„Við skulum ekki halda að vandamálið leysist af sjálfu sér án róttækra, tafarlausra breytinga“
Á Íslandi er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa sú mesta í Evrópu. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir stjórnvöld þurfa að stíga sterkar inn en þau hafa gert hingað til. Alþingiskosningar hafi aldrei verið mikilvægari en í ár. Formaður Ungra umhverfissinna segir taflausra breytinga þörf og nauðsynlegt að Ísland setji sér metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun.
Í síðasta mánuði kom út nýjasta skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Skýrslan dregur upp dökka mynd af stöðu loftslagsmála og sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skýrsluna vera „rauða aðvörun fyrir mannkynið“. Hlýnun jarðar hefur nú þegar farið yfir 1,2°C og að öllu óbreyttu mun markmiðið Parísarsáttmálans um að halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C fyrir árið 2100 renna úr greipum á innan við 5 árum. Þrátt fyrir svartsýna spá er enn möguleiki á að snúa við þróuninni ef gripið er til róttækra aðgerða.
Loftslagsmarkmið Íslands
Stjórnvöld hafa nú þegar skuldbundið sig til að takast á við loftslagsbreytingar með aðild að Parísarsáttmálanum. Til að ná markmiðum sáttmálans hafa ríki sett sér sjálfstæð markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030. Árið 2015 skilaði Ísland, í samfloti með Noregi og aðildarríkjum Evrópusambandsins, inn landsframlagi um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990. Í árslok 2020 skilaði Evrópusambandið síðan inn nýju markmiði um 55% samdrátt í losun og mun Ísland taka þátt með Evrópusambandinu að því markmiði. Sameiginlegt markmið Evrópusambandsins, Íslands og Noregs þýðir að samanlagt munu þessi lönd draga úr losun um 55% fyrir árið 2030 samanborið við 1990. Innri reglur ríkjanna ákvarða síðan hlutdeild og skyldur hvers ríkis. Enn er óljóst hversu miklum samdrætti í losun Íslandi verði úthlutað samkvæmt nýja 55% markmiðinu.
Sameiginlega markmið ríkjanna er þrískipt. Í fyrsta lagi er um að ræða hluta af losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda (e. ESR – Effort Sharing Regulation), undir þennan flokk falla vegasamgöngur, skip, orkuframleiðsla, landbúnaður, úrgangur, F-gös og önnur efni. Í öðru lagi fellur hluti losunar á sérstakt viðskiptakerfi með losunarheimildir (e. ETS - Emission Trading System), hér er um að ræða stóriðju, innanlandsflug og flug innan Evrópu. Í þriðja lagi gilda sérstakar reglur varðandi landnotkun (e. LULUCF - Land Use, Land-Use-Change and Forestry), það er til dæmis losun frá illa förnu landi og losun frá landi sem hefur verið ræst fram. Stjórnvöld bera í raun einungis ábyrgð á samdrætti í losun frá fyrsta flokknum (ESR) samkvæmt skuldbindingum Parísarsáttmálans. Þetta þýðir hins vegar ekki að Ísland eigi ekki að huga að losun frá t.d. alþjóðaflugi eða stóriðju, heldur falla þessir losunarliðir einfaldlega ekki undir beina skuldbindingu ríkja.
Rannsóknir hafa bent á að þrátt fyrir uppfært losunarmarkmið Evrópusambandsins, Noregs og Íslands um 55% samdrátt í losun, er þetta markmið ekki nógu metnaðarfullt til að vera samræmanlegt markmiðum Parísarsáttmálans. Í ljósi þess hafa sum lönd sett sér sjálfstæð losunarmarkmið, enda ekkert því til fyrirstöðu. Til dæmis hefur Svíþjóð sett sér markmið um að draga úr losun um 63% fyrir 2030 og Danmörk hefur sett sér markmið um að draga úr losun um 70%. Ísland hefur hingað til ekki sett sér sjálfstætt losunarmarkmið.
Ísland losar mest
Á Íslandi er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa sú mesta innan Evrópska efnahagssvæðisins. Árið 2019 var heildarlosun hér á landi fimm sinnum meiri en meðallosun í ríkjum Evrópusambandsins. Það skiptir ekki máli hvaða losunarflokk er horft til; ESR, ETS eða LULUCF, Ísland er í fyrsta sæti.
Árið 2019 var losun á hvern íbúa án LULUCF 13,1 tonn hérlendis en 9,1 innan ESB. Þar af nam losun á beinni ábyrgð stjórnvalda (ESR) 8,1 tonni á hvern íbúa hérlendis en 5,7 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Losun vegna þungaiðnaðar, þ.e. sú losun sem fellur undir ETS kerfið, nam 5 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 3,4 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Mestu munar um losun vegna landnotkunar. Heildarlosun með LULUCF er um 38,2 tonn á hvern íbúa hérlendis en 8,5 tonn á hvern íbúa í ESB.
Hvað skýrir mikla losun Íslands?
Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir skýringuna fyrir mikilli losun Íslands vera mismunandi eftir losunarflokkum. Einfaldast sé að skýra losun innan ETS, hún stafar einfaldlega af gríðarlega mikilli stóriðju á Íslandi miðað við höfðatölu. Fjögur til fimm stóriðjufyrirtæki standi á bak við um 40% af heildarlosun Íslands án LULUCF. „Ekkert Evrópuland kemst með tærnar þar sem við höfum hælana hvað þetta varðar,“ segir Stefán.
Losun innan LULUCF skýrist fyrst og fremst af því hversu hversu stórt Ísland er miðað við höfðatölu. Með öðrum orðum, hversu strjálbýlt landið er. „Þar bætist við að gríðarlega stór votlendissvæði hafa verið framræst til ræktunar, fyrir byggingarland og í einhverjum tilvikum í óljósum tilgangi. Framræst votlendi á langstærsta þáttinn í LULUCF-losun Íslands,“ segir Stefán.
Að sögn Stefáns er ESR-losun flóknust. Strjábýli landsins leiði meðal annars til þess að ferðir til að flytja fólk og vörur milli staða eru tiltölulega margar og langar og því fylgir mikil losun frá samgöngum á landi. Byggðin er ekki bara dreifð „úti á landi“ heldur er höfuðborgarsvæðið líka dreifbýlt í samanburði við flestar borgir í Evrópu. „Allt þetta ýtir undir mikla notkun einkabíla, oft með einum einstaklingi í hverjum bíl, og þar með mikla losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Stefán.
Menning og hefðir skipti líka máli hvað þetta varðar. Stefán segist halda að Íslendingar séu almennt neikvæðari gagnvart umhverfisvænum ferðamáta en margar aðrar þjóðir. „Kostir einkabílsins í þéttbýli virðast ofmetnir, og jafnvel litið niður á almenningssamgöngur og reiðhjólanotkun.“ Hér má benda á að einkabílaeign á Íslandi er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Hluti af losuninni innan ESR skýrist einnig af stórum fiskiskipaflota Íslands, sem leiðir líka til meiri notkunar kælimiðla (F-gasa) en víðast annars staðar. Stefán nefnir að landbúnaður sé tiltölulega stór hluti af hagkerfinu og þar sé mikil losun, einkum vegna iðragerjunar í sauðfjárrækt og nautgriparækt. Þá er urðun úrgangs algengari hér en í flestum öðrum Evrópulöndum. Ólíkt mörgum Evrópuþjóðum notar Ísland hins vegar endurnýjanlega orkugjafa til húshitunar og er losun vegna orkuframleiðslu mun minni hér en víðast annars staðar á hverja framleidda kílówattstund. „Á móti kemur að orkuframleiðsla á hvern íbúa er meiri en í nokkru öðru landi,“ segir Stefán um losun innan ESR á Íslandi.
„Skiptir höfuðmáli að Ísland setji sér metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun“
Til að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C þarf kolefnishlutleysi á heimsvísu að nást fyrir miðja þessa öld og heimslosun þarf að dragast saman um 7,6% á hverju ári fram til ársins 2030. Sökum sögulegrar losunnar er mikilvægt að ríkari lönd dragi hlutfallslega meira úr losun. Þannig ættu ríkari lönd, meðal annars Ísland, að draga úr losun um meira en því sem nemur 7,6% á ári. Rannsókn Anderson’s og félaga komst að þeirri niðurstöðu að til að gæta loftslagsréttlætis þurfa ríkari lönd að hætta alfarið notkun á jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2040.
Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, segir það skipta höfuðmáli að Ísland setji sér metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun. Hún segir að ef litið er til losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (ESR) ætti Ísland að setja markmið um 70% samdrátt fyrir árið 2030, miðað við upphafsárið 2005. Einnig þurfi að auka metnað hvað varðar samdrátt í eftirstandandi flokkum líkt og losun frá staðbundnum iðnaði, flugi og landnotkun.
Er Ísland á réttri leið?
Eins og staðan er í dag á Ísland enn langt í land. Nýjustu útreikningar Umhverfisstofnunnar sýna 2% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á milli áranna 2018 og 2019. Það er jafnframt mesti samdráttur sem hefur mælst frá árinu 2012. Á milli ára dróst losun saman frá fiskiskipum og vegasamgöngum. Einnig náðist árangur í losun vegna urðunar úrgangs. Mesti samdráttur var frá vegasamgöngum sem má að hluta til rekja til fækkunar ferðamanna í kjölfar falls WOW-air.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar náðist töluvert meiri samdráttur í losun á milli árana 2019 og 2020. Tölurnar sýna að kórónaveirufaraldurinn hafði afgerandi áhrif á samdrátt í losun á árinu en losun frá íslensku samfélagi dróst saman um 6,5%. Umhverfisstofnun býst við því að losun vegna umferðar aukist á ný á þessu ári vegna aukins ferðamannastraums.
Stefán segir að vissulega sé vísbending um að Ísland mjakist í rétt átt hvað varðar samdrátt í losun. „Ljóst er þó að Íslandi tókst ekki að standa við skuldbindingar sínar á síðara skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar, sem lauk árið 2020.“
Stefán bendir á að jafnvel þótt Íslandi takist að standa við skuldbindingar sínar hvað varðar losun á beinni ábyrgð stjórnvalda (ESR) geti heildarlosun hérlendis samt aukist. „Ábyrgðinni á losun fyrirtækja innan ETS er nefnilega ekki skipt á milli landa í þessu samkomulagi, heldur er stefnt að því að heildarlosun innan ETS dragist saman um ákveðinn hundraðshluta. ETS-losun á Íslandi gæti því hugsanlega vaxið, svo fremi sem hún dregst saman í öðrum EES-löndum,“ segir Stefán.
Stjórnvöld þurfi að stíga sterkar inn í
Stefán segir tækifærin til að draga úr losun frá Íslandi liggja víða. Brýnt sé að grípa til aðgerða til að bæta landnotkun, fækka olíukílómetrum og skipta yfir í kolefnissnauða orkugjafa bæði í samgöngum á landi og sjó. Meðal auðveldustu aðgerðanna sé að hætta urðun úrgangs, sérstaklega lífræns úrgangs af öllu tagi. „Þar eru í raun engar hindranir, hvorki hvað varðar tækni né þekkingu. Hins vegar hefur skort skilning og vilja“ segir Stefán.
„Hverjar sem aðgerðirnar eru er nauðsynlegt að ráðast í þær sem allra fyrst, nánar tiltekið strax.“
Stjórnvöld þurfi að stíga miklu sterkar inn heldur þau hafa gert hingað til. Stjórnvöld þurfi að beita jákvæðum hagrænum hvötum, þ.e. gulrótum, en ekki síður neikvæðum hagrænum hvötum, þ.e. vöndum. Hækka þurfi skatta á uppsprettur losunar og nota fjármagnið sem þannig fæst til að styðja við loftslagsvænar framfarir. „Einnig þarf að beita boðum og bönnum, svo sem með því að flýta banni við nýskráningu púströrsbíla, takmarka innflutning jarðeldsneytis ár frá ári og banna hann alfarið við fyrstu hentugleika,“ segir Stefán.
„Kosningarnar hafa aldrei verið mikilvægari“
Að sögn Stefáns hafa alþingiskosningar aldrei verið mikilvægari en í ár. Umræðan um loftslagsmál hefur verið áberandi í kosningabaráttunni og hafa þó nokkrir flokkar sett skýr losunarmarkmið í stefnuskrá sína. Tinna segir nauðsynlegt að Ísland setji sér metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun. „Einnig er nauðsynlegt að lögfesta slíkt markið til að tryggja að það raungerist, sem og uppfæra aðgerðaráætlun í samræmi við það,“ segir Tinna.
Samkvæmt stefnuskrá flokkana vilja bæði Samfylkingin og Vinstri Grænir lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, Píratar vilja auka metnað Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda upp í 70%. Viðreisn vill einnig að losun á beinni ábyrgð Íslands dragist saman um 60% árið 2030 miðað við 2005.
Ungir umhverfissinar rýndu í stefnur flokkana fyrir komandi alþingiskosningar og gáfu þeim einkunn í kjölfarið. Tinna segir kvarðann tvímælalaust hafa haft áhrif á áherslur flokkanna þegar kemur að loftslagsmálum. „Með kvarðanum kölluðum við m.a. eftir tölusettum metnaðarfullum markmiðum sem og útfærslum á því hvernig ætti að ná þeim og sáum við það raungerast í stefnum margra flokka.“
Stefán tekur undir þetta og telur flokkana hafa mun skýrari stefnu í loftslagsmálum í ár en áður. „Einfaldlega vegna þess að frambjóðendur hafi áttað sig á að þetta sé eitthvað sem skipti kjósendur máli,“ segir Stefán.
Tinna segir gluggan til að snúa við þróuninni í loftslagsmálum enn vera opinn, en hann verður það ekki lengi í viðbót. „Það er von en við skulum ekki halda að vandamálið leysist af sjálfu sér án róttækra, tafarlausra breytinga. Við erum í þessari stöðu vegna ófullnægjandi aðgerða undanfarna áratugi og það þarf átak til að snúa af þeirri braut.“
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna