfi

„Það er alltaf auð­veld­ara að til­greina dæmi sem maður telur til fyr­ir­myndar en maður vill kannski síður gefa dóma um meinta tossa. En þar sem við sjáum unnið af miklum metn­aði með nútíma­legar áherslur og þver­fag­leg teymi og þar sem fléttað er saman áherslu á nátt­úru­far, byggð, sam­fé­lag, fag­ur­fræði og svo fram­veg­is, þar sjáum við bestu útkom­una verða til,“ segir Ásdís Hlökk og nefnir Nýja-Skerja­fjörð­inn í Vatns­mýr­inni sem dæmi um svæði þar sem hún telur gæði byggðar verða mikil – „burt séð frá spurn­ingum um Reykja­vík­ur­flug­völl og rekstr­ar­hæfi hans“.

„Það er skipu­lags­verk­efni sem er mjög fram­sæk­ið, gerir ráð fyrir þéttri byggð en er um leið hóf­stillt í hæðum húsa og massa og með áhuga­verðar lausnir, blöndu af ólíku hús­næði og búsetu­form­um, skýrri áherslu á fjöl­breytta ferða­máta og ekki með þessa bíla­stæða­kjall­ara-­nálgun sem við höfum setið svo­lítið uppi með í seinni tíð, heldur sam­eig­in­leg bíla­stæða­hús sem mun veita miklu meiri mögu­leika á samnýt­ingu á stæðum og betri nýt­ingu. Það er mikil áhersla á bæj­ar­rýmin og gæði þeirra, efn­is­notkun og gróð­ur. Þetta er hóg­vært skipu­lags­verk­efni sem ég er mjög spennt að sjá verða að veru­leika,“ segir Ásdís Hlökk.

Ásdís Hlökk segir að Nýi-Skerjafjörður sé „mjög framsækið“ skipulagsverkefni.
Teikning af vef Reykjavíkurborgar

Hún nefnir svo annað verk­efni, Urriða­holtið í Garða­bæ, með þeim fyr­ir­vara að þar hafi hún „tauga­enda“ sjálf eftir að hafa unnið að ramma­skipu­lagi og fyrstu deiliskipu­lags­á­föngum hverf­is­ins á árunum 2005-2007.

„Þar er dæmi um jákvæð áhrif land­eig­enda. Þarna er land í einka­eigu þar sem land­eig­end­urnir sýndu frum­kvæði og voru til­búnir að leggja í mikla fjár­fest­ingu til þess að vanda til verka í fram­sæknu skipu­lagi svæð­is­ins. Það breytir því ekki að svæðið er stað­sett á jaðri byggðar og hefur ákveðnar tak­mark­anir þess vegna, en engu að síður var þarna mjög vandað til verka og settur saman feyki­lega hæfur hópur ráð­gjafa og hönn­uða sem komu víða að, erlendis frá líka. Það er eitt­hvað sem skiptir máli hér hjá okk­ur, í okkar fámenna sam­fé­lagi og með svona sér­hæfða þekk­ingu sem skipu­lags­gerðin er, að við þurfum að gæta þess að sækja okkur þekk­ingu og reynslu ann­ars staðar að og vera ekki alltaf í jafn­ingja­fræðsl­unni hvert með öðru. Það var bryddað upp á mörgum nýj­ungum í Urriða­holts­skipu­lag­inu sem ég held að megi segja að hafi leitt umræðu og þróun á ákveðnum útfærslum á götum og bæj­ar­rýmum og auð­vitað sjálf­bærum ofan­vatns­lausnum og fleiru sem hefur síðan seitlað inn í brans­ann og praxís­inn í öðrum hverf­um,“ segir Ásdís Hlökk.

„Svo er auð­vitað margt sem manni finnst fólki hafa verið veru­lega mis­lagðar hendur með,“ segir Ásdís Hlökk, en neitar sem fyrr að nefna dæmi um það. Blaða­maður spyr þá hvort sú áhersla á hraða upp­bygg­ingu hús­næð­is, sem stundum er ráð­andi í umræð­unni um hús­næð­is­þörf land­ans, geti komið niður á gæðum byggð­ar.

„Já, það er þetta með hrað­ann, hann má ekki koma niður á gæð­un­um. Nú geri ég mér vel grein fyrir því að það er fólk sem er í hús­næð­is­þörf – en þetta er gjarnan alltof ein­hliða og þröng umræða og þörf fyrir hrað­ann og magnið á stundum spiluð upp,“ segir Ásdís Hlökk.

Talar fyrir sam­ein­ingu Skipu­lags­stofn­unar og Byggða­stofn­unar

Eftir að hafa leitt Skipu­lags­stofnun sem for­stjóri í níu ár þekkir Ásdís Hlökk inn­viði skipu­lags­kerf­is­ins á Íslandi eflaust betur en flest­ir. Við breyt­ingar í Stjórn­ar­ráð­inu við myndun rík­is­stjórnar í lok árs 2021 færð­ist stofn­unin undir hatt nýs inn­við­a­ráðu­neyt­is, eftir að hafa áður heyrt undir umhverf­is­ráðu­neytið frá stofnun þess. Ásdís Hlökk segir skipu­lags­málin vera þess eðlis að það sé sama hvar þau séu stað­sett innan Stjórn­ar­ráðs­ins, þau muni alltaf þurfa að tengj­ast inn á mál­efni sem heyra undir önnur ráðu­neyti, og það gildi jafnt nú sem áður. Nú þarf að mynda teng­ingar til umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytis um lofts­lags­mál, orku og lands­lag svo dæmi sé tek­ið. Og sama mætti segja um mat­væla­ráðu­neytið varð­andi land­bún­að, skóg­rækt og fisk­eldi.

Hug­myndir hafa stundum verið í umræð­unni um sam­ein­ingu Skipu­lags­stofn­unar og ann­arra stofn­ana og segir Ásdís Hlökk að Skipu­lags­stofn­un, sem til­tölu­lega fámenn stofn­un, sé sjálf­gefið undir í þeirri almennu umræðu um sam­ein­ingu stofn­ana. Stofn­unin þyrfti í reynd að vera tölu­vert stærri til þess að sinna þeim verk­efnum sem henni er ætl­að, en hjá Skipu­lags­stofnun starfa um þrjá­tíu manns.

„Það var auð­vitað tekin þessi ákvörðun við myndun nýrrar rík­is­stjórnar að færa mála­flokk skipu­lags­mála yfir til nýs inn­við­a­ráðu­neytis og á sama tíma komu hús­næð­is- og mann­virkja­mál frá félags­mála­ráðu­neyt­inu og eru þarna ásamt sam­göngu­mál­um, sveit­ar­stjórn­ar­málum og byggða­mál­um. Það eitt og sér felur ekki í sér breyt­ingar á stofn­un­un­um, en það hefur vaknað ákveðin umræða og vanga­veltur um það hvort sam­eina eigi Skipu­lags­stofnun öðrum stofn­unum undir nýju inn­við­a­ráðu­neyti eða hvort að hún fær­ist inn í eða nær ráðu­neyt­inu, en ég veit ekki til þess að það sé ein­hver form­leg áform um slíkt eða nið­ur­staða í því önnur en að stofn­unin bara standi eins og hún stend­ur, alla­vega að svo stödd­u,“ segir Ásdís Hlökk og vísar til dæmis til vanga­veltna sem verið hafi á kreiki um sam­ein­ingu Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­unar og Skipu­lags­stofn­un­ar.

„Ég sjálf hef oft nefnt að það mætti skoða sam­ein­ingu Skipu­lags­stofn­unar og Byggða­stofn­un­ar, þar eru mörg skyld verk­efni og snertiflet­ir. Sam­ein­ingar stofn­ana verða að leiða til þess að þær verði fag­lega sterk­ari, það má ekki bara snú­ast um að það sé praktískara að hafa einn bók­hald­ara fyrir fleiri starfs­menn, heldur að það sé raun­veru­leg fag­leg sam­legð í verk­efnum þeirra stofn­ana sem leggj­ast sam­an,“ segir Ásdís Hlökk.

Hún seg­ist hafa „trölla­trú“ á því að skýr stefna í skipu­lags­málum og sýn stjórn­valda bæði á lands­vísu og í hér­aði skipti mjög miklu máli fyrir far­sæla þróun við­kom­andi sam­fé­lags og telur enn van­nýtt tæki­færi til þess að nýta skipu­lags­tólið betur við áætl­ana­gerð hins opin­bera.

„Það er ekki fyrr en með setn­ingu nýrra skipu­lags­laga árið 2010 sem stjórn­völd á lands­vísu fengu tæki­færi til að setja form­lega fram sína stefnu í skipu­lags­mál­um. Fram að því vorum við bara með skipu­lag fyrir ein­staka bæi og sveit­ar­fé­lög. En með skipu­lags­lög­unum 2010 kom lands­skipu­lags­stefna inn sem vett­vangur fyrir stjórn­völd á lands­vísu að setja fram sína skipu­lags­póli­tík og sýn. Það er í reynd stutt síð­an, þannig að það er kannski ekki þess að vænta að við höfum náð þeim þroska sem mörg nágranna­lönd okkar hafa varð­andi fram­göngu stjórn­valda á lands­vísu í skipu­lags­málum og að stjórn­mála­menn skynji skipu­lags­tækið og þennan vett­vang, hvað hann er mik­ill lyk­il­vett­vangur til að sam­þætta stefnu um svo margt – far­sæla byggða­þró­un, sam­göng­ur, gott akur­yrkju­land, verndun vot­lend­is, skóg­rækt, verndun víð­erna, ferða­þjón­ustu og svo fram­vegis og fram­veg­is. Í skipu­lags­stefnu er hægt að tengja allt sem varðar byggða­þróun og nýt­ingu lands saman á einum vett­vangi. Ár frá ári eykst skiln­ingur á því hjá stjórn­mála­mönnum og innan stjórn­kerf­is­ins en við erum komin skemmra á veg en ég hefði viljað hvað varðar stjórn­kerfið á lands­vísu. Víða á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu er þessi skiln­ingur búinn að festa sig betur í sessi og það má sjá það víða hjá stærri sveit­ar­fé­lög­un­um, bæði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og til dæmis Akur­eyri og eflaust fleirum, að það er orðin hefð, skiln­ingur og menn­ing fyrir því að líta á skipu­lags­málin sem svo­lítið lyk­il­verk­færi til að halda utan um þróun við­kom­andi sam­fé­lags, land­nýt­ingar og byggða­þró­un,“ segir Ásdís Hlökk.

Vind­orkan áskorun fyrir stjórn­kerfi skipu­lags- og orku­mála

Víða um land hafa fram­kvæmda­að­ilar nú uppi áform um upp­bygg­ingu vind­orku­vera, svo mjög að stundum er jafn­vel talað um „vind­myllu­kapp­hlaup“ í þeim efn­um. Þessi staða, segir Ásdís Hlökk, „dregur fram ýmsa þekkta veik­leika í stjórn­kerfi skipu­lags­mála og stjórn­sýslu og ekki síður stjórn­kerfi orku­mála og sam­spili orku- og skipu­lags­mála“.

„Fyrir það fyrsta, hvað varðar orku­mál­in, þá er alla­vega í mínum huga mjög mikil þörf á að sett sé fram skýr­ari og útfærð­ari stefna í orku­mál­um. Við eigum nátt­úr­lega þá orku­stefnu sem var sett fram fyrir nokkrum árum, en hún talar frekar almennum orðum og það sem við eigum eftir að fá rætt í meiri þaula og útfært og ná sam­eig­in­legum skiln­ingi um er hvað ætlum við og þurfum við að fram­leiða mikla orku í þessu landi til næstu ára­tuga, til hvaða nota á þessi orka að fara og hvernig tryggjum við að hún fari þang­að. Þetta eru spurn­ingar sem í mínum huga verða að fást skýr­ari svör við af hálfu lög­gjafans og stjórn­valda og verður að fara fram opn­ara sam­tal um, meira en bara að ein­hverjir hópar setj­ist niður og búi til módel um hvað sá hópur telur æski­legt að fram­leiða mikla orku í land­in­u,“ segir Ásdís Hlökk.

Hvað skipu­lags­málin varðar þurfi svo að setja fram stefnu um hvað eigi að ráða varð­andi stað­setn­ingu ein­stakra vind­orku­vera. „Vind­orkan er þannig að hana þarf að stað­setja þar sem er vind­ur, og það vill svo til að það er víð­ast hvar á Íslandi, svo það er tak­mörkuð kríter­ía, en engu að síður auð­vitað atriði sem þarf að ganga út frá. Stað­setn­ing ein­stakra vind­orku­vera þarf einnig að ráð­ast af því hvar er hægt að koma þessum stóru íhlutum á vett­vang, það þarf að vera höfn og góðir vegir og það þarf að vera hægt að koma orkunni frá sér inn á flutn­ings­kerf­ið, svo það eru ákveðnar tækni­legar breytur sem þarf að taka til­lit til. En stóru, stóru skipu­lags­málin sem er snúnast að takast á við, það eru áhrifin á ásýnd lands, á búsetu­lands­lag og karakter og stað­ar­sér­kenni og ímynd svæða. Nánd­ar­á­hrif á nágranna og svo áhrif á nátt­úru­far og þá ekki síst á fugla­líf, og auð­vitað áhrif á aðrar atvinnu­grein­ar, eins og ferða­þjón­ust­una, sem er auð­vitað mjög stór atvinnu­grein sem byggir á nátt­úru lands­ins,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að fyrir liggi í könn­unum meðal erlendra ferða­manna að þeir komi til Íslands fyrst og fremst til að upp­lifa og njóta íslenskrar nátt­úru. Víð­sýn­is­ins, lands­lags­ins.

„Auð­vitað fela þessi stóru hreyf­an­legu mann­virki í sér mikla breyt­ingu þar sem þau verða vel sýni­leg. Það er áskorun að velja réttu verk­efn­in, réttu stað­ina,“ segir Ásdís Hlökk, sem segir í því til­liti að það fylgi því bæði kostir og gallar að vind­orku­verk­efnin fari í gegnum ramma­á­ætl­un.

„Ramma­á­ætlun er sann­ar­lega ekki galla­laust verk­færi og löngu tíma­bært að end­ur­skoða verk­lag og umgjörð þar, en það er þó mikil lukka að vind­orkan er þó í þessu ramma­á­ætl­un­ar­ferli enn sem komið er, því þar fer fram ákveðin sam­ræmd grein­ing á einum stað. En gall­inn er meðal ann­ars að ramma­á­ætl­un­ar­verk­lagið skoðar hvern virkj­un­ar­kost fyrir sig, okkur skortir heild­stæða stefnu­mótun og skoðun á sam­legð­ar­á­hrifum af því að virkja vind­inn víða,“ segir Ásdís Hlökk.

„Það er ákveð­inn vandi á höndum við að ákveða hvernig haga skal ákvarð­ana­töku um vind­ork­una til fram­tíð­ar. Það hefur verið skoðað að fara sömu leið og gert er sum­staðar í nágranna­löndum okk­ar, að þessar ákvarð­anir séu bara teknar af sveit­ar­fé­lög­un­um, eins og aðrar skipu­lags­á­kvarð­anir almennt, en þá verðum við að hafa það í huga að þar sem það er gert þá eru alltaf inn­grips­heim­ildir og mögu­leiki rík­is­ins til að taka yfir slíkar ákvarð­an­ir. Slík inn­gripsúr­ræði höfum við ekki í íslenskum skipu­lags­lög­um. Ég hef nú gjarnan verið tals­kona þess að við eigum ekki að finna upp hjólið heldur kynna okkur hvað er gert ann­ars­staðar og taka mið af því við þróun á okkar skipu­lags­lög­gjöf, en við verðum þó að vera var­kár við að taka ekki ein­stök ákvæði sam­heng­is­laust úr lög­gjöf og praxís ann­ars­staðar og stinga inn í okkar kerfi og vera mjög var­kár ef valið verður að fara þá leið að færa þessar ákvarð­anir meira eða alfarið til sveit­ar­fé­laga, þá verða að fylgja því ein­hverjar breyt­ingar í þá veru að rík­is­valdið geti tekið þær ákvarð­anir yfir og haft eitt­hvað um þær að segja,“ segir Ásdís Hlökk.

Þau sjón­ar­mið hafa svo verið viðruð að best væri að nýta þau land­svæði sem þegar eru röskuð vegna orku­vinnslu undir vind­orku­ver.

„Ég held að við þurfum að gæta okkar á slíkum alhæf­ing­um, því sú orku­vinnsla sem er fyrir felur í sér allt ann­ars konar land­nýt­ingu, ann­ars konar mann­virki og allt önnur áhrif á lands­lag. Það er vissu­lega ákveðin ein­földun en það er svo­lítið eins og að halda því fram að það sé ákjós­an­legt að nýta svæði þar sem lengi hefur verið lágreist byggð til að byggja háhýsa­hverfi. Það á bara ekki alls staðar við.

Ég hef til dæmis efa­semdir um að það sé æski­leg­ast að byggja vind­orku­ver við hálend­is­brún­ina þó að þar séu fyrir vatns­afls­virkj­un­ar­svæði sem eru vissu­lega röskuð og þar sem er til­tölu­lega hand­hægt að tengj­ast flutn­ings­kerf­inu, þá erum við þarna á brún­inni á þessum miklu víð­ernum og vin sem hálendið er. Þessi mál eru heil­mikil áskorun fyrir okkar stjórn­kerfi, ekki síst í því til­liti að sveit­ar­stjórnir eru margar og með tak­mark­aða burði til að kljást við stóra aðila sem fara mik­inn og bjóða jafn­vel gull og græna skóga,“ segir Ásdís Hlökk.

Hún segir líka víti að var­ast í þessum efn­um. Það er ábyrgð­ar­hluti að fara fram með stór fram­kvæmda­á­form inn í lítil sam­fé­lög og sveit­ar­fé­lög.

„Það geta orðið svo hat­rammar deilur um upp­bygg­ingu að það grær seint eða aldrei um heilt. Við höfum séð alltof mörg dæmi um þetta; vega­fram­kvæmd­ir, virkj­ana­fram­kvæmdir og fleira. Það er ábyrgð­ar­hluti að fara inn í lítil sam­fé­lög með stór upp­bygg­ing­ar­á­form og skiptir máli hvernig að því er staðið og hvernig mál eru borin upp og sam­skipti eru við nær­sam­fé­lag­ið, sveit­ar­stjórn og svo fram­veg­is,“ segir Ásdís Hlökk.

Einnig eigum við nú þegar stand­andi vitn­is­burð um að í okkar skipu­lags­fram­kvæmd höfum við ekki sam­tengt ákvarð­anir sem eru háðar hver annarri nægi­lega vel.

„Við eigum hálf­byggt álver úti í Helgu­vík sem engar virkj­anir voru fyrir og engar raf­línur lágu að og svo er það þessi sorg­ar­saga sem er kís­il­verið í Helgu­vík, og fullá­formað kís­il­ver við hlið þess sem ekki hafa haf­ist fram­kvæmdir við. Við verðum að draga lær­dóm af þessum verk­efn­um, þar sem farið hefur verið fram af svo miklu kappi í ákveðna upp­bygg­ingu og að hefja fram­kvæmdir þótt að það liggi fyrir að for­sendur upp­bygg­ing­ar­innar séu ekki til stað­ar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal